Lesbók Morgunblaðsins - 20.01.2007, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 20.01.2007, Blaðsíða 10
Hallgrímur Helgason „Mesti vandinn við að skrifa Rokland var að rata einstigið með Böðvari; að halda rétta jafnvæginu milli gáfaða mannsins, óheppna mannsins, reiða mannsins, óviljandi fyndna mannsins og brjálaða mannsins,“ segir Hall- grímur um aðalsöguhetju bókar sinnar. Eftir Inga F. Vilhjálmsson ifv@hi.is Í grein, sem heitir ,,Trúin á moldviðrið“, heldur Guð- mundur Finnbogason heimspekingur því fram að í hug- myndasögunni eigi moldviðristrú upptök sín í Þýska- landi á fyrri hluta nítjándu aldar, hjá eftirmönnum heimspekingsins Immanúels Kants sem misskildu og rangtúlkuðu torræðar hugmyndir hans. Af því að ekki var alltaf ljóst hvert Kant var að fara í heimspeki sinni skapaðist sá misskilningur meðal eftirmanna hans að það væri nóg að setja ill- skiljanlegan texta á blað til að teljast vera andans maður og spek- ingur. Smám saman varð trúin á moldviðrið til og með henni sú brengl- un sem Guðmundur kallar ,,gagnsemi óskiljanlegleikans“, en hún leiðir til þess að hver sem er getur komist til vegs og virðingar á andlega sviðinu ef hann talar þannig að enginn skilur. Moldviðr- istrúin er vinur loddaranna því hún gerir þeim sem hafa í raun ekk- ert fram að færa kleift að njóta virðingar og aðdáunar hjá þeim sem sjá ekki í gegnum merkingarleysi orða þeirra. Síðan moldviðristrúin varð til hefur hún öðlast marga fylg- ismenn, bæði í raunveru- og skáldveruleikanum, nú síðast heim- spekinginn Bödda Steingríms, söguhetjuna í Roklandi, skemmti- legri skáldsögu Hallgríms Helgasonar, sem kom út árið 2005. Íslendingar og Ísland á tímum Bödda Moldviðristrúin hefur ekki birst eins skýrlega í nokkrum Íslend- ingi í seinni tíð og í Bödda þessum. Það er kannski ekki nema von því í bók Hallgríms liggur Böddi í höfundum sem Guðmundur Finnbogason kenndi við moldviðristrúna. Margir Íslendingar gátu örugglega tengt Bödda við sjálfan sig að einhverju leyti því auk þess að vera ginnkeyptur fyrir moldviðr- inu, eins og allir menn eru samkvæmt Guðmundi, hafði hann til að bera marga helstu eiginleikana í íslensku þjóðarsálinni: ein- staklingshyggjuna, stoltið, þvermóðskuna og „maníuna“ ásamt hinni þungu lund sem fylgir fámenninu, rökkrinu og helgarfyll- eríinu í vinnuvikulokin sem Íslendingar virðast seint ætla að taka af dagskránni. Böddi er nýjasta og sennilega sannasta þjóðandhetjan okkar. Framvegis mun hann verða settur í hóp með hinum þjóðhetjunum: þverhausunum, ógæfumönnunum og snillingunum sem við elskum svo mikið af því við skiljum þá svo vel, því þeir eru svo íslenskir, mannlegir og breyskir. Með Agli, Skarphéðni, Jónasi Hallgríms- syni, Bjarti í Sumarhúsum, Megasi og Bubba. Líkt og þeir er Böddi mörgum kostum gæddur: hann er vel gef- inn og góður náungi á bak við ranghugmyndir sínar, lesandi Rok- lands kemst ekki hjá því að þykja dálítið vænt um hann. Böddi er afar margbrotin persóna að mati Hallgríms: ,,Skáldsagnapersóna verður helst að standa opin í allar áttir, til allra mögulegra túlkana. Er Böddi spámaður? Sannleiksboði? Snillingur? Terroristi? Brjál- æðingur? Geðsjúklingur? Eða bara rugludallur? Eða þá eitthvað allt annað? Mesti vandinn við að skrifa Rokland var að rata ein- stigið með Böðvari; að halda rétta jafnvæginu milli gáfaða manns- ins, óheppna mannsins, reiða mannsins, óviljandi fyndna mannsins og brjálaða mannsins.