Lesbók Morgunblaðsins - 17.11.2007, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 17.11.2007, Blaðsíða 8
1807 Jónas fæddur áHrauni í Öxnadal mánudaginn 16. nóvember, sonur séra Hallgríms Þorsteinssonar að- stoðarprests og Rannveigar Jón- asdóttur. Eldri systkini voru Þor- steinn, fæddur 1800, og Rannveig, fædd 1802. 1808 Flyst ásamt fjöl-skyldu sinni að Steinsstöðum í Öxnadal og elst þar upp. 1815 Fædd Anna Margrét,systir Jónasar. 1816 Hallgrímur, faðir Jónasar, drukknar í Hraunsvatni. Jónas er um haustið sendur að Hvassafelli í Eyjafirði til Guðrúnar, móðursystur sinnar, og dvelur þar næstu fjögur ár. 1820 Jónas stundar námundir handleiðslu séra Jóns Jónssonar lærða í Möðru- felli og talinn vel hæfur til frekara náms. 1821 Kominn aftur heimað Steinsstöðum. Næstu vetur dvelur Jónas í heima- skóla í Goðdölum í Skagafirði hjá séra Einari Thorlacius, frænda sín- um. Kynnist þar Brynjólfi Péturssyni og eru nánir vinir æ síðan. 1823 Jónas tekinn íBessastaðaskóla og er þar næstu sex vetur. Helstu kennarar hans þar og áhrifavaldar eru Hallgrímur Scheving, Svein- björn Egilsson og Björn Gunn- laugsson. Meðal vina sem Jónas eignast á Bessastöðum og fylgja honum síðan eru auk Brynjólfs Péturssonar Konráð Gíslason, Tómas Sæmundsson, Páll Mel- steð, Lárus Sigurðsson, Magnús Eiríksson frater, auk náfrænda hans Skafta Tímóteusar Stef- ánssonar. 1829 Jónas útskrifaður úrBessastaðaskóla með góðum vitnisburði, og bestum í reikningi. Ræðst til starfa hjá Ulstrup bæjarfógeta í Reykjavík sem skrifari, og starfar þar í þrjú ár. Á gaml- ársdagskvöld predikar hann í Dóm- kirkjunni. 1831 Jónas er skipaðurverjandi í nokkrum málum fyrir landsyfirrétti veturinn 1831-32. 1832 Jónas biður korn-ungrar stúlku, Krist- jönu Knudsen, sem býr í Landakoti. Hún neitar bónorðinu. Á þessum tíma hefur Jónas ort allmörg tækifæriskvæði, bæði á íslensku og dönsku. Meðal kvæða sem þarna liggja eftir hann má nefna Ad amicum og Söknuð. Jónas siglir utan til Kaupmanna- hafnar til náms um haustið og nær inntökuprófi með góðri einkunn. Góð ljóð vaxa frá höfundi sínum, þetta áauðvitað við um allan skáldskap, ogöðlast sjálfstætt líf um leið og einhver annar en skáldið sjálft les þau, verða al- gjörlega óháð skapara sínum, bein hans og hold visna smám saman í tímanum en ljóðið bara dafnar, styrkist með aldrinum. Tíminn er besti vinur ljóðsins en hann eyðir mann- eskjunni af hirðuleysi. Íslands minni er einfalt ljóð, það felur ekki merkingu sína, það er tært vatn og maður sér umsvifalaust til botns, ef Mozart hefði verið skáld, þá hefði hann ort svona kvæði. Einfalt en hægt að lesa það endalaust, það seytlar kliðmjúkt innra með manni, næstum sárt í einlægni sinni. En góð- ur skáldskapur getur hæglega öðlast nýja merkingu á nýjum tímum. Íslands minni er kannski einfalt og auðskilið, en það er jafn- framt svo merkingaþrungið að tímarnir gefa því sífellt nýjar víddir, og oft óvæntar; fegurð þess og söknuður getur orðið að djúpri, sárri ádeilu. Þannig hefur Íslands minni leitað á mig síðustu misserin, leitað mig uppi hvar