Morgunblaðið - 31.12.2006, Page 2
2 SUNNUDAGUR 31. DESEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
M
eiri óvissa er í íslenzkum
stjórnmálum um þessi áramót
en oft áður. Það er allsendis
óvíst að ríkisstjórnin, sem nú
hefur haldið velli í bráðum
tólf ár, verði áfram við völd eftir kosningar á
nýja árinu. Hvort stjórnin lifir eða deyr, fer
ekki sízt eftir gengi Framsóknarflokksins. Ár-
ið, sem senn er á enda, hefur ekki verið gott
fyrir minni stjórnarflokkinn.
Vont ár hjá Framsókn
Framsóknarflokkurinn fór illa út úr sveit-
arstjórnarkosningunum, sem haldnar voru í
maí, fékk aðeins tæp 12% atkvæða þar sem
flokkurinn bauð fram. Það er nærri helmingi
minna fylgi en í kosningunum fjórum árum
áður og mun minna en Framsókn fékk í síð-
ustu þingkosningum, en þá kusu tæplega 18%
kjósenda flokkinn. Í framhaldi af þessu varð
mikil uppstokkun, bæði í flokknum og ríkis-
stjórninni. Halldór Ásgrímsson ákvað að axla
ábyrgð á kosningaósigrinum og sagði af sér
bæði embætti flokksformanns og forsætisráð-
herra. Halldór hafði tæpum tveimur árum áð-
ur tekið við forsætisráðherraembættinu sam-
kvæmt persónulegu samkomulagi við Davíð
Oddsson. Það samkomulag náði ekki til ann-
arra framsóknarmanna, þannig að stjórnar-
forystan gekk til baka til Sjálfstæðisflokksins
og Geir H. Haarde varð forsætisráðherra. Um
leið varð talsverð breyting á ráðherraliði
Framsóknarflokksins, sem fékk heldur fersk-
ari svip með þremur nýjum ráðherrum. Einn
þeirra er Jón Sigurðsson, iðnaðar- og við-
skiptaráðherra, sem jafnframt var kjörinn for-
maður flokksins á flokksþingi í sumar.
Þrátt fyrir þessar breytingar á forystu
Framsóknarflokksins hefur honum ekki tekizt
að ná betur til þjóðarinnar. Þegar fylgiskann-
anir Capacent eru skoðaðar, er Framsóknar-
flokkurinn með ósköp svipað fylgi allt árið, 8–
10%. Fylgið er í lægri kantinum seinni part
ársins ef eitthvað er.
Sennilega réð afstaða almennings til virkj-
ana og umhverfisverndar miklu um ósigur
Framsóknarflokksins í sveitarstjórnarkosn-
ingunum. Flokkurinn hefur verið einn helzti
málsvari stóriðjustefnunnar og losnar ekki við
þá ímynd á meðan formaður hans situr í iðn-
aðar- og viðskiptaráðuneytinu, þótt hann
keppist við að reyna að sannfæra kjósendur
um að ekki sé lengur til neitt sem heitir stór-
iðjustefna. Andstæðingar virkjana og stóriðju,
vinstri grænir og frjálslyndir, komu hins veg-
ar vel út úr kosningunum. Stóriðju- og virkj-
anamálin verða án vafa eitt af kosningamál-
unum fyrir þingkosningarnar í vor og það
mun varla hjálpa Framsóknarflokknum.
Sterk staða Sjálfstæðisflokks
Mestan part ársins hefur ríkisstjórnin notið
stuðnings meirihluta kjósenda í könnunum og
sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna sömu-
leiðis verið rétt um eða yfir 50%. Um síðar-
nefndu staðreyndina ræður sterk staða Sjálf-
stæðisflokksins mestu; flokkurinn hefur
mælzt með yfir 40% fylgi mestallt árið. Flokk-
urinn bætti lítillega við sig í sveitarstjórnar-
kosningunum og fékk 41,6% atkvæða. Sjálf-
stæðismenn vonast því til að endurreisa fylgi
flokksins eftir slaka útkomu í síðustu kosn-
ingum. Staða Geirs H. Haarde í embætti for-
sætisráðherra er sömuleiðis sterk; hann
mælist vinsælasti stjórnmálamaður landsins
og vinsældir hans jukust eftir að hann tók við
embætti forsætisráðherra.
