Morgunblaðið - 18.02.2008, Qupperneq 23
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 18. FEBRÚAR 2008 23
MINNINGAR
Látinn er eftir erfið
veikindi kær föður-
bróðir okkar Jóhann
Tómas eða Daddi
frændi eins og við frændsystkinin
kölluðum hann alltaf. Hann var
yngstur bræðranna þriggja sem allir
hafa nú kvatt þessa jarðvist. Faðir
okkar, Hólmsteinn, lést 1995 og Jón
1996. Þeir voru sérlega samrýndir
bræður og vinátta þeirra einstök.
Þeir bræður reistu húsið Eiðsvalla-
götu 24 með foreldum sínum, ömmu
Sigríði og Agli afa og þar bjuggu fjöl-
skyldurnar. Oft var glatt á hjalla hjá
stórfjölskyldunni og allir dekruðu við
okkur bræðrabörnin sem vorum einn
stór systkinahópur. Þar styrktust
fjölskylduböndin. Fjölskyldurnar
stækkuðu og fluttu síðar hver af ann-
arri úr Eiðsvallagötunni, en sam-
gangurinn var alltaf mikill.
Bubba og Daddi fluttu í Byggða-
veginn og voru jólaboðin alltaf til-
hlökkunarefni og þaðan eigum við
margar góðar minningar.
Bræðramótin sem haldin hafa ver-
ið, eftir að stórfjölskyldan dreifðist
um landið, hafa fært okkur öllum
mikla ánægju. Fjórir ættliðir hafa
komið saman, börnin kynnst frænd-
systkinum sínum og minningar
óspart rifjaðar upp.
Nú verður sjónarsviptir að þeim
bræðrum á mótunum okkar þegar
þeir eru allir fallnir frá.
Daddi var mikill íþróttamaður á
sínum yngri árum, spilaði fótbolta
með Þór og var formaður þess félags
um tíma. Hann skráði frændsystkinin
í félagið og hvatti alla til dáða. Hann
hafði alltaf miklar taugar til Þórs og
þar eignaðist hann trausta vini.
Daddi var einstaklega skemmtileg-
ur, glaðvær og lét ekki sitt eftir liggja
á ættarmótunum. Hann var góðlát-
lega stríðinn og alltaf var stutt í grínið
og glensið. Hann var stórhuga og
drífandi, en það áttu þeir sameigin-
legt bræðurnir.
Alltaf var gott að koma á fallega
heimilið til Bubbu og Dadda á Akur-
eyri og síðar eftir að þau fluttu til
Reykjavíkur. Dýrindis veitingum var
snarað á borð og spurt frétta af fjöl-
skyldunni. Þau voru alla tíð glaðvær,
skemmtileg og samhent hjón.
Við eigum Dadda frænda svo
margt að þakka. Aldrei komu þau
hjón norður án þess að líta í heimsókn
til foreldra okkar. Eftir andlát pabba
reyndust þau mömmu alveg sérstak-
lega vel.
Kærum frænda þökkum við sam-
fylgdina. Blessuð sé minning hans.
Elsku Bubba, Sigga Dóra, Egill,
Öddi og fjölskyldur, okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Börn Hólmsteins og Margrétar.
Það var með sorg í hjarta sem við
systkinin fréttum að Jóhann Tómas,
Daddi frændi, væri látinn. Föður-
bróðir okkar sem við elskuðum öll
fyrir hans einstæðu mannkosti og
frændrækni. Þegar við lítum yfir far-
inn veg er margs að minnast. Minn-
ingar sem allar eiga það sameiginlegt
að vekja bros á vör og hlýhug í hjarta.
Að hugsa til Dadda frænda felur í
sér að hugurinn leitar einnig til
Bubbu, Bjargar Jónsdóttur, eigin-
konu hans í rúmlega 60 ár. Samheldn-
ari hjón er ekki hægt að hugsa sér og
betri fjölskyldufyrirmynd er vand-
fundin. Heimili þeirra hjóna stóð
ávallt opið fyrir heimsóknum frænd-
systkinanna og var okkur ávallt tekið
opnum örmum og rætt við okkur sem
vitibornar manneskur frá barnsaldri.
Það sem einkenndi viðmót Dadda og
Bubbu í garð okkar systkina var til-
Jóhann Tómas
Egilsson
✝ Jóhann TómasEgilsson fæddist
á Akureyri 29.
ágúst 1926. Hann
lést á Hjúkr-
unarheimilinu Eir í
Reykjavík 9. febr-
úar síðastliðinn og
var jarðsunginn frá
Bústaðakirkju 15.
febrúar.
finningin sem þau gáfu
okkur um að við vær-
um alveg sérstakir og
áhugaverðir gestir.
