Morgunblaðið - 31.12.2006, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 31.12.2006, Blaðsíða 18
18 SUNNUDAGUR 31. DESEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ „Ég held að þetta sé besta árið mitt í fótboltanum hingað til, þetta var í raun hálfgert draumatímabil hjá mér með Malmö því það gekk nánast allt upp,“ sagði Ásthildur Helgadótt- ir landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, leikmaður með Malmö FF í Svíþjóð og bæjarfulltrúi í Kópavogi. Hún var búsett á Íslandi á árinu en flaug reglulega til Svíþjóðar til að taka þátt í leikjum með sínu liði og stóð uppi sem einn af bestu leikmönn- unum í sterkustu deild í heimi. Ásthildur flutti heim síðasta vetur eftir að hafa leikið með Malmö í rúm tvö ár og gekk til liðs við Breiðablik. Forráðamenn Malmö töldu hana síð- an á að leika áfram með þeim, enda þótt hún stundaði vinnu á Íslandi, sem verkfræðingur hjá Línuhönnun. „Ég ætlaði alltaf að spila með Breiðabliki en þegar ég fann að ég var í góðri æfingu, hafði aldrei verið í betra líkamlegra ástandi, þá tímdi ég ekki að sleppa því tækifæri að spila áfram úti. Fyrir knattspyrnu- mann er alltaf skemmtilegast að spila við bestu aðstæður og þar sem gæðin eru mest. Ég er virkilega þakklát vinnuveitendum mínum hjá Línuhönnun fyrir að gera mér þetta kleift, þeir studdu vel við bakið á mér, en þessi ferðalög mín bitnuðu að sjálfsögðu talsvert á vinnu minni hjá fyrirtækinu. Þetta var vissulega svolítið erfitt, sérstaklega undir lokin á tímabilinu, en ég ákvað að gera þetta svona, eins vel og ég gæti, og er ánægð með hvernig til tókst. Hér heima hélt ég mér í formi með því að hlaupa sjálf og þegar ég fór út í leikina náði ég yfirleitt einni til tveimur æfingum með liðinu í hverri ferð. Mér tókst að halda mér í toppformi, líkamlega, allt tímabilið, og um leið í góðri leik- æfingu,“ sagði Ásthildur, sem varð þriðji markahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar með 19 mark í 21 leik, og hún var tilnefnd sem einn af þremur bestu sókn- armönnum deildarinnar. „Mér tókst að skora fleiri mörk en í fyrra, auk þess sem ég lagði upp fleiri mörk og krækti í einhverjar vítaspyrnur að auki. Þá voru mörkin fjölbreytt, sem er alltaf gaman, og svo var það mikill heiður að fá þessa tilnefningu í lokin, því sænska úr- valsdeildin er að mínu mati sterk- asta deild í heimi um þessar mund- ir.“ Ásthildur er ekki jafn ánægð með frammistöðu íslenska kvennalands- liðsins á árinu. „Nei, það vantaði ein- hvern neista og stemmningu í liðið í ár. Síðan hafa kynslóðaskiptin verið talsverð, og í framhaldi af því vorum við í vandræðum með varnarleikinn og miðjuspilið. Breiddin er svo lítil hjá okkur að það munar mikið um sterka leikmenn sem hætta, eins og t.d. gerðist með Laufeyju Ólafs- dóttur. Auk þess þarf að bæta um- gjörðina í kringum liðið, þar er margt sem þarf að laga og er til- tölulega einfalt að gera. En við eig- um að vera á meðal tólf bestu liða í Evrópu og ættum að eiga góða möguleika á að komast í næstu úr- slitakeppni Evrópumótsins, enda lentum við þar í hagstæðum riðli,“ sagði Ásthildur Helgadóttir, sem er bæði leikhæsti og markahæsti leik- maður kvennalandsliðs Íslands frá