Lesbók Morgunblaðsins - 28.06.2008, Síða 13
Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson
Við Snæfell Íslensk, ósnortin og kröftug náttúra gegnir veigamiklu hlutverki í ímynda-
sköpun Sigur Rósar. Hér leikur sveitin á órafmögnuðum tónleikum norðan Vatnajökuls.
Náttúrubarn Greinarhöfundur veltir fyrir sér hvort Björk vinni sem listamaður á sömu for-
sendum og alþjóðleg risafyrirtæki gera í dag. Hér er Björk úti í náttúrunni.
samninga sem tryggi þeim skjótfenginn gróða á
kostnað listræns sjálfstæðis. Björk leggur
áherslu á það að hún hafi aldrei selt sig og þótt
það hafi oft verið fjárhagslega erfitt hafi það
borgað sig þegar til lengri tíma er litið.
Málflutningur Bjarkar er í raun samhljóða
þeirri umræðu sem finna má í Draumlandinu
eftir Andra Snæ Magnason og hjá Framtíð-
arlandinu, en þau samtök voru stofnuð í kring-
um baráttuna gegn Kárahnjúkavirkjun sumarið
2006. Málflutningur hennar er því ekki nýr af
nálinni en rök af svipuðu tagi hafa óspart verið
notuð í baráttunni gegn stóriðjustefnunni. Það
sem er hins vegar áhugavert við málflutning
Bjarkar, Andra Snæs og Framtíðarlandsins,
svo fáeinir séu nefndir, er að hann er nær sam-
hljóða þeim málflutningi sem finna má í nýlegri
skýrslu sem gerð var um ímynd Íslands fyrir
forsætisráðuneytið.
Ímyndarkjarni Íslands
Skýrslan „Ímynd Íslands. Styrkur, staða og
stefna“ var unnin af nefnd á vegum forsætis-
ráðuneytisins undir stjórn Svövu Grönfeldt,
rektors Háskólans í Reykjavík. Í skýrslunni er
lögð áhersla á sérstæði íslenskrar náttúru, sjálf-
stæði þjóðarinnar og kraft. Í raun liggur hin
sérstaka náttúra Íslands allri skýrslunni til
grundvallar og eru einkenni hennar yfirfærð á
atvinnulífið og fólkið í landinu. Nefndin leggur
til að unnið verði með svokallaðan „kjarna“ þeg-
ar kemur að mótun sterkrar ímyndar fyrir Ís-
land og svo verði byggt ofan á hann. Þessi
kjarni er „kraftur, frelsi og friður“ sem nefndin
telur að „farsælt [sé] að byggja [á] jákvæða og
sanna ímynd af landi og þjóð“ (bls. 5). Nauðsyn-
legt þykir að veita auknum fjármunum úr ríkis-
sjóði til að samræma ímyndaruppbyggingu
landsins en nefndin telur að ímynd Íslands sé
afar veikburða og smá erlendis. Sterk ímynd og
aðgerðarstefna geti komið að góðum notum
þegar áföll dynja á ímyndinni, til að mynda þeg-
ar erlendir fjölmiðlar fjalla á neikvæðum nótum
um landið, og geta dregið úr skaðanum sem slík
umfjöllun getur valdið.
Þótt nefndin telji að ímyndin verði að byggja
á gildum sem séu „sönn eða „ekta“ og eigi sér
djúpar rætur“ (bls. 24) þá segir einnig í skýrsl-
unni að ímynd geti byggst á sögusögnum, get-
gátum og jafnvel ranghugmyndum. Tilgangur
þess að skapa ímynd fyrir Ísland sem byggir á
hugtökunum „kraftur, frelsi og friður“ er sá að
skapa vænlegt umhverfi fyrir viðskipti á al-
þjóðavettvangi og búa til jákvæða hugmynd um
Ísland í hugum neytenda erlendis sem þá skapi
jákvæðar tengingar við framleiðsluvörur Ís-
lendinga. Í skýrslunni er m.a. talað um útflutn-
ing matvæla og menningar frá Íslandi, og er ís-
lensk tónlist með Björk Guðmundsdóttur í
fararbroddi rædd sérstaklega.