Ekki fer á milli mála að hin nýja forysta
Framsóknarflokksins nýtur trausts í Sjálf-
stæðisflokknum og fullur vilji er til að halda
áfram stjórnarsamstarfi fjögur ár enn. Hins
vegar er fylgi Framsóknarflokksins svo veikt
að innan Sjálfstæðisflokksins eru menn farnir
að gerast áhyggjufullir og gjóa augunum ann-
að í leit að hugsanlegum samstarfsflokki eftir
kosningar. Sjálfstæðismenn vilja mynda
tveggja flokka stjórnir og það eru því vinstri
grænir eða Samfylkingin, sem koma til greina.
Innan stjórnarandstöðunnar er hins vegar
óvenjulega rík samstaða um að reyna að
mynda stjórn í sameiningu eftir kosningar,
missi ríkisstjórnin meirihluta sinn, og gefa
hvorugum núverandi stjórnarflokka tækifæri
til að sitja áfram við völd. Stjórnarandstaðan
hefur sýnt meiri samstöðu en yfirleitt áður
eru dæmi um, m.a. með sameiginlegum til-
löguflutningi og sameiginlegum blaðamanna-
fundum um þingmál. Það breytir ekki því að
einkum og sér í lagi á milli Samfylkingar og
Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs eru
á köflum litlir kærleikar og í báðum flokkum
heyrast raddir um að það kynni að vera betra
að vinna með Sjálfstæðisflokknum eftir kosn-
ingar.
Samfylking nær sér ekki á strik
Fylgi Samfylkingarinnar komst fyrri part
ársins í svipað hlutfall og flokkurinn fékk í síð-
ustu þingkosningum, rúmlega 30%. Seinni
hluta ársins hefur það hins vegar dalað og hef-
ur lengst af verið 25%, sem er augljóslega
undir væntingum samfylkingarfólks. Flokk-
urinn hélt þó sjó í sveitarstjórnarkosning-
unum; fékk rétt um 30% atkvæða, sem er
rúmu prósentustigi minna en flokkurinn fékk
fjórum árum fyrr.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem miklar
vonir voru bundnar við er hún tók við embætti
flokksformanns, hefur ekki skilað flokknum
þeim byr í seglin sem vonazt var til. Hennar
helzta vandamál virðist vera að fólk skilur
ekki ræðurnar hennar, eins og ræðan um
vantrú þjóðarinnar á þingflokknum var ágætt
dæmi um. Fyrr á ferlinum fóru hæfileikar
Ingibjargar sem stjórnmálamanns ekki á milli
mála, en æ fleiri samfylkingarmenn gerast nú
óþreyjufullir eftir því að formaðurinn sýni á
ný gamla takta.
Samfylkingin virðist í raun enn ekki vera
fullmótaður flokkur með skýra stefnu. Það
kom vel í ljós eftir að flokkurinn reyndi að
bregðast við velgengni vinstri grænna með því
að samþykkja sérstaka umhverfisstefnu. Síð-
an hafa bæði alþingismenn og sveitarstjórnar-
menn flokksins hvað eftir annað gengið gegn
þeirri stefnu opinberlega, þegar þeir hafa lýst
yfir stuðningi við ný álver og virkjanir og það
sem fyrst.
