Tíminn - 04.02.1989, Blaðsíða 6

Tíminn - 04.02.1989, Blaðsíða 6
6 Tíminn Laugardagur 4. febrúar 1989 Júlíus Sólnes formaður Ðorgaraflokksins í helgarviðtali Tímans: „Við erum í hlutverki holdsveika mannsins!" Hvað gerist á fundi flokksráðs og aðalstjórnar Borg- araflokksins? Ganga þingmenn flokksins inn í ríkis- stjórnina? Ef ekki, hvað ber á milli? Gengur hluti flokksins til liðs við stjórnina? Hverjir verða ráðherrar? Hver er staða Alberts innan þess flokks sem stofnaður var í kringum hann sjálfan? Hver er staðan að mati Júlíusar Sólness formanns Borgaraflokksins? „ Við lögðum í upphafi fram mjög ítarlegar hugmyndir um skattabreyt- ingar, eins konar blöndu af því sem við viidum fá lagfært strax og því sem við getum sætt okkur við að verði fram- kvæmt á lengri tíma. Margt af því voru óljósar hugmyndir sem við höfðum ekki haft tækifæri til að fá mctnar. Nú liggur þetta allt Ijóst fyrir og það sem málið snýst um á þessari stundu, er hvort gengið verður að kröfum okkar um að söluskattur af matvælum verði felldur niður, eða a.m.k. lækkaður. Ég held að við, bæði talsmenn Borg- araflokksins og ríkisstjórnarinnar séum sammála um að matvælaverð á íslandi er of hátt. Það verður að lækka og ég tel að það sé sú besta kjarabót sem hægt er að bjóða lágtekjufólki og barnafjölskyldum upp á.“ Á að fóma matarskattinum fyrir gengisfellingu? - Hafið þið bent á einhverjar leiðir til tekjuöflunar fyrir ríkssjóð á móti? „Við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að staða ríkissjóðs er ekki sem best og það er erfitt að skera tekjuöflunarkerfið mikið niður. Engu að síður teljum við þetta sanngjarnan og ásættanlegan fórnarkostnað fyrir ríkissjóð. Það að lækka vcrð á innlend- um matvælum er nauðsynlegt til að ná sátt á vinnumarkaðinum, því það er alveg ljóst að hér verður ekki náð fram skynsamlegum kjarasamningum á næstunni án þess að ríkisvaldið grípi þar inní. Það virðast líka allir vera sammála um að til róttækra aðgerða verði að grípa til að bæta stöðu útflutn- ingsatvinnuveganna og að ráðast þurfi gegn viðskiptahallanum, sem erorðinn þjóðarmein. Lækkun á gengi íslensku krónunnar er fyrirsjáanleg og það er ekki hægt að bjóða launafólki upp á það eina ferðina enn að það taki á sig afleiðingar gengisfellingar. Lækkun g söluskatti á matvæli er sú aðgerð sem gæti vegið upp á móti gengisfellingu. Þetta gæti vissulega farið illa með ríkissjóð, en það er íhugunarefni hvort eigi bara að hugsa um afkomu ríkis- sjóðs og kerfisins en minna um afkomu heimilanna og atvinnufyrirtækjanna“. - Nú liggur fyrir að það kostar ríkissjóð rúma 3 milljarða að fella algerlega niður söluskatt af matvælum. Hafið þið engar tillögur um tekjuöflun á móti? „Það verður að segja eins og er að við teljum það ásættanlegt að einhver halli verði á rekstri ríkissjóðs á þessu ári, sé litið á það sem fórnarkostnað af hálfu ríkissjóðs til að lagfæra stöðu atvinnuveganna og tryggja afkomu heimilanna. Við höfum bent á að þetta yrði aldrei gert fyrr en í fyrsta lagi þann 1. mars. Þá er þegar búið að innheimta fullan söluskatt af matvælum í tvo mánuði. Komi þetta til með að hækka kaupmátt heimilanna má ekki líta á þetta sem glatað fé. Ríkissjóður græðir auðvitað af aukinni veltu á öðrum sviðum. Við höfum líka spurt hvort ekki hafi verið gengið of langt með því að afnema alla ytri tolla við áramótin 1987-1988. Einnig má huga að auknum niðurskurði ríkisútgjalda“. Niðurstaða verður að liggja fyrir í dag - Verður skorið úr því í dag hvort Borgaraflokkurinn gengur til liðs við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar eða ekki? Við höldum aðalfund og flokksráð- stefnu á Selfossi á laugardag og frá