Það er áhugavert að það virðist ekki skipta
miklu máli hvað nákvæmlega er gert á Íslandi
svo lengi sem ímynd landsins út á við er jákvæð
og stöðug eins og birtist í þeim orðum að hægt
sé að laga þann skaða sem umfjöllun um Ísland
geti valdið erlendis, burtséð frá hvort sú um-
fjöllun eigi við rök að styðjast eða ekki. Þannig
leggur nefndin til í lok skýrslunnar að unnið
verði að hinum ýmsu viðburðum sem geti skap-
að jákvætt umtal og umfjöllun erlendis frekar
en að raunverulegum aðgerðum landsins í þágu
þeirra málaflokka sem ræddir eru. Til að mynda
er lagt til að koma á fót svokölluðum frið-
arbúðum (Iceland: World Peace Camp) fyrir
börn frá stríðshrjáðum löndum, sem kæmu til
Íslands í eina viku, kynntust friðsælu landi og
þjóð og yrðu síðan send aftur til síns heima til
þess eins að gerast „friðarsendiherrar frá Ís-
landi“ (bls. 39). Aðstæður barnanna í heima-
löndum þeirra virðast ekki skipta neinu máli,
hvorki fyrir né eftir friðarbúðirnar, eða aðgerðir
íslensku ríkisstjórnarinnar á alþjóðavettvangi.
Til að mynda er hvergi minnst á stuðning Ís-
lands við stríðin í Írak og Afganistan sem þó
hlýtur að skaða „friðarímynd“ Íslands.
Söguskoðun nýfrjálshyggjunnar
Það hlýtur að vekja upp spurningar að sama
umræða um mikilvægi ímyndar Íslands skuli
koma fram í máli Bjarkar og annarra umhverf-
isverndarsinna á Íslandi og í skýrslu forsæt-
isráðuneytisins. Þá vekur athygli að sú sögu-
skoðun sem Björk heldur á lofti er nánast
samhljóða þeirri söguskoðun sem birtist í
skýrslunni og Sagnfræðingafélag Íslands hefur
mótmælt með bréfi til forsætisráðuneytisins. Sú
söguskoðun sem skýrslan birtir er að mati
Sagnfræðingafélagsins söguskoðun sjálfstæð-
isbaráttunnar en í henni megi greina „goðsagnir
á borð við frelsisþrá landsnámsmanna og nýja
gullöld í kjölfar sjálfstæðis“ en þessi sögu-
skoðun hefur verið endurskoðuð á síðustu ára-
tugum (Mbl. 15.06.08). Í stuttu máli er því hald-
ið fram í skýrslunni að „landnámsmennirnir hafi
komið til Íslands í leit að frelsi“ og eftir að þjóð-
in fékk sjálfstæði frá Dönum hafi hún tekið
„stökk frá því að vera þróunarland til þess að
verða ein ríkasta þjóð í heimi.“ Ennfremur segir
að Íslendingar séu „dugleg og stolt þjóð, mótuð
af lífsbaráttu í harðbýlu landi“ (bls. 25).
Í málflutningi Bjarkar leggur hún áherslu á
sjálfstæði þjóðarinnar gagnvart öðrum þjóðum
og er tíðrætt um kúgun Dana. Hún líkir sam-
bandi Íslands við ameríska álfyrirtækið Alcoa
við samband Íslendinga við Dani. Auðvitað hef-
ur Björk rétt fyrir sér þegar hún varar við því
valdi sem álfyrirtæki gætu fengið í hendurnar
ef allur iðnaður á Íslandi miðaðist við álfram-
leiðslu. Hagsmunir Íslendinga yrðu þá of-
urseldir álfyrirtækjum sem gætu gert kröfur ef
iðnaðurinn snýr allur að álframleiðslu. Þá yrði
Ísland, líkt og mörg af fátækari löndum heims-
ins, ofurselt valdi fárra stórfyrirtækja sem
gætu í krafti stærðar sinnar hótað að flytja sig
um set, loka verksmiðjum og segja upp fólki ef
ríkið yrði ekki við kröfum þeirra. T.d. gætu ál-
fyrirtækin krafist skattalækkana, enn lægra
raforkuverðs og annarra vilyrða á kostnað vel-
ferðarkerfisins. Slíkt framferði er auðvitað ekki
bara einkennandi fyrir álfyrirtæki því fyrirtæki
í öllum geirum stunda þessi vinnubrögð. Þann-
ig virkar nútímaalþjóðavæddur kapítalismi.