sem ég er staddur, og stundum í fylgd með angurværu en hárbeittu smáljóði Guðmundar Böðvarssonar sem heitir Völuvísa, þið hljótið að kannast við það: Eitt verð ég að segja þér áður en ég dey, enda skalt þú börnum þínum kenna fræði mín, sögðu mér það álfarnir í Suðurey, sögðu mér það dvergarnir í Norðurey, sögðu mér það gullinmura og gleymmérei og gleymdu því ei: að hefnist þeim er svíkur sína huldumey, honum verður erfiður dauðinn. Ættjarðarástin, sem getur bæði verið falleg og hættuleg, er einlæg og angurvær í báðum ljóðunum, og líka ógnandi hjá Guðmundi næstum sigrihrósandi. Þessi tvö kvæði vakna innra með mér þegar fólk fer illa með um- hverfið sitt, tætir upp viðkvæman fjalla- og öræfagróður á jeppum eða mótórhjóli, og þau sungu í blóði mínu þegar stórvirkjunarofsinn stóð sem hæst og ríkjandi öfl, stjórnvöld og Landsvirkjun, létu náttúruna aldrei njóta vaf- ans, þegar rödd peninga og gróða þrumaði yf- ir landinu, frá bláum tindi fjalla og niður í sil- ungsá. Og þau leituðu mig aftur uppi síðastliðið sumar, ásamt þriðja ljóðinu, þegar hagsmunaöflum virtust ætla að takast að keyra olíuhreinsunarstöð í gegn á Vest- fjörðum, slengja mengandi skrímsli niður í Arnarfjörðinn, eyðileggja hann gersamlega, og aftur átti rödd og rök peningana að þagga snarlega niður í okkur; þeir sem voru á móti verksmiðjunni voru á móti Vestfjörðum og íbúum þeirra. Það var ekkert rúm fyrir svana- hljóm og því síður bláu lofti, björtum sjá. Svanahljómur og silungsá eru ómarktæk til- finningarök. Tilfinningarök virðast skamm- aryrði á okkar tímum.. En þarna sjáið þið bara lífið í Jónasi, það eru ljóðin hans sem koma til okkar þegar sil- ungsánni og bláu lofti er ógnað, og ljóð ann- arra skálda fylgja á eftir. Ljóð sem spyrja; eigum við skilið, í ljósi alls þess sem við höf- um gert, tært og kalt árvatnið á heiðalönd- unum grónu? Jónas orti sitt Ísland minni í Kaupmannahöfn, og það kom upp í huga minn þegar ég las kvæðið Áttum við skilið í reynd í nýjustu bók Hannesar Péturssonar Fyrir kvölddyrum. Er hér komið, hugsaði ég, Ís- lands minni okkar tíma, ekki mettað sakleysi og óspilltum söknuði nítjándu aldarinnar, heldur sakbitið og talar fyrir okkur sem lifum í upphafi tuttugustu og fyrstu aldarinnar, höf- um sýnt umhverfinu hirðuleysi – og kannski svikið okkar huldumey? Áttum við skilið í reynd árvatnið kalt, tært sem rann um hendur okkar á heiðalöndunum grónu? Vorum við sjálfir samboðnir því? Öðru nær. Og upp frá þeim stundum kliðar einmanaleg, innan hörundsins íshrein birta, næstum því með grátstaf. Íslands minni Eftir Jón Kalman Stefánsson kalman@bjartur.is Þið þekkið fold með blíðri brá og bláum tindi fjalla, og svanahljómi, silungsá, og sælu blómi valla, og bröttum fossi, björtum sjá og breiðum jökulskalla – drjúpi’ hana blessun drottins á um daga heimsins alla. Sex rithöfundar leggja út af jafn mörg 8 LAUGARDAGUR 17. NÓVEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók| Jónas 200 ára Söknuður Eftir Eirík Guðmundsson eirikurg@ruv.is Þótt ljóð séu búin til úr orðum virðastsum ljóð vera