Þau höfðu alltaf áhuga
á að vita allt um okkur
og við vorum hvött til
að segja frá okkar hög-
um, draumum og
áformum. Bjartsýnn
og hreinskilinn atorku-
maður, það var Daddi
frændi.
Í dag er rætt um
mikilvægi þess að
skapa góð og trygg fé-
lagsleg netverk. Þar var Daddi
frændi langt á undan sinni samtíð.
Hann átti félaga og hafði sambönd
sem gerðu honum einum kleift að
gera hluti sem aðrir létu sig ekki einu
sinni dreyma um. Fyrir okkur krakk-
ana var Mackintoshið í jólaboðunum
toppurinn á tilverunni og lengi vel
ekki að finna annars staðar en í
Byggðaveginum á Akureyri á þeim
tíma. Það er ekki að undra að Dadda
hafi tekist að byggja tryggt félagslegt
netverk. Gleði hans og hlátur smitaði
frá sér og hann var áhugasamur í fé-
lagsmálum, íþróttum og hæfileika-
maður góður. Íslandsmeistari í bad-
minton, mikill skíða- og skautaunn-
andi og afburða stangveiðimaður.
Frímúrarareglan og Lionshreyfingin
stóðu honum nærri en félagsleg
tengsl hans voru ekki aðeins bundin
þessum samtökum heldur átti hann
kunningja og vini þvert í gegnum
þjóðfélagið. Hefur hann örugglega
reynst þeim vinum sínum vel, rétt
eins og stórfjölskyldunni allri.
Jóhann Tómas starfaði til fjölda
ára í Iðnaðarbankanum, bæði á Ak-
ureyri og á höfuðborgarsvæðinu. Þau
spor sem hann skilur eftir sig innan
bankageirans eru ein af mörgum sem
lýsa atorkumanninum Dadda frænda,
en þar var gjarnan sagt um duglegan
bankastarfsmann „það er svolítill
Daddi í honum þessum“. Það sem
einnig lýsir bjartsýnismanninum sem
taldi ekkert ómögulegt er að hann
fæddist sem yngsti bróðir af þremur
en tókst þrátt fyrir það að verða
þeirra elstur.
Kærs frænda munum við minnast
með gleði í hjarta og bros á vör.
Elsku Bubba, Sigga Dóra, Egill og
Öddi, okkar innilegustu samúðar-
kveðjur.
Gísli, Fanny, Egill og
Sigríður Jónsbörn.
Jóhann T. Egilsson er einn þeirra
samstarfsmanna minna úr Iðnaðar-
banka, sem mér er minnisstæðastur.
Þegar útibú Iðnaðarbankans á Akur-
eyri var stofnað árið 1965 tók hann við
starfi skrifstofustjóra útibúsins og
gegndi því um árabil með miklum
ágætum.
Á þessum árum var háð mikil sam-
keppni milli banka um innlánsfé, sem
var undirstaða útlána, en mikil eft-
irspurn var eftir lánsfé. Í þessu um-
hverfi nutu einstakir hæfileikar Jó-
hanns sín. Hann laðaði að sér
viðskiptamenn með ljúfmennsku og
hjálpsemi, en jafnframt var hann
fylginn sér og kappsamur að afla
bankanum viðskifta.
Eitt sinn hitti ég Jón G. Sólnes,
bankastjóra Landsbankans á Akur-
eyri og kvartaði hann undan sam-
keppni við Iðnaðarbankann. Tók
hann sem dæmi, að Jóhann hefði hitt
einn viðskiptamanna sinna á fjöllum
uppi og þau kynni hefðu orðið til þess-
,að hann hefði farið með viðskipti sín
til Iðnaðarbankans.
Hæfileiki eða náðargáfa Jóhanns til
að tengjast mönnum tryggðarbönd-
um var einstök. Mér er það minnis-
stætt, að eitt sinn er við áttum tal
saman á Akureyri, sagði ég honum
frá frábærum húsamyndum Gunn-
laugs Scheving, listmálara, frá Akur-
eyri. Við hæfi væri, að slík mynd væri
í útibúinu á Akureyri, en erfitt gæti
reynst að ná fundi listamannsins.
Scheving er vinur minn, sagði Jó-
hann, og hann hvetur mig ætíð að líta
til sín, þegar ég er fyrir sunnan. Nú
var það fastmælum bundið, að ég
fengi að fljóta með, þegar Jóhann hitti
vin sinn Scheving. Sú stund gleymist
ekki, þegar þessi mikli málari tók á
móti okkur í vinnustofu sinni á Berg-
staðastræti. Og málverk frá Akureyri
fór norður.
