Morgunblaðið - 31.12.2006, Qupperneq 16
16 SUNNUDAGUR 31. DESEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
ÁRIÐ 2006 verður sennilega lengi í
minnum haft hjá meðlimum Hjálp-
arsveitar skáta í Hveragerði. Um
miðjan síðasta dag ársins 2005 brann
húsnæði sveitarinnar og nánast allt
hafurtask í einni svipan þegar lítill
neisti í flugeldageymslu varð að
miklu báli með tilheyrandi spreng-
ingum og neistaflugi. Að sögn sjón-
arvotta skutust flugeldar sem
geymdir voru í húsinu út um allar
trissur og reykinn er lagði frá eld-
inum mátti greina víða á Suðurlands-
undirlendinu. Meðlimir sveitarinnar,
sem telja á þriðja tug, urðu fyrir
miklu tjóni, enda var húsnæðið annað
heimili þeirra og þar eyddu þeir
mestum frítíma sínum að sögn Lár-
usar Guðmundssonar, fyrrverandi
formanns hjálparsveitarinnar.
„Þarna brann okkar annað heimili og
nánast allur búnaður sveitarinnar
auk þess sem 31 árs saga sveit-
arinnar, gamlar fundargerðir, við-
urkenningar og myndir hurfu,“ segir
Lárus. Hann segir að gamlárskvöldið
sjálft hafi verið mjög sérstakt og það
gleymist seint. „Lítið var skotið upp
þetta kvöld auk þess sem brennunni
og áramótaballinu var frestað. Þegar
maður fór út og horfði í kringum sig
sá maður hvað fólkið var stjarft og
andlitin tóm.“ Að sögn Lárusar voru
björgunarsveitarmenn og bæjarbúar
allir einhuga um að sveitina yrði að
byggja upp á nýjan leik. Fyrstu daga
hins nýja árs hafi tæki og búnaður
farið að berast til Hveragerðis frá
björgunarsveitum í nágrenninu og
aðeins viku eftir brunann hafi sveitin
orðið útkallshæf. „Menn voru strax
ákveðnir í að halda áfram, við héldum
áfram að æfa af kappi og sinntum út-
köllum,“ segir Lárus.
Bjartsýnn á framtíð
sveitarinnar
Þrotlaus vinna fór í uppbyggingu
sveitarinnar næstu mánuðina og
menn þurftu sjálfir að leggja út fyrir
kaupum á grundvallarbúnaði, þar til
tryggingarnar fengust greiddar. Lár-
us segir að þrátt fyrir að ekki séu öll
kurl komin til grafar sé sveitin búin
að kaupa mikið magn af nýjum græj-
um; vélsleðum, talstöðvum og sjúkra-
búnaði. „Pressan hefur verið gífurleg
á okkur enda fer mikil vinna í það að
byggja svona lagað upp frá grunni,“
segir Lárus. „En stuðningurinn sem
við höfum fengið er ómetanlegur og
maður finnur fyrir honum hvar sem
er þegar nafn sveitarinnar ber á
góma,“ segir Lárus og nefnir sem
dæmi að sveitinni hafi borist mjög
veglegur styrkur frá Lionsklúbbi
Húsavíkur.
Hvað meðlimi björgunarsveit-
arinnar varðar segir Lárus hópinn
hafa eflst mikið og margir gamlir fé-
lagar sem hafi verið búnir að draga
sig í hlé hafi komið aftur og lagt sitt af
mörkum. „Þetta var mjög öflugur
hópur fyrir en hann er enn sterkari í
dag,“ segir Lárus. Sveitin hefur að-
hafst í bráðabirgðahúsnæði í ár en
reiknað er með því að næsta vor verði
nýtt hús risið á reitnum þar sem hið
gamla brann. Lárus telur því ekki
ástæðu til annars en að líta bjartsýnn
fram á veginn.
Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Lárus stendur hér í brunarústum
húsnæðis björgunarsveitarinnar.
31 árs saga hvarf
í einu vetfangi
Eftir Friðrik Ársælsson
fridrik@mbl.is
Lárus Guðmundsson
„Ég hugsa oft um þetta og þegar ég
lít til baka trúi ég því eiginlega ekki
að hann hafi næstum því verið dá-
inn,“ segir Marta Sigurjónsdóttir en
hún og Hermann Sigurgeirsson
eignuðust dreng á vormánuðum sem
fæddist með alvarlegan hjartagalla
og var vart hugað líf um tíma.
Drengurinn, sem hlaut nafnið Birk-
ir, fæddist í Vestmannaeyjum en að-
eins tæpum tveimur klukkutímum
eftir fæðinguna kom þangað lækna-
lið frá Reykjavík og flogið var með
Birki og foreldra hans á Landspít-
alann í Reykjavík þar sem hann
gekkst undir hjartaþræðingu. „Þeg-
ar allt þetta var að gerast gerðum
við okkur ekki grein fyrir ástandinu,
hversu alvarlegt þetta var í rauninni.
