Lesbók Morgunblaðsins - 11.03.2006, Side 16

Lesbók Morgunblaðsins - 11.03.2006, Side 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 11. mars 2006 Þ að er tæpast ofsögum sagt – og ekki á neinn hallað – þótt því sé haldið fram að Jón Nordal sé eitt mesta tón- skáld sem Ísland hefur átt. Í Jóni kristallast straumar og stefnur 20. aldarinnar. Ævi hans og tónsmíðaferill er samofinn íslenskri tónlistarsögu. Jón var einn af forvígismönnum módernismans á Ís- landi gegnum Musica Nova – hann var fyrsti formaður félagsskap- arins 1959 – og stýrði æðstu stigum tónlistar- kennslu á Íslandi sem skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík 1959– 92, með innsæi sem ekki er öllum gefið. Hann hefur sameinað hið „þjóðlega“ og „alþjóðlega“ í tónlistinni, háð glímuna við stílinn og að lokum fundið sína eigin leið. Tónlist Jóns er innhverf og djúphugul, og hún þekkist á örfáum töktum. Helsta einkenni hennar er hægfara tónferli þar sem þykkir og litskrúðugir hljómar eru í for- grunni. Hljómarnir eru safaríkari en gerist og gengur, og Jón fer undurmjúkt og fyrirhafn- arlaust úr einum í annan, byggir upp spennu sem magnast með hverju slagi og leysist svo á hárréttu augnabliki. Í þessari tónlist er engu ofaukið. Hún er fyrst og fremst persónuleg tjáning, laus við allar fánýtar brellur og inn- antóma tískustrauma. Og hún er íslensk. Hún stendur föstum rótum í íslenskri sögu og menn- ingu, sækir innblástur sinn til landsins bestu skálda, fegurstu náttúru og elstu þjóðlaga. Ís- lendingar skynja þessar djúpu rætur og tengj- ast þeim skilyrðislaust. Lög eins og Hvert ör- stutt spor eða Smávinir fagrir eru löngu orðin hluti af þjóðarsálinni og vandséð að á því verði nokkur breyting, hvorki í bráð né lengd. Þjóðlegar rætur Hið þjóðlega hefur ávallt átt djúpar rætur í Jóni, enda ólst hann upp á miklu menningar- heimili þar sem íslensk fræði voru í hávegum höfð. Fyrstu tónverk Jóns eru í lýrískum stíl með sterkar vísanir í þjóðleg einkenni. Jón lá yfir íslenskum þjóðlögum á unglingsárum sín- um og áhrif þeirra má m.a. heyra í verkinu Systur í Garðshorni fyrir fiðlu og píanó (1944). Fyrstu straumhvörfin á tónskáldaferli Jóns urðu þegar Jón Þórarinsson sneri aftur til landsins árið 1947 og hóf tónsmíðakennslu við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann hafði stundað meistaranám í Bandaríkjunum hjá Paul Hindemith, sem var eitt fremsta tónskáld Þýskalands á þriðja áratugnum en neyddist til að flýja land við valdatöku nasista. Hindemith samdi tónlist í fremur hefðbundnum nútímastíl og þróaði stranga en áhrifaríka tónsmíðaaðferð sem hann miðlaði áfram til nemenda sinna. Þeg- ar Jón Þórarinsson sneri aftur til Íslands varð því ekki lengur hjá því komist að landinn tækist á við módernismann, og í kjölfarið tóku nýir og ferskari vindar að blása um íslenskan tónskáld- skap. Gallinn við kerfi Hindemiths var þó eink- um sá að það máði burt séreinkenni hvers tón- skálds fyrir sig; allir þeir sem semja tónlist eftir Hindemith-kerfinu eiga það til að hljóma nokk- urn veginn eins og Hindemith sjálfur. Jón Nor- dal fór ekki að öllu leyti varhluta af þessu. Hin- demith-áhrifa í tónlist Jóns gætir helst í verkum frá lokaárum þess síðarnefnda við Tón- listarskólann í Reykjavík, t.d. Tríói fyrir blásara (1948) og Konsert fyrir hljómsveit (1949). Haldið út í heim Að loknu lokaprófi úr Tónlistarskólanum í Reykjavík var haldið út í heim og stefnan fyrst tekin á Zürich. Þar lærði Jón undir leiðsögn Willy Burkhard, sem var afkastamikið tónskáld og þótti semja sérlega áhrifamikil söngverk. Nú fór sjóndeildarhringur Jóns víkkandi. Verkin sem hann semur næstu árin eru fjölbreytt að inntaki, en bera það öll með sér að hann er enn að leita að sinni eigin rödd. Áhrifin komu víða að. Tólftónamúsík í anda Schönbergs skýtur fyrst upp kollinum í Fiðlusónötu Jóns (1952), en í sprellfjörugum Píanókonserti sínum (1956) leikur Jón á als oddi, með hröðum tónarunum og skörpum hrynmynstrum sem minna stund- um á Bartók eða Stravinskí. Árið 1957 hélt Jón til mekku módernískrar tónsköpunar á eftirstríðsárunum: Darmstadt í Suður-Þýskalandi. Þar höfðu menn eins og Pierre Boulez og Karlheinz Stockhausen pré- dikað yfirburði seríalismans svokallaða um nokkurra ára skeið – krafa dagsins var að allt skyldi lúta fyrir fram ákveðnu kerfi sem byggð- ist á algjöru jafnræði allra tóna. Dvölin í Darm- stadt hafði geysileg áhrif á Jón. „Mér finnst ég í raun og veru aldrei hafa orðið sami maður eftir þetta. Þetta breytti öllum mínum viðhorfum. […] Ég hef aldrei samið neitt síðan sem á ekki einhverjar rætur í þessu,“ sagði hann í útvarps- viðtali árið 1979. Jón lá nú undir feldi í nokkur ár. Hann þurfti tíma til að vinna úr því sem hann hafði kynnst af róttækustu tónlist samtím- ans. Áhrifin komu fyrst fram árið 1962 í hljóm- sveitarverkinu Brotaspil. Jóni fannst að með Brotaspilum hefði hann „afgreitt eitthvað“ sem hefði setið í sér lengi, en hann var ekki fyllilega sáttur við útkomuna. Enn liðu fjögur ár áður en Jón lét aftur til skarar skríða, og útkoman var tímamótaverk. Með Adagio fyrir flautu, píanó, hörpu og strengi (1966) fann Jón sína eigin rödd í tónlistinni, orðinn fertugur að aldri. Nú var eins og flóðgáttir opnuðust. Á árunum 1970–83 samdi Jón tíu hljómsveitarverk sem eru meðal hápunktanna á sköpunarferli hans. Öll einkenn- ast þau af skýrri framsetningu, vandlega mót- uðum hendingum og þéttum hljómum. Í sumum verkanna gægjast fram íslensk þjóðlög í sinni upprunalegu mynd eða því sem næst, þótt hitt gerist oftar að Jón vísi í þjóðleg einkenni á óbeinan hátt. Í Tvísöng, konsert fyrir fiðlu og lágfiðlu frá 1979, notar Jón „þjóðlag“ sem raun- ar er blanda af tveimur gömlum tvísöngslögum, Ljósið kemur langt og mjótt og svokallaðri Vatnsdælastemmu. Í hljómsveitarverkinu Cho- ralis (1982), sem Jón samdi fyrir Þjóðar- hljómsveit Bandaríkjanna (National Symphony Orchestra) og Mstislav Rostropovítsj, notar Jón eitt sérkennilegasta íslenska þjóðlagið, Lilju- lagið svonefnda. Lagið heyrist aldrei í heild í verkinu, en hendingar þess eru stöðugt gefnar í skyn. „Þetta lag er einhvern veginn hluti af sjálfum mér,“ segir Jón. „Ég man að ég upp- götvaði það svona um fermingu og það hafði mikil áhrif á mig.