Landfræðingurinn David Harvey hefur ein-
mitt bent á hvernig hlutverk ríkisvaldsins inn-
an hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar tak-
markast ávallt við að gæta viðskiptahagsmuna
fyrirtækja frekar en annarra sviða, s.s. vel-
ferðar almennings. Með einkavæðingu ríkisfyr-
irtækja og lágra skatta á fyrirtæki eigi að
skapa umhverfi sem stuðli að vexti fyrirtækja
og þar með að velsæld fólks. Fyrirtækjum sé
treyst fyrir samfélagsmálum og velferð starfs-
manna sinna. Í ræðu og riti hljómar þessi hug-
myndafræði ef til vill ekki illa en raunin er sú að
framkvæmd hennar fylgir aldrei bókstaf kenn-
ingarinnar. Fyrirtæki þurfa ávallt á ríkinu að
halda til þess að koma nýfrjálshyggjunni á og
þegar í harðbakkann slær leita þau ávallt til
ríkisins eftir aðstoð (eins og nýleg dæmi af ís-
lenskum bönkum sanna). Gott dæmi um sterk
tengsl ríkisvalds og nýfrjálshyggju er Írak þar
sem hagstjórn í anda nýfrjálshyggjunnar hefur
verið komið á en þar hafa allar eigur ríkisins og
öll þjónusta við almenning verið einkavædd og
hagkerfið opnað fyrir erlendum fjárfestum.
Eina eign írakska ríkisins sem er undanskilin
hinni nýfrjálsu hagstjórn er olía, hún hefur ekki
verið einkavædd til þess eins að tryggja yfirráð
Bandaríkjamanna yfir henni.2
Það er áhugavert að gagnrýni Bjarkar,
Andra Snæs og Framtíðarlandsins snýr aldrei
að þessum fleti stóriðjuframkvæmda á Íslandi.
Lágt raforkuverð og önnur vilyrði, svo sem
ókeypis losunarkvótar, sem ríkisstjórnin hefur
hingað til fært álfyrirtækjum á silfurbakka, eru
aldrei sett í samhengi við hugmyndafræði ný-
frjálshyggjunnar sem miðar öll að því að laða til
sín fyrirtæki og framleiðslu, með öllum til-
tækum ráðum og oft á kostnað annarra fram-
kvæmda í þjóðfélaginu eða velferðarkerfissins.
Þvert á móti hefur verið bent á að þær hug-
myndir sem Andri Snær setur fram í Drauma-
landinu samræmist nýfrjálshyggjunni alger-
lega enda fékk Andri Snær sérstök verðlaun
Sambands ungra sjálfstæðismanna fyrir
Draumalandið, Frelsisskjöld Kjartans Gunn-
arssonar.3
Það er mikilvægt að hafa í huga að sam-
kvæmt hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar er
aðeins einn aðili sem aldrei má græða og það er
ríkið, eða sameiginlegir sjóðir fólksins í land-
inu. Eina hlutverk ríkisvaldsins er að tryggja
svokallað „viðskiptaandrúmsloft“ fyrir einka-
fyrirtæki. Aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar,
bæði í valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsókn-
arflokks og nú í valdatíð Sjálfstæðisflokks og
Samfylkingar, miðast við að laða til Íslands er-
lendar fjárfesta og fyrirtæki. Þótt stór-
iðjuframkvæmdirnar séu oft uppnefndar „stal