Tíminn - 06.03.1990, Blaðsíða 9

Tíminn - 06.03.1990, Blaðsíða 9
8 Tíminn Þriðjudagur 6. mars 1990 Þriðjudagur 6. mars 1990 Tíminn 9 Ofbeldið verður að stöðva, núna Sóknarprestur Langholtssóknar hveturtil aðgerðagegn „ánauð óttans,“ ofbeldi. Sr. Þórhallur Heimisson: „..Daglega eru unnin skemmdarverk. Á skólalóðinni eru börn lögð í einelti, ofsótt af öðrum börnum og misþyrmt andlega og líkamlega. Sum bera aldrei sitt barr eftir upplifun æskuáranna. Ofbeldisverk tengjast „klíkunum“ er ráða hver á ákveðnum svæðum af bænum. Beitt er hnúajárnum og hnífum í baráttunni um áhrifasvæði. Farið er í víking heim til þeirra sem á að kúga. Þar eru rúður brotnar og allt eyðilagt sem hægt er eyðileggja áður en lögreglan kemur á vettvang.“ Þessar óhugnanlegu lýsingar gefur að lesa í grein sr. Þórhalls Heimissonar sóknarprests í Langholtssókn en greinin er birt í nýju tölublaði Víðförla; mál- gagni biskupsstofu. Sr. Þórhallur var starfsmaður útideildar félagsmálastofn- unar Reykjavíkur 1988-1989 og segir hann að hvergi sé ofmælt í grein sinni um næturlíf unglinga og raunar einnig full- orðinna í Rcykjavík um helgar. Reykjavík dags og nætur Sr. Þórhallur sagði í samtali við Tím- ann að í greininni lýsti hann einkum ástandinu í miðborginni eins og það var s.i. haust, en síðan þá væri búið að breyta löggæslu þar þannig að samkvæmt upplýsingum sem hann hefði frá fyrrum samstarfsfólki sínu í útideild að ástandið hefði eitthvað færst til og dreifst en væri engu að síður fyrir hendi áfram. Segja mætti að Reykjavík væri tvær borgir - annars vegar þeirra sem ferðast um hana að degi til og hins vegar þeirra sem réðu ríkjum á nóttunni. Þeir sem ekki þekktu Reykjavík næturinnar tryðu hreinlega ekki hvernig ástandið þar væri. „Þetta er ekkert ný til kornið," sagði sr. Þórhallur. „Útideildin hefur starfað í tólf ár og varð til vegna neyðarástands. Ástandið hefur síðan verið að rokka fram og aftur um bæinn; af Hlemmi í miðbæinn, út í hverfin og aftur niður í miðbæ. Þetta ástand hefur í raun og veru verið að þróast og festast í sessi undan- farin ár. í grein minni í Víðförla reyni ég að leggja áherslu á að þegar fjölmiðlar segja frá viðburðum helganna þá gleym- ist gjarnan það sem gerist á venjulegu kvöldi í miðri viku og enginn veit af nema kannski lögreglan og útideildin.“ Sr. Þórhallur sagði að um helgar þegar flest væri í miðbænum mætti gera ráð fyrir því að um tvö þúsund kraka hópur safnaðist þar saman þegar veður væri gott. Flestir fari síðan heim með síðustu strætisvögnum en eftir verði um 3-400 krakkar sem verst eru staddir af ýmsum ástæðum. Sjálft lífið í húfi Hann sagði að ofbeldi væri mikið og mun almennara meðal unglinga en marg- ir héldu. Margar klíkur væru til og þær allstórar sumar. í grein sinni segir sr. Þórhallur að starfsmenn séu jafnvel í lífshættu við störf sín að nóttu til, eigi þeir ekki fullt traust þeirra sem götunni ráða. Við Tímann sagði hann að hér mælti hann af eigin reynslu því að unglingaklíka hefði eitt sinn ráðist á hann við störf. Sé enn vitnað í greinina í Víðförla þá eru þar nefnd dæmi um bardaga með hnífum, nauðganir, skemmdarverk og líkamsárásir á þá sem orðið hafa viðskila við „sinn“ hóp. Þá séu dæmi um 12 ára börn afvelta af áfengisneyslu og jafnvel átta ára börn á flækingi innan um óhroðann. Sr. Þórhallur tilgreinir marga orsaka- þætti þessa ástands. Meðal þeirra séu almennt sinnuleysi um börn, mikil vinna og fjárhagsvandræði