Morgunblaðið - 25.04.2007, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 25.04.2007, Blaðsíða 30
30 MIÐVIKUDAGUR 25. APRÍL 2007 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR Vertu sæll elsku bróðir. Elsku Daiva, Gunnar, Óli og Daníel, megi guð gefa ykkur styrk í ykkar sáru sorg. Lát opnast augu mín, minn ástvin himnum á, svo ástarundur þín mér auðnist skýrt að sjá: hið fríða foldarskraut, hinn fagra stjarnaher á loftsins ljómabraut og ljóssins dýrð hjá þér. Lát opnast himins hlið, þá héðan burt ég fer, mitt andlát vertu við og veit mér frið hjá þér. Þá augun ekkert sjá og eyrun heyra ei meir og tungan mæla ei má, þá mitt þú andvarp heyr. (Valdimar Briem) Stefanía og fjölskylda. HINSTA KVEÐJA ✝ Einar Ólafssonviðskiptafræð- ingur fæddist í Reykjavík 16. nóv- ember 1952. Hann lést á Landspít- alanum við Hring- braut 17. apríl síð- astliðin. Foreldrar hans voru Ólafur Ragnar Karlsson málarameistari og Hrefna Einarsdóttir iðjuþjálfi. Systur Einars eru Stefanía María og Sigríður Jóna. Bróðir Einars, Ragnar, lést 1993. Einar kvæntist 14. júní 1975 Önnu Lilju Gunnarsdóttur. Þau skildu. Þau eiga tvo syni, Gunnar Ragnar, f. 15. nóvember 1978, son- ur hans er Daníel Snorri, f. 11. júní 1998. og Ólaf Pál, f. 16. júní 1983. Einar kvæntist 2. ágúst 1999 Ragnheiði Björk Guðmunds- dóttur. Þau skildu. Sambýliskona Einars er Daiva Léliené, f. 1. febr- úar 1972. Foreldrar hennar eru Jonas Remeskevicius og Lena Remeskeviciené. Einar byrjaði starfsferil sinn á sjó en árið 1975 varð hann verslunarstjóri í versluninni Hóla- garði í Reykjavík. Hann keypti Sæl- gætisgerðina Ópal árið 1981 og rak hana þangað til hann flutti með fjöl- skyldunni til Banda- ríkjanna til fram- haldsnáms í viðskiptafræðum ár- ið 1987. Þau fluttu aftur til landsins ár- ið 1995 og vann Ein- ar í ýmsum fyrirtækjum næstu ár- in svo sem Olís, Gistiheimilinu Egilsborg, Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri. Einar vann að ýmsum málefnum, s.s. að efla íslenskan tennis og hafði mik- inn áhuga á umhverfismálum. Ár- ið 2002 stofnaði hann fyrirtækið Sólarræstingu, sem hann rak til dauðadags, og er Sólarræsting fyrsta ræstingarfyrirtækið hér á landi sem fær umhverfismerkið Græna svaninn. Útför Einars verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13. Einar hefur kennt mér svo margt á okkar tíma saman en það er eitt gildi sem segir það allt: Gerðu allt það góða sem þú getur, með öllum þeim ráðum er þú getur, á allan þann hátt er þú getur, alls staðar þar sem þú getur, öllu því fólki er þú getur, eins lengi og þú framast getur. (John Wesley.) Þegar ég reyni að skilja þessi orð og hvers vegna við erum ekki leng- ur saman þá kemst ég að þessu svari eftir Abraham Lincoln: Það er ekki víst að ég sigri en ég hlýt að ganga heill til baráttunnar. Það er ekki víst að mér takist ætlunaverk mitt en ég hlýt að lifa í samræmi við það sem mér er gefið. Hann er farinn frá okkur en hann hefur kennt okkur hans veg og við höldum áfram áleiðis. Daiva Léliené. Elsku sonur minn. Mig langar að segja við þig nokk- ur orð, þó svo að ég viti ekki hver þau verða. Frá fyrstu mínútu elsk- aði ég þig afar heitt og það hef ég gert alla okkar samverutíð. Í allan vetur ertu búinn að standa eins og klettur