Morgunblaðið - 31.12.2006, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 31.12.2006, Blaðsíða 6
6 SUNNUDAGUR 31. DESEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ Vegir liggja til allra átta, á þeim verða skil; margra er þrautin þungra nátta að þjást og finna til og bíða þess að birti’ á ný og bleikur morgunn rísi. Þ etta textabrot Indriða G. Þorsteinssonar við lag Sig- fúsar Halldórssonar, sem samið var fyrir bráðum hálfri öld vegna kvik- myndarinnar 79 af stöðinni, og Ellý Vilhjálms gerði ódauðlegt í flutningi sínum, leitar af ein- hverjum ástæðum á hugann við áramót þegar útvíkkandi en vindasamt viðskiptalífið ber á góma. Vegirnir hafa sannarlega legið í allar áttir en útrásin hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Bankarnir fengu á sig brotsjói fyrri hluta ársins, eftir óvænta erlenda athygli, og þurftu að verjast fimlega þeim háværu gagnrýnis- röddum sem bárust frá erlend- um greiningardeildum og mats- fyrirtækjum. Gagnrýnin þótti ekki réttmæt í öllum tilvikum en bankarnir brugðust við nokkrum atriðum sem til sanns vegar mátti færa, m.a. miklum eignatengslum við önnur fyrirtæki. Af þeim sökum urðu nokkrar eignabreytingar á stórum fyrirtækjum, einna helst kring- um Kaupþing banka og Exista. Þá var sett af stað umfangsmikil kynn- ingarherferð erlendis, til að upplýsa grein- ingardeildir og aðra á fjármálamarkaði ytra um bankakerfið og aðra þætti íslensks efna- hagslífs. Slíkar kynningar fóru m.a. fram í London, New York, Kaupmannahöfn, Stokk- hólmi og Berlín. Rauða spjaldið á ríkið Þegar ágjöfin var hvað mest á bankana fyrr á árinu héldu þeir að sér höndum, minnkuðu sókn sína í lánsfé, en fóru af stað að nýju í haust er markaðurinn hafði róast og verið betur upplýstur. Ekki voru sömu vaxta- kjörin í boði og fyrir umrótið en bankarnir kvörtuðu ekki sáran. Þeim tókst að ljúka sinni endurfjármögnun fyrir árið 2007, þ.e. þau lán sem áttu þá að koma á gjalddaga. Að mestu var það fjármagn sótt í skuldabréf ut- an Evrópu, einkum í Bandaríkjunum, en einnig í Asíu. Um stórar fjárhæðir er að ræða, eða um 350 milljarðar króna hjá Kaup- þingi banka, um 240 milljarðar hjá Lands- bankanum og ríflega 230 milljarðar króna hjá Glitni. Ekki er fyrirséð að jafnmiklar upp- hæðir verði á gjalddaga árið 2008. En í því umhverfi sem bankarnir eru farnir að starfa í er einnig litið til fjármála íslenska ríkisins og stöðu þess. Meðal erlendra mats- fyrirtækja hefur gulu spjöldunum verið lyft. Bankarnir hafa brugðist við og hegðað sér á markaði miðað við aðstæður en ekki virðist hið sama hafa gerst hjá ríkinu, þar hefur „kosningavíxillinn“ verið opnaður og út- gjöldin að margra mati þanist óhóflega út. Enda fór svo að hið virta matsfyrirtæki Standard & Poor’s sendi ríkinu rauða spjald- ið í jólagjöf með lækkun á lánshæfiseinkunn ríkisins. Í sömu „jólasendingu“ fyrirtækisins til Íslands var heldur gleðilegri pakki til Glitnis, þar sem lánshæfiseinkunn bankans var staðfest óbreytt, en engu að síður er lækkunin hjá ríkinu talin geta haft áhrif til hins verra á lánakjör íslensku bankanna á næstu misserum. Þau áhrif virðast ekki enn komin fram en gerist það er hætt við að er- lendar gagnrýnisraddir fari að hljóma hátt á ný. Varla getur það talist heppileg eða eftir- sóknarverð staða, miðað við allt sem á undan er gengið. Hin hliðin á útrásinni Með hverju árinu á nýrri öld hefur íslensku útrásinni vaxið fiskur um hrygg, ekki aðeins hjá stóru viðskiptabönkunum heldur mörg- um stórum framleiðslu- og tæknifyrir- tækjum, sem og smærri fjármálafyrirtækjum er hafa t.d. aukið sókn sína í Austur-Evrópu. Þeim fjölgar stöðugt löndunum á jarðar- kringlunni sem íslensk fyrirtæki starfa í með beinum eða óbeinum hætti, og má finna ein- hverja starfsemi í flestum heimsálfum. Þegar öll starfsemin erlendis, sem Íslendingar koma að, er lögð saman er