Ári áður en útibú Iðnaðarbankans
á Akureyri var stofnað tók til starfa
útibú bankans í Hafnarfirði.
Þar áttum við á brattann að sækja
og náðum ekki þeim árangri, sem
vonir stóðu til.
Þegar ljóst var, að Jóhann og Björg
hefðu hug á því að flytja suður, var
Jóhanni boðin útibússtjórastaðan í
Hafnarfirði. Skipti nú sköpum í firð-
inum, því að viðskipti bankans tóku að
blómstra og útibúið varð eitt það öfl-
ugasta hjá Iðnaðarbankanum undir
styrkri stjórn Jóhanns.
Fjölmargar minningar sækja á
hugann, þegar Jóhanns T. Egilssonar
er minnst, en allar hníga þær í sömu
átt.
Kvaddur er mikill mannkostamað-
ur, sem seint mun gleymast þeim,
sem honum kynntust.
Við Ragnheiður sendum Björgu og
ástvinum Jóhanns okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Bragi Hannesson.
Minn kæri vinur Jóhann Tómas
Egilsson er látinn.
Það var fyrir hartnær 30 árum að
leiðir okkar lágu fyrst saman í Hafn-
arfirði, hann reyndur bankamaður og
ég ungur maður nýtekinn við erfiðu
fyrirtæki. Á öðrum degi í starfi bank-
aði Jóhann upp á og kynnti sig og ósk-
aði mér velfarnaðar í starfi. Jafnframt
myndaðist strax á þessum fyrsta
fundi okkar vináttusamband sem ent-
ist alla tíð síðan. Ráð hans hjálpuðu
okkur í flestu sem skipti máli og vel-
vild í garð okkar hjóna var einstök.
Það var unun að fylgjast með Jó-
hanni í starfi og hversu auðvelt hann
átti með að fá jafnt samstarfsmenn
sem aðra á sitt band. Hann var alla tíð
farsæll útibússtjóri, fyrst hjá Iðnað-
arbankanum og síðan Íslandsbanka.
Útibú Jóhanns voru ávallt meðal
þeirra fremstu í bankanum, en í Jó-
hanni fóru óvenju vel saman festa og
heilindi hins innra manns og fáguð
framkoma. Jóhann hafði alltaf sterk-
ar skoðanir á mönnum og málefnum
og var hann ekki alltaf sammála
ríkjandi skoðunum. Stutt var í stríðni
og glettni en þó aldrei nema í góðu.
Ekki leið á löngu áður en við nokkr-
ir viðskiptamenn hans í Hafnarfirði
og Garðabæ hittumst reglulega til
skrafs og ráðagerða og mynduðum
með okkur vinahóp, sem átti margar
gleðistundir saman jafnt á fundum
einir eða með eiginkonum okkar. Var
þá oft gaman en við áttum til að fara í
leiðangra víða um land saman og
njóta lífsins. Björg og Jóhann voru
góð heim að sækja hvort sem var á
þeirra yndislega heimili eða í bú-
staðnum góða við Þingvallavatn.
Þessar mörgu gleðistundir eru þakk-
aðar hér.
Nú vill svo til að á kveðjustundu
eru félagarnir flestir staddir erlendis,
en ég veit að þeir eru með okkur í dag
þegar ótal minningar frá liðnum dög-
um hrannast upp. Við kveðjum góðan
vin með hlýju og virðingu.
Ég sakna þess að eiga ekki kost á
að hitta Jóhann á ný við hádegisborð
okkar félaga eða á Eir en minningin
um góðan vin mun lifa. Við Anna Júl-
íana vottum Björgu og fjölskyldu
hennar okkar dýpstu samúð.
Blessuð sé minning Jóhanns Tóm-
asar.
Rafn A. Sigurðsson.
Jóhann er minnisstæður maður, við
kynntumst vel í Iðnaðarbankanum og
síðar Íslandsbanka. Þegar ég hóf
störf um 1988, þá var Jóhann einn af
þeim sem sópaði að í stétt útibús-
stjóra. Honum hafði tekist það sem
ýmsir höfðu reynt áður, að byggja
upp öflugt útibú í Hafnarfirði, þar
sem Sparisjóðurinn hafði ráðið ríkj-
um í áratugi. Hann gerði það á sinn
einstæða hátt, hann fór út á meðal
viðskiptamanna, bauð þjónustu og
lán. Þetta þekktist þá ekki í banka-
heiminum, menn áttu helst að koma á
hnjánum til bankastjórans.