handan orða. Söknuðureftir Jónas Hallgrímsson er eitt þeirra. Maður leggur ekki til atlögu við það með þekkingu að vopni, þetta er ekki ljóð sem þarf að rannsaka og komast að niðurstöðu um. Enginn getur komið og sagt: Þetta ljóð þarf að rannsaka miklu betur, jafnvel þótt það kunni að enduróma ljóð eftir Goethe og tvær konur komi til greina. Það er vegna þess að það talar til okkar innan úr hugarheimi róm- antíkur sem slær öll síðari tíma vopn úr hönd- um okkar. Andspænis þessu ljóði hljótum við að leggja niður öll vopn. Þótt ljóðið sé róm- antískt og bundið tíma rómantíkur virðist það engu að síður vera tímalaust vegna þess að það lýsir tilfinningu og harmi sem leiðir til dauða. Þannig orðar Jónas hlutskipti okkar á öllum tímum um leið og ljóðið setur tilfinn- ingalífið í uppnám í hvert sinn sem það er les- ið. Þetta er ljóð sem styttir líf okkar, það er í vissum skilningi banvænt. Í raun og veru les maður það ekki með augunum heldur tilfinn- ingunum og sé það lesið of oft er hættan sú að það flýti fyrir ótímabærum dauða þess sem les. Þess vegna lætur maður það dvelja óljóst í huga sér fremur en að maður lesi það aftur og aftur eða leggi á minnið frá orði til orðs til að hafa á hraðbergi þegar réttu aðstæðurnar koma upp. Íslensk ástarljóð eftir tíma róm- antíkur – þau sem á annað borð standa undir nafni - eru endurómur af þessu kvæði, þau lýsa í vissum skilningi söknuði eftir þessu ljóði. Og vegna þess að tímarnir hafa liðið eins og þeir hafa liðið, þá horfum við sorg- araugum til þessa ljóðs, söknum þess, öllum stundum. Söknuður (brot) Man ég þig, mey! er hin mæra sól hátt í heiði blikar; Man ég þig, er máni að mararskauti sígur silfurblár. Heyri’ ég himinblæ heiti þitt anda ástarrómi; fjallbuna þylur hið fagra nafn glöð í grænum rinda. Lít ég það margt er þér líkjast vill guðs í góðum heimi: brosi dagroða, blástjörnur augum, liljur ljósri hendi. Dirrindí Eftir Gerði Kristnýju gkristny@simnet.is Heiðlóarkvæði“ er eitt af þekktustu ljóðumJónasar Hallgrímssonar. Ástæðan ereinföld, þetta er vel samið ljóð sem hverfist utan um einfalda atburðarás. Það fjallar um eitt af því sem Jónasi var hvað hugleiknast, náttúruna og átökin þar, en sama yrkisefni leitar til dæmis á hann í öðru þekktu ljóði, „Óhræsinu“. Ekki má síðan gleyma því að til er fallegt íslenskt þjóðlag við „Heiðlóarkvæði“ sem aukið hefur vin- sældir þess. Í fyrra erindinu af tveimur heldur lóan af stað að sækja mat fyrir ungana sína. Í fyrstu talar hún bara fuglamál – lætur eitt ,,dirrindí“ falla – en síðan tekur ljóðmælandi til við að ímynda sér hvað þessum litla fugli lægi nú á hjarta hefði hann mál. Og þó, kannski er þetta engin ímynd- un. Ljóðmælandi gæti hafa farið eftir því sem þeim, sem vilja skilja fuglamál, er ráðlagt í Þjóð- sögum Jóns Árnasonar. Þeim er bent á að verða sér úti um smyrilstungu, sem fæst örugglega í hvaða kjötborði sem er, og láta hana liggja í hun- angi tvo daga og þrjár nætur. Síðan er hún lögð undir tungurætur og þá er ekki að sökum að spyrja, fuglamál lýkst upp fyrir fólki. Ljóðmælandi