Lesbók Morgunblaðsins - 26.05.2007, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 26.05.2007, Blaðsíða 3
Níu plús eitt barn í skóla Hér hefur greinarhöfundur, á átjánda árinu, verið fenginn til að kenna níu prúðum og vel gefnum börnum í Reykholti í Borgarfirði veturinn 1940 - 41. Eftir Pál Bergþórsson pallberg@isl.is F innsk börn eru annáluð fyrir góðan árangur í námi. Þau læra ekki að- eins fljótt og vel að lesa og skrifa „bæði skýrt og rétt“, heldur eru þau líka flestum fremri í öðrum námsgreinum. Sú skýring hefur heyrst að þennan árangur í finnskum barnaskólum megi þakka góðu samstarfi við foreldra, góðri kennara- menntun, góðum starfsanda í skólum og reglusemi sem flestum börnum fellur ein- mitt vel. Vafalaust er mikið til í þessu, en þó er forvitnilegt að kanna hvort ekki megi líka rekja þessa frammistöðu til einhverra ann- arra orsaka. Sá merkilegi atburður varð fyrir um það bil 100 árum að Finnar tóku upp stafsetn- ingu eftir framburði. Í sinni hreinustu mynd einkennist hún af því að hvert hljóð í mæltu máli er sýnt með sérstöku rituðu tákni, og hvert tákn í rituðu máli vísar til sérstaks- málhljóðs. Til þess að þurfa ekki að fjölga bókstöfum og öðrum táknum um of getur þurft að gera undantekningar frá þessu, en þá verða þær að hlíta föstum og auðlærðum reglum. Um leið var tekið upp samræmt og „vandað“ finnskt ritmál sem að sumu leyti var og er nokkuð úrelt. Það er þó notað sem talmál við messugerð, í stjórnmálaumræðum og fréttaflutningi. En þetta ritmál skilur sig nokkuð frá daglegu talmáli sem aftur á móti tíðkast í alþýðlegum sjónvarps- og útvarps- þáttum og á vinnustöðum. Og nú er orðið al- gengara en áður að ritað sé á talmáli og með framburði hvers ritara, til dæmis í einkabréfum og ekki síst í hinum umfangs- miklu orðaskiptum á netinu.Þá er samt fylgt sömu stafsetningarreglum og í samræmda ritmálinu, eftir framburði, en að breyttu breytanda. Spurningin er þá hvort góðan náms- árangur finnskra barna megi að minnsta kosti að einhverju leyti einmitt rekja til þess hvað stafsetningin eftir framburði auð- veldar nám í lestri og skrift, og þar með í flestum öðrum greinum. Björn Guðfinnsson sem var einn helsti móðurmálskennari á síð- ustu öld hélt því hiklaust fram að einn höf- uðkostur framburðarstafsetningar væri að hún væri auðlærð. Meira að segja fullyrti hann að framburðarsjónarmiðið í stafsetn- ingu mundi sigra að lokum. Til þess vildi hann reyndar samræma framburð Íslend- inga. Flestir mundu nú telja menningar- legan skaða að þeirri útrýmingu framburð- arsérkenna sem af því mundi leiða. En hjá því mætti komast með því að leyfa mönnum að rita hverjum eftir talmáli sínu, líkt og nokkuð er farið að tíðkast í Finnlandi eins og áður sagði. Engum dettur nú í hug að skylda alla til að samræma framburð sinn í mæltu máli, og þá er ekki sanngjarnt að slík samræmingarskylda skuli heldur ná til rit- málsins. Það er líka vonlítið að halda í skemmtilegan mismunandi framburð nema hann fái þegnrétt í rituðu máli. En er íslenskan þá stafsett í slæmu sam- ræmi við framburð? Höfum við nokkra þörf fyrir framburðarstafsetningu? Björn Guð- finnsson taldi svo vera því að nútíma staf- setning okkar væri að sumu leyti enn nær uppruna en sú sem er á fornritaútgáfunni nýju, og sér lægi við að segja að hún gæti kallast samræmd stafsetning forn. Lítum aðeins á