Lesbók Morgunblaðsins - 26.05.2007, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 26.05.2007, Blaðsíða 6
6 LAUGARDAGUR 26. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@wisc.edu Ein af virtari kvikmyndahátíðumBandaríkjanna, Silverdocs, verður haldin í fimmta sinn snemma í næsta mánuði í Maryland-ríki. Þetta er hátíð sem haldin er á vegum bandarísku kvikmyndastofnunar- innar (AFI) og Discovery-sjónvarps- stöðvarinnar og sérhæfir sig í sýn- ingum á heimildamynd- um. Hátíðin birti nýverið nöfn þeirra 100 mynda sem að þessu sinni voru valdar til þátttöku og kennir þar ým- issa grasa. Meðal þeirra mynda sem sýndar verða, og eiga vafalaust eftir að vekja umtalsverða athygli, má nefna Enemies of Happiness eftir Evu Mulvad, en myndin lýsir kosninga- baráttu hinnar 27 ára gömlu Malalai Joya þar sem hún býður sig fram til þings í Afganistan árið 2005. Kosn- ingaherferðin reyndist Joya ekki auðveld, henni bárust m.a. morðhót- anir, en hún bar sigur úr býtum og situr fyrst kvenna á afgangska þinginu. Big Rig eftir Doug Pray gæti einnig verið áhugaverð en þar er gefin innsýn í sérkennilega veröld vörubílstjóranna sem á næturnar lýsa upp bandarískt vegakerfi. Einn- ig vekur athygli að Frederick Wi- seman er með nýja mynd á hátíðinni, State Legislature, en hann hefur um áratugabil verið einn helsti fröm- uður svokallaðra „cinema verite- mynda“ í Bandaríkjanum.    Á áðurnefndi Silverdocs heim-ildamyndahátíð mun sjálfur Jo- nathan Demme (Silence of the Lambs, Philadelphia) sýna nýja heimildamynd um eftirköst fellibyls- ins Katrínar í New Orleans, en hún nefnist New Home Movies from the Lower 9th Ward. Fylgir Demme þar í fót- spor Spike Lee sem í fyrra sendi frá sér mynd um sama efni, When the Levees Broke: A Re- quiem in Four Parts. Demme hefur áður reynt fyrir sér í gerð heimildamynda með eftirminnileg- um hætti en árið 2003 gerði hann The Agronomist sem fjallaði um ástandið á Haítí og á níunda ára- tugnum gerði hann hina klassísku Talking Heads-tónlistarmynd, Stop Making Sense. Á Silverdocs mun Demme verða sérstaklega heiðraður fyrir þann “anda sem hann blæs í heimildamyndaformið.“    Þrjár kvikmyndir eru nú í bígerðsem byggðar eru á skáldsögum eftir bandaríska hryllingshöfundinn Stephen King. Þar á meðal er kvik- myndaðlögun að hinu mikla fant- asíuverki The Talisman sem King skrifaði ásamt félaga sínum Peter Straub um miðjan níunda áratuginn, en verkið segir frá ferðalagi ung- lingsins Jacks Sa- wyers um hand- anheima til að bjarga móður sinni. Þá er skáld- sagan Bag of Bo- nes einnig í fram- leiðslu, en verkefnið ku vera skammt á veg komið. Það sem kannski vekur mesta athygli er að Frank Darabont er á langt kominn með gerð myndarinnar The Mist, en þar er byggt á skáldsögu sem kom út snemma á ferli Kings. Darabont er, eins og margir eflaust vita, vel sjóaður í King-aðlögunum en hann hefur áður stýrt The Green Mile og The Shawshank Redemption á hvíta tjaldinu. Kvikmyndir Stephen King Jonathan Demme Eva Mulvad Björn Norðfjörð bn@hi.is Upphrópunarmerki eða spurningarmerki– það er spurningin. Mig grunar aðfleiri lesendur verði forviða af fyr-irsögninni fremur en þeir hafi velt henni fyrir sér sem spurningu – þess vegna upp- hrópunarmerkin. Við skulum því aðeins ræða hvaða dularfullu fyrirbæri þetta séu áður en við glímum eilítið við spurninguna. Blue-ray eða HD- DVD eru hvort tveggja mynddiskar skyldir DVD- disknum en búa yfir meira geymslurými (Blue-ray 50gb, HD-DVD 30gb en DVD 8,5gb) og betri hljóð- og myndgæðum (HD stendur fyrir „high def- inition" eða háskerpu). Diskarnir eru þó allir sam- bærilegir að stærð hvað varðar ytra gervi en um- búðir nýju diskanna eru smærri og ferkantaðri – HD í rauðum öskjum og Blue-ray...já...bláum öskj- um. Lykilspurningarnar eru tvær: 1) Er munurinn á DVD og HD/Blue-ray það mikill að það borgi sig að fjárfesta í slíkum spilara og jafnvel að end- urnýja kvikmyndasafnið? 