“ En þrátt fyrir að Böddi sé flókin persóna sem svipar um margt til hinna þjóðandhetjanna sem Íslendingar eru svo hrifnir af, þá er Íslandið sem Böddi býr á, annað land en flestra þeirra. Böddi býr í landi þar sem honum finnst að horft sé óþarflega mikið til Bandaríkjanna eftir áhrifum og það líkar honum illa: Ís- lendingar vilja vera eins og Kaninn. Þeir eru orðnir pattaralegir og sljóir af ofneyslu og hugsunarleysi, þeir keyra um á jeppum, borða mikið af hamborgurum og snakki og dorma yfir bíómyndum frá Hollywood á kvöldin. ,,Norpið“ og ,,fjörefnahungrið“ sem Þórberg- ur Þórðarson sagði einkenna ,,brauðpuð“ Íslendinga á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar er á bak á burt og í stað hennar er íslenskt samfélag orðið ameríkaniserað og velmegandi. Á Íslandi Bödda geta Keflvíkingar valið á milli fimm lúgusjoppa þegar þeir láta steikja ofan í sig hamborgara; áttræður einyrki í Flóanum getur keyrt inn á Selfoss, farið á KFC og fengið sér Zin- ger-kjúklingaborgara, franskar og Pepsi á milli verka; og Reykja- vík lítur út eins og smáborg á Flórída þar sem enginn veit lengur hvar miðbærinn er því mannlífið er í verslunarkjörnum í úthverf- unum: í Smáralindinni, Spönginni, Kringlunni og kannski í Glæsibæ. Þýsk gagnrýni á ,,plebbamenninguna“ Þegar Böddi kemur heim á Sauðárkrók er hann tæplega fertugur. Hann hefur dvalið við nám í Þýskalandi í tíu ár þar sem hann hefur drukkið í sig þýska menningu án þess að ljúka neinni gráðu. Böddi byrjar að gagnrýna þetta hörmungarástand á þjóðinni á bloggsíð- unni sinni og fá bæjarbúar á Sauðárkróki það óþvegið frá honum: ,,Það gefur augaleið að maður sem gagnrýnir allt verður að bjóða uppá eitthvað í staðinn. Gegn ,,plebbamenningunni“ býður Böddi upp á Wagner og Göethe. Nokkuð skemmtilegar andstæður við Dan Brown og Bono, eða hvað?“ segir Hallgrímur um þann árekst- ur menningarheima sem Böddi upplifir við heimkomuna. Þýsk menning hefur verið áhrifavaldur í lífi Bödda frá því á ung- lingsaldri, hann les Göethe, Hölderin, Nietzsche og Herbert Mar- cuse, og er byrjaður að lesa franska heimspekinginn Derrida, þó að hann líki þeim lestri við að reyna að ,,keyra í þoku“. Böddi gefst upp á að reyna að skilja hann og fer á hótelbarinn í bjór. En af hverju lætur Hallgrímur þessa höfunda hafa svona mikil áhrif á Bödda? ,,Vegna þess að hlutskipti hins þýskmenntaða á Íslandi er frem- ur einmanalegt. Hann er líkt og fjallgöngumaður sem kemur niður á láglendið eftir að hafa staðið „über allen Gipfeln“ eða ,,yfir öllum tindum“. Láglendisfólkið getur aldrei skilið hvað hann hefur séð og honum mun aldrei takast að útskýra það. Það er annar blær yfir þýskmenntuðum Íslendingum en til dæmis þeim sem hafa lært í Frakklandi eða Bandaríkjunum. Þeim fylgir meiri þungavigt og stundum meiri hroki.“ Í bókinni fylgist lesandinn með falli Bödda Steingríms, hvert áfallið eftir annað dynur yfir hann því hugmyndir hans henta ekki á Íslandi nútímans. Hann missir vinnuna sína sem kennari á Króknum, konan sem hann elskar þýðist ekki hann heldur bróður hans, mamma Bödda deyr og hann neyðist til að flytja úr húsinu hennar og smám saman fer hann á botninn, missir vitið og ákveður að ríða suður til Reykjavíkur á hesti, bylta ríkisstjórninni og hrifsa til sín völdin í landinu. Hallgrímur segir sturlun Bödda ríma við geðsýki Hölderlins og Nietzsches: ,,Bæði Böddi og Hölderlin fara yfir um á miðjum aldri, þegar hinn góði ,,helmingur lífsins“ er að baki. Þess vegna þýðir Böddi samnefnt ljóð eftir hann, en heiti þess var reyndar titill sög- unnar um skeið. Þá sagði mér þýskur gáfumaður nýlega frá enn frekari tengslum Bödda við þýskar hetjur sínar: Nietzsche mun hafa sýnt fyrstu merki um andlega vanheilsu er hann kraup grát- andi fyrir fótum hests, en í Roklandi má segja að bilun Bödda sé endanlega staðfest þegar hann situr á hestbaki og skýtur úr skammbyssu á mann sem hefur fest fjórhjólið sitt í sandkvoðu rétt fyrir utan Sauðárkrók og biður Bödda um hjálp. Skömmu síðar heldur hann suður til Reykjavíkur á hestinum og verður firrtari og ringlaðri eftir því sem líður á ferðina. Þegar hann er kominn langleiðina til Reykjavíkur virðist hann orðinn að spámanni eða hrópanda í eyðimörkinni, hann talar í frös- um sem minna á innblásin orð Nietzsches, enda kallar hann sig Zaraþústru: ,,Of mikil velsæld skapar vesæld“, ,,[Dag]blöðin eru gardínur fyrir glugga lífsins. Þú nýtur þess ekki fyrr en þú dregur frá“, og hann verður enn óskýrari: ,,Krabbameinið nærist á því veika ég stæri mig við það sterka.