Tíminn - 10.12.1988, Blaðsíða 6

Tíminn - 10.12.1988, Blaðsíða 6
6 Tíminn- Laugardagur 10. desémbér i 988 Við erfiða fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins og eftir ádrepu frá Ingva Hrafni segir Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri: Undanfarið hefur Ríkisútvarpið enn komið til umræðu vegna þess hve slæm fjárhagsstaða þess er orðin, skuldir hijóða nú upp á hálfan milljarð króna. Þessa dagana er skjálfti í starfsmönnum RÚV vegna væntanlegra tillagna starfsnefndar sem menntamálaráð- herra skipaði til að kanna stöðu RÚV og gera tillögur um eflingu þess. En það er ekki einungis stofnunin í heild sem hefur mátt þola gagnrýni, útvarpsstjórinn, Markús Örn Antons- son, er harðlega gagnrýndur í bók Ingva Hrafns Jónsson- ar fyrrum fréttastjóra. Fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er mjög slæm. Hefði á sínum tíma ekki verið eðlilegt að draga saman seglin og miða reksturinn við tekjur stofnunarinnar? „Við höfum náttúrlega dregið saman seglin. Til dæmis höfum við á þessu ári skorið niður gjaldaliðinn um á fjórða tug milljóna miðað við það hvernig hann var í ársbyrjun út frá fjárlögum ríkisins. Þetta hefur verið gert sérstaklega upp á síðkastið eftir að ljóst varð að við fengum ekki fram hækkanir á afnotagjöldunum 1. október. Niðurskurður fór einnig fram fyrr á árínu. í sumar var gætt strangs aðhalds t.d. í Sjón- varpinu sem m.a. bitnaði á innlendri dag- skrárgerð. Hafa ber í huga að það eru mjög stórir þættir í rekstrinum sem beinlínis er til tekið í útvarpslögunum að Ríkisútvarpinu beri að sinna. Við getum ekki að óbreyttum lögum gert það upp á okkar eindæmi t.d. að hætta að reka Rás 2, sem er möguleiki sem oft hefur verið bent á í almennri umræðu. Það er skýrt tekið fram í lögunum að Ríkisút- varpið eigi að reka tvær hljóðvarpsrásir. Svo eru mjög langar og ítarlegar skilgreiningar á því hvaða efnisþættir eigi að vera á dagskrá, rekstur svæðisútvarps og fleira. Við höfum litið svo á að við værum bundin af þessum lagaákvæðum um hlutverk og skyldur Ríkis- útvarpsins." Stjómvöld brugðist Það er alveg út í hött að Ríkisútvarpið sé gjaldþrota eins og sum blöð hafa lýst yfir að undanförnu. Greiðslustaðan hefur vissulega verið mjög erfið, það hefur verið taprekstur á undanförnum árum eins og margoft hefur verið fjallað um. Við höfum hinsvegar getað harkað þetta af okkur og starfsemin gengur áfram og við höldum uppi fullri dagskrá. Greinilegt er að sú innlenda dagskrá sem boðið er upp á fellur í góðan jarðveg. Það er hinsvegar alveg ljóst að við förum ekki inn í annað ár með óbreyttar forsendur. Útvarpslögin sem sett voru 1985 áttu að gilda til þriggja ára, nú er því kominn tími til að endurskoða þau. Alþingi verður við þá endurskoðun að endurmeta hlutverk Ríkis- útvarpsins. Taka þá jafnvel eftir atvikum ákvarðanir um að draga eitthvað úr skyldum stofnunarinnar, þó að það sé ekki mín ósk. Ef Alþingi gengur ekki markvisst til þeirra verka á næstunni og þessi sama fjárhagslega óvissa verður hér ríkjandi og jafn mikið þrengt að Ríkisútvarpinu peningalega og gert hefur verið, þá verðum við stjórnendur stofnunarinnar, að hafa, hvað sem öllu öðru líður, frumkvæði um að bjarga því sem bjargað verður og það er vel hægt en þá aðeins með mjög sársaukafullum aðgerðum. Við slíkar aðstæður verðum við að skera niður fastakostnað, þá fyrst og fremst í starfsmannahaldi, afleiðingar þess yrðu þær að dagskráin yrði allt önnur og miklu léttvægari og einfaldari en nú gerist.