Lesbók Morgunblaðsins - 01.07.2006, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 01.07.2006, Blaðsíða 9
ting nry Agueldo, ljósmyndari El Colombiano í Kólumbíu, fyr- dd Heisler, ljósmyndari Rocky Mountain News, myndaði ames Cathey er tekin úr flugvél á flugvellinum í Reno. örku hlaut þriðju verðlaun í flokknum Fólk í fréttum fyrir anum í Balakot í Kasmír. Lesbók Morgunblaðsins ˜ 1. júlí 2006 | 9 Í síðari Samúelsbók segir svo frá Absalon, syni Davíðs konungs: „Í öllum Ísrael var enginn maður eins fríður og Absalon, og fór mikið orð af því. Frá hvirfli til ilja voru eng- in lýti á honum.“ Absalon var vin- sæll og kjarkmikill höfðingi. Þegar Tamar systir hans hafði verið svívirt af Amnon hálfbróður þeirra lét Absalon menn sína drepa hann í viðurvist annarra hálfbræðra sinna. Í kjölfarið var hann dæmdur til þriggja ára útlegðar og þótt hann og Davíð konungur næðu sáttum um síðir voru þær meiri í orði en á borði. Absalon girntist ríki föður síns og fór svo að hann náði Jerúsalem á sitt vald. En þegar her Absalons kom að Efraímskógi gerðu menn Davíðs gagnárás og fóru með sigur af hólmi. Davíð hafði beðið þá að hlífa syni sín- um, en þeir fylgdu ekki fyrirmælum hans. Þegar Davíð fregnaði lát Absalons varð hon- um mjög bilt. Viðbrögðum hans er lýst á þessa leið: „Gekk hann upp í þaksalinn uppi yfir hliðinu og grét. Og er hann gekk, mælti hann svo: „Sonur minn Absalon, sonur minn, sonur minn Absalon! Ó, að ég hefði dáið í þinn stað, Absalon, sonur minn!““ Þessi örvæntingarfullu orð Davíðs kon- ungs urðu fjölda tónskálda innblástur til tónsmíða á endurreisnartímanum og eru raunar enn í dag. Á efnisskrá Carminu í Skálholti í dag er að finna fjögur slík verk og eru a.m.k. þrjú þeirra samin af ákveðnu tilefni, þegar konungar endurreisnartímans misstu syni sína fyrir aldur fram. Talið er að flæmska tónskáldið Pierre de la Rue hafi samið Absalon, fili mi eftir andlát Filippusar „hins fagra“ Kastilíukonungs (1478–1506), sem var föður sínum, rómverska keisaranum Maximilían I (1459–1519) mikill harmdauði. Pierre de la Rue var söngvari og tónskáld við kapellu Habsborgarhirðarinnar og því í þjónustu þeirra feðga Maximilíans og Filipp- usar. Eftir lát Filippusar þjónaði hann ekkju hans, Juönu, sem var dóttir Ferdínands og Ísabellu af Spáni. Englendingarnir Thomas Tomkins og Thomas Weelkes eru hins vegar sagðir hafa samið harmljóð sín til minningar um Hinrik, krónprins Englands, sem lést í nóvember 1612. Þessi átján ára gamli sonur Bretakonungs og Önnu Danaprinsessu var samkvæmt öllum heimildum afburðagreind- ur og hæfileikaríkur. Mikill fjöldi ljóða og tónverka var saminn í minningu hans, meðal þeirra a.m.k. sex tónsmíðar við harmljóð Davíðs úr Samúelsbók. Thomas Weelkes og Thomas Tomkins eru yngstu tónskáldin á efnisskránni. Weelkes var vart skriðinn yfir tvítugt þegar fyrsta madrígalasafn hans birtist á prenti, og madrígalabækur hans þrjár (1597, 1598 og 1600) eru meðal hápunkta breskar madrí- galagerðar. En eftir að Weelkes tók við starfi organista við dómkirkjuna í Chiches- ter fór allt á verri veg: Hann var ákærður fyrir ölvun á almannafæri 1613 og var ávítt- ur opinberlega af biskupnum þremur árum síðar. Þegar hann lést, tæplega fimmtugur, skildi hann fátt eftir sig nema skuldahala við hinar ýmsu knæpur Lundúnaborgar. Snilli- gáfa hans kemur óvíða jafngreinilega fram og í When David Heard That Absalon Was Slain, sem er nokkurs konar trúarlegur madrígali. Sorgin brýst fram í ólgandi ómstríðum og raddirnar fléttast hver um aðra, líkt og söngvararnir keppist um að fá útrás fyrir harm sinn. Hið sama má segja um verk Thomasar Tomkins, sem samið er við sama texta. Tomkins var ein síðasta eft- irlegukind madrígalatónskáldanna og samdi í hinum „gamla“ stíl langt fram á 17. öld. Hann var meðlimur konungskapellunnar, Chapel Royal, árið 1612 og hefur verk hans því kannski hljómað við einhvers konar op- inbera athöfn við lát Hinriks Bretaprins. Meistari tónanna Josquin des Prez var mesta tónskáld sinnar tíðar og þykir enn bera af öðrum tón- skáldum endurreisnartímans fyrir hug- myndaauðgi sína og tæknilega yfirburði. Marteinn Lúter lét þau orð falla að hann væri „meistari tónanna. Tónarnir verða að lúta vilja hans, en önnur tónskáld eru þræl- ar þeirra.