mannaflinn mun stærri en vinnumarkaðurinn hér á landi. Íslenskir athafnamenn eru því farnir að hugsa stórt og í raun er allur heimurinn und- ir. Þeir láta sér ekki duga fjárfestingar í ná- lægum höfnum heldur horfa enn lengra út yf- ir sjóndeildarhringinn. Í raun hefur landnám forfeðranna, hinna vösku víkinga, endurtekið sig meira en þúsund árum síðar – bara í breyttri mynd. Á árinu opnaði Glitnir útibú í Kína, fyrstur íslenskra banka, og fyrirtæki eins og Actavis hafa fært aukinn rekstur til Indlands, svo einhver dæmi séu tekin. Rétt er að halda því til haga hér að þessi sókn ís- lenskra fyrirtækja til Austurlanda fjær fellur ekki alls staðar vel í kramið. Þannig hefur verkalýðsforystan innan ASÍ haft uppi gagn- rýni á að Ísland spyrði sig við ríki þar sem laun eru í lágmarki og ýmis réttindi brotin. Skiljanlegt er að þessi gagnrýni sé höfð uppi, enda hefur það t.d. komið fram hjá Actavis að fyrirtækið sé með aukinni áherslu á lönd eins og Indland að draga úr framleiðslukostnaði sínum. Auknar tekjur erlendis Útrásin altalaða birtist okkur í einföldum hlutum á borð við dagatal Landsbankans fyr- ir árið 2007, þar sem starfsstöðvar bankans eru sýndar á heimskorti, alls 23 í 14 löndum. Fyrir þremur árum var bankinn aðeins til staðar í þremur löndum. Ekki ósvipuð út- víkkun hefur átt sér stað hjá hinum bönk- unum, en stór hluti tekna þeirra verður til á erlendum vettvangi. Kaupþing banki gnæfir þar yfir með yfir 60% allra sinna tekna af er- lendri starfsemi, ef tekið er mið af uppgjöri eftir þriðja ársfjórðung þessa árs. Hlutfallið hjá Landsbankanum er í kringum 50% og ná- lægt 40% hjá Glitni. Á árinu 2007 má reikna með að þessi hlutföll eigi eftir að hækka enn, á kostnað tekna af innlendri starfsemi. Þar hefur ákveðin mettun átt sér stað og bank- arnir sjá ekki mikil vaxtartækifæri hér á landi, þó að þeir ætli sér vafalítið að þjóna þeim markaði vel. Þannig sjá Lands- bankamenn fyrir sér að í 15–20% innri vexti næsta árs muni hlutfall erlendrar starfsemi í þeim vexti vera allt að 75%, ekki síst í Bret- landi þar sem innlán bankans hafa verið að aukast langt umfram væntingar. Innan Landsbankans er stefnt að frekari samhæf- ingu þeirra erlendu fjármálafyrirtækja sem bankinn hefur fjárfest í síðustu árin og ef- laust ekki langt í að nafn Landsbankans verði sett í öndvegi á erlendum vettvangi. Glitnir breytti sínu nafni á árinu úr Ís- landsbanka og þar má reikna með frekari vexti erlendis, einkum á Norðurlöndunum, og sömuleiðis má búast við tíðindum af fjár- mögnun bankans í erlendum orkugeira. Bankinn tekur þátt í orkuiðnaði í Kína með íslenskum fyrirtækjum og hefur verið að koma þekkingu sinni og reynslu á þessu sviði á framfæri í Bandaríkjunum og Evrópu. Þá er áfram lögð áhersla á þátttöku Glitnis í sjávarútvegsverkefnum víða um heim. Nú um áramótin varð einnig nafnbreyting hjá Kaupþingi banka, sem heldur áfram því lögformlega heiti en notast hér eftir við Kaupþing á innlendum vettvangi í stað KB banka áður. Breytingin er sögð liður í lang- tímaáætlun bankans um að hann starfi undir sama nafni hvar sem er í heiminum. Upp á enska tungu verður áfram talað um Kaup- thing Bank. Þessi stærsti banki landsins hef- ur nýlokið við mikla hlutafjáraukningu og því má vænta tíðinda af útlánaaukningu og ein- hverjum fjárfestingum á árinu 2007. Ekki kæmi á óvart að sjá yfirtöku á fjármálafyr- irtæki á meginlandi Evrópu eða Norðurlönd- unum. Orðrómur í þá veru hefur verið lang- lífur og ýmsar skemmtilegar kenningar á lofti, m.a. um banka í Austurríki, en sú fjár- festing þykir þó ólíkleg í stöðunni. Gróskan í fjármálalífinu á sér ekki aðeins stað innan stóru bankanna. Minni fjár- málafyrirtæki eru að hasla sér frekari völl hér á landi og erlendis, eins og Straumur-Burðarás, MP Fjárfest- ingarbanki, VBS fjárfestingar- banki og Icebank, og fróðlegt verður að