“ „Það hefur verið ákaflega slæmt og valdið okkur sárum vonbrigðum að sjá það hvernig ákvæði nýju útvarpslaganna, sem sett voru 1985, hafa verið sniðgengin. Stjórnvöld hafa raunverulega virt að vettugi ákvæði um tekjustofna og lífsbjörg Ríkisútvarpsins. Þetta hefur verið gert með mjög grófum hætti á þessu ári. Ríkisstjórnin virti ails ekki fjárlög ríkisins hvað varðar tekjur Ríkisút- varpsins, og í framhaldi af því veitti fjárveit- inganefnd ríkisstjórninni þunga ádrepu í sérstöku bréfi í ágústmánuði. Ég held að það sé einsdæmi að fjárveitinganefnd hafi með slíkum hætti mótmælt harðlega aðgerð- um ríkisstjórnar og því að hún skyldi ekki virða þær ákvarðanir sem Alþingi sjálft var búið að taka í svo veigamiklu máli.“ Breyting á forsendum Hvaða vonir gerirðu þér um niðurstöður starfsnefndarinnar? „Ég þykist vera þess fullviss að nefndin geri sér ákaflega skýra mynd af stöðu mála hér hjá stofnuninni og muni draga réttar ályktanir af ástandinu eins og það er. Það er nauðsynlegt að ganga frá þessum málum sem allra fyrst. Ég geri ráð fyrir því að nefndin muni gera tillögur um. viðreisn þeirra tekjustofna sem starfsemin þarf að byggjast á. Ég trúi ekki öðru miðað við þær yfirlýsingar sem núverandi menntamálaráð- herra hefur gefið en að þær tillögur mæti skilningi og velvilja og það verði síðan staðið við þær niðurstöður sem menn í sameiningu munu komast að. Rás 1 Nú er það skoðun margra að „gamla gufan“ sé ekki skemmtilegt útvarp, t.d. sé áferðin gamaldags. Finnst þer að Rás 1 eigi rétt á sér í núverandi mynd? „Það finnst mér alveg hiklaust. Auðvitað eru ólíkar skoðanir varðandi dagskrárstefnu Rásar 1, áferð hennar og gildi slíkrar dagskrár við aðstæður í nútímasamfélagi. Hinsvegar er það helsta metnaðarmál okkar að viðhalda dagskrá Rásar 1, einmitt í þessu hefðbundna formi. Það eru æ fleiri sem hafa orð á því hversu vönduð dagskrá er á Rás 1 og hve mikilvægt það sé að víkja ekki frá þeirri dagskrárstefnu sem þar er.“ Nú er Rás 1 mjög dýr í rekstri, er hún peninganna virði? „Það tel ég alveg tvímælalaust og ég hef þá sannfæringu að það sem almennt er verið að gera innan stofnunarinnar sé peninganna virði. Þetta á ekki hvað síst við um það fjölbreytilega og menningarlega útvarp sem er verið að vinna að á Rás l.