Morgunblaðið - 31.12.2007, Qupperneq 30
30 MÁNUDAGUR 31. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
Hvað mig varðar er eftirminnilegast af
liðnu ári sýning Listasafnsins á verkum
Kristjáns Davíðssonar. Það var geysigaman
að vinna að þeirri sýningu og frábær aðkoma
margra manna, líka falleg bók sem henni
fylgdi – og fylgir auðvitað enn. Það eru nú
langir þræðir í okkur sem þjóð en ég held að
nú hafi menn loksins áttað sig á því að þarna
hefði maður farið fram hjá þeim – maður
sem er ennþá að, er orðinn níræður en er
enn að skapa í fullu fjöri. Það er alveg ein-
stakt. Þessu fylgdu líka yndisleg samskipti
við hann sjálfan.
Svo vorum við með Kobra-sýningu. Það er
í fyrsta sinn sem stór sýning frá Kobrahópn-
um er sýnd hér og þar var bætt við dágóðum
hlut Svavars Guðnasonar sem fékk þá loks
að vera hér í því samhengi. Þetta gerir að
verkum að nú er í bígerð stór yfirlitssýning
á verkum hans sem á eftir að fara víða um
lönd en byrjar hér 2009. Svo þetta er allt í
samhengi.
Það æxlaðist því þannig að báðir þessir
eldri meistarar léku stórt hlutverk hér í
Listasafninu á síðasta ári. En svo má ekki
gleyma því að á sumarsýningunni okkar var
viðrað nýkeypt verk eftir Katrínu Sigurð-
ardóttur, tiltölulega unga listakonu sem er
búsett drjúgan hluta ársins í New York.
Þetta verk nefnist High Plane og var smíðað
inn í efri sali okkar og ég held að þetta ein-
staka verk hafi vakið alveg ótrúlega athygli.
Þetta er eiginlega landslagsverk sem er lagt
lárétt og hægt að fara upp í tvo stiga til að
virða það fyrir sér. Þetta verk er síðan enn
uppi og hægt að sjá það fram í febrúar og
allir velkomnir að gera það!
Ég held að það sé að aukast hér mjög
skilningur á samtímamyndlist. Og ég finn að
þessi nýja stétt stöndugra manna hérlendis
er mjög að snúa sér að samtímamyndlistinni.
Menn eru mjög spenntir fyrir henni og ég
veit um nokkra menn sem eru bæði miklir
safnarar og eru á faraldsfæti með reglulegu
millibili til að fylgjast líka með því sem er að
gerast erlendis.
Varðandi það sem er framundan þá verður
töluverð áhersla á samtímalist í Listasafninu
þar sem heimsþekktir erlendir listamenn
taka höndum saman við innlenda listamenn.
Það hefur allt of lengi viðgengist hér heima
að íslenskir listamenn sýna sér og svo er er-
lendum listamönnum boðið að sýna sér. En
það hefur verið allt of lítið um það að leiða
hesta þessara tveggja heima saman. Það er
eitthvað sem verður að gerast meira. Við
sem erum alltaf með þessa útrás á vörunum
– við getum rétt séð hvernig við myndum líta
út ef við værum ekki í tengslum við hluti
annars staðar í heiminum. Og það er það
sem Íslendingar átta sig kannski ekki á, að
þeir verða að taka á sig rögg, vera þjóð á
meðal þjóða. Þar er mikið atriði að hægt sé
að sýna fram á að list okkar er í tengslum
við og partur af hinu alþjóðlega samhengi.
Varðandi einkalífið var ég náttúrlega gerð-
ur að safnstjóra við Listasafn Íslands á
árinu. Ég held að það sé nú það merkileg-
asta sem á daga mína hefur drifið á þessu
ári.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Halldór Björn Runólfsson safnstjóri Listasafns Íslands
Innreið hins alþjóð-
lega samhengis
„Árið sem er að líða var mér bæði gjöfult og
viðburðaríkt,“ segir Þórhildur Líndal, mann-
réttindaráðgjafi Reykjavíkurborgar. „Það hef-
ur ekki síst einkennst af ferðalögum. Ég var á
faraldsfæti og kom á ýmsa staði sem ég hafði
ekki áður komið til.“
Barnasáttmáli
Þórhildur dvaldi m.a. um hríð í Strassborg
og kynnti sér dóma Mannréttindadómstóls
Evrópu þar sem Barnasáttmáli Sameinuðu
þjóðanna kemur við sögu. „Þetta gerði ég til
að rannsaka hvernig sáttmálanum er beitt, en
honum er ætlað að tryggja mannréttindi og
öryggi barna alls staðar. Ég komst að því að
það virðist nokkurri tilviljun háð hvort og hve-
nær dómstóllinn vísar í sáttmálann. Síðustu ár
hefur þó meira púðri verið eytt í túlkun á hon-
um en áður. Að því leyti virðist hann vera að
festa sig í sessi og áhrif hans þar með að
aukast.“ Þórhildur bendir á að Barnasáttmál-
inn sé sá alþjóðlegi sáttmáli sem víðast hefur
verið fullgiltur, þ.e. í öllum ríkjum Sameinuðu
þjóðanna utan Bandaríkjanna og Sómalíu.