upphafi hefur verið reiknað með því að þar væri hægt að leggja spilin á borðið. Hins vegar gerðum við ráð fyrir því að vera komnir miklu lengra og mér finnst að tíminn hafi verið notaður mjög illa. Við gerðum ráð fyrir að ef af samstarf- inu yrði gætum við lagt fram drög að málefnasamningi og skiptingu ráðu- neyta fyrir fundinn. Nú er ljóst að það verðurekki. Annað hvort erflokkurinn í stjórn eða stjórnarandstöðu, það er ekki hægt að vera þar mitt á milli. Þess vegna teljum við að niðurstaða verði að liggja fyrir um helgina til þess að ég geti þar tilkynnt aðalstjórninni að það sé komið samkomuiag og eigi bara eftir að ganga frá lausum endum og forms- atriðum, eða lýst því yfir að það hafi slitnað upp úr þessum viðræðum. Við munum skýra frá því á þessum opna fundi hver lendingin verður. Sé þá samkomulag í burðarliðnum mun- um við að sjálfsögðu ekki skýra frá í hverju það er fólgið. Þá verður aðal- stjórnin væntanlega kölluð saman aftur um miðja næstu viku til að slá botn í þetta“. Allir eða enginn - Eru allir þingmenn flokksins, fyrir utan Albert, samstíga í þessum viðræð- um? „ Annað hvort fer allur flokkurinn í stjórn eða ekki. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að Albert er mótfallinn því að ganga til samstarfs við þá flokka sem nú mynda ríkisstjórn, en hann er bara einn þingmaður í þingflokknum með þá skoðun og auðvitað verður meiri- hlutinn að ráða því hvað verður gert. Ég hef litið svo á að ef mikill meirihluti flokksstjórnarinnar vill ganga til sam- starfs á þeim grundvelli sem hugsanlega næst, þá stendur allur flokkurinn þar á bakvið“. Það viQa allir losna við okkur - Hvað um þær sögusagnir að Óli Þ. Guðbjartsson sé á leiðinni yfir í Alþýðuflokkinn og að Inga Birni standi til boða sæti Friðjóns Þórðarsonar á lista Sjálfstæðisflokksins á Vestur- landi? „Ég held að þessar sögur séu fyrst og fremst búnar til af andstæðingum okkar, því það er ekkert launungarmál að við eru fyrir ýmsum í pólitíkinni. Það er t.d. keppikefli sjálfstæðismanna að losna við okkur og þess vegna hlýtur að vera alveg til valið að koma slíkum sögum af stað til að gera okkur tor- tryggilega. Maður skilur alveg hvað liggur þarna að baki. Það má ef'til vill segja að Borgaraflokkurinn sé í hlut- verki holdsveika mannsins í pólitíkinni, það vilja helst allir losna við okkur. Þess vegna er reynt að kynda undir allar sögusagnir um sundrung í okkar röðum og að vissir einstaklingar séu að kljúfa sig út úr flokknum. Þar er reynt að neyta allra bragða. Þegar þetta er skoðað betur sjá allir að þetta fæst ekki staðist, Sjálfstæðisflokkurinn hefur a.m.k. hingað til ekki getað skammtað þingsætum eftir vild á miðju kjörtíma- bili“. Albert hlaut að fara með miklum hávaða - Hver er staða Alberts innan Borg- araflokksins? „Ég hef lært mikið af samstarfinu við Albert og ég hugsa til þess tímabils sem við höfum starfað saman með miklu þakklæti. Við höfum gengið í mjög strangan og góðan skóla hjá Albert, hann hefur kennt okkur mikið. Hann var sá í okkar hópi sem hafði langmesta reynslu og þekkingu á landsmálum, sem þingmaður í áratugi og ráðherra um skeið. Nú hefur að vísu komið upp þessi ágreiningur um stjórnarþátttöku, en hann hefur að sjálfsögðu rétt til þess sem þingmaður að hafa sínar skoðanir. Engu að síður verður meirihluti flokksstjórnarinnar að fá að ráða. Annars er staða Alberts sú að hann er að kveðja íslensk stjórnmál að sinni og hverfa til annarra starfa. Við komum til með að sakna hans og ég er ekki í nokkrum vafa um að það er mikill missir fyrir flokkinn að sjá á eftir Albert. Hann hefur verið ákaflega sterkur, áhrifamikill og áberandi mað- ur í íslenskum stjórnmálum. Það