“ Reglur um auglýsingar? Ríkisútvarpið hefur gagnrýnt auglýsinga- aðgerðir Stöðvar 2. Eruð þið ekki komin út , á hálan ís í samkeppninni með því að slíta sundur kvikmyndir með auglýsingum og 1 seinni fréttum? „Þess ber fyrst að geta að það var með tiltölulega stuttum fyrirvara ákveðið endan- lega að hafa þessar fréttir kl. 23:00. Menn þurftu þá að taka afstöðu til tímasetningar, hvort þær yrðu alltaf á sama tíma eða færðust til eftir öðrum dagskráratriðum. Það var samdóma álit þeirra sem að þessu unnu að nauðsynlegt væri að koma á föstum tíma fyrir þessar fréttir til að byggja upp horfunina. Sú meginregla gildir að þessar fréttir kljúfi ekki annað dagskrárefni. Það hefur orðið nokkur misbrestur á þessu undanfarið : en í þeim dagskrárdrögum sem fyrir liggja ! er öll áhersla lögð á að sneiða hjá þessum hléum. Aftur á móti eru vissir erfiðleikar | með bíómyndir á miðvikudagskvöldum i vegna þess hve langar þær eru. j Fyrst þegar við sáum hvernig Stöð 2 skaut I auglýsingum inn í dagskrána, t.d. í 19:19, þá spurðumst við fyrir um hvort þetta væri Ieyfilegt en fengum engin svör og þetta hefur verið látið átölulaust. Þar af leiðandi getur það ekki verið mat þeirra manna sem eiga að hafa eftirlit með framkvæmd laga og reglugerða að þetta sé brot á lögunum, annars ættu þeir að vera búnir að grípa í taumana. Þetta er undantekningartilvik með bíó- myndirnar hjá okkur. Varðandi þennan vanda hefur verið bent á t.d. að íslenskir bíógestir hafa vanist því frá fyrstu tíð að hlé sé gert á bíómyndum. Menn hafa því ekki litið á það sem menningarlegt áfall fyrir fólk þó að þetta verði gert hjá okkur í undantekn- ingartilfellum." Framtíðin Hvernig sérðu RÚV í framtíðinni, heldur stofnunin velli með núverandi skipulagi? „Ríkisútvarpið heldur örugglega velli, þó á stofnuninni standi mörg spjót og hún sé mikið til umræðu og nánast allir í landinu hafi einhverjar skoðanir á því sem hér er verið að gera. Að vísu er það yfirleitt svo að ef menn tjá sig um málið þá er það oftast gagnrýni eða eitthvað neikvætt. Ég geri þó ráð fyrir því að iangstærstur hluti fólks í þessu landi sé ánægður með það sem boðið er upp á í dagskrá Ríkisútvarpsins og telji þar af ieiðandi ekki neina þörf á að láta til sín heyra. Ég er sannfærður um það að menn hafa styrkst í þeirri trú að fuii þörf sé fyrir opinbera stofnun á þessu sviði, einmitt með tilliti til reynslunnar af rekstri einkastöðv- anna. Það verði að tryggja annað og fjöl- breyttara framboð af útvarps- og sjónvarps- efni en þar hefur orðið yfirgnæfandi. Einnig að það verði ekki gert nema með því að landsmenn allir leggi saman.“ Útvarpsráð Hvað með útvarpsráð, er það ekki tíma- skekkja sem stendur stofnuninni fyrir þrifum? „ Við höfum aðallega bent á ókosti þess að ráðið er umsagnaraðili varðandi manna- ráðningar hjá stofnuninni og það er að mörgu leyti slæmt í allri þeirri samkeppni sem hefur verið um að fá gott fólk til starfa. Þessir annmarkar eru augljósir og afar óheppilegir. Mér virðist að það séu ekki færar aðrar og sjálfsagðari leiðir til að tryggja réttum umboðsaðilum almannavaldsins í landinu áhrif á stjórn þessarar almannastofnunar. Mér finnst ekki eðlilegt að æviráðnir for- stöðumenn eða aðrir starfsmenn ráði hér öllum hlutum algerlega óháðir og óbundnir af öðrum. Ég get ekki ímyndað mér að það væri vilji almennings eða Alþingis." Annar tónn Núverandi menntamálaráðherra virðist vera velviljaður RÚV, líður þér betur sem útvarpsstjóri með hann sem ráðherra en fyrirrennara hans af hægri væng stjómmál- anna? „í fyrsta lagi