Lesbók Morgunblaðsins - 01.07.2006, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 01.07.2006, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 1. júlí 2006 | 3 H ve kalt var kalda stríðið svonefnda á Íslandi – eða öllu heldur: Hve grimmt var það? Fyrst er að varast þá freistingu sem margir falla fyrir: Að gera allt sem einfaldast þegar þeir skoða pólitísk ótíðindi úr nokkurri fjarlægð. Ég á við þá algengu hugmynd að kalda stríðið hafði sveigt alla stjórnmálabaráttu og menningarlíf undir tvískiptingu heimsins milli risaveldanna tveggja – hafi þá loft allt ver- ið lævi og hatri blandið og illa líft mörgum sak- lausum. Þessi skilningur er ekki út í hött en þó er myndin rammskökk. Hún gleymir því til dæmis að kalda stríðið var ekki langvinnt, óbreytt ástand – það var harðast á árunum 1949–1956 og síðan gengu yfir ýmis hlýindaskeið. Því er líka gleymt að margt það sem menn kjósa að tengja við kalda stríðið er í raun mun eldra í ís- lenskri umræðu. Svo hættir mörgum – einkum yngra fólki – til að rugla því saman sem hér gerðist og því sem verst varð annars staðar. Á Íslandi ríkti aldrei sannkallaður McCarthy-ofstopi þótt vissulega sætu menn hér í valdasessi sem hugsuðu svipað og sá bandaríski lýðskrumari sem sá komm- únista í hverju horni og gekk hart fram í að flæma hvern slíkan úr mannlegu félagi. Þótt hér væru stundaðar símahleranir og persónu- njósnir um sósíalista og aðra andstæðinga bandarískra herstöðva á Íslandi þá væri út í hött að tala um að hér hefði verið einhverskonar lögregluríki. Síst eins og þau sem með herfi- legri grimmd reyndu að útrýma hugsanlegum andstæðingum Sovétríkjanna á nýjum áhrifa- svæðum þeirra í Austur-Evrópu eftir stríð. Voru allir eins? Enn önnur algeng skekkja í ályktunum um ár kalda stríðsins er sú að „þeir voru allir eins“ – hvort þeir voru vinir Kana eða Rússa, stóðu til hægri eða vinstri. Þessi túlkun er gjarna studd með dæmum úr pólitískum málflutningi þeirra ára, sem var ein- att fullur af gífuryrðum og grimmum ásökunum um landráð og annað illt og verra. Það er rétt að þessi málflutningur var svipaður hjá flestum sem til máls tóku um kaldastríðsmálefnin. En nú er tvennu við að bæta. Í fyrsta lagi því, að heiftarorðbragð er mun eldra í pólitískum deil- um á Íslandi en kalda stríðið. Strax í sjálfstæð- isbaráttu við Dani fyrir meira en hundrað árum voru menn ósparir á að bregða andstæðingum um landráð og svik og ortu níð um djöfullega dáðlausan „danskan Íslending“. Hatur og níð hefur líklega aldrei farið hærra en í deilum Sjálfstæðismanna við Jónas frá Hriflu um 1930. Í öðru lagi skal svo á það minnt að heift- arskammir á pólitískum vettvangi segja ekki nema hálfa sögu af veruleikanum. Hvað sem þeim leið var töluverður samgangur og allt að því vinskapur jafnvel milli pólitískra foringja þótt andstæðingar væru. Það kom jafnan sælu- svipur á Einar Olgeirsson þegar hann fékk til- efni til að rifja upp fyrir sér sögur af viðskiptum þeirra Brynjólfs Bjarnasonar við Ólaf Thors í valdatíð Nýsköpunarstjórnarinnar. Munum það líka að landráðaslúðrið sjálft nægir ekki til að setja alla í sömu stöðu. Her- stöðvaandstæðingar, sósíalistar og þjóðvarn- armenn kölluðu það landráð að leyfa herstöðvar á Íslandi á friðartíma og landsölu að græða á bandaríska hernum. Menn geta vissulega