Lesbók Morgunblaðsins - 01.07.2006, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 01.07.2006, Blaðsíða 13
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 1. júlí 2006 | 13 Stúlknatríóið frá Brooklyn, Slea-ter Kinney, hefur gefið út þá yf- irlýsingu á heimasíðu sinni að sveit- in sé hætt störfum í bili. Sleater Kinney, sem spilaði nýverið á Reykjavík Tropic-hátíðinni, kom fram á sjónarsviðið fyrir um ellefu árum síðan og hefur sent frá sér sjö plötur á þeim tíma. Þá er allt útlit fyrir að sveitin muni halda sína síðustu tónleika í sumar á Lollapalooza-tónlistarhátíðinni í Chicago. Tónlist Sleater Kinney hefur gjarnan verið flokkuð undir indí- rokksenuna en sveitin er skipuð þeim Corin Tucker og Carrie Brownstein, sem spila báðar á gítar, og Janet Weiss sem lemur húðir. Þær tvær fyrrnefndu stofnuðu bandið árið 1995 en Janet Weiss gekk svo til liðs við þær tveimur ár- um síðar. Enginn bassaleikari spilar með þeim en aftur á móti spilar Cor- in Tucker á barítóngítar sem oft gegnir hlutverki bassagítarsins og jafnframt stillir Carrie sinn gítar hálftóni neðar. Í yfirlýsingu þeirra kemur fram að ákvörðunin hafi verið tekin í sátt allra hljómsveitameðlima og þær þakka öllum þeim sem hafa hjálpað bandinu í gegnum árin. Það er því ljóst að þeir sem sáu þríeykið spila á NASA á Reykjavík Tropic voru jafnframt á einum af þeirra síðustu tónleikum.    Kanadíska hljómsveitin ArcadeFire, sem vakti heimsathygli fyrir frumburðinn Funeral, hefur núna lokið upptökum á fimmtán nýj- um lögum sem munu fara á vænt- anlega hljómplötu sveitarinnar. Win Butler, söngvari sveitarinnar, hefur jafnframt lýst því yfir að stefnt sé að því að fá aðstoð sinfóníuhljómsveit- arinnar í Búdapest í nokkrum lög- um. Upptökur hafa farið fram í heimaborg þeirra, Montreal, í kirkju sem þau hafa innréttað sem hljóð- ver. Hljóðheimur Arcade Fire mun víst stækka enn á þessari plötu og nefnir Butler meðal annars gríð- arlega stórt pípuorgel sem notað er í tveimur lögum.    Ævi tónlistarmannsins JeffBuckley er efniviður vænt- anlegrar kvikmyndar sem leikstjór- inn Brian Jun hefur tekið að sér að gera. Stuðst verður við ævi- sögu Jeff Buck- ley sem móðir hans, Mary Gui- bert, hefur verið að vinna að. Hún segist hafa ákveðið að taka þátt í gerð kvikmyndarinnar um son sinn af ótta við að Hollywood myndi ekki gera viðfangsefninu nægilega góð skil. Fréttir herma að myndin muni að miklu leyti fjalla um sam- band tónlistarmannsins við föður sinn, Tim Buckley, sem einnig var tónlistarmaður en hann lést árið 1975. Eins og kunnugt er lést Jeff Buckley þrítugur að aldri þegar hann drukknaði í kvöldsundlaug- arferð árið 1997. Ekki liggur fyrir hver mun leika söngvarann ang- urværa í kvikmyndinni. Arcade Fire Sleater-Kinney Jeff Buckley Erlend tónlist Skandínavíska svartþungarokkið hefurlöngum verið mönnum aðhlátursefni, ogþað réttilega í mörgum tilfellum. Ekki erannað hægt en að brosa í kampinn yfir ýktri búninga- og ímyndarvinnu margra sveit- anna, þar sem duflað er við dökkar hliðar tilver- unnar. Útkoman er oft og tíð- um einkar kómísk, og oft er maður ekki viss hvort menn taka sig grafalvarlega eða eru skellihlæjandi á bak við lík- farðann eins og það heitir víst („corpsepaint“). Hitt ber á að líta að svartþungarokkið hefur gefið af sér margar af ævintýralegustu og frum- legustu þungarokksplötum síðustu ára, stað- reynd sem of oft er hulin vegna trúðsláta tónlist- armannanna. Norska sveitin Immortal var lengi vel fremst í flokki þessarar framsóknar en sveit- ina þraut örendi sumarið 2003 – ári eftir að hafa gefið út meistaraverk sitt, Sons of Northern Darkness. Nú myndu margir vilja tefla fram „hreinna“ svartþungarokki á borð við það sem er að finna á plötunum Pure Holocaust (1993) og Battles in the North (1995). En fyrir margar sakir toppuðu Im- mortal sig á svanasöngnum. Eftir að leiðtogi sveitarinnar, Abbath, skipti alfarið yfir á gítar (frá og með At the Heart of Winter, 1999) breytt- ist tónlist Immortal; úr hefðbundnu og hörðu