Ég lærði töluvert af Jóhanni, tók
upp hans hætti að heimsækja við-
skiptavini og milli okkar var alltaf
nokkur keppni að ná í viðskiptavini.
Þegar Íslandsbanki stofnaði útibú
við Gullinbrú tók Jóhann við yfir-
stjórn þar og byggði upp á skömmum
tíma öflugt útibú. Jóhann var farsæll
bankamaður, hafði nef fyrir útlánum,
eins og sagt er og var góður mann-
þekkjari. Alltaf var hann eldhress,
flottur í tauinu og glæsilegur á velli.
Við fórum ásamt Birni Björnssyni
heitnum bankastjóra eitt sinn til lax-
veiða í Laxá í Aðaldal og skemmtum
okkur vel, þarna var Jóhann á heima-
velli sagði sögur af mönnum og mál-
efnum, og hans hvelli og sétstaki hlát-
ur hljómaði um dalinn á fallegu
septemberkvöldi.
Maður er ögn ríkari að kynnast
manni eins og Jóhanni, fyrir það
þakkar maður að leiðarlokum.
Ég votta hans nánustu innilega
samúð.
Jafet S. Ólafsson.
Fallinn er frá góður vinur. Andlát
hans kom ekki á óvart þar sem hann
hafði undanfarið átt við alvarleg veik-
indi að stríða. En ávallt kemur upp
söknuður þegar kærir samferðamenn
um áratugaskeið hverfa yfir móðuna
miklu og góðar minningar hrannast
upp. Mér eru enn í fersku minni
fyrstu samfundir okkar á bílastæði
Hótels Varðborgar á Akureyri fyrir
um 40 árum. Hann að koma úr lax-
veiði í Fnjóská en ég nýkominn ak-
andi frá Reykjavík. Á augabragði
hafði Jóhann ásamt konu sinni töfrað
fram veisluborð fyrir aðkomna gesti.
Þetta var einkennandi fyrir hann alla
tíð, rausnarlegar móttökur og gest-
gjafinn lék á als oddi. Heldur varð það
og til að greiða fyrir því hve fljótt vin-
áttan þróaðist að hans elskulega eig-
inkona, hún Björg, sem lifir mann
sinn, var upp alin í Hnífsdal áður en
hún fluttist til Akureyrar. Það var
nánast eins og að hitta nákominn ætt-
ingja þegar við hittumst á Akureyri
eftir að hafa ekki sést í u.þ.b. 30 ár frá
því við vorum nágrannar á æsku-
stöðvunum.
Mestan starfsaldur sinn vann Jó-
hann á sviði bankamála, fyrst sem að-
algjaldkeri í nýstofnuðu útibúi Iðnað-
arbanka Íslands hf. á Akureyri. Hann
er fljótlega fenginn til að greiða úr
vandamálum innan bankans sem upp
höfðu komið á Reykjavíkursvæðinu.
Það leiddi til þess að þau hjónin fluttu
til Reykjavíkur. Jóhann reyndist vel
vandanum vaxinn og varð fljótlega
farsæll og atkvæðamikill í að laða
nýja aðila til viðskipta við bankann og
þær stofnanir sem á eftir fylgdu í um-
róti í skipan íslenskra bankamála. Þar
fór saman ríkur hæfileiki til að vekja
traust manna. Leiðir okkar færðust
enn nær hvor annarri þegar mér sem
þetta ritar var falinn daglegur rekst-
ur nýstofnaðs Iðnþróunarsjóðs árið
1970. Öll samskipti okkar, sem síðar
áttu að verða á þeim vettvangi,
treystu enn bönd okkar og grundvöll-
uðust öll á gagnkvæmu trausti og
trúnaði.
Jóhann var frjálslegur í framkomu,
glaðlyndur og hreinskiptinn og heið-
arleiki honum í blóð borinn. Hann
vildi hvers manns vanda leysa, þótt
slíkt geti verið erfitt og nánast óleys-
anlegt á sviði bankaviðskipta. Mig
grunar að hlutfallslega fáir hafi farið
bónleiðir til búðar, sem heimsóttu Jó-
hann.
Ég heimsótti hjónin Björgu og Jó-
hann á hjúkrunarheimilinu Eir þar
sem þau nutu hjálpar og umönnunar.
Jóhann greindi ekki með sjóninni
hver kominn var, heldur röddinni.