Það var einhvern veginn svo fjar-
lægt að hann ætti það á hættu að
deyja,“ segir Marta. Hún segir að
skjót viðbrögð lækna og heilbrigð-
isstarfsmanna hafi orðið til þess að
ekki fór verr. „Þeir björguðu ein-
faldlega lífi hans. Við vorum svo
heppin með allt, einhvern veginn
small allt saman,“ segir Marta.
Fljótlega eftir að upp komst um
hjartagallann var tekin ákvörðun
um að fljúga með Birki til Boston,
þar sem víxla átti æðunum á nýjan
leik. Eftir 10 langa daga í Boston var
talið að Birkir væri kominn á rétta
braut og fjölskyldan lagði af stað
heim á leið.
Upprennandi fótboltapeyi
Þegar Marta og Hermann komu
aftur til Eyja með Birki litla létu
Eyjamenn ekki á sér standa og tóku
á móti ferðalöngunum með mynd-
arbrag. „Við urðum heimsfræg í
Vestmannaeyjum og stuðningurinn
sem við fengum er ólýsanlegur,“
segir Marta. „Enn þann dag í dag
vindur fólk sér upp að manni og spyr
hvort þetta sé strákurinn.“ Birkir
hefur náð mjög góðum bata og
reiknar Marta með því að hann
hætti á lyfjagjöf í janúar, þótt eftirlit
verði haft með honum fyrst um sinn.
„Þetta er þannig séð búið í okkar
huga,“ segir Marta, enda sé ekki á
Birki að sjá að hann hafi þurft að
hafa jafnmikið fyrir fyrstu ævidög-
um sínum og raun ber vitni.
Marta segir Birki hið fullkomna
barn; hann sofi með eindæmum vel,
sé sjálfum sér nægur og dundi sér
mikið. „Svo held ég að við séum með
tvo upprennandi fótboltapeyja á
heimilinu,“ segir Marta, en eldri
bróðir Birkis, Baldvin Ingi, æfir fót-
bolta af miklum móð. Þau verða því
hæg heimatökin hjá Birki þegar
fram líða stundir.
Heimsfrægur í
Vestmannaeyjum
Birkir litli í faðmi fjölskyldunnar
Eftir Friðrik Ársælsson
fridrik@mbl.is
Morgunblaðið/Sigurgeir Jónasson
Birkir Hermannsson
Halla telur að árið 2006 verði lengi í minnum haft. Íslendingar hafi fengið
mikla umfjöllun á alþjóðavísu og lært að bregðast við henni.
Morgunblaðið/Ómar
„Það sem stendur upp úr á árinu er
alþjóðleg umfjöllun um íslenskt við-
skipta- og fjármálalíf og hversu
óundirbúin undir það við vorum,“
segir Halla Tómasdóttir, sem ráðin
var framkvæmdastjóri Við-
skiptaráðs í ársbyrjun. Halla telur
árið einstakt að því leytinu til að Ís-
land hafi aldrei hlotið jafnmikla
fjölmiðlaumfjöllun á alþjóðavísu.
„Þekking á Íslandi hefur fram að
þessu verið frekar takmörkuð og ef
hún hefur verið fyrir hendi hefur
hún verið af jákvæðari toga en nú.
Við höfðum öll vanmetið mikilvægi
þess að stunda mikil og góð al-
mannatengsl og virkt upplýs-
ingaflæði og því réðum við í raun
ekki ferðinni í þeirri umfjöllun sem
átti sér stað,“ segir Halla. En með
vaxandi alþjóðlegri umræðu um Ís-
land sköpuðust einnig tækifæri fyr-
ir Ísland að mati Höllu. „Við
ákváðum að grípa tækifærið og
fengum öfluga fræðimenn til þess
að taka saman upplýsingar og
stunda síðan markvisst upplýsinga-
starf um íslenskt fjármálakerfi á
lykilmörkuðum erlendis,“ segir
Halla og vísar til Mishkin-
skýrslunnar sem Tryggvi Þór Her-
bertsson og Frederic Mishkin tóku
saman og var kynnt á vormán-
uðum. „Skýrslan var lykilþáttur í
að snúa umræðunni við og kjör
banka og fyrirtækja í landinu bötn-
uðu í beinu framhaldi af því. Það
má því segja að hún hafi verið
merkilegasta framlag Viðskiptaráðs
á árinu,“ segir Halla.