talið slíkar ályktanir rangar – en þær tengjast þó því sem gerðist í raun og veru. Herstöðvasinnar svöruðu hinsvegar með því að segja andstæð- ingana hafa fullan vilja til þess að gerast land- ráðamenn í þágu Sovétrússa ef þeir barasta hefðu tækifæri til – en röksemdir þeirra gátu aldrei verið annað en vafasamur líkindareikn- ingur af uppákomum í allt öðrum samfélögum. Að auki beittu til dæmis Morgunblaðsmenn fá- gætri ósvífni í einbeittri viðleitni til að gera alla sem efuðust um ríkjandi stefnu í utanrík- ismálum að misindisfólki. Eins og þegar blaðið réðist á séra Sigurbjörn Einarsson, síðar bisk- up, frambjóðanda Alþýðuflokksins og formann Þjóðvarnarfélagsins, og kallaði hann „hinn smurða Moskvuagent“. Einna lakast við kalt stríð á Íslandi var einmitt það ofstæki sem bannaði mönnum að efast á sínum eigin for- sendum um ríkjandi stefnu – erindrekar Stalíns skyldu þeir allir heita, hvað sem það kostaði. Atvinnuofsóknir Þegar til eru nefndir þeir sem grátt voru leiknir í köldu stríði minnast menn dæma eins og af Sigurbirni Einarssyni, nýlega hefur verið talað um börn stjórnmálaforingja sem urðu fyrir ein- elti í barnaskóla og allra síðast um þá þing- menn, verkalýðsforingja og herstöðvaandstæð- inga sem sættu símahlerunum. Enn er gleymdur stór hópur manna, flestra nafnlausra, sem varð fyrir mjög áþreifanlegum hremm- ingum í þessu stríði, en það voru þeir menn sem sættu atvinnuofsóknum sem vinstrisinnar og herstöðvaandstæðingar. Stundum var til þess hvatt í ábyrgum málgögnum að útrýma skyldi „áhrifum kommúnista“ í skólum og mennta- stofnunum. Meira að segja í virðulegu bók- menntariti eins og Félagsbréfum Almenna Bókafélagsins (24 hefti, 1961) er það talið brýnt framlag íslenska ríkisins til frelsisins að reka þá sem menn vilja kalla kommúnista úr öllum slík- um störfum. Slíka hvatningu hafa ýmsir menn tekið alvarlega. Ég kann dæmi af góðum kunn- ingja sem hafði látið að sér kveða við að skipu- leggja Keflavíkurgöngur. Hann sótti um kenn- arastarf í tveimur kaupstöðum norðanlands, fékk meðmæli frá skólastjórum og var eini um- sækjandinn – en heldur vildu skólanefndir eng- an mann ráða en slíkan skaðræðismann, sem reyndar hafði aldrei í Sósíalistaflokkinn komið! Svipuð dæmi munu margir geta nefnt. Stund- um var hér um pólitík frá æðstu stöðum að ræða – á sjötta áratugnum var afar erfitt fyrir róttæka kennara að fá ráðningu í lausar stöður. Eða þá að menn sýndu eigið frumkvæði í útilok- unarstefnu eins og þeir tveir íhaldssömu prest- ar sem á sjöunda áratugnum höfnuðu sem skólanefndarformenn herstöðvaandstæð- ingnum fyrrnefnda sem vildi kenna unglingum í þeirra plássum. Pólitískar atvinnuofsóknir voru eldri en kalda stríðið eins og allir vita sem vilja – bæði hjá hinu opinbera og í einkafyrirtækjum – og þær hverfa ekki þótt deiluefni kalda stríðsins gufi upp. En þetta margnefnda stríð gerði illt verra, hleypti lausri einhverri blöndu af tor- tryggni og fólsku sem fór illa í hendi ýmissa þeirra sem fóru með vald af einhverju tagi. Stundum var útkoman næsta spaugileg. Við bróðir minn vorum fyrir rúmri hálfri öld farnir að rífa kjaft á málfundum í menntaskóla – og einum ágætum krataforingja í Keflavík fannst það tilefni til að kvarta yfir því við verkstjóra í bæjarvinnunni að sá hefði tekið slíka kommad- indla í vinnu við að grafa fyrir skólpi! Verkstjór- inn, gamall sjálfstæðisjaxl, kjaftaði þessu í okk- ur og var nokkuð ánægður með að kratablókum væri stríðni í þessu. Í þessu tilviki er ekki hægt að segja: „Hinir hefðu ekki verið betri ef þeir hefðu haft aðstöðu til.