foreldra sem báðir vinni myrkranna í milli. Afleiðing þessa verði sú að heil kynslóð vaxi upp við það að ganga sjálfala. Kynslóð sem lifir og hrærist í ofbeldisheimi myndbanda og í ofbeldisdýrkun í lokuðum aldurshópi jafnaldra sinna. Hann segir að margir vinni gott og þarft verk til lausnar þessum vandamál- um, svo sem starfsmenn útideildar, lög- reglan og fleiri. Meira þurfi þó að gera og aðgerðum verði að skipta í tvennt: Annarsvegar verði að stöðva ofbeldið og fara út á göturnar og hjálpa þeim sem vildu losna af götunni og koma þeim á stofnun (sem enn vantar) og endurala þá upp. Hins vegar verði að styrkja hag fjöl- skyldunnar og búa svo um hnúta að börn og unglingar séu ekki aðskilin frá foreldr- um sínum meira og minna allt árið. Jafnframt þurfi að efla skóla og dagvist- unarheimili þannig að þau hafi bæði mannafla og kraft til að veita börnunum skjól meðan foreldrarnir vinna. Jafn- framt þurfi að kenna hinum fullorðnu að of seint sé að gera eitthvað fyrir börnin þegar allt er í óefni komið. Sjálfala böm og unglingar En hverjar eru aðstæður þeirra barna og unglinga sem hertaka miðbæinn og fleiri bæjarhluta og hversvegna eru þeir að þessu? Svarið er sjálfsagt margþætt. Sameiginlegt virðist þó vera með þeim flestum að þeir búa við mikið frelsi sem til er komið af ýmsum toga. Mörg heimili eru fjárhagslega illa stæð og foreldrar, oft einstæðir, vinna langan vinnudag til að sjá sér og sínum farborða. Börnin ganga þá meira og minna sjálfala og hafa ofan af fyrir sér með því að glápa á sjónvarp og myndbönd og hjá drengj- unum nær myndbandasmekkurinn sjaldnast út fyrir myndir þar sem ofbeldi er beinlínis dýrkað. Dæmi um slíkt má nefna svonefndar Ninjamyndir og mynd- ir með Bruce Lee karatefauta og fleiri ámóta snillingum. Börnin ogunglingarn- ir lifa sig inn í þessa vitleysu og sumir sjálfalninganna fara að líta á það sem sjálfsagða mannasiði að fá niðurstöðu í öll mannleg samskipti með því að lumbra á náunganum. Þannig eru raunar dagleg samskipti á heimilum sumsstaðar. Sr. Þórhallursegir í Víðförlagrein sinni að dæmi séu um börn frá heimilum þar sem ofbeldi, fyllirí og misþyrmingar tíðkast - hrein- lega leggist út og búi í hitaveitukofum eða ruslakjöllurum. Sálfræðingar sem rætt var við sögðu að oftar en ekki væru það krakkar frá slíkum heimilum sem söfnuðust í ofbeld- isklíkur Reykjavíkur næturinnar og réðu þar ferðinni. 1 mörgum þessum klíkum tíðkast einnig talsvert að neyta áfengis og vímuefna og þegar fram í sækir fer öll tilveran meira og minna að snúast um efnin. En það eru víst ekki allir jafn miklir harðjaxlar: Þeir sem lenda í því að verða kúgaðir af ofbeldisseggjum fara oft illa og verða innilokaðir og hræddir. Þegar búið er að brjóta einstakling niður einu sinni er oft eins og aðrir minni bógar og spámenn ofbeldisins finni það fljótt og treysti sér líka í að níðast á hinum hrakta þannig að hrakningar hans aukast meir og meir - allir sem vettlingi geta valdið leggj ast á hann - hann er lagður í einelti. Unglingaheimili ríkisins—heimili frœdslustofnun - nauðarvistun Steinunn Hjartardóttir er forstöðu- maður unglingaráðgjafar Unglingaheim- ilis ríkisins. Hún sagði að ofbeldisdýrkun og beiting ofbeldis hefði verið meiri hjá unglingum undanfarið en oft áður. Hún sagði að þetta væri eins konar tískubóla sem virtist nú vera í hámarki. Ástæður væru vafalaust margar en þeir unglingar sem hún hefði kynnst og ástundað hefðu ofbeldi gagnvart