gat enginn búist við því að hann laumaðist út um einhverjar bakdyr þegar hann kveddi vettvanginn. Það hlaut að gerast með miklum hávaða og ég hefði orðið fyrir vonbrigðum hefði það gerst öðru- vísi. Flokkurinn myndaðist vegna hans á sínum tíma og við eigum eftir að sjá það hvort okkur tekst að halda saman því fylgi sem Albert kom með. Það er alveg óráðin gáta og ég hef alltaf gert mér grein fyrir því að Borgaraflokkur- inn mun eiga mjög erfiða tíma fram- undan þegar Albert verður farinn, ef við ætlum að halda því sem við höfum náð. Við sjáum þarna á eftir mikilhæf- um leiðtoga og það er ákaflega erfitt fyrir okkur að vera án hans. En auðvit- að erum við engu að síður staðráðin í að takast á við þá erfiðleika“. Kosningar óæskilegar nú - Er þá ekki æskilegt fyrir ykkur að ekki verði boðað til kosninga á næst- unni? „Það væri mjög óæskilegt fyrir okkur að fara út í kosningar á næstunni, en ef við náum engu fram af okkar kröfum í samnihgaviðræðum við stjórnina ger- um við það samt óhikað. Okkur er ekki stætt á öðru gagnvart kjósendum okkar. Það er mikil vinna fyrir hendi hjá Borgaraflokknum við að halda áfram uppbyggingu flokksstofnananna út um allt land. Það þarf að takast á við þá breytingu sem verður þegar Albert fer, landsfundur flokksins verður hald- inn næsta haust og þá getum við loksins kosið alla embættismenn og nýja aðal- stjórn. Þá fyrst má segja að þessi breyting sé að fullu um garð gengin. Hitt er ef til vill alvarlegra að verði boðað til kosninga í vor má sjá fram á um það bil fimm mánaða stjórnar- kreppu og það gæti rústað stórum hluta íslensks atvinnulífs“. Vildi fella vörugjaldsfrumvarpið „Samstaðan í flokknum er mjög góð. Ég skal viðurkenna að það urðu okkur nokkur vonbrigði hvernig málin þróuð- ust í kringum jól og nýár, þegar gengið var frá tekjuöflunarfrumvörpum ríkis- stjórnarinnar. Ég hefði kosið að þar hefði verið hægt að sýna meiri sam- stöðu og jafnvel fella sum tekjuöflunar- frumvörp ríkisstjómarinnar, s.s. vöru- gjaldsfrumvarpið sem ég er mjög mikið á móti. En þetta kom upp eins og allir þekkja og í sjálfu sér hef ég ekkert við það að athuga. Ég veit ekki betur en að svipaðar uppákomur hafi átt sér stað í öðrum flokkum, þannig að þetta er ekkert einsdæmi. Nú hefur hópurinn náð saman aftur og það er geysilega góð samstaða, bæði innan þingflokks- ins og Borgaraflokksins almennt“. Formaðurinn ráðherra - Ef þið gangið til liðs við stjórnina, hvaða ráðuneyti fáið þið og hverjir verða ráðherrar? „Við höfum rætt ráðuneytaskiptingu ákaflega lítið. Áður en það gerist þarf að ákveða hvort við förum í stjórn. Gerist það ekki þarf ekki að hafa áhyggjur af skiptingu ráðuneyta. Við höfum lagt áherslu á að fá að sitja við sama borð og hinir stjórnarflokkarnir varðandt skiptingu ráðuneyta og aðra embættisskipan. Þá er eðlilegt að tekið sé mið af þingstyrk og ég geri mér grein fyrir að við erum minnsti þingflokkur- inn. Því er ekki að neita að við höfum aðeins þreifað fyrir okkur innan flokks- ins hverjir eru líkleg ráðherraefni ef af samstarfi verður. Aðalstjórn og þing- flokkur Borgaraflokksins koma til með að taka afstöðu til þess. Ég er með ákveðnar hugmyndir í því efni og geri ráð fyrir að formaður flokksins verði einn af ráðherrum hans. Það er viðkvæmt mál í öllum flokk- um þegar að skiptingu slíkra embætta kemur. Ef við förum ekki í ríkisstjórn, þurfum við ekki að taka á þessu. Þess vegna er ekki vert að skapa úlfúð innan hópsins vegna skiptingu ráðherrastóla og annarra embætta fyrirfram. Það er aldrei hægt að búast við því að unnt sé að ná algerri samstöðu um slíkt“. Árni Gunnarsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.