Tíminn - 30.03.1988, Page 13

Tíminn - 30.03.1988, Page 13
Miðvikudagur 30. mars 1988 Tíminn 13 Listin að gefa viðtal - ráðleggingar til upprennandi stjórnmálamanna „Das Interview ais Werkzeug des PoIitikers“ („Viðtalið sem verkfæri stjórnmálamannsins) er yfirskrift á grein eftir Gunter Diehi, sem á sínum tíma var taismaður ríkisstjórnar Vestur-Þýskalands og síðar sendiherra lands síns í Indlandi og Tokýó. Hann er nú orðinn 72ja ára. Eftirfarandi útdráttur úr bók sem kom út í desember si. birtist nýiega í Weit am Sonntag. Þessi mynd er tekin í Bonn 1952. Konrad Adenauer, fyrsti kanslari Vestur-Þýskalands situr og yfir öxl hans lítur Felix von Eckardt, þáverandi blaðafulltrúi stjórnarinnar. Gúnter Diehl, höfundur greinarinnar stendur að baki þeirra og fylgist með. Hvernig á að koma sér á framfæri? Fyrsta atriði notkunarreglu um hvernig eigi að færa sér í nyt viðtöl, sem koma eiga í fjölmiðlum, er raunhæft að sé: Hvernig kem ég mér eiginlega á framfæri í blöðun- um, útvarpi eða sjónvarpi? Það verður að ráðleggja byrj- endum að sýna vissa ágengni. Hún er öruggasta ráðið til að vekja athygli. Hann hefur þriggja kosta völ: Hann getur snúið sér snarlega í hring og beint spjótum sínum í allar áttir. Þá getur hann reiknað með að fá útrúlega marga fylgis- menn. Ekki nú á dögum, heldur 1932 las ég á fögrum ítölskum múrvegg máluð einkennisorð, eðli- Ieg en þá ekki enn gengin í uppfyll- ingu: Niður með alla! Þessi einkennisorð höfðuðu til mín þá. Og það eru einmitt við- brögð af þessu tagi sem halda lífinu í Græningjunum nú á dögum. Annar kosturinn sem fyrir hendi er er sá að ráðast ekki opinberlega gegn pólitískum andstæðingi sín- um heldur miklu frekar vinum sínum, gera þá grunsamlega eða hlægilega. Eins og kemur í ljós á hverjum degi í stríðum straumi fjölmiðlanna er þessi stríðslist til að fá um sig umtal ákaflega árang- ursrík og gjarna notuð, þrátt fyrir áhættuna sem fylgir þessum mál- flutningi. Þessi aðferð tryggir líka sérhverjum þeim sem í rauninni skiptir engu máli hvaða álit hefur, að hlustað er á hann. Það er vitnað í hann og honum er alls staðar boðið að taka þátt í umræðum. Ef gæfan er með honum verður hann leiddur fram fyrir þá sem fyrir skömmunum hafa orðið og gildi hans sem manns og stjórnmála- manns metið eftir því hvort hann tekur þátt í þeim leik fullur kær- leika og umburðarlyndis. Samkvæmt þriðju aðferðinni ætti hinn uppvaxandi stjórnmála- maður að deila málefnalega við andstæðing sinn í stjórnmálum eða setja fram skoðanir sínar á skynsamlegan hátt og reyna að rökstyðja þær. Venjulegt og góð- lynt fólk gæti trúað að þetta bæri vott um að hér væri góður stjórn- málamaður á ferðinni, eins og stjórnmálamenn eiga að vera. En það skynsamlega og rökrétta verk- ar hins vegar ekki alltaf sérstaklega örvandi á áhorfendur og hlustend- ur sem eru vanir sífelldri ertingu af öllu tagi. Þess vegna verður sá sem ætlar að koma sér á hraðferð á framfæri í pólitíkinni að tjá sig á svo illvígan hátt og eins meiðandi persónulega í garð andstæðingsins og honum er framast mögulegt. Hann verður að orða árásir sínar á sérlega frumlegan hátt, svo að það skipti alls engu eða því sem næst engu máli hvort þær leiði í ljós raunverulegar staðreyndir. Hvernig Adenauer notaði sér blaðaviðtal með góðum árangri Það gildir jafnt um byrjendur og pólitíkusa sem hafa fest sig í sessi, að tímasetningin þegar boðskapn- um er komið