Þrátt fyrir það hefur honum ekki verið beitt
sem skyldi.
Þórhildur hefur líka skoðað íslenska hæsta-
réttardóma þar sem vikið er að Barnasáttmál-
anum. „Mér fannst spennandi að bera íslenska
dóma saman við dóma Mannréttinda-
dómstólsins og ég kynnti mér alla hæstarétt-
ardóma síðustu tíu ár. Ég komst að því að
sáttmálanum er einnig beitt með tilvilj-
unarkenndum hætti hér á landi. Sá munur er
þó á að hér er vísað til mun færri ákvæða sátt-
málans en gert er fyrir Mannréttinda-
dómstólnum.“ Þórhildi fannst sláandi að
Hæstiréttur sjálfur hefur aldrei vísað til
Barnasáttmálans. ,,Héraðsdómarar hafa vísað
til hans, sem og lögmenn sem flutt hafa mál
fyrir Hæstarétti, en í hann er ekki vísað í
dómum Hæstaréttar. Með þeirri undantekn-
ingu þó að í sératkvæði tveggja dómara í einu
máli er fjallað nokkuð ítarlega um rétt barna
til að segja skoðun sína á máli.“
Vantar fræðslu
Lokaniðurstaða Þórhildar er sú að ekki sé
horft til Barnasáttmálans sem skyldi hér á
landi og að grípa þurfi til aðgerða til að
styrkja stöðu hans. „Ég tel mjög brýnt að
fræða fólk, einkum þá sem vinna að málefnum
barna, um markmið og efni sáttmálans.
Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur
bent íslenskum stjórnvöldum á að hér þurfi
öflugri kynningu. Kynning af þessu tagi út-
heimtir mikla vinnu því það er mjög breiður
hópur sem ætti að hafa grunnþekkingu á rétt-
indum barna eins og þau eru skilgreind í
Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“
Þórhildur leitaði fyrir nokkru eftir sam-
starfi við UNICEF um útgáfu á kennslu- og
upplýsingariti um Barnasáttmálann. „Það
samstarf hefur nú borið árangur,“ segir hún.
„Á átján ára afmæli sáttmálans, 20. nóvember
síðastliðinn, kom loks út fræðslurit sem ég
hafði lengi átt mér draum um. Þar er m.a. að
finna túlkanir og útskýringar á ýmsum atrið-
um sáttmálans.“ Áhersla var lögð á að ritið
væri þægilegt aflestrar og aðgengilegt.
Hollt að breyta til
Þórhildur er sérstaklega ánægð með að
hafa lokið þessari skýrslu. „Þar með batt ég
endahnútinn á stórt verkefni. Fyrir rúmu ári
tók ég svo við starfi mannréttindaráðgjafa
Reykjavíkurborgar, sem verður mannrétt-
indastjóri frá og með 1. janúar, og mín bíða
mörg spennandi verkefni,“ segir hún. Þórhildi
finnst mikilvægt að söðla um af og til. „Við vit-
um ekki hvað bíður okkar eftir þetta líf og ég
reyni að nýta sem best þau tækifæri sem mér
bjóðast hverju sinni.“ Áður var Þórhildur um-
boðsmaður barna, deildarstjóri í félagsmála-
ráðuneytinu, fulltrúi yfirborgardómarans í
Reykjavík og starfaði í forsætisráðuneytinu.
Barnalán
„Hvað einkalífið snertir, þá eignaðist ég
mitt fimmta barnabarn, yndislegan lítinn
dreng, í ár. Þótt það sé margtuggið er það
engu að síður svo þegar öllu er á botninn
hvolft að fjölskyldan er verðmætust af öllu.
Annað verður hjóm í samburði. Ég nýt þess að
vera amma og sjá lífið halda áfram í barna-
börnunum,“ segir hún að lokum.