“ Í lok bókarinnar lýsir Hallgrímur hugsun Bödda um hvernig hann sér stöðu sína og beitir til þess líkingu sem Guðmundur Finn- bogason notaði einnig um ,,moldviðrismanninn“ tæpum 100 árum áður: að líkja þvoglukenndri hugsun manna við þoku. En spurn- ingin er hver sé ,,þokusálin: hinn almenni borgari á Íslandi,“ eins og Böddi telur, eða þá hann sjálfur: ,,Böddi ranglaði út í mosann og meig þar. Stóð síðan álútur nokkra stund og hlustaði á lágvært síf- ur þokunnar þar til hann gerði sér grein fyrir því að hann var sál í þoku: Háleitur andi umvafinn jarðsíðri efnishyggju; eina vonin gegn þeirri holtaþoku hugsunar- og andleysis sem lá yfir landinu.“ Moldviðristrú Bödda Steingríms Þrátt fyrir trú Bödda á að hann hafi rétt fyrir sér er ekki ljóst hvað hann vill fá í staðinn fyrir menninguna sem hann berst gegn. Hann moðar óskýrlega hingað og þangað, talar spekingslega um efn- ishyggjuna og firringuna í samfélaginu til að rökstyðja byltinguna sína en getur ekki boðið upp á neitt betra. Böddi er „moldviðrismaður“ samkvæmt skilningi Guðmundar Finnbogasonar því hann metur hið óræða og illskiljanlega meira en hið skýra og skiljanlega. Hann gengur alfarið á hönd moldviðr- isins og missir smám saman fótanna í lífinu. Auðvitað eru aðrar ástæður fyrir falli Bödda en höfundarnir sem hann les, það hjálpar honum þó ekki við að halda geðheilsunni hvað hann tekur þá bók- staflega: Bödda finnst myrkrið í verkum þessara höfunda vera skemmtilegt, eins og Guðmundur orðar það í grein sinni. Guðmundur teflir fram eftirfarandi orðum gegn moldviðristr- únni í lok greinar sinnar og er það við hæfi að þau bindi einnig enda á þessa, því kannski má segja að í þeim felist forspá um það hvern- ig getur farið fyrir þeim okkar sem leyfa moldviðrinu að villa sér sýn um of, líkt og gerðist í tilfelli hinnar mótsagnakenndu og ógleymanlegu persónu Bödda Steingríms í Roklandi Hallgríms Helgasonar: veslings karlinn var í ,,trölla höndum“: ,,Mér hefir stundum dottið í hug, að munurinn á því, sem vel er samið, og hinu, sem illa er samið, væri líkur þeim mun sem sjá má á landslagi hér á Íslandi. Sumra manna hugsanir og orð eru eins konar hrúgald − nokkurs konar Trölladyngjur, sem villa augað og loka útsýn, en vekja þó grun hjátrúarfullra manna um að manna- byggðir, gull og grænir skógar leynist þar í hvilftunum. Þaðan eru sagðar margar sögur; en sumir, sem þangað hafa leitað, hafa kom- ið aftur með för á úlnliðunum, er sýndu að þeir höfðu raunar verið í þrældómi og í trölla höndum. En um Vestfirði er það sagt, að komi maður þar upp á háheiðar, ber ekki á neinum skorum eða gljúfrum; firðir og dalir hverfa. Allt sýnist slétt, og heildin blasir við. En undir þessu tilsýndarslétta yf- irborði leynast þó djúpir dalir og fagrir firðir, sem spegla lífið á ströndinni − fagrir firðir, þar sem finnast slögin frá hjarta hafsins þess hins djúpa. Svo er hvert vel skrifað verk.“  Heimildir: Guðmundur Finnbogason. ,,Trúin Á Moldviðrið. Huganir. Reykjavík, 1943. Hallgrímur Helgason. Rokland. Reykjavík, 2005. Fall Bödda Steingríms Rokland eftir Hallgrím Helgason er tilnefnd til Bók- menntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd ásamt Sumarljós, og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson. Hér er fjallað um Rokland en eftir viku verður fjallað um bók Jóns Kalmans. Höfundur er BA í heimspeki og sagnfræði. Morgunblaðið/Golli 10 LAUGARDAGUR 20. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.