“ Enginn getur fullyrt neitt um það. Engum var heldur skylt að sýna af sér ofstopa í manna- ráðningum, og þeir sem í valdaflokkunum voru eða þeim fylgdu voru náttúrulega misjafnir; sumir eins og skroppnir út af námskeiði hjá McCarthy, aðrir sómamenn sem létu sér fátt um valdníðslu finnast. En það sem helst dregur úr meinsemdum af þessu tagi og gerði kalt stríð sársaukaminna hér en víða annars staðar er svo vitanlega það, að íslenskt samfélag er lítið, ná- vígi mikið, frændgarður reistur um hvern mann og skólabræðralög. Menningarstríðið Spurt er líka: Var ekki stríðsástand í menning- unni á þessum árum? Ef til vill – en ekki endi- lega vegna kalds stríðs. Þegar deilt var af hörku um atómskáldskap og abstraktlist þá tókust á kynslóðir hefðarsinna og nýjungafúsra og þess- ar deilur gengu þvert á allt sem hét vinstri og hægri. Að vísu reyndu sumir að finna einnig á þessum deilum pólitískan kaldastríðsflöt. Sumir „borgaralegir“ töldu abstraktmyndir og rím- lausan atómkveðskap kommúníska niðurrifs- starfsemi – og sumir „kommar“ af eldri kynslóð töldu að sömu fyrirbæri bæru vott um borg- aralega úrkynjun og hnignun Vesturlanda. Hvorutveggja var út í hött. Algeng er sú trú að á þessum árum hafi „kommúnistar“ haft ægivald yfir bókmennt- unum og ofsótt „borgaralega höfunda“ af mikilli grimmd. Þetta stenst ekki.1 Vissulega var al- gengara á þeim tíma en nú að dómar manna um skáldskap tækju ótvíræðan lit af pólitískri sann- færingu hvers og eins. En þetta var ekki nýtt kaldastríðsfyrirbæri heldur afleiðing af því að lesandi menn ætluðu bókmenntum stærra og miðlægara hlutverk í lífi sínu en nú gerist á skoðanadaufum tímum. Og „ofsóknir“ höfðu í reynd mest bitnað á mönnum eins og Halldóri Laxness: Á fjórða áratugnum beindist að hon- um mikil pólitísk heift, bæði þeirra sem tóku nærri sér mynd hans af „athafnaskáldum“ eins og Pétri þríhrossi og svo túlkun hans á lífi hins íslenska kotbónda, Bjarts í Sumarhúsum. Al- þingi skar niður skáldalaun Halldórs, sjálfur Sigurður Nordal kvartaði á þeim árum yfir því að reynt væri að þegja þennan snjalla höfund í hel. Á tímum kalda stríðsins hljóp svo enn meiri heift í umfjöllun um bækur og höfunda. Sum- part var það næsta eðlilegt: Halldór Laxness hafði gert málstað Stalíns að sínum í Gerska ævintýrinu og fleiri skrifum og hlaut að fá á baukinn fyrir það. Gunnar Gunnarsson hafði eftir að heimsstyrjöldin síðari hófst lagt á sig ströng ferðalög til að lesa upp, m.a. fyrir þýska hermenn, um leið gekk hann á fund Hitlers og lofaði hann í dönskum blöðum rétt áður en Dan- mörk var hernumin – það gat heldur ekki farið hjá því að þetta rifjaðist upp þegar rifist var um frelsi og menningu. Hitt var svo út úr hverju korti að íslenska utanríkisráðuneytið stóð í leynimakki við kommúnistaveiðara í banda- ríska sendiráðinu um að gera Halldóri Laxness lífið sem leiðast og fjárhag hans sem erfiðastan. Menningarlífi í köldu stríði verða því miður ekki gerð hér skil sem vert væri. En það er víst að hvergi á yfirskriftin „ekki er allt sem