fylgjast með nýstofn- uðum fjárfestingarbanka, Askar Capital, sem Karl Wernersson í Milestone stendur að ásamt systk- inum sínum og fleiri fjár- festum. Þá hafa íslenskir athafnamenn á borð við Jón Helga Guðmundsson verið að auka hluti sína í bönkum Eystrasaltsríkj- anna og Sovétríkjanna sálugu, án þess að það sé í daglegum fréttum. Evran og krónan Með aukinni erlendri starfsemi íslenskra fyr- irtækja hefur umræðan um tilverurétt íslensku krónunnar farið á nýtt flug. Meðal fræðimanna fær sú skoðun vaxandi fylgi að Íslendingar eigi að kasta krónunni og taka upp evru sem gjaldmiðil. Umræðan fór síðast af stað nú í árslok er Straumur-Burðarás tilkynnti að bankinn myndi nota evru frá ára- mótum í bókhaldi sínu og ársreikn- ingum, sem og að eigið fé yrði í evrum. Straumur er fyrsti bankinn til að stíga þetta skref og orðrómur hefur verið um að Kaupþing banki muni jafnvel gera slíkt hið sama. Forsvarsmenn bankans hafa ekki vilj- að tjá sig um þessi mál og mörgum þótt sú þögn æði áberandi, og gefi vísbendingar um að tíðinda sé jafnvel að vænta. Bankinn hefur að minnsta kosti stigið það skref að breyta um nafn, hvort sem það er ávísun á eitthvað meira. Nú er svo komið að af 25 félögum sem skráð eru á aðallista Kauphallar Íslands gera 11 upp sína reikninga í erlendum gjaldmiðli; evrum, sterlingspundum, dollurum og dönsk- um krónum. Athyglisvert verður að sjá hver þróunin verður á komandi ári. Taki fleiri bankar upp evruna er hætt við að þrýstingur á krónuna verði orðinn óbærilegur fyrir ís- lenskt efnahagslíf. Talandi um Kauphöllina þá hafa miklar breytingar átt sér stað þar á árinu. Al- þjóðavæðingin nær einnig til kauphallanna sem í auknum mæli hafa tekið upp samstarf og samvinnu sín í milli. Nú hefur Kauphöll Íslands gerst aðili að norrænu kauphöllinni, OMX, og mun það gefa erlendum sem inn- lendum fjárfestum aukna möguleika á að dreifa sínu fjárfestingasafni á komandi miss- erum. Hvað gerist árið 2007? Árið fram undan gæti orðið ekkert síður viðburðaríkt en fyrri ár í viðskiptalífinu. Beð- ið er eftir endanlegri niðurstöðu um framtíð Íbúðalánasjóðs, en aðild ríkisins að íbúða- lánamarkaði hefur verið meðal gagnrýn- isatriða í títtnefndum erlendum skýrslum. Ákveðin tregða hefur verið hjá stjórnvöldum við að sleppa hendinni af sjóðnum og leyfa markaðnum að ráða för. Óvíst er að nokkuð gerist í þessum málum fyrir þingkosningar í vor en Íbúðalánasjóður hefur undanfarið kynnt viðhorfskannanir sem sýnt hafa vel- vilja í garð sjóðsins meðal almennings, eitt- hvað sem áreiðanlega letur stjórnmálamenn til róttækra breytinga á sjóðnum. Bankarnir hafa haldið að sér höndum á árinu í stórum fjárfestingum og frekar reynt að losa um eignir en hitt. Á þessu ári má reikna með að bankarnir ráðist á ný í fjár- festingar erlendis eftir að hafa aukið lausa- fjárstöðu sína. Sömuleiðis verður áhugavert að fylgjast með fjárfestum á borð við Björg- ólf Thor Björgólfsson, Jón Ásgeir Jóhannes- son, Hannes Smárason og Pálma Haralds- son, sem hafa fullar hendur fjár eftir nýleg viðskipti er skiluðu þeim umtalsverðum hagnaði. Þeir þurfa ekki að bíða þess lengi að birti á ný og bleikur morgunn rísi. Nú þegar baða þeir sig í sviðsljósinu, þar sem sólin yfir þeim skín skært og virðist ekki ætla að lækka. Allur heimurinn undir »Upp á enska tungu verður áfram talað um Kaupthing Bank.Þessi stærsti banki landsins hefur nýlokið við mikla hlutafjár- aukningu og því má vænta tíðinda af útlánaaukningu og ein- hverjum fjárfestingum á árinu 2007. Ekki kæmi á óvart að sjá yfirtöku á fjármálafyrirtæki á meginlandi Evrópu eða Norðurlöndunum. Orðrómur í þá veru hefur verið langlífur og ýmsar skemmtilegar kenningar á lofti, m.a. um banka í Austurríki, en sú fjárfesting þykir þó ólíkleg í stöðunni. Viðskipti Björn Jóhann Björnsson | bjb@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.