“ Eitthvað af þessari snilld má heyra í harmljóði hans við 130. Davíðssálm, De profundis. Ekki svo að skilja að Josquin reyni á söngvarana með flóknum rytmum eða nótnarunum, því hér er einfaldleikinn allsráðandi. Oft kallast raddirnar á tvær og tvær, sem gerir hápunktana þar sem allar raddirnar koma saman enn áhrifameiri. Tón- bilin eru fremur fábrotin, líkt og við séum stödd í miðju djúpinu. Það er ekki fyrr en undir lok verksins að tónlistin fær á sig ann- an blæ og vonin um náð Drottins tekur að skína í gegn. Í hinum ört stækkandi heimi nótnaútgáf- unnar á fyrri hluta sextándu aldar naut ekk- ert tónskáld jafnmikilla vinsælda og Jos- quin. Eftir lát hans varð hann eins konar goðsögn og tónlist hans jafnvel enn vinsælli en meðan hans naut við. Þýski nótna- forleggjarinn Georg Forster komst svo að orði árið 1540: „Josquin samdi fleiri mót- ettur eftir dauða sinn en meðan hann lifði.“ Það virðist hafa verið ein leið óprúttinna út- gefenda til að tryggja verkum sínum met- sölu að eigna þau meistara Josquin. Honum eru eignuð a.m.k. 315 verk í handritum og nótnabókum frá 15. og 16. öld, en af þeim eru hvorki fleiri né færri en 136 talin vera eftir aðra. Mótettan Absalon, fili mi var eignuð Josquin í nótnahefti frá 1540, tæpum tveimur áratugum eftir lát hans. Árið 1989 færði hollenski tónvísindamaðurinn Jaap van Benthem gild rök fyrir því að verkið væri sennilega eftir Pierre de la Rue. Líklega verður þó aldrei hægt að skera úr um það með fullri vissu hver höfundurinn var. Harmur hins syrgjandi föður er túlkaður fullkomlega í fjórum söngröddum sem hverf- ast hver um aðra, og ekki síður í djúprödd- uðu niðurlaginu sem í upphaflega nótna- prentinu fer alla leið niður á kontra-B og er líklega dæmi um það sem nefnt var „augna- músík.“ Þar var átt við hluti sem sáust í nótunum en heyrðust ekki endilega í tónlist- inni sjálfri, voru m.ö.o. fyrst og fremst skila- boð frá tónskáldi til flytjenda. Tregasöngvar hirðskálda Niðurlendingurinn Nicolas Gombert er sagður hafa verið nemandi Josquins og samdi m.a. áhrifaríkt harmljóð við lát meist- arans. Hann var um árabil mikils metinn söngvari í kapellu Karls V. keisara, en fræg- ur varð hann að endemum þegar hann var fundinn sekur um að hafa misnotað kór- dreng og var dæmdur til að vera galeiðu- þræll í hegningarskyni. Átta radda mótettan Lugebat David Absalon er eignuð Josquin í óáreiðanlegri heimild frá 1564, en Gombert þykir líklegri höfundur. Verkið er svokallað „contrafactum“, þ.e. tvær sjálfstæðar eldri tónsmíðar hafa verið „endurunnar“ og nýr texti felldur að þeim. Þegar maður stendur frammi fyrir slíku meistaraverki sem Luge- bat David Absalon óneitanlega er, fyllist maður furðu yfir því að verkið skuli upphaflega hvorki hafa verið hugsað sem ein heild, né tónlistin samin við þennan texta. Tónlist Gomberts skiptist nokkuð í tvennt. Annars vegar er þykkur og hljómmikill átta radda kontrapunktur, þar sem raddirnar eru allar sjálf- stæðar og hverfast hver um aðra. Þeir þættir textans þar sem Davíð talar í beinni ræðu mynda áhrifamikla andstæðu. Þá skiptir Gombert hópnum í tvo kóra, fjóra á móti fjórum, sem kallast á með innilegum hendingum sem minna á ein- faldari veraldlega tónlist 16. ald- arinnar. Tomás Luis da Victoria er óumdeilanlega mesta end- urreisnartónskáld Spánverja. Eftir að hafa eytt tveimur