upphafi. „Þetta var hálfgert draumatímabil hjá mér“ Morgunblaðið/Brynjar Gauti Ásthildur Helgadóttir var í hópi markahæstu og bestu leikmanna sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.is Ásthildur Helgadóttir „ÞETTA er bara alveg eins og í gamla daga. Við gerum út á efri brú og horfum svo eftir hval. Ef við sjáum einn reynum við að átta okkur á hvað hann er stór og hvort ekki sé allt í lagi með dýrið. Svo byrjum við að elta hann,“ segir Sigurður G. Njálsson, skipstjóri á Hval 9, ánægður með að hvalveiðar í atvinnu- skyni séu hafnar að nýju. „Sumir hvalir eru varir um sig svo það er ekki auðvelt að ná þeim enda eru skipin ekki beint nútímaleg og því ekki með nein tæki til þess. Maður þarf að reyna að hugsa eins og hvalur,“ bætir Sig- urður við. Hvalveiðar voru bannaðar fyrir tveimur áratugum og í framhaldinu var einnig lagt bann við hvalveiðum í vísindaskyni. Árið 2004 hófust hrefnuveiðar í vísindaskyni að nýju og nú hefur sjávarútvegsráðherra gefið leyfi til að veiða 9 langreyðar og 30 hrefnur í atvinnu- skyni á fiskveiðiárinu 2006–2007. Hjá Hval hf. síðan 1954 Skiptar skoðanir eru um hvalveiðar bæði hér heima sem erlendis en Sigurður telur þær nauðsynlegar til að viðhalda jafnvægi í lífrík- inu. Hann hóf störf hjá Hval hf. árið 1954 og hefur starfað sem messi, háseti og stýrimaður og svo sem skipstjóri. „Fyrst þegar ég byrjaði var mest verið að veiða búrhval og hann var nýttur í lýsi og mjöl. Síðar var byrjað að nýta kjötið en fyrst um sinn fór það mest í hunda- fóður til Bretlands. Seinna byrjuðu Japanar að kaupa af okkur kjötið til manneldis og þá varð gjörbreyting á okkar starfi enda hækkaði verðið á kjötinu mjög mikið,“ rifjar Sigurður upp. „Veiðunum var mjög vel stýrt og okkur var refsað ef við tókum of marga hvali. Við máttum því alls ekki ofveiða hvalinn eins og hefur verið gert í mörgum fiskstofnum.“ Sigurður segist hafa orðið miður sín þegar hvalveiðar voru bannaðar árið 1986 en hann þóttist þó viss um að það yrði aðeins til skamms tíma. „Ég gerði út á trillu í sjö ár og svo vann ég í tæp tíu ár hjá Hafnarfjarð- arhöfn. Það var því auðvitað sérstakt fyrir mig að byrja aftur að veiða hval enda var ekki beinlínis bjart framundan í þeim efnum.“ Yngri kynslóðir Íslendinga þekkja eflaust lítið til hvalveiða en Sigurður segir að allir sem störfuðu á Hval 9 á árinu hafi verið gaml- ir hvalveiðimenn. „En ef ríkisstjórnin gefur háan kvóta á næsta ári þarf helst að hafa tvö skip og þá má ætla að við þurfum að ráða fleira fólk til starfa, enda eru sumir okkar að hætta sökum aldurs,“ segir Sigurður sem er orðinn 67 ára og á því ekki mörg ár eftir í bransanum. „Maður þarf að reyna að hugsa eins og hvalur“ Morgunblaðið/Sverrir Sigurður G. Njálsson skipstjóri er ánægð- ur með að vera farinn að veiða hval að nýju en hann hóf upphaflega störf hjá Hval hf. árið 1954. Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is Sigurður G. Njálsson „Ég fór frá því að vera algjör áhugaljósmyndari yfir í það að vera starfandi ljósmyndari og fékk óvænt alls kyns tækifæri sem mig hefði ekki órað fyrir að mér mundu gefast í ársbyrjun,“ segir Rebekka Guðleifsdóttir ljósmynd- ari, sem skaust upp á stjörnuhim- ininn í ár og hlaut umfjöllun í The Guardian, Observer og Wall Street Journal auk þess sem hún nýtur gríðarlegra vinsælda á ljós- myndavefnum flickr.com. „Það er margt búið að gerast í ár og öll athyglin og umtalið sem ég hef fengið hefur verið mjög hvetjandi og sannfært mig um að ég væri á réttri braut í lífinu,“ segir Rebekka. Aðspurð hvað framtíðin beri í skauti sér segist Rebekka ekki skipuleggja sig langt fram í tím- ann, heldur nægi henni að taka eina viku í einu. Hún segist hafa þurft að afþakka ýmis verkefni að undanförnu til að geta einbeitt sér að skólanum. „Ég er tiltölulega nýbyrjuð á þessari braut og vildi ekki taka þann pólinn í hæðina að fara að vinna sem ljósmyndari, heldur ætla ég fyrst og fremst að þróa mig sem listamann.“ Rebekka hefur þó tekið ýmis minni verkefni að sér, s.s. port- rettmyndir og listrænar myndir af hljómsveitum. „Þetta eru verkefni sem gefa mér lausan tauminn sem listamanni og því hef ég sinnt þeim,“ segir hin efnilega listakona að lokum. Athyglin og um- talið hvetjandi Ljósmynd/Rebekka Guðleifsdóttir Kuldaleg sjálfsmynd Rebekku í íslenskri vetrarsól. Myndin birtist á vefn- um flickr.com á dögunum og hlaut mikið hrós frá notendum vefsins. Rebekka Eftir Friðrik Ársælsson fridrik@mbl.is Guðleifsdóttir Hjörvar Steinn Grétarsson, hefur ekki set- ið auðum höndum í ár, en hinn 13 ára gamli Reykvíkingur gerði sér lítið fyrir og vann Norðurlandamótið í skólaskák í sínum aldursflokki, varði titilinn unglingameistari Reykjavíkur, gerði jafntefli við Lenku Ptacnikovu, Norðurlandameistara kvenna, og vann sér rétt til þátttöku á Íslands- mótinu í skák, yngstur keppanda frá upp- hafi, svo fátt eitt sé nefnt. „Það hefur verið mikið að gera í skákinni í ár en það minnkar yfir hátíðarnar. Svo fer allt á fullt í febrúar, mars,“ segir Hjörvar. Í febrúar hyggst Hjörvar taka þátt í Norðurlandamóti og öðru alþjóðlegu móti í millitíðinni. Aðspurður hvort hann hyggist verja Norðurlandatitilinn, segir Hjörvar á brattann að sækja, enda sé hann nú á yngra ári en hann hafi verið á því eldra þegar hann vann titilinn. Að mati Hjörvars var Norðurlandamótið sem hann vann ekki erfiðasta mót sem hann hefur tekið þátt í og hann er ekki viss um að sigurinn í Finnlandi hafi verið sá stærsti á ferlinum, heldur hafi það verið meira afrek að komast áfram í áskor- andaflokki. „Sumum andstæðingum rúllaði ég alveg upp og átti svo sem engar erfiðar skákir, þótt margir andstæðingarnir hafi náttúrulega verið góðir á sínu sviði,“ segir Hjörvar. Hjörvar er nú í áttunda bekk og segir ekkert stórmál að sameina skákina og skól- ann, allt hafist þetta með vinnuseminni. Hann er þó hræddur um að minni tími gef- ist fyrir skákina þegar hann fer í fram- haldsskóla. „Ég held samt áfram í skákinni þar til mér finnst þetta orðið leiðinlegt, sem ég held ekkert að muni gerast á næst- unni,“ segir Hjörvar. „Mér finnst skákin mjög skemmtileg og félagsskapurinn er góður.“ Morgunblaðið/Ásdís Hjörvar Steinn hefur það náðugt yfir hátíðirnar og safnar orku fyrir átök á komandi ári Hefst allt með vinnuseminni Eftir Friðrik Ársælsson fridrik@mbl.is Hjörvar Steinn Grétarsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.