Umhverfismálin hjálpa VG
Vinstri grænir njóta þess sjálfsagt að vera
stefnufastur prinsippflokkur í stjórnarand-
stöðu, þótt efast megi um að fylgi flokksins
síðustu mánuðina skýrist af því að allir, sem
lýsa við hann stuðningi í skoðanakönnunum,
séu sammála stefnu hans, t.d. í efnahags-
málum, í einu og öllu. Vinstri grænir hafa allt
árið mælzt með meira en tvöfalt kjörfylgi sitt í
kosningunum 2003 (sem var 8,8%) og seinni-
part ársins hafa þeir notið stuðnings um 20%
kjósenda. Áherzla flokksins á umhverfismál,
þar sem honum hefur tekizt að móta sér
nokkra sérstöðu, ræður vafalaust mestu um
þetta. Enda má sjá merki um að forysta VG
reyni nú að leggja áherzlu á „grænu“ stefnuna
umfram „vinstrið“. Og aðrir flokkar eru sömu-
leiðis í ákafri leit að umhverfisstefnu, sem fell-
ur í kramið hjá kjósendum. Frambjóðendur í
prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í haust voru
t.d. allir meira og minna endurbornir um-
hverfissinnar, af lestri prófkjörsbæklinga að
dæma.
Í sveitarstjórnarkosningunum fékk VG
mjög jákvæða vísbendingu um líklegt gengi í
þingkosningunum í vor; flokkurinn tvöfaldaði
fylgi sitt í þeim sveitarfélögum, þar sem hann
bauð fram og fékk 12,6% fylgi.
Áður eru dæmi um að stjórnarandstöðu-
flokkur, sem stillir sér upp eins langt frá póli-
tík stjórnarflokkanna og mögulegt er, rjúki
upp í skoðanakönnunum en dali á ný þegar
nær dregur kosningum. Niðurstaðan í sveit-
arstjórnarkosningunum er þess vegna
kannski betri forspá um gengi VG í kosning-
unum í vor en hinar háu tölur, sem hafa sézt í
skoðanakönnunum seinnipart ársins. Útkoma
flokksins fer þó talsvert eftir því að hversu
miklu leyti honum tekst að halda umhverfis-
málunum í umræðunni. Stöðugar fréttir af
virkjana- og stóriðjuáformum hjálpa VG í því
efni.
Frjálslyndir og útlendingarnir
Frjálslyndi flokkurinn bætti við sig í sveit-
arstjórnarkosningunum og fékk rúmlega 9%
fylgi í þeim sveitarfélögum, þar sem hann
bauð fram. Þau voru hins vegar svo fá, að sú
tala hefur lítið forspárgildi fyrir úrslit þing-
kosninga. Í skoðanakönnunum tók flokkurinn
hins vegar athyglisverðan kipp undir lok árs-
ins. Eftir að hafa búið við harla stöðugt 3–4%
fylgi allt árið, rauk flokkurinn skyndilega upp
í 11% fylgi í síðustu könnun Capacent, sem
greint hefur verið frá á árinu, í nóvember.
Skýringin á því er án efa útspil flokksins í inn-
flytjendamálum. Þessi sjö prósentustiga
fylgisaukning frjálslyndra virtist aðallega
bitna á Sjálfstæðisflokknum, sem dalaði um
sex prósentustig í sömu könnun; fór úr 43%
fylgi í 37%. Þó er auðvitað ekkert hægt að
fullyrða um að flóknari fylgistilfærslur liggi
ekki þar að baki.
Hins vegar er ekki sennilegt að þetta útspil
eitt og sér skili frjálslyndum verulegri fylgis-
aukningu í kosningunum. Til þess kemur það
bæði of snemma og er líka of augljós og
gegnsæ atkvæðaveiðataktík. Það þarf ekki
annað en að skoða ummæli varaformanns
flokksins fyrr og nú til að sjá í gegnum stefnu-
breytinguna, sem ljóslega er ætluð til að róa á
sömu mið og t.d. Framfaraflokkurinn í Noregi
gerir, án þess að djúp sannfæring fylgi. Og
hvernig ætlar formaður flokksins, sem er gift-
ur pólskum innflytjanda, að fara að því að ala
á andúð á útlendingum með sannfærandi
hætti?
Fremur en að frjálslyndir hafi hitt á dulda
æð útlendingahaturs með þjóðinni, er senni-
legt að ýmsum hafi þótt tímabært að gefa mál-
efnum innflytjenda, ekki sízt hvernig þeim er
hjálpað að aðlagast samfélaginu, meiri gaum
en verið hefur. Það virðast allir flokkar reiðu-
búnir að gera og þegar nær dregur kosn-
ingum verður sérstaða frjálslyndra í því efni
sennilega lítil.