Þórhildur Líndal, mannréttindaráðgjafi Reykjavíkurborgar
Barnasáttmáli og barnalán
Nú er ég bæði kvikmyndagerðarmaður og
gay aktívisti en auðvitað horfi ég á sam-
félagið með augum aktívistans. Á þessu ári
hefur mér fundist merkileg öll umræðan
sem hefur farið fram um þjóðkirkjuna og
innan hennar. Þá á ég ekki bara við yfirlýs-
ingar á kirkjuþingi um að vilja stíga það
skref að framkvæma löggjörninginn stað-
fest samvist – hjónaband homma og lesbía
– heldur er ég einnig mjög hugsi yfir nýlið-
inni umræðu um fermingarfræðslu og
kennslu kristinna fræða almennt í grunn-
skólum. Sérstaklega því hversu hatrömm
hún hefur verið af hálfu biskups gegn þeim
sem ekki aðhyllast þjóðkirkjuna og kristna
trú. Mér hefur fundist sú orðræða sem
hann hefur gripið til ekki sæma nokkrum
biskupi og sérstaklega ekki biskupi Íslands
sem á í raun vegna sérstöðu sinnar sem
höfuð ríkiskirkjunnar að vera sameining-
artákn þjóðarinnar og til friðs. Ég vona að
á næsta ári geti skapast vitrænni umræða
um þessi mál. Það mætti til dæmis halda
málþing og fyrirlestra þar sem mættu
koma að heimspekingar, listamenn, mann-
réttindasérfræðingar og rithöfundar því
það er nauðsynlegt í lýðræðissamfélagi að
þessi umræða fari fram á vitrænum nótum
en ekki í skítkasti og leiðindum.
Þetta snertir allt það breytta fjölmenn-
ingarsamfélag sem við stöndum frammi
fyrir og þá undarlegu stöðu að vera með
ríkiskirkju og ríkistrú sem eru svolítið barn
síns tíma. Það er ekki hægt að bjóða upp á
að hugmyndum sé þröngvað upp á á nem-
endur sem eru ekki kristnir. Kristin trú á
að fá að vera val innan skólanna.
Sem kvikmyndagerðarmaður varð ég
annars hugsi yfir þeirri átt sem Ríkissjón-
varpið hefur fengið að þróast í á árinu.
RÚV sem stundum hefur verið kölluð risa-
eðlan á meðal kvikmyndagerðarmanna hef-
ur vissulega losnað aðeins úr viðjum þess
þrönga stakks sem þessi stofnun var föst í.
En mér finnst það vera komið fram úr
sjálfu sér með gríðarlegu magni auglýsinga
og þar að auki auglýsinga inni í flestum ís-
lenskum þáttum. Þótt ég sé fylgjandi
sterku ríkissjónvarpi er þetta of langt
gengið. Hinn almenni borgari er skikkaður
til þess að greiða áskrift að þessum miðli
og því eigum við ekki að þurfa að þjást
undir oki auglýsinganna. Hvernig umhverfi
er verið að búa öðrum miðlum sem hafa
ekki fé frá ríkinu til rekstrar auk auglýs-
ingatekna? Svona líðst hvergi annars staðar
í heiminum af ríkismiðli.
Varðandi framtíðina finnst mér sem
stjórnmálamenn séu að fá meiri skilning á
að íslenska ríkið geti gert mikið til að
styðja við bakið á kvikmyndaiðnaðinum. Ef
við horfum til Dana þá tóku þeir einfald-
lega ákvörðun fyrir 10-15 árum um að setja
mikið fjármagn í að byggja þennan iðnað
upp, m.a. með því að setja á stofn Dansk
Filminstitut, þjálfa fólk til meiri fagþekk-
ingar á öllum sviðum. Þetta er að skila sér
margfalt, til dæmis í gríðarlega góðum
dönskum sjónvarpsþáttum.
Þar sem ég er kvikmyndagerðarmaður er
enginn munur á atvinnu minni og einkalífi.
Síðasta vor lauk ég við heimildarmyndina
Óbeislaða fegurð um samnefnda fegurð-
arsamkeppni á Vestfjörðum. Það var ynd-
isleg reynsla að kynnast Vestfjörðum og
samfélaginu þar. Það býr mjög skemmti-
lega þenkjandi fólk fyrir vestan og mér líð-
ur eins og ég hafi eignast stóra fjölskyldu
þar.
Hrafnhildur Gunnarsdóttir, kvikmyndagerðarkona
Vitræna en ekki
hatrama umræðu
Morgunblaðið/Ómar