í þínum miklu veikindum og hefur hert okkur hin upp. Þú lést aldrei neinn bilbug á þér finna. Ég bið góðan guð að styrkja Daivu, synina þína Gunnar Ragnar og Ólaf Pál og afastrákinn hann Daníel Snorra. Í þínum, Herra, helgidóm vér hefjum upp vorn barnaróm. Heyr hann af hæstri mildi. Og þótt vort auðmjúkt ástarkvak þér ei sé verðugt, mót því tak sem fórn í fullu gildi. Þitt heilagt orð, sem hljómar oss, sé hjörtum vorum dýrast hnoss og sannur sálarkraftur, það veri oss á vegum ljós og vort hið æðsta sigurhrós, þá héðan höldum aftur. (Guðmundur Einarsson.) Kveðja, mamma. Ég vil minnast bróður míns með nokkrum orðum og nota tækifærið til að þakka fyrir að hafa fengið að verða samferða honum þann tíma sem við áttum saman. Einar var stóri bróðir minn og alla tíð hef ég litið upp til hans sem fyrirmyndar sem vert er að fylgja. Leiðir okkar lágu ekki almennilega saman fyrr en eftir að við misstum bróður okk- ar í ömurlegu slysi fyrir tæpum fjórtán árum. Þá bjó Einar með fjölskyldu sinni í Bandaríkjunum. Fljótlega eftir andlát Ragnars flutti Einar alkominn til Íslands aft- ur og við systkinin náðum að tengj- ast þeim böndum sem voru mér ómetanleg. Við leituðum bæði svara í andlegum málefnum og gat ég í byrjun frætt hann á ýmsu sem ég hafði uppgötvað í andlegri leit minni en það leið ekki langur tími þar til Einar var farinn að fræða mig um margt sem hann upplifði í leit sinni. Alla tíð síðan höfum við borið bæk- ur okkar saman og reynt að lifa samkvæmt þeirri Guðs trú sem okk- ur var kennd. Einar var heiðarlegur maður og einbeittur mjög og lét mig óspart heyra ef honum mislík- aði eitthvað sem ég gerði eða sagði. Það gerði hann reyndar við alla en þetta var það í fari hans sem ég sóttist eftir. Ég gat alltaf reitt mig á að hann segði mér til á þann besta hátt sem hann kunni. Lífið hefur ekki alltaf verið auð- velt fyrir okkur í fjölskyldunni. Stundum fannst mér áföllin hafa verið meiri hjá okkur en þolanlegt var en Einar gat alltaf bent á góða og jákvæða hluti í stað þeirra sem ekki voru eins bjartir. Síðasta bar- áttan hans var ströng og óréttlát en ennþá gat hann kennt okkur að horfa á bjartar hliðar lífsins og gef- ast ekki upp. Það sem hann kenndi mér var margt en fyrst og fremst var það að njóta dagsins í dag og horfa alltaf fram á veginn með von í hjarta. Ég vil þakka stóra bróður mínum fyrir samfylgdina og bið Guð um að gæta hans. Eins bið ég Guð um að styrkja Daivu sem reyndist honum svo dýrmætur samferðamaður, Gunnar og Óla sem voru svo lán- samir að eiga Einar fyrir föður og hann var alltaf svo óendanlega stoltur af og Daníel, litla afastrák- inn sem hann vildi svo gjarnan hafa getað sinnt meira. Guð og englarnir veri með okkur öllum. Sigríður. Einar frændi okkar lést langt um aldur fram 17. apríl síðastliðinn eft- ir erfið veikindi. Elsku Hrefna, það er mikið á þig lagt í þessu lífi. Ekkert foreldri ætti að þurfa að ganga í gegnum þá raun að horfa á eftir barni sínu í gröfina. En einhver er tilgangurinn þó að við skiljum hann ekki. Hugur okkar dvelur hjá ykkur, nánustu ættingj- um Einars þessa dagana og við biðj- um góðan Guð að veita ykkur styrk. Ég aldrei hef lofað að brautin sé bein, né blómstígar gullskrýddir alla leið heim. Ég get ekki lofað