á framfæri er ákaflega mikilvæg. Hin fullkomna sviðsetn- ing er eitthvað á þessa leið: Fyrsti kanslari sambandslýðveldisins Vestur-Þýskalands, Konrad Aden- auer, varð að takast á við hið gífurlega vandamál hvort Þýska- land skyldi vígbúast á ný skömniu eftir að hann tók við embætti. Hann var sannfærður um að vest- rænu bandamennirnir myndu ekki taka sér á herðar neinar skyldur til að verja frelsi, öryggi og velferð Þjóðverja, ef þeir sjálfir legðu ekki sitt af mörkum. Adenauer vonaðist þess vegna til að koma ár sinni þannig fyrir borð að hann gæti samið við fyrir hönd lands síns, þ.e. að bandamenn skuldbyndu sig til að beita sér fyrir því að ekki verði óafturkallanlega lokað fyrir endursameiningu þýsku ríkjanna, og það í anda vestrænnari lýðræðis- hefðar. Honum varð nauðsyn þessa æ ljósari eftir því sem hug- myndirnar urðu skýrari, án þess að hann gæti gripið þar sjálfur inn í atburðarásina. Sambandið við er- lendar ríkisstjórnir var þá óreglu- bundið og því beint um vissar síur og í ákveðna farvegi af hálfu yfir- stjórnar bandamanna. Þá var enn engin þýsk utanríkisþjónusta kom- in á laggirnar og það var erfitt að ná til almennings í útlöndum opin- berlega. Það átti líka við, og ekki hvað.síst, um Bandaríki Norður- Ameríku. Lausn þessarar flóknu stöðu er að finna 3. desember 1949 í viðtali við því sem næst óþekktan blaða- mann við blað, sem varla nokkur maður sá, utan Bandaríkjanna. Þessi blaðamaður var John Leacac- os við „Cleveland Plain Dealer". Tíminn er kominn. Hvað segir Adenauer við Leacacos? Hann gerir blaðamanninum ljóst, að hann sé andsnúinn því að Þýska- land hervæðist á ný, nema því aðeins bandamenn breyti stefnu sinni í málum Þýskalands. Leacac- os var prýðis góður blaðamaður og áttaði sig strax á hvað á spýtunni hékk og skýrði stóru bandarísku fréttastofunum í Bonn frá megin- innihaldi viðtalsins, sem var komið fyrir hvers manns augu sólarhring seinna. Viðbrögðin voru svo geysi- leg að Adenauer gat aftur tekið ró sína. Takmarkinu var náð. Gullhamrar gefast betur en augljós andúð Ef spyrill og sá sem situr fyrir svörum eru sinn af hvoru kyni er góð hjálp í því að sýna öðru hvoru smáskammt af gagnkvæmri hrifn- ingu. Fræg bandarísk blaðakona, sem var búin að missa æskublóm- ann, sló Konrad Adenauer óspart gullhamra fyrir líkamlega hreysti og andlegan sköpunarmátt. Gamli maðurinn svaraði mjög vingjarn- lega fyrir sig og sagði að honum fyndist það enn aðdáunarverðara, að hún hefði haldið útliti „unglings- stúlkunnar". Blaðakonan roðnaði! Viðtalið tókst með ágætum og allir voru ánægðir. Það liggur í augum uppi að ef hins vegar er búið að byggja upp gagnkvæma andúð þeirra sem eig- ast við fyrir viðtalið skapast ekki heppilegt andrúmsloft. Stjórn- málamaðurinn ætti að koma sér hjá því að vera þvingaður í viðtal. Það gerist þó stundum að stjórp- málamaður, sem er í klípu, hefur trú á því að hann hafi möguleika á því að firra sig vandræðunum með því að taka áskorun um að koma í opinbert viðtal. í flestum tilfellum er ráðlegra að halda sig frá því. Nokkrar þessara misheppnuðu til- rauna hafa haft sorglegar afleiðing- ar í för með sér. Varist að vera of mikið í sviðsljósinu Tilhneiging stjórnmálamannsins til að koma til móts við sérhverja beiðni um viðtal er rík og því sem næst ómótstæðileg þegar um sjón- varpsviðtal er að ræða. Pólitíkus- inn stefnir að því að vera kosinn aftur og aftur og að vinna