þykir mér mjög uppörvandi að heyra þessar vinsamlegu yfirlýsingar í garð Ríkisútvarpsins sem núverandi menntamálaráðherra hefur gefið. Ég hlýt að binda mjög miklar vonir fyrir hönd þessarar stofnunar við það sem hann hefur persónu- lega haft til málanna að leggja, einnig það sem þessi sérstaki vinnuhópur er að vinna að á hans vegum. Ég ætla ekki að leyna því að ég varð fyrir ákaflega miklum vonbrigðum með fram- göngu fyrrverandi menntamálaráðherra Birgis ísleifs og fyrri ríkisstjórnar. - Að hún skyldi algerlega hundsa fjárveitingavaldið og ákvarðanir Alþingis. Ríkisstjórnir fyrr og nú hafa tekið ákvarð- anir sem hafa verið Ríkisútvarpinu í óhag og þetta var sífelld barátta hjá forverum mínum t.d. varðandi afnotagjöldin." Ingvi Hrafn Nú segir Ingvi Hrafn í bók sinni m.a. að það vanti stefnumörkun í starf stofnunarinn- ar og að þú persónulega valdir ekki starfi þínu. Hvað viltu segja um svona gagnrýni? „Ég hef nú gaman af því að rifja það upp að þessi gagnrýni kemur fram í Iokaköflum bókarinnar en í fyrsta kaflanum lætur Ingvi að því liggja að það hafi verið meira eða minna hans verk að ég tók við þessu starfi, fyrir eindregna hvatningu hans. Þessi bók er að mínu mati léleg blaðamennska og alveg afleit sagnfræði, en hann hefur náttúrlega sínar skoðanir á mönnum og málefnum. Ingvi Hrafn hefur af einhverjum undarleg- um ástæðum eignast ótrúlega stóran hóp fjandmanna sem hann lýsir sem slíkum í bókinni. Ég er að hans mati þar fremstur í flokki og fæ umsagnir í samræmi við það en tek þær ekki nærri mér. Ég geri nú ráð fyrir þvf að þeir sem lesa bókina, og eru með sæmilega heilbrigða skynsemi, sjái það að það hafí verið kominn tími til að Ingvi Hrafn léti af störfum sem fréttastjóri Sjónvarpsins. Stefnumörkunin er í landslögum að því er varðar hlutverk og skyldur. Við höfum orðið að gera tímabundnar ráðstafanir til að bregðast við breyttum skilyrðum vegna tekjumissis, m.a. í samkeppni um auglýsing- ar. Þó höfum við ævinlega haft að leiðarljósi skilgreiningar á hlutverki RÚV og þær kröfur sem til þess eru gerðar. Þetta hefur verið mjög erfitt. Ingvi Hrafn vildi gera enn meira, hann vildi bjóða upp á glæsilegri dagskrá og eyða enn meiri peningum. Hvar ætlaði hann að taka þá peninga? Lokaorð? Ég hef einsett mér það að vera ekki að fjölyrða mikið um það sem Ingvi hefur verið að segja. Þó að á móti hafi blásið þá er það í sjálfu sér ekkert annað en ég hafði gert ráð fyrir. Ég hef aldrei búist við öðru eða gert mér vonir um neitt annað eða betra hlutskipti en að vera sífellt undir gagnrýni og smásjár- j skoðun manna allt í kringum mig. Það leiðir bara af eðli þessa starfs. Mér finnst þetta ! mjög krefjandi hlutverk en ánægjulegt. i Vissulega geta fylgt því vonbrigði, en þetta I herðir mann líka og þrátt fyrir þessa tíma- bundnu erfiðleika er ég fullur bjartsýni og hef mikla trú á stofnuninni og þeim sem starfa með mér hérna. Að mínum dómi eru ákveðin takmörk fyrir því hve lengi sömu ; embættismenn sitji í sömu stólum, en ég er ' ekki á förum héðan. Sigrún S. Hafstein

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.