ára- tugum sem söngvari og tónskáld í Rómarborg sneri hann aftur til Spánar 1587 sem sérlegt hirð- tónskáld Maríu, systur Filippus- ar Spánarkonungs, en bæði voru þau börn Karls V. keisara, vinnuveitanda Gomberts. Kon- ungsættir endurreisnarinnar tengdust flóknum böndum og hið sama má segja um tón- skáldin sem voru í þjónustu þeirra. Frægasta verk Victoria er Sálumessa hans frá 1605, samin við andlát Maríu Spán- arprinsessu. Verkið er dökkt og tjáningin persónuleg, eins og heyra má í útfararmót- ettunni Versa est in luctum. Hún er samin fyrir sex sjálfstæðar raddir, sem hreyfast allar fremur hægt, þannig að hljómaskiptin hafa á sér voldugan og tignarlegan blæ. Áhrifin eru einstök þegar háspenntar hend- ingar söngvaranna breytast í örvænting- arfull hróp. Tónsetning orðanna „dagar mín- ir eru einskis nýtir“ er eitt harmþrungnasta ákall sem fest hefur verið á blað. Harmljóð kaþólikkans Sextánda öldin var umbrotaskeið í trúmálum jafnt á Bretlandseyjum sem annars staðar í Evrópu. Á valdatíma Elísabetar I. voru hörð viðurlög við því ef upp komst um messuhald að kaþólskum sið. Slíkt gat varðað áralangri fangelsisvist, útlegð eða jafnvel dauða. Helstu tónskáld Elísabetartímans voru kaþ- ólikkarnir Thomas Tallis og William Byrd, og er talið að flest verka þeirra við latneska texta, þ. á m. Infelix ego þess síðarnefnda, séu samin til flutnings við leynilegar messu- gjörðir kaþólikka. Textar sem tjá áhyggjur, kvíða og ofsóknir virðast hafa verið báðum sérlega hugleiknir og virðast þeir þannig hafa fengið útrás fyrir hugrenningar sem tengdust vandasamri stöðu þeirra sem kaþ- ólikka í þjónustu Elísabetar drottningar. Í Infelix ego tónsetur Byrd ljóð ítalska svartmunksins Girolamo Savonarola, sem leiddi byltingu Flórensbúa gegn spilltri Me- dici-ættinni árið 1494 og var við völd þar í fjögur ár. Að lokum fór þó svo að Savon- arola var hengdur og lík hans brennt á báli á torginu fyrir framan stjórnarhöllina Pa- lazzo Vecchio. Sagt er að Savonarola hafi ort hugleiðinguna um 51. Davíðssálm meðan hann beið aftökunnar í klefa sínum. Tónsmíð Byrds skiptist í þrjá hluta og er sérlega dramatísk og tjáningarrík. Í upphafi textans er skáldið í fullkomnu reiðileysi og spyr með örvæntingu hvert hægt sé að snúa sér. Þeg- ar líður á verkið kemst Savonarola að þeirri niðurstöðu að ekkert geti komið sér til bjargar nema guðleg miskunn. Þá er eins og birti til í tónlistinni og sópranhendingarnar fara upp í hæstu hæðir, líkt og þær séu að teygja sig til himins. Lokaákallið, þar sem skáldið hrópar á miskunn í hinsta sinn („mi- sericordiam tuam“) er einstakur endir á einu viðamesta einþáttungsverki sem Byrd samdi. Oft er sagt að endurreisnartónskáldin hafi samið bestu tónverk sín við harmræna texta. Í það minnsta varð sagan af Absalon og dauða hans kveikjan að ótal meistaraverkum sem enn þykja með því stórfenglegasta sem varðveist hefur frá endurreisnartímanum. Syrgjandi faðirinn grætur, hvíslar, biður, hrópar – allt í haganlega samsettum tónavef fornra meistara sem vakna til lífs í Skálholti klukkan 15 í dag. Absalon, sonur minn! Í dag flytur Kammerkórinn Carmina efnis- skrá í Skálholtskirkju með verkum sem tengjast frásögn Biblíunnar af Davíð konungi og Absalon syni hans. Tónverkin eru eftir endurreisnarmeistara á borð við Josquin, Byrd og Victoria og flest eru nú flutt á Ís- landi í fyrsta sinn. Eftir Árna Heimi Ingólfsson arniheimir@lhi.is Absalon Í Síðari Samúelsbók segir svo frá Absalon, syni Davíðs konungs: „Í öllum Ísrael var enginn maður eins fríður og Absa- lon, og fór mikið orð af því. Frá hvirfli til ilja voru engin lýti á honum.“ Myndin er eftir Chagall. Höfundur er dósent í tónlistarfræði við Listaháskóla Ís- lands og listrænn stjórnandi Kammerkórsins Carminu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.