sér sess innan eigin flokks, og til að ná þessum markmiðum eru miklar og almennar vinsældir nauðsynlegar eins og allir vita. Þess vegna sækj- ast stjórnmálamennirnir eftir því að koma fram í sjónvarpi, undir því sem næst hvaða kringumstæð- um sem er. Almenningur sem alltaf er augliti til auglitis við stjórnmála- manninn inni í sinni eigin stofu hefur það smám saman á tilfinning- unni að þekkja viðkomandi, þó að hann geti í rauninni farið alveg óendanlega í taugamar á sjón- varpsáhorfandanum. En allt kostar sitt. Það á líka við um óljóst og óákveðið offramboð sem með tímanum breytir vanan- um í óvild. Það er áreiðanlegt að meðal hinna mörgu þátta sem eiga sök á almennri höfnun á venjulegu stjórnmálastarfi í landi okkar og ræktun félagslegrar menningar, er sú árátta stjómmálamanna að vera of mikið í sviðsljósinu. Að sjá alitaf sömu andlitin og heyra sömu innantómu slagorðin, býður upp á andstöðu. Valéry Giscard d‘Esta- ing tapaði einmitt þegar hann bauð sig fram til endurkjörs í frönsku forsetakosningunum vegna þess að mörgum Fransmanninum fannst það óbærileg tilhugsun að hafa andlitið á honum á sjónvarpsskján- um í 7 ár í viðbót! Karl Carstens, sem var forseti Vestur-Þýskalands eitt skeið, hefur einu sinni sagt að best væri að gefa aðeins einu sinni í mánuði stórt viðtal, eða á annan hátt að hafa eitthvað fram að færa fyrir al- mannasjónir. Of mikil dvöl í sviðsljósinu dreg- ur með tímanum úr því áliti sem pólitíkusinn vill njóta, rétt eins og hver annar siðaður maður. Konfús- íus segir að ytri vanhirða endur- spegli innri vanhirðu. Henni sé ekki hægt að leyna. Fólk hafi alltaf næma tilfinningu fyrir því. í viðtali sem á að birtast á prenti eða í útvarpi getur líka, ef svo ber undir, verið veitt í þægilegum fötum, í fráhnepptri skyrtu og strigaskóm. í sjónvarpi er vissara að hafa varúð. Ef stjórnmálamaðuf verður þess láns aðnjótandi að vera miðpunkt- ur í meiriháttar sjónvarpsviðtali, sem tekið er upp á mörgum dögum en sent út í einu lagi, ætti hann að gæta þess að vera í sömu fötunum og með sama bindið í öllum upp- tökunum. Varðandi slík atriði hafði Adenauer tileinkað sér leikni Hollywood-leikarans. Ábending sem Felix von Eckardt gaf mér og ég er þakklátur fyrir, væri líklega stjórnmálamönnum gagnleg enn þann dag í dag. Þegar um kvikmynduð viðtöl er að ræða, þar sem verið er að koma á fram- færi pólitískum boðskap, ættu eng- in dýr að vera í myndinni ásamt stjómmálamanninum. Jafnvel sjálf Greta Garbo hefur ekki roð við ketti eða hundi undir þessum kringumstæðum, dýrin stela alltaf senunni. Það á einungis við þegar viðtölunum er ætlað að vekja sam- úð að dýrin eru málstaðnum til framdráttar. Frjálslegur tónn í viðtali Ég nefni oft sem dæmi um af- slappað samband spyrils og þess spurða í viðtali það sem ég sá af tilviljun eitt sinn á BBC. Ungur og rösklegur fréttamaður spurði þingmann úr lávarðadeildinni spjörunum úr þar til lávarðinum varð nóg boðið. Lávarðurinn sagði þá: „Ungi maður, þetta er heimskulegasta spurning sem hefur nokkurn tíma verið lögð fyrir mig. “ Og án þess að láta sér bregða svaraði fréttamaðurinn ungi: „Það getur vel verið. Vilduð þér samt vera svo vænn að svara spurnine- unni?“ Það er orðið sjaldgæft að verða vitni að svo frjálslegum tón í um- gengni manna á meðal. En kannski eigum við einhvern tíma eftir að ná svo langt.

x

Tíminn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.