þér gleði án sorgar, á göngu til himinsins helgu borgar. En eg hefi lofað þér aðstoð og styrk, og alltaf þér birtu þó leiðin sér myrk. Mitt ljúfasta barn ég lofað þér hef, að leiða þig sjálfur hvert einasta skref. (Staðf. Hjálmar Jónsson.) Vonum að þessi orð veiti ykkur einhverja huggun um leið og við kveðjum góðan dreng og þökkum honum samfylgdina. Sigrún (Systa) og börn. Þegar ég kveð vin minn og frænda Einar Ólafsson reikar hug- urinn til æskuáranna. Þó að Einar sé bróðursonur minn vorum við á svipuðum aldri og höfum því átta margar góðar stundir, bæði sem litlir drengir og fullorðnir menn. Það er ólýsanlega erfitt að sætta sig við fráfall Einars það eru aðeins um sjö mánuðir frá því hann veiktist. Ég heimsótti hann síðast hinn 1. apríl, þá var hann orðin mjög veikur en var ekki á því að gefast upp, allt skyldi reynt. Elsku vinur, ég ætla geyma minningarnar í huga mér, við hjónin biðjum Guð að gefa móður þinni, sonum, sonarsyni, systrum og sam- býliskonu styrk því mikið hefur dunið á fjölskyldunni á stuttum tíma. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Sveinbjörn Egilsson.) Guð blessi þig og verndi, elsku vinur, þér munum við aldrei gleyma. Sigurður Karl Karlsson og Soffía Árnadóttir. Frændi minn Einar Ólafsson er burt kallaður á besta aldri. Einar og ég vorum systkinasynir og höfum fylgst að frá því vorum litlir. Við slitum barnsskónum saman og svo tóku unglingsárin við þó að Einar hafi verið aðeins yngri fundum við ekki fyrir því. Einar var tryggur frændi, það voru mörg símtölin sem hann hringdi eða kom að heilsa upp á frænda eins og hann kallaði mig. Oft kom hann á vinnustað til að fylgjast með hvernig gengi, síðan kom hann til starfa hjá mér um tíma til að kynnast því sem ég var að gera og helst að fá að taka á því eins og hann orðaði það. Að vera úti að vinna undir berum himni og anda að sér fersku lofti fannst honum yndislegt, hann var duglegur og góður verkmaður. Síðar stofnaði Einar fyrirtæki sem hann rak ásamt konu sinni. Oft miðluðum við hvor öðrum og leið- beindum hvernig væri gott að standa að fyrirtækjarekstri. Einar var ljúfur og góður frændi sem ég mun sakna, hann gaf mér margt í lífinu það var gott að eiga hann að. Við erum aldrei búin undir það að kveðja en fyrirheit Drottins um ei- líft líf gefa okkur von um endur- fundi í dýrð eilífðarinnar. Er ég kveð Einar í þökk fyrir samfylgd og vináttu á lífsins vegi felum við hann þeim Guði sem gaf honum lífið. Biðjum góðan Guð að styrkja eig- inkonu, syni móður, systur og ætt- ingja og vini. Þinn frændi Karl Stefán Hannesson. Ég kynntist Einari Ólafssyni fyr- ir tæpu ári en það varð til þess að hann réð mig sem þjónustustjóra hjá fyrirtæki sínu, Sólarræstingu. Á þessum fyrsta fundi okkar mætti mér kraftmikill og einbeittur ein- staklingur, sem hafði áhuga á öllu innan þessa heims og utan, einn stærsti persónuleiki sem ég hef fyr- ir hitt um ævina. Einar var maður mikils sjarma en einnig hafði ég á tilfinningunni að augu hans næðu að lesa sálu hvers þess er við hann ræddi. Einar hafði því við fyrstu kynni mikil áhrif á mig, enda hans helstu kostir að hafa einstakan hæfileika til að hrífa fólk með sér, ásamt óbilandi sannfæringarkrafti og stórkostlegu viðhorfi til lífsins. Þær voru