“ Jón segist raunar ekki hafa fengið hugmyndina að flétta þjóðlagið inn í Cho- ralis fyrr en nokkuð langt var liðið á sköp- unarferlið. Samt fellur lagið fullkomlega að heildarsvip verksins, enda er höfuðeinkenni þess – sérkennilega þverstæð krómatík – eitt helsta stílbragð Jóns í tónlistinni. Skipt um stefnu Árið 1966 markaði tímamót á ferli Jóns, en upp úr 1983 skiptir hann enn um stefnu. Ekki þó hvað varðar tónmálið sjálft, heldur miðilinn. Nú vék hljómsveitin fyrir kammer- og kórtónlist, sem átti hug Jóns allan í tónsmíðavinnunni í tæpa tvo áratugi. Með tveimur mögnuðum kór- verkum, Umhverfi og Kveðið í bjargi (bæði samin 1978), skipaði Jón sér í hóp okkar fremstu kórtónskálda. Kannski nýtur hinn margslungni hljómavefur Jóns sín hvergi betur en í kórsöng. Textinn kemst til dæmis óvenju- lega vel til skila, þar sem Jón lætur yfirleitt allar raddir hreyfast á sama tíma. Það er þó ekki síst inntak verkanna sjálfra sem ræður úrslitum. Jón hefur næma tilfinningu fyrir ljóðum, eins og sést raunar af því að mörg hljóðfæraverk hans bera yfirskriftir sem fengnar eru að láni úr tímamótaverkum í íslenskri ljóðagerð. Þegar best tekst til verður útkoman fullkomlega upp- hafin, ekki síst þegar textarnir hafa trúarlega tilvísun eins og oftast er raunin í kórverkum Jóns. Óttusöngvar á vori (1993) eru viðamesta kórverk Jóns, og hér sameinar hann enn á ný hið þjóðlega og alþjóðlega í tónlist sinni. Í kring- um latneska messutexta fléttast Sólhjartarljóð Matthíasar Johannessens og brot úr Sólar- ljóðum frá 13. öld. Verkið vísar í ótal áttir: í mið- aldasöng kaþólsku kirkjunnar með tilheyrandi klukknahringingum, í þjóðlögin, söguna, landið sjálft. Um þetta verk segir Atli Ingólfsson tón- skáld í geisladisksbæklingi: „Hér er nokkuð sem við yngri tónsmiðirnir getum aðeins vonað að list okkar nálgist einhvern tíma: Að vaðurinn verði svo tryggur að við hættum að óttast um hann og snúum okkur að lífinu sjálfu.“ Á síðustu árum hefur tónlist Jóns orðið jafn- vel íhugulli og innhverfari en áður. Jón hefur raunar ávallt verið maður hins knappa stíls, en nú er eins og aðalatriðin séu honum jafnvel enn ljósari en áður. Kannski getur einn tónn sagt meira en hundrað hljómar ef farið er með hann af alúð. Þessi naumhyggja tónskáldsins birtist m.a. í klarínettukonsertinum Haustvísu, sem Jón samdi fyrir Einar Jóhannesson árið 2000. Nafngiftin segir sitt um andblæ verksins. Hend- ingar einleikarans eru naktari en áður, oft jafn- vel algerlega berskjaldaðar, en inn á milli skiptast hljóðfæri hljómsveitarinnar á að styðja við þær á nærgætinn hátt. Hið sama er uppi á teningnum í kammerverkinu Grímu (2002). Tónlistin er eins og samtal ólíkra hljóðfæra, eða kannski öllu heldur eintöl sem hljóma í röð, hvert á fætur öðru. Einar Jóhannesson talaði eitt sinn um hina „mildu melankólíu“ í Haust- vísu Jóns, og sú lýsing á ekki síður við um önnur verk hans. „Ég hef alla tíð verið unnandi hausts- ins, allt frá barnæsku,“ segir Jón sjálfur. Áhrif þess eru alls staðar í tónlist Jóns, í hinni þenkj- andi nærveru, í treganum og eftirsjánni. Tón- arnir eru sterkir, ferskir og tærir, rétt eins og íslenska haustið. Og litbrigðin óendanleg, hvert sem litið er. Hin milda melankólía Morgunblaðið/SigurgeirJón Nordal Tónlist Jóns er innhverf og djúphugul og hún þekkist á örfáum töktum. Jón Nordal tónskáld fagnaði áttræðisafmæli sínu mánudaginn 6. mars sl. Sinfóníu- hljómsveit Íslands helgaði tónskáldinu tón- leika sína á fimmtudagskvöld og hér er litið yfir feril listamannsins og skoðuð helstu ein- kenni tónsmíða hans. Eftir Árna Heimi Ingólfsson arniheimir@lhi.is Höfundur er dósent í tónlistarfræðum við Listaháskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.