svartþungarokki í melódískari gerð þessa sama forms. Lögin urðu lengri og epískari og tónlistin sem kom út úr þessum umskiptum er frábær. Segja má að Abbath dragi nokkurn veginn saman sögu Immortal á plötunni. Hann spilar út öllum trompunum, líkt og hann hafi verið búinn að ákveða að þessi plata yrði hin síðasta. Þannig er frábærum keyrslulögum teflt fram í byrjun, „One By One“ og titillaginu, „Sons of Northern Darkness“. Abbath er algjör snillingur í að raða saman gítarriffum á óvæntan og frumlegan hátt, kaflaskiptingar í lögunum lúta oftast undarlegum reglum og útkoman oft stórmerkileg. Þannig beitir hann einslags „hring“-aðferð í titillaginu þar sem byrjað er á ákveðnu stefi, í kjölfar þess er svo farið víða um hljómavelli þar til að endað er á byrjunarstefinu og laginu lokað með því. Áhrifin af þessari aðferð eru stórkostleg. Hægu og stórbrotnu lögin gefa hröðu lögunum þá ekk- ert eftir. „Tyrants“ er líklega besta lag þeirrar gerðar sem Abbath hefur samið, dramatískt og verður ægifallegt er á líður – hvernig það dragn- ast einhvern áfram með mikilli reisn. Lögin átta eru reyndar hvert á sinn hátt meistaraverk, það er ekki snöggur blettur á þessari mergjuðu plötu, sem er glæsileg varða um eitt besta þungarokks- band sem tíundi áratugurinn gaf af sér. Ískalt meistarastykki Poppklassík Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is T il að fá góða innsýn í hvernig pönkið varð að síðpönki er óvitlaust að festa kaup á fyrstu þremur plötum Wire. Reyndar var sveitin þegar komin á fleygiferð út úr þriggja gripa form- inu á fyrstu plötu sinni, Pink Flag (1977). Lög sem telja má til hefðbundins, adr- enalínlegins pönkrokks, eins og „12XU“ og „Mr. Suit“, standa þar við hlið sértækari smíða á borð við titillagið „Pink Flag“ og „Reuters“, sem er fyrsta lag skífunnar. Leitun er að flottara upphafslagi plötu, sá list- ræni tónn sem átti eftir að verða leiðarstef sveitarinnar er þar glæsilega sleginn. Meðlimir Wire vissu hvað þeir vildu og vissu hvað þeir voru að gera, allir utan einn voru þeir fyrrum listnemar og endurspeglaði tónlistin þann bakgrunn. Lögin voru búin til og sett fram sem listaverk – þetta snerist ekki um að hækka gítarinn í botn, gera „eitthvað“ og storka kerfinu. Það er t.a.m. merkilegt að heyra hvernig lag eins og „Field day for the Sundays“ fer algerlega á svig við viðteknar reglur um vers, brýr og viðlög. Það er allt í skralli í þeim efnum og svo hættir lagið skyndilega þannig að hlustandinn hugsar ósjálfrátt: „Bíddu, vantar ekki eitthvað?“ Í Wire voru eins sannir framúrstefnu- og bylting- armenn og þeir gerast. „Við komumst fljótlega að því að okkur langaði alls ekki að gera það sama og hinar sveitirnar voru að gera,“ sagði Colin Newman, söngvari og gít- arleikari Wire, í viðtali við Morgunblaðið í júlí 2000. Þá lék sveitin, með alla fjóra upprunalega meðlimi innanborðs, á All Tomorrows Parties-tónlistarhá- tíðinni en þar var viðtalið tekið. „Eftir að sú ákvörðun var tekin fóru hugmyndirnar að streyma fram, nýjar áherslur, nýjar nálganir við hlutina. Við þetta fengum við það orð á okkur að vera sífellt að breytast. Og við fundum að það væri alls ekki svo slæmt að vera þekktur fyrir svoleiðis hluti.“ Endursköpun … Síðasta platan í hinni heilögu þrenningu, 154 (1979), inniheldur þannig eitthvað sem er fyrir löngu komið úr pönkham. Wire tókst ætl- unarverkið, að endurskapa rokkið samkvæmt sín- um hugmyndum. Þar má finna stór, dramatísk „verk“ eins og „Map Ref. 41°N 93°W“ og „A Touch- ing Display“, hið fyrra ofurmelódískt, en hið seinna leysist á endanum upp í mikinn óhljóðagjörning. Hvert og eitt lag sem 154 prýðir hefur eitthvað til að bera, en ég verð sérstaklega að nefna „The Other Window“ sem framúrskarandi dæmi um hvert sveitin var komin á þessum tímapunkti, lagið er hin fullkomna „avant garde“-poppsmíð. Þá er merkilegt að heyra lögin á sjötommunni sem fylgdi frítt með fyrstu útgáfum af 154. Þar eru fjögur lög, eitt eftir hvern meðlim. Á þessari plötu er að finna hreina umhverfða tónlist í bland við örgustu tilraunastarfsemi. Þetta er eitthvað sem kallar óneitanlega fram svipaðar æfingar Pink Flo- yd á Ummagumma en þess má geta að sá er tryggði Wire samning við Harvest fyrirtækið, sem gaf út fyrstu þrjár plöturnar og meðfylgjandi smá- skífur, var Norman nokkur Smith. Hann var upp- tökustjóri Pink Floyd og Bítlanna m.a. en Pink Floyd gaf út undir merkjum Harvest á áttunda áratugnum ásamt fjölda annarra framsækinna rokksveita. 