ófáar stundirnar þar sem lítið spjall okkar á milli endaði í löngum heimspekilegum umræðum um lífið og tilveruna og í þeim sam- ræðum leið tíminn ávallt hratt. Það var ómögulegt að láta sér leiðast í félagsskap Einars. Eldmóður hans og áhugi var þvílíkur að það var ekki hægt annað en að hrífast með og heillast. Áhugi hans á framförum og framþróun, ásamt umhyggju fyr- ir velferð fólks var þvílík að mér persónulega fannst ég ávallt vera á leiðinni að frelsa eða sigra heiminn eftir hvert okkar samtal. Einar nefndi stundum að hann væri ekki maður sem fetaði hina beinu leið, heldur ætti hann það frekar til að fara ótroðnar slóðir. Oftar en ekki hefðu ljón mætt honum á hinum grýtta vegi hins hugrakka land- könnuðar en hann hefði ávallt náð að finna leið framhjá þeim enda væri ekkert gaman að því sem ekki fælist í einhvers konar áskorun. Það væri jú einfaldlega hans eðli og náttúra. En á haustmánuðum á síð- astliðnu ári mætti Einar ljóni sem reyndist honum að lokum ofviða. Það var þó aldrei bilbug á honum að finna og jákvæði hans og bjartsýni ásamt ást á lífinu þrátt fyrir erfið veikindi voru okkur öllum sem hann umgengumst daglega mikil hvatn- ing og ómetanlegur lærdómur. En það er ekki einungis kraftur og elja Einars sem eftir situr í minning- unni, nú þegar komið er að kveðju- stund, heldur einnig hlýja hans og elska sem hann náði að umvefja alla sem návist hans nutu. Hjá Einari var ávallt hægt að fá lánað eyra, faðmlag, falleg orð eða hvað það sem á þurfti að halda hverju sinni. Hann hafði lag á fólki. Góður maður er genginn og hans verður sárt saknað. Ég sendi Daivu minni, sonum Einars og öllum þeim er hann elsk- aði og elskuðu hann í þessari jarð- vist mínar einlægustu og dýpstu samúðarkveðjur. Megi Guð vera með ykkur. Linda Sif Þorláksdóttir. Kveðja frá Tennissambandi Íslands Í dag kveðjum við okkar góða fé- lagsmann Einar Ólafsson, sem lést fyrir aldur fram eftir erfið veikindi. Einar var mikill tennisáhugamaður og vildi veg íþróttarinnar sem mest- an enda átti hann ríkan þátt í upp- byggingu hreyfingarinnar hér á landi, bæði sem iðkandi og stjórn- armaður í TSÍ. Við sem störfuðum með honum söknum góðs vinar og vottum virðingu ötulum baráttu- manni. Við sendum fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur. Stefán Eggertsson, fyrrverandi formaður TSÍ. Fyrrverandi tengdasonur okkar, Einar Ólafsson, hefur nú kvatt þennan heim, langt um aldur fram, eftir stutta sjúkralegu. Fyrstu kynni okkar og Einars hófust fyrir 35 árum, þegar dóttir okkar Anna Lilja og Einar felldu hugi saman. Næstu tvö árin bjuggu þau hjá okk- ur í Árbænum þar til þau fluttu í sína íbúð. Fyrir 20 árum ákváðu þau svo að flytja til San Diego í Bandaríkjunum og hefja þar nám. Þar dvöldu þau ásamt sonum sínum næstu átta árin. Við hjónin heim- sóttum þau á hverju ári og dvöldum þar í 4–6 vikur í senn. Hluta af þeim tíma ferðuðumst við saman innan Kaliforníu. Á sumrin þegar þau komu heim á þessum árum dvöldu þau á heimili okkar. Heim komu þau svo alkomin fyrir 12 árum. Upp úr því skildi svo leiðir þeirra en þau voru ávallt vinir. Við þökkum Einari góð kynni gegnum árin og hversu trygglyndur hann var í okkar garð. Fram á síð- asta dag ævi sinnar hringdi hann til okkar á afmælisdögum