gerir því skóna að lóan sé alin upp í guðsótta og góðum siðum því í einræðunni sem lögð er í gogg hennar lofar hún Drottin og fegurð sköpunarverksins áður en hún tekur til við að tíunda dagleg störf sín. Minnir hún þar á stolta húsmóður í viðtali við eitthvert vikuritið þegar hún segir frá því að hún eigi afkvæmi sem hún þurfi að gefa að borða. Tilfinningar hennar í garð afkvæmanna eru afar mannlegar því henni finnst þeim best lýst með orðinu ,,móðurtryggð“ og ungana kallar hún ,,börn“. Í seinna erindinu talar ljóðmælandi frá eigin brjósti og beinir nú lóunni heim í hreiðrið með svolitlum útúrdúr þar sem tekið er fram að sól hafi skinið og blóm gróið. Þegar svo björt mynd hefur verið dregin upp verður myrkrið í þeim næstu, sjálfum lokalínunum, þéttara en ella. Þar er skýrt frá því að hrafn hafi étið ungana. Bæði í upphafi og enda ljóðsins er tiltekinn tími því það hefst á orðinu ,,snemma“ en þá held- ur lóan af stað að verða sér út um vistir en í loka- línunum er tekið fram að hrafninn hafi étið ung- ana ,,fyrir hálfri stundu“. Í fyrstu virðist frekar smámunasamt af ljóðmælanda að taka fram að hálftími sé liðinn frá atburðinum. Manni dettur helst í hug réttarmeinafræðingur úr bandarísk- um sjónvarpsþætti sem horfir íbygginn á hálf- melta ungana og kveður upp þann úrskurð að af áverkunum að dæma hljóti morðið að hafa verið framið fyrir ,,tja ... svona hálftíma varla meira“. Þegar nánar er að gáð auka lokaorðin á hrylling- inn. Þau sýna að á meðan lóan baksaði við að afla ungunum sínum matar voru þeir sjálfir orðnir að hrafnsfæðu. Það er ekki oft sem dýr fá mál í íslenskum bók- menntum en þó hefur það hent. Hrafnar tala til dæmis í þjóðsögunum og þar spjalla kýr líka saman á þrettándanótt. Í ljóðinu „Snati og Óli“ eftir Þorstein Erlingsson fær hundurinn síðan mál. Hann lofar drengnum að leika sér að háls- ólinni en spyr jafnframt hvenær hann fái kökuna sem honum var lofað á móti. Enginn hirðir þó um að svara hvutta. Hestar virðast því miður vera þagmælskir sem er synd því þeir eru örugglega víðförlastir íslenskra húsdýra og gætu því eflaust haft frá einhverju krassandi að segja. Jónas kýs að gefa heiðlóunni, smávöxnum vað- fugli, mál í „Heiðlóarkvæði“ og hefur það vafalít- ið haft áhrif á það hvaða augum þjóðin lítur þenn- an fugl. Okkur finnst að minnsta kosti enn merkilegt þegar til hans sést fyrst á vorin, árlegt undur sem endar jafnan á forsíðum blaðanna. Alltaf hefur okkur líka hryllt við því að Bretar skuli skjóta lóuna og leggja sér hana til munns. Ekki tókst Jónasi að gera það sama fyrir rjúpuna með ljóðinu „Óhræsinu“ sem minnst var á hér í upphafi. Okkur þykir að minnsta kosti alveg sjálfsagt hún sé skotin og snædd. Munurinn á viðhorfi Íslendinga til þessara tveggja fugla ligg- ur í því að Jónas gaf lóunni mál á meðan rjúpan er þögult fórnarlamb. Það er, jú, erfiðara að myrða dýr sem getur beðið sér vægðar en þau sem aldrei ybba gogg. Heiðlóarkvæði Snemma lóan litla í lofti bláu,,dirrindí undir sólu syngur:

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.