Fleiri mál en nefnd hafa verið hér á undan
munu auðvitað hafa áhrif á það hvort ríkis-
stjórnin heldur meirihluta sínum á þingi. Þró-
un efnahagsmálanna skiptir miklu máli. Áföll
á borð við það, sem fólst í skýrslu Standard &
Poor’s um lánshæfi ríkissjóðs, ýta auðvitað
undir þá tilfinningu að ríkisstjórnin standi sig
ekki í hagstjórninni, þótt þorri vinnandi fólks
hafi það betra nú en nokkru sinni fyrr. Upp-
lifun kjósenda á hag aldraðra og öryrkja og
hvernig ríkisstjórnin stendur sig í að bæta
kjör þeirra getur sömuleiðis haft veruleg áhrif
á úrslit kosninganna. Ef sú lækkun á mat-
vælaverði, sem ríkisstjórnin hefur boðað,
gengur ekki eftir, mun stjórnarflokkunum
verða kennt um það, fremur en kaupmönnum.
Svipuð staða og í borgarstjórn?
Þótt stjórnarandstaðan eygi nú möguleika á
að ljúka hinu blágræna tímabili annarrar af
tveimur langlífustu ríkisstjórnum á Íslandi,
má ekki gleyma því að jafnvel þótt stjórnar-
andstöðuflokkarnir fái meirihluta á þingi,
verður Sjálfstæðisflokkurinn að líkindum í
lykilstöðu eftir kosningar. Svipuð staða getur
komið upp og í borgarstjórn Reykjavíkur eftir
kosningarnar í vor, sérstaklega ef Vinstri
grænir og Samfylkingin ná ekki meirihluta
þingmanna í sameiningu, sem verður að telj-
ast langsóttur möguleiki.
Þótt stjórnarandstöðuflokkarnir setjist nið-
ur í því augnamiði að mynda vinstristjórn,
eiga sjálfstæðismenn alltaf möguleika á að
brjóta þær viðræður upp með því að nálgast
einn flokkanna og bjóða honum upp á betri
hlut í ríkisstjórn en stæði til boða í vinstri-
stjórnarsamstarfi. Í ljósi þeirrar öfundar og
togstreitu, sem augljóslega ríkir á milli
Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, gæti
þetta vel tekizt. Vinstri grænir hljóta enn að
velta því fyrir sér hvort þeir hefðu ekki átt að
taka bónorði sjálfstæðismanna eftir borg-
arstjórnarkosningarnar, í stað þess að telja
sig skuldbundna til að reyna vinstriviðræður
fyrst. Niðurstaðan varð sú að þeir misstu
embætti, völd og áhrif í hendur framsóknar-
manna. Vilja þeir að sú saga endurtaki sig?
Og vill Samfylkingin missa þannig af lestinni, í
ljósi þess hversu óskaplega mikið margir
flokksmenn þrá að komast í ríkisstjórn til að
sýna að flokkurinn sé traustsins verður og
„náttúrulegur ríkisstjórnarflokkur“ eins og
það er orðað?
Blágræna tímabilið á enda?
» Jafnvel þótt stjórnarandstöðuflokkarnir fái meirihluta áþingi, verður Sjálfstæðisflokkurinn að líkindum í lykilstöðu
eftir kosningar. Svipuð staða getur komið upp og í borgarstjórn
Reykjavíkur eftir kosningarnar í vor.
Stjórnmál
Ólafur Þ. Stephensen | olafur@mbl.is
Morgunblaðið/Kristinn
Stólaskipti Halldór Ásgrímsson, sem sagði óvænt af sér embætti forsætisráðherra eftir kosningaósigur Framsóknarflokksins, afhendir Geir H.
Haarde lyklavöld í Stjórnarráðinu. Vinsældir Geirs hafa aukizt í embætti, en Framsóknarflokkurinn nær sér ekki á strik undir nýrri forystu.