okkar hjónanna og óskaði okkur til ham- ingju með daginn, sama hvar við vorum stödd í heiminum. Samveru- stundir okkar í gegnum árin þökk- um við fyrir og munum geyma í minningunni. Á kveðjustund sendum við inni- legar samúðarkveðjur til konu hans og móður. Einnig til drengjanna tveggja, sona Einars og Önnu Lilju, þeirra Gunnars Ragnars og Ólafs Páls. Barnabarni Einars, Daníel Snorra, sendum við einnig samúðar- kveðjur, systrum Einars og öðrum ástvinum. Hvíl í friði, kæri vinur. Gunnar Snorrason og Jóna Valdimarsdóttir. Það var snemma í dymbilviku að við sátum saman og ræddum um málefni dagsins. Samtalið snerist fljótlega um bátinn sem stóð úti á hlaðinu og ákveðið var að flytja norður í Skagafjörð um páskana. Ég kem með þér, sagði Einar að bragði, þú kannt ekki að bakka með vagninn aftan í jeppanum. Þetta var svo sannarlega sá Einar sem við höfum verið svo lánsöm að þekkja og eiga að vini í hartnær þrjátíu ár. Glettinn, stundum örlaði fyrir góð- látlegri stríðni, en fyrst og fremst viljugur til að hjálpa, ósérhlífinn og fórnfús. Örfáum dögum seinna komu hann og Daiva í heimsókn. Ég treysti mér ekki norður, sagði hann um leið og þau kvöddu okkur. Þú ferð bara varlega þegar þú þarft að bakka með vagninn aftan í jepp- anum og mundu að leggja rétt á ef vagninn fer að snúast. Þrátt fyrir að sjúkdómurinn nagaði var neistinn á sínum stað og viljinn til að láta gott af sér leiða. Einar stofnaði Sólarræstingu eft- ir finnskri fyrirmynd. Í framtíðar- sýn sem hann setti á blað við stofn- un fyrirtækisins lýsti hann sínu hlutverki svona: „Framtíðarsýnin varðandi mitt hlutverk í fyrirtækinu er að vera kyndilberi tilfinninga- ríkra, mannlegra samskipta, vegna þess að ef hjartað er virkjað til góðra verka verður árangurinn betri.“ Hann trúði því að árangur fyrirtækisins fælist í ánægðu starfs- fólki. Hann bar virðingu fyrir fólk- inu sem vann við að skúra gólf og vildi hag þess sem mestan og hann gætti þess sérstaklega að útlend- ingar sem unnu hjá fyrirtækinu fengju alla þá aðstoð sem unnt var að veita. Einar var menntaður í við- skiptafræðum. Hiklaust er hægt að fullyrða að innan fræðanna stóð hugur hans mest til mannlega þátt- arins. Hann átti auðvelt með að ná til fólks, var næmur á tilfinningar annarra og naut þess mjög að vera með fólki. Undir styrkri stjórn Ein- ars og sambýliskonu hans Daivu, hefur fyrirtækið Sólarræsting stækkað og dafnað og ekki síst vegna áherslunnar á hin mannlegu gildi. Einar var stöðugt að eins og sagt er. Kringum hann var aldrei logn. Hann eignaðist sælgætisgerðina Ópal og hóf útflutning á hinum þekktu ópaltöflum til Ameríku þar sem þær eru ennþá seldar. Hann seldi sælgætisgerðina og flutti með fjölskylduna til Ameríku og dvaldi þar við nám í um það bil átta ár. Þegar heim var komið stundaði hann kennslu bæði á Bifröst og í Háskólanum á Akureyri þar til hann stofnaði Sólarræstingu. Upp- haf vináttu okkar var á tennisvell- inum þar sem við áttum eftir að hittast svo oft og eiga margar góðar stundir. Nú, þegar seinasti tenn- isboltinn hefur verið sleginn, vott- um við kærum vini virðingu og kveðjum. Innilegar samúðarkveðjur send- um við fjölskyldu hans. Ágúst og Björg. Einar Ólafsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.