2) Af hverju í ósköp- unum tvö kerfi? Byrjum á seinni spurningunni. Lesendur sem hafa aldur til muna kannski eftir árdögum mynd- bandsbyltingarinnar þegar tvö ólík kerfi (og reyndar nokkur önnur smærri) kepptu um hituna: Beta og VHS. Þrátt fyrir að vera tæknilega full- komnara kerfi varð Beta að láta í minni pokann og þannig varð framleiðandi þess Sony af gríð- arlegum fjármunum, en framleiðandi Blue-ray er einmitt enginn annar en Sony og í von um að sagan endurtaki sig ekki berst fyrirtækið nú með kjafti og klóm gegn HD-disknum sem framleiddar er af Toshiba og NEC. Ljóst má vera að fyrirtækin hafa lagt óheyrilegar upphæðir að veði enda er hagn- aðarvonin og mikil. Hér er því að finna ástæðuna fyrir því að tvö um margt sambærileg kerfi séu markaðssett á sama tíma. Lengi mátti vera ljóst að það myndi rugla neytendur í ríminu (og gera alla markaðssetningu erfiðari) og því reyndu bæði kvikmyndaframleiðendur og verslunarkeðjur að miðla málum á milli fylkinganna en allt kom fyrir ekki. HD-spilarar voru settir fyrst á markað fyrir rétt rúmu ári en Blue-ray spilarar ekki fyrr en undir lok síðasta árs en allar götur síðan hefur Sony saxað á forskot keppinautarins. Ásamt því að vera tæknilega séð fullkomnari á Sony sterkt út- spil í Playstation 3 leikjatölvunni sem getur spilað Blue-ray myndir ásamt leikjum. Enn fremur gefa kvikmyndadeild Sony (Columbia og MGM), Fox og Disney myndir sínar aðeins út á Blue-ray, en á móti kemur að Universal gefur aðeins út á HD- diskum. Warner, Paramount og DreamWorks gefa út á báðum, en smærri dreifingaraðilar á borð við Criterion, Kino og Eureka halda að sér hönd- um og bíða lykta stríðsins. Á Bandaríkjamarkaði hafa Blue-ray myndir náð á undanförnum vikum nokkru forskoti á HD. Þótt kapphlaupinu sé hvergi nærri lokið myndi ég veðja á Blue-ray ef ég ætti að gefa svar við fyrirsögninni. Fyrri spurningunni er ekki auðsvarað. Enn sem komið er einkennist útgáfan af dæmigerðum Hollywood-myndum enda er það einna helst í nýj- ustu hasarmyndunum sem bætt mynd- og hljóð- gæði nýta sín – því fleiri sprengingar því betra. Og þó getur maður spurt hversu miklu máli það skipti að sjá Adam Sandler í háskerpu í Click (2006) sem var fyrsta kvikmyndin sem fullnýtti geymslurými diskanna bláu. Hvað varðar sígildar myndir hefur lítið sem ekkert komið út í háskerpu á meðan DVD-útgáfan batnar með hverju árinu. Hví skyldu aðdáendur Billy Wilder bíða með að fjárfesta í Ace in the Hole (1951) þegar hún kemur loksins út á DVD nú í sumar, vitandi það að áratugur gæti liðið þangað til hún birtist á annað hvort HD-disk eða Blue-ray (þá mun annað kerfið væntanlega heyra sögunni til). Hafa verður í huga að færslan frá DVD yfir í háskerpu jafnast engan veginn á við stökkið frá myndbandi yfir í DVD, en þar kom fleira til en mynd- og hljóðgæði líkt og þægilegri umgjörð, margvíslegt ítarefni og tryggð við upp- haflega hlutfallsstærð kvikmyndanna. Mig grunar því að þeir verði fáir sem muni skipta út gamla dvd-safninu fyrir Blue-ray/HD jafnvel þótt þeir kunni að hafa skipt út gömlu spólunum fyrir DVD- myndir, þótt óhjákvæmilega komi að því að nýtt kerfi muni leysa það gamla af hólmi við kaup/leigu á nýjum myndum – en það gerist varla á næstunni. Ég er ekki viss um að þetta verði sú botnlausa tekjulind sem hátækni- og kvikmyndarisarnir hafa veðjað á. Blue-ray eða HD-DVD!!! SJÓNARHORN »Hér er því að finna ástæðuna fyrir því að tvö um margt sambærileg kerfi séu markaðs- sett á sama tíma. Lengi mátti vera ljóst að það myndi rugla neytendur í ríminu og því reyndu bæði kvikmyndaframleiðendur og verslunarkeðjur að miðla málum á milli fylkinganna en allt kom fyrir ekki. Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@wisc.edu Þ ann 28. apríl árið 2004, eða daginn sem ljósmyndirnar úr Abu Ghraib- fangelsinu í Bagdad bárust um heimsbyggðina, var ljóst að Banda- ríkjamenn höfðu tapað stríðinu í Írak. Hvernig svo sem stríðsrekstrinum sem slík- um átti eftir að vegna hafði þjóð- in glatað trúverðugleika sínum sem boðberi frelsis og lýðræðis. Nú er svo komið að myndir úr pyntingaklefum Bandaríkjahers í Abu Ghraib eru orðnar að ríkjandi táknmyndum stríðsins í heild, og mætti reyndar halda því fram að aðstæðurnar minni óþægilega á orðræðuna sem skapaðist umhverfis ljósmynd- ina af hinni níu ára gömlu og skaðbrenndu Kim Phucen, en sú mynd gegndi einmitt miðlægu hlutverki á sínum tíma í að móta almenningsálit á Víetnamstríð- inu. En hver er baksaga þessara heimsþekktu ljósmynda og myndbanda frá Abu Ghraib? Þetta er spurning sem heimildamyndin The Ghosts of Abu Ghraib (Vofur Abu Ghraib, 2007) leitast við að svara en mynd þessi, sem er leikstýrt og fram- leidd af Rory Kennedy, hefur á undanförnum mán- uðum verið tekin til sýninga í kvikmyndahúsum víða um heim enda þótt hún sé framleidd af banda- rísku kapalsjónvarpsstöðinni HBO. Sjálf er Rory Kennedy yngsta barn Roberts Kennedy og má því e.t.v. segja að pólitík sé henni í blóð borin. Kvik- myndaferill hennar ber þess enda merki en frá því að hún lauk háskólanámi hefur hún framleitt og leikstýrt röð heimildamynda sem taka á samfélags- málum á gagnrýninn hátt. Ógurlegur reynsluheimur Fyrsta mynd Kennedy, American Hollow (Inn- antóm Ameríka, 1997), vakti töluverða athygli en þar beindi hún sjónum að fátækri suðurríkja- fjölskyldu og lífsbaráttu hennar. Nýleg mynd Ken- nedy, Indian Point: Imagining the Unimaginable (Indian Point: Að hugsa um hið óhugsanlega, 2004) gerir að umfjöllunarefni þá hugleiðingu að kjarn- orkuver kynni að reynast eftirsóknarvert skotmark fyrir hryðjuverkamenn og í kjölfarið er spurt hverjar afleiðingar slíkrar árásar myndu vera. Í sinni nýjustu mynd, Vofur Abu Ghraib, rær Ken- nedy hins vegar á mið alþjóðastjórnmála og dregur einmitt upp fortíðardrauga sem sumum kann að þykja að hafi verið dysjaðir fullfljótt, en aðrir geta kannski ekki hugsað sér að horfast í augu við á nýj- an leik. Það sem hins vegar gerir mynd Kennedy sérlega áhugaverða er að hún leitast ekki við að skella skuldinni á þá sem þegar hafa fengið að gjalda þátttöku sína í pyntingunum í Abu Ghraib dýru verði, þ.e.a.s. óbreytta eða lágt setta hermenn sem voru sakfelldir fyrir framgönguna, heldur leit- ar hún þetta sama fólk uppi og gefur því kost á að útskýra ógurlegan reynsluheim sinn og hegðun frá eigin sjónarhorni. Aðalábyrgðinni á þeim mann- réttindabrotum sem áttu sér stað í pyntingaklefum Abu Ghraib skellir myndin, eins og vera ber, á herðar yfirmanna í hernum og rík- isstjórnar Bush, sem skipanir, reglugerðir eða þá skortur á slíku í bland við lögfræðilegt skrum átti rætur sínar að rekja til. Það að sjá fólkið, sem sjálft tók þátt í óhæf- unni, tala máli sínu er sennilega mest sláandi þátturinn í kvikmynd Kennedy. Hryðjuverkastríð Árið 2002 ákvað George Bush Bandaríkjaforseti að Genfarsátt- málinn næði ekki yfir fanga sem teknir væru höndum