vandamál íslenskra barna í lestr- arnámi. Þegar börnin rekja stafina í hverju orði frá upphafi til enda, verða þau iðulega í vafa um samsvarandi hljóð, til dæmis hvort g-ið í orðinu gefa sé borið fram sem g eða gj, hvort f-ið sé borið fram sem f eða v, hvort ll sé borið fram óbreytt eins og í orðinu mylla eða sem dl eins og í orðinu spilla, eða hvort t-ið í orðinu staður sé borið fram sem t eða d. Þegar það hefur lærst getur þeim hætt til að skrifa Jónstóttir í staðinn fyrir Jóns- dóttir. Ótal dæmi af svipuðum toga mætti nefna. Við sem erum fyrir löngu búin að leysa þennan vanda lestrarnámsins hjá sjálfum okkur eigum kannski erfitt með að skilja hvað þessi óregla stafsetningarinnar getur valdið miklu öryggisleysi og vanmátt- arkennd. Barn sem sífellt er verið að leið- rétta í lestri með svo vondum skýringum sem „af því bara“, getur ekki aðeins orðið leitt og þreytt á lestrinum, heldur líka á öðrum námsgreinum sem lestrarkunnátta er forsenda fyrir. Lengi býr að fyrstu gerð, og fyrstu áhrifin í skólanum eins og í hverju öðru starfi geta haft alvarlegar og víðtækar afleiðingar. Hér er nú sýnt lítið dæmi um hvernig ein- föld íslensk stafsetning eftir framburði gæti litið út. Að mestu leyti er farið eftir reglum sem Björn Guðfinnsson lýsti í grein í tíma- ritinu Helgafelli 1943. Þó eru hljóð í enda orðs rituð eins og annað orð eða hljóð kæmi strax á eftir, til dæmis hæhda og hæhd (ekki hæht), og g-hljóðið í orðinu sagt er táknað með hq, en ekki x eins og Björn ger- ir. Dæmið sýnir hvernig upphafserindið í kvæði meistarans Einars Benediktssonar um hafísinn gæti verið stafsett á Norður- landi og Suðurlandi. Munurinn er sannast að segja ekki mikill, en hann er sýndur með skáletrun sex orða. Björn Guðfinnsson getur þess að flestum þyki ný og breytt stafsetn- ing ljót í fyrstu, en það muni vaninn jafna. Með tímanum getur mönnum jafnvel farið að þykja fegurst sú ritvenja sem er næst þeirra eigin tungutaki og sú málsnilld sönn- ust og mest sem er skráð eftir eðlilegum framburði. Svo mun finnsku lærdómshest- unum finnast.  Heimildir: Björn Guðfinnsson: Stafsetning og framburður. Helgafell 1943, 63-69. Wikipedia, the free encyclopedia: Finnish language. Stafsetning og námsárangur Páll Bergþórsson veðurfræðingur spyr hér hvort góðan námsárangur finnskra barna megi rekja til þess að finnska er stafsett eftir framburði. Páll setur ljóð Einars Benedikts- sonar Hafís, með íslenskri framburð- arstafsetningu, norðlenskri og sunnlenskri. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. MAÍ 2007 3 Frá vesdri til ausduhrs um hólman hálvan hríngar siq brimkvíta fljótandi álvan. Þar björgjin siq milja sem brothæhd sgurdn ivir bældu, æðandi reiinhavi. – Ein himinvíð sjón út á heimsenda sjálvan, eihd helsdohrgjið ríkji með turdn við turdn, sem gljá oq sbeiglasd við gjeisla kvurdn ivir gaddbláum sguggum, marandi í hálvu kavi. Stafsetning eftir norðlenskum framburði: Frá vesdri til ausduhrs um hólman hálvan hríngar siq brimhqvída fljódandi álvan. Þar björgjin siq milja sem brodhæhd sgurdn ivir bældu, æðandi reiinhavi. – Ein himinvíð sjón úd á heimsenda sjálvan, eihd helsdohrgjið rígji með turdn við turdn, sem gljá oq sbeiglasd við gjeisla hqvurdn ivir gaddbláum sguggum, marandi í hálvu kavi. Stafsetning eftir sunnlenskum framburði:

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.