sýnist“ betur við en um þau efni. Gunnar Gunnarsson til dæmis – hann fékk á baukinn fyrir að sýna lit með Hitler, en um leið var sá rauði menning- arpáfi, Kristinn E. Andrésson, atkvæðamikill aðdáandi hans og Halldór Laxness þýddi verk hans á íslensku. Kristmann Guðmundsson var ekki saklaust fórnarlamb ofsókna heldur greip hann tækifæri sem kalda stríðið bauð upp á til að kenna alþjóðlegu kommúnistasamsæri gegn sér um þverrandi gengi sitt meðal lesenda. Gleymum heldur ekki skáldarígnum! Steinn Steinarr var sá maður sem grimmastur var við Davíð Stefánsson – en þar var ekki komma- skáld að andskotast út í borgaraskáld í Þjóðvilj- anum heldur byltingarmaður í ljóðlist að blása gegn hefðarvini og þjóðskáldi í Alþýðublaðinu. Sumt af því sem gerðist á þessum árum var reyndar furðuþarft og skemmtilegt. Sovétmenn héldu úti menningartengslafélaginu MÍR og sendu hingað ágæta listamenn til að bæta sína ímynd, og innan tíðar fóru Bandaríkjamenn að herma eftir þeim. Íslendingar fengu að heyra bæði í sellósnillingnum rússneska Rostropo- vitsj og djassmeistaranum Louis Armstrong, og það skondna var að dæmdur Nató- andstæðingur og starfsmaður MÍR um tíma, Jón Múli Árnason, var kynnir á tónleikum beggja. Vinum risavelda fækkar Halldór Laxness segir í minningargrein um Stein Steinarr árið 1958 að hann „hafði það af að verða á móti öllum heimsveldunum og dó glaður“. Halldór var þá sjálfur á sömu leið. Þró- unin varð reyndar sú að eftir því sem á kald- astríðstímann leið fækkaði virkum vinum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Víetnam- stríðið og afskipti Bandaríkjanna af valdarán- um í Grikklandi, Chile og víðar grófu undan trausti á þeim. Innrásin í Tékkóslóvakíu og margvísleg mannréttindabrot heima fyrir skáru jafnt og þétt utan af Sovéttrúnni sem svo rík var meðal margra vinstrisinna fyrst eftir stríðið gegn Hitler. Æ fleiri efldust til gagnrýn- inna efasemda um þær svarthvítu einfaldanir sem risaveldin höfðu á lofti í viðleitni sinni til að neyða hvern og einn til að fylgja sér að málum – annars væri sá hinn sami að leggja hinu illa lið (kommúnisma, heimsvaldastefnu o.s.frv.) Svo breyttist heimurinn. En ýmislegt úr arfi kalda stríðsins mun lengi tóra – ekki síst hjá þeim sem andspænis meiriháttar deiluefnum hafa þörf fyrir að „djöfulgera“ andstæðinginn, sjá samsæri í hverju horni sér til huggunar og hafa vald og fé til að fylgja eftir tortryggni sinni út í bein og óbein brot á mannréttindum.  1 Um þetta efni hef ég skrifað ítarlega grein, „Ofbeldi komm- únista við borgaralega rithöfunda“ í Tímariti Máls og menn- ingar, 3. hefti, 2000. Ekki er allt sem sýnist Morgunblaðið/Ólafur K Magnússon Alþingi um eða uppúr 1950 Bjarni Benediktsson og Ólafur Thors, ráðherrar, hlýða á ræðu Einars Olgeirssonar. Eins og fram kemur í greininni þá segja heiftarskammir á pólitískum vettvangi ekki nema hálfa sögu af veruleikanum. Hvað sem þeim leið var tölverður samgangur og allt að því vinskapur jafn- vel milli pólitískra foringja þótt andstæðingar væru. Það kom jafnan sælusvipur á Einar Olgeirsson þegar hann fékk tilefni til að rifja upp fyrir sér sögur af viðskiptum þeirra Brynjólfs Bjarnasonar við Ólaf Thors á valdatíð Nýsköpunarstjórnarinnar. Hversu kalt var stríðið?

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.