í hinu svokall- aða „hryðjuverkastríði“. Þetta var fyrsta ákvörðunin af mörgum sem leiddu til atburðanna sem myndin lýsir. Þó er rétt að taka fram að forðast ber að líta á Abu Ghraib sem einhverja stórkostlega og einstaka misfellu í annars ágætu kerfi – eitt af því sem kem- ur fram í myndinni er að um kerfisbundna notkun á pyntingum í ólíkum herfangelsum var að ræða, og hálfgerð tilviljun réð því að myndirnar bárust frá Abu Ghraib því svipað efni hefði vel getað komið annars staðar frá. Mynd Kennedy hefur reyndar verið hrósað fyrir að forðast hræðsluáróður og fara nokkuð jöfnum höndum um efnið, og skiptir þar ef- laust umtalsverðu máli að myndin fellur ekki í þá gryfju að fordæma á einfaldan hátt þá sem sak- felldir hafa verið í pyntingamálinu, en eins og áður segir eru það allt smáfiskar, heldur leita kvik- myndagerðarmenn skýringa á hegðun af þessu tagi og rekja ábyrgðina upp valdastigann. Myndin er að mörgu leyti látlaus og hefðbundin, ekki er notast við frásagnarrödd heldur er stuðst við myndræna framsetningu á efninu og þar bland- ast saman fréttamyndir, viðtöl við þá sem við sögu koma auk þess sem spjallað er við ýmsa viðmæl- endur og sérfræðinga, og síðast en ekki síst er myndefnið alræmda úr fangelsinu. Síðastnefnda efnið er að líkindum sá hluti myndarinnar sem kann að koma hvað sterkast við áhorfendur því hér birtast pyntingamyndir „óritskoðaðar“, ef svo má að orði komast, efni sem fjölmiðlar töldu sig ekki í stakk búna á sínum tíma til að birta áhorfendum. Þetta er sannarlega sláandi efni og engum sem það sér mun blandast hugur um að það sem fram fór í Abu Ghraib kallast réttu nafni stríðsglæpir. Það er á hinn bóginn athyglisvert að bera raunveruleikann eins og hann birtist í Abu Ghraib saman við þá sjón- varpsþáttaröð sem hefur e.t.v. á hvað augljósastan hátt brugðist við atburðunum sem áttu sér stað ell- efta september 2001, en það er 24 með íslandsvin- inum Kiefer Sutherland í aðalhlutverki. Þættir þessir hafa tekið mjög eindregna afstöðu gagnvart pyntingum sem réttlætanlegum viðbrögðum þegar þjóðinni er ógnað, og sýna pyntingar þá sem afar árangursríkar hvað upplýsingaöflun varðar og jafn- an eru þær framkvæmdar af afskaplega hæfu fólki á sínu sviði. Vofur Abu Ghraib sýna þvert á móti að um algjört kvalakarníval er að ræða þegar beislinu er sleppt af valdamiklum stofnunum, um er að ræða ómarkvissa niðurlægingu allra sem að málinu koma, athæfi sem skilar engu nema glundroða og þjáningu. Þannig er óhætt að segja að myndirnar sem hér eru sýndar úr pyntingastöðinni sam- anstandi af eins konar vofum samtímans, mynd- efnið sækir á og afbyggir frelsis- og lýðræð- ishugmyndir þær sem margir hafa einmitt haldið á lofti undanfarin misseri til að réttlæta Íraksstríðið. Það er einmitt þess vegna sem Mark Bowden, í grein sem nefnist „How to Break a Terrorist“ og birtist í nýjasta hefti bandaríska mánaðaritsins Atl- antic Monthly, segir Abu Ghraib hafa verið mesta áfall sem skollið hefur á Bandaríkjunum hingað til í Íraksstríðinu. Þá getur maður ekki annað en vonað að Bowden hafi rétt fyrir sér þegar hann segir í sömu grein að eftirköst hneykslismálsins hafi verið slík að yfirheyrsluaðferðir hersins í Írak hafi tekið stakkaskiptum. Hér segir Björn Þór frá kvikmyndaleikstjór- anum og -framleiðandanum Rory Kennedy og mynd hennar um pyntingarnar í Abu Ghraib- fangelsinu í Írak. Reuters Pyntingar Í myndinni er svarað leitað við spur- ingunni um bakgrunn ljósmyndanna heims- þekktu ljósmynda frá Abu Ghraib? Rory Kennedy Vofur samtímans

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.