Aukin áhersla á samvinnu
Áður en Halla tók við starfi sínu
í Viðskiptaráði stýrði hún meðal
annars framkvæmd átaksins Auður
í krafti kvenna og hún viðurkennir
fúslega að starfsvettvangur hennar
sé karllægur, en aðeins ein önnur
kona gegnir stöðu framkvæmda-
stjóra þeirra 32 viðskiptaráða sem
starfrækt eru í Evrópu. „Ég hef
aldrei veigrað mér við því að vinna
í karllægu starfsumhverfi og hef
frá unga aldri verið á vinnustöðum
þar sem ég hef verið eina konan
eða ein fárra,“ segir Halla.
Aðspurð um hvort áherslur Við-
skiptaráðs hafi breyst í kjölfar þess
að kona er nú komin í brúna tekur
Halla fram að það eitt að vera kona
eða karl geri engan merkilegan í
sjálfu sér. „En áherslurnar eru al-
veg örugglega ekki eins. Ég þekki
bæði af rannsóknum og eigin
reynslu sem starfsmannastjóri að
oftar en ekki leggja konur áherslu
á samvinnu en karlar á sam-
keppni,“ segir Halla og heldur
áfram: „Ég vil árangur en ég vil
einnig virkja fólk til samvinnu. Mis-
hkin-verkefnið reyndi mjög á sam-
vinnu fólks, en án hennar hefði því
aldrei verið lokið á svo stuttum
tíma,“ segir Halla og telur að á
þessu sviði nýtist hennar styrk-
leikar vel, enda oft erfitt að fá aðila
úr einkageiranum og þeim opinbera
til að vinna saman að sameig-
inlegum markmiðum. „Við erum
mjög fámenn og ef við getum ekki
unnið saman að því að halda uppi
jákvæðri ímynd og orðspori þjóð-
arinnar þá er það miður og bitnar
einfaldlega á öllum.“
Tækifærið aldrei verið betra
Halla bendir á að með þeim öru
breytingum sem alþjóðavæðingin
hefur haft í för með sér hafi staðan
breyst mikið og lítil þjóð hafi nú
mjög gott færi á því að verða
stærri í upplifun heimsins. Íslend-
ingar hafi alltaf verið góðir í því að
láta landið virka stærra en það er,
en tækifærið hafi samt aldrei verið
betra viðskiptalega séð, og jafnvel
menningarlega, en einmitt núna.
„Þetta ár verður lengi í minnum
haft og ég held að við höfum öll
lært mjög mikið. Lærdómskúrfan
er brött í ár hjá hverju einasta fyr-
irtæki og hverjum einasta ein-
staklingi í viðskiptalífinu og það er
vel,“ segir Halla að lokum.
„Lærdómskúrfan brött í ár“
Eftir Friðrik Ársælsson
fridrik@mbl.is
Halla Tómasdóttir
Már Guðmundsson flugvélavirki
var staddur í höfuðborg Líbanons,
Beirút, þegar átök milli Ísraela og
Hizbollah-samtakanna blossuðu upp
í sumar. Már gisti ásamt tveimur
félögum sínum á hóteli sem aðeins
var í 3–5 km fjarlægð frá þeim
svæðum þar sem sprengjur Ísraela
féllu. Eins og mörgum er eflaust
enn í fersku minni var Má og fimm
öðrum Íslendingum meinaður að-
gangur að rútum sem Norðmenn
útveguðu og voru notaðar í þeim
tilgangi að flytja fólk yfir til Sýr-
lands. „Við vorum í ákveðinni
hættu sem ég held að við höfum
ekki áttað okkur almennilega á fyrr
en eftir á,“ segir Már. Atburðarásin
hefði átt sér stað óþægilega nærri
dvalarstað þeirra og þar sem þeir
hefðu ekki gert sér almennilega
grein fyrir ástandinu hefðu þeir
ekki fært sig um set fyrr en sólar-
hring síðar. „Þegar fór að líða á
ferðina áttuðum við okkur smám
saman á stöðu mála, stræti borg-
arinnar voru nánast auð og við vor-
um hvað eftir annað stoppaðir af
lögreglu og spurðir að því hvaða er-
indi við ættum út,“ segir Már og
kveður borgina hafa breyst mikið í
kjölfar sprenginganna. „Annars er
Beirút einn skemmtilegasti staður
sem ég hef komið til, eins konar
Majorka Mið-Austurlanda þar sem
lítið ber á evrópskum túristum,“
segir Már.
Spurður hvort hann hyggist
heimsækja borgina á ný er Már
ekki lengi að svara því játandi. „Ég
stórefast reyndar um að ég geti
fengið fjölskylduna með mér á allra
næstu árum, en ég mun samt snúa
aftur einhvern daginn.“
Morgunblaðið/Kristinn
Má líkar vel við Beirút og líkir
henni við Majorka Mið-Austurlanda
„Mun snúa aftur
einhvern daginn“
Eftir Friðrik Ársælsson
fridrik@mbl.is
Már Guðmundsson