Heilsaði glaðlega eins og ævinlega og
rifjaði upp skemmtileg atvik frá sam-
skiptum okkar. Fáum dögum síðar
hugðist ég aftur heimsækja hann en
þá hafði hann verið lagður inn á
sjúkrahús og þaðan átti hann ekki aft-
urkvæmt til hennar Bjargar sinnar.
Ég færi Björgu, afkomendum og
ástvinum innilegar samúðarkveðjur.
„… Sálin vaki, þá sofnar líf …,“
sagði sálmaskáldið góða.
Þorvarður Alfonsson.
Góður vinur okkar, Jóhann Tómas
Egilsson er látinn. Við eigum eftir að
sakna hans mjög. Jóhann var Akur-
eyringur og var stoltur af uppruna
sínum. Hann var hvers manns hug-
ljúfi og vinalegur í öllum samskiptum.
Jóhann heilsaði gjarnan mörgum og
við höfðum orð á hvað hann þekkti
marga. Hann svaraði að hann heilsaði
fólki ef hann hefði minnsta grun um
að hann kannaðist við það. Það væri
farsælla að heilsa einum of mörgum
en að heilsa ekki þeim sem maður
ætti að þekkja.
Upphaf vináttu okkar má rekja til
þess tíma er Jóhann varð útibússtjóri
hjá Iðnaðarbankanum í Hafnarfirði.
Sigurður var framkvæmdastjóri
Mónu og kynntist strax hinum nýja
og ferska útibússtjóra. Jóhann hafði
lag á að laða viðskiptavini til Iðnaðar-
bankans og vakti athygli fyrir það.
Þarna hófst vinátta sem hefur staðið
síðan. Sigurður og Jóhann hafa nú
verið spilafélagar og vinir í um 30 ár. Í
mörg ár ferðaðist spilaklúbburinn
reglulega saman bæði heima og er-
lendis. Farið var saman í sumarbú-
staðina, í gönguferðir o.fl. o.fl.
Jóhann var alltaf höfðingi, gilti einu
hvort við sóttum hann heim eða hann
okkur. Sem dæmi um höfðingsskap
Jóhanns má nefna að þegar húshjálp
kom heim til þeirra hjóna þá fór hann
alltaf í bakaríið og sótti allskonar
brauð og kökur. Lagaði hann síðan
kaffi og lagði á borð. Ekki var hægt að
láta húshjálpina hefja störf á fastandi
maga. Þessi litla frásögn lýsir Jó-
hanni vel, hann vildi alltaf vera veit-
andi.
Jóhann og Björg kona hans hafa átt
miklu barnaláni að fagna. Ekki eru
barnbörnin síðri, öll hvert öðru mynd-
arlegra. Hafa þau alla tíð verið ákaf-
lega notaleg og góð við ömmu og afa.
Jóhann og Björg hafa búið í sama
húsi og við síðustu 8 árin. Samgangur
var mikill á milli heimila okkar og eig-
um við eftir að sakna hans mjög.
Við sendum Björgu og allri fjöl-
skyldunni innilegar samúðarkveðjur
héðan frá Kanaríeyjum.
Ágústa og Sigurður.
Ég var svo heppin
að fá að njóta návista
þessarar góðu konu, kynnast börn-
um hennar, Kristjáni Hafsteini og
Kristjönu Björk, vera með þeim á
áttræðisafmælinu og sjá gleðina í
augum Sigurveigar, sem átti svo
stórt hjarta handa öllum. Hún var
þekkt fyrir vináttu og rósemd.
Sigurveig
Magnúsdóttir
✝ SigurveigMagnúsdóttir
fæddist í Sjónarhóli
í Vatnsleysustrand-
arhreppi 22. janúar
1928. Hún lést á
dvalarheimilinu
Hlévangi í Keflavík
miðvikudaginn 30.
janúar síðastliðinn
og fór útför hennar
fram frá Kálfatjarn-
arkirkju 8. febrúar.
Vináttan er lifandi afl. Vinur
er ekki aðeins félagi, heldur
kær félagi. Orðið vinur er
tengt latneska orðinu Venus,
sem merkir kærleikur, og er
heiti yfir gyðju ástar. Ást og
traust eru því sterkustu
þræðir vináttunnar.
Rósemd. Sá sem sækist eftir
því mögulega og því sem er á
hans valdi getur öðlast ró-
semd hjartanns.
Uppspretta hamingjunnar
býr innra með hverjum
manni.
(Úr bókinni Gæfuspor.)
Ég er þakklát, kærar kveðjur
sendi ég Kristjáni Hafsteini, Krist-
jönu Björk Aðalheiði Ósk og Leifi
Kristjánssyni, og votta þeim samúð
mína.
Kolbrún Aðalsteinsdóttir.