öðru fólki ættu allir eitt sameiginlegt: Þeir ættu í eða hefðu átt í langvarandi vandamálum af ýmsu tagi, bæði á heimili og í skóla. Flestir hefðu verið mikið einir og horft ótæpilega á myndbönd. Þá væri það og algengt að þegar þessir unglingar kæmu saman þá æstu þeir hvern annan upp innan hópsins til ódæð- isverka. Það gengi yfirleitt mótbárulítið enda væru aðstæður einstaklinganna svipaðar og sameiginlegt væri með þeim að líða ekki of vel. Steinunn sagði að unglingaráðgjöfin væri eins konar göngudeild frá Unglinga- heimili ríkisins. Þangað leituðu bæði unglingar og foreldrar, skólar, félags- málastofnanir og barnaverndaraðilar. Um 100 ný mál bærust á ári hverju að jafnaði. Mörg væru fremur auðveld og nægði að greiða úr flækjunum með viðtalsmeðferð. Önnur væru mun erfið- ari - margþætt vandamál er inn í fléttað- ist vímuefnaneysla, heimilisofbeldi og taugaveiklun auk annarra vandkvæða. Lang flest þeirra máia sem koma til kasta unglingaráðgjafarinnar sagði Steinunn að tengdust samskiptavanda- málum innan fjölskyldna og í alvarlegri tilfellum þyrfti að vísa krökkum til meðferðar hjá Unglingaheimili ríkisins. Rannsóknarvistun Hjá unglingaheimilinu væri bæði mót- tökudeild og vistunardeild. Á móttöku- deildinni sem að hluta til er lokuð, getur lögreglan vistað unglinga undir 16 ára aldri og þangað koma gjarnan þeir krakkar sem komið hafa við sögu líkams- árása og ofbeldismála auk annarra af- brota. Á móttökudeild eru krakkar oftast vistaðir í sólarhring eða skemur. Oftar en ekki kemur þó fyrir að krakkinn er vistaður svokallaðri rannsóknarvistun sem getur jafnvel orðið fimm vikna löng. Barnaverndaraðilar fara gjarnan fram á rannsóknarvistun og meðan á henni stendur er gerð allsherjar úttekt á mál- efnum viðkomandi unglings, bæði á hugsanlegum afbrotaferli og heimilisað- stæðum. í lok rannsóknarvistunar er síðan ákveðið hvað gera á við viðkom- andi ungling, hvort hann fari aftur til síns heima eða verði komið fyrir í vist á fósturheimili eða búi á, eða á vegum Unglingaheimilis ríkisins. Lögbundin skólaganga unglinga á glapstigum er oftast í molum og á vegum heimilisins er leitast við að halda námi allra skjólstæðinga þess gangandi. Á vegum heimilisins er rekinn grunnskóli sem heyrir beint undir sérkennslufuiltrúa ríkisins og þjónar öllum skjólstæðingum unglingaheimilisins, einnig þeim sem vistaðir eru áðurnefndri rannsóknarvist- un. Byrgja brunninn áður... „Þegar krakkar eiga í erfiðleikum félagslega þá leita þeir gjarnan í vímu- gjafa til að komast inn í klíkur. Þeir leita oft einhverra óæskilegra leiða út úr vanda sínum vegna þess hve félagsskap- ur er þeim mikilvægur á unglingsárun- um. Við teljum okkur því vera að vinna fyrirbyggjandi starf með því að kenna slíkum unglingum að umgangast hverja aðra með stuðningi. Unglingarnir eru þá á okkar vegum í litlum vernduðum hópi einhvem tíma. Hópurinn hittist þetta þrjú kvöld í viku til að ræða saman og ýmislegt er gert til að reyna að víkka sjóndeildarhringin krakkanna. Þannig eru t.d. stundaðar íþróttir eða farið í leikhús svo fátt eitt sé nefnt. Þetta gerum við til að unglingarnir læri að upplifa sem flest af því sem er í gangi í þjóðfélaginu og læri líka að vinna í hópi og að umgangast aðra á eðlilegan hátt,“ sagði Þórunn Óskarsdóttir forstöðumaður unglingadeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkur við Flúðasel.- sá

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.