154 er meistaraverk Wire. Ári fyrr kom Chairs Missing út, en hún brúar bil fyrstu plötunnar og 154. Rokkið er tekið að afbyggjast hægt og örugg- lega er hér er komið sögu, eins og heyra má í „Mercy“, „Practice makes Perfect“ og sér í lagi í „Heartbeat“. Það gleymist stundum í umræðum um Wire og hið mikla listræna gildi hennar að frá þeim komu einnig hörkupopplög, eiginleiki sem lýsir sér best í hinu magnaða og algerlega ómót- stæðilega „Outdoor Miner“ sem er af þessari sömu plötu (kom einnig út á smáskífu í janúar 1979). Einungis Bítlarnir áttu sér jafnmerka þróun og má segja að þetta þriggja ára tímabil Wire sé eins- konar samþjappaður Bítlaferill – bara aðeins hrað- ari og styttri líkt og fyrstu pönklögin voru. Áhrif frá Wire hafa ratað inn í tónlist sam- tímasveita eins og Franz Ferdinand, Bloc Party, Maximo Park, Futureheads o.s.frv. Í raun á öll þessi ný-nýbylgja mikið undir hljóðheimi Wire. Andi Wire hefur reyndar svifið yfir um allnokkurt skeið, bretarokksveitir eins og Blur og Elastica drógu einnig sitthvað úr sarpi sveitarinnar. Eins og oft vill verða með nafntogaða áhrifavalda þá seldi Wire lítið sem ekkert af þessum fyrstu þrem- ur plötum sínum og hvað þá að fólk í dag hafi hlust- að á sjálfa tónlistina, þó að það sé alltaf að lesa um hana. Smekkvísir dagsins í dag, Pitchfork, er nýbúinn að úrskurða um ævarandi gildi áðurnefndra platna með því að gefa fyrstu tveimur plötunum 10.0 í ein- kunn og þeirri síðustu 9.1 (líkast til mistök, 154 á að sjálfsögðu að fá 11.0). … og endurútgáfa Endurútgáfur á þessum hornsteinum hafa því mið- ur verið nokkuð ruglingslegar. Plöturnar hafa komið út nokkrum sinnum á geisladiskum, með mismunandi hljómi, stundum með aukalögum og stundum ekki. Þessar nýjustu útgáfur innihalda engin aukalög, en Wire gaf út slatta af smáskífum sem ekki rötuðu inn á breiðskífurnar sem hefur verið hægt að nálgast á fyrri endurútgáfum. Þetta er spurning um hverju fólk vill ná fram, hvað nýj- ustu endurútgáfurnar varðar er því lýst yfir að ætl- unin sé að stilla plötunum fram eins og þeim var upprunalega ætlað að vera. Aukalög hafa hins veg- ar lengi vel verið álitin þjónusta við kaupendur og líka ákveðin beita, en sumir eru að kaupa plötuna aftur og þurfa því eitthvað gúmmelaði til að rétt- læta útgjöldin. Mér finnst þetta hálfpartinn synd, því áðurnefnd sjötomma hefur ekki verið sett með 154 t.d. (menn hefðu átt að sjá sóma sinn í því að framleiða 3. diskinn og stinga honum inn í hulstr- ið). Kaupendur geta þá hæglega forritað afspil- unina þannig að þeir njóti upprunalegu plötunnar án þess að aukalög taki að glymja eftir síðasta lag. Meðlimir Wire eru að endurútgefa plöturnar sjálfir í þetta sinnið, á merki sínu Pinkflag. Plöt- urnar koma einnig út sem partur af boxinu WIRE: 1977–1979. Sextíu síðna bæklingur fylgir auk tveggja aukadiska, Live at the Roxy, London – Ap- ril 1st & 2nd 1977 og Live at CBGB Theatre, New York – July 18th 1978. Plöturnar er einungis hægt að nálgast í gegnum vefbúðina posteverything- .com. Er það ekki yndislegt? Víruð þrenna Engin hinna upprunalegu síðpönksveita náði jafnglæstum árangri og breska sveitin Wire sem þróaði sjálfa sig á ljóshraða á árabilinu ’77 til ’79. Þrjár fyrstu plöturnar voru endurútgefnar fyrir stuttu, bæði einar og sér en einnig saman í kassa. Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Wire Andi Wire hefur svifið yfir um allnokkurt skeið, bretarokkssveitir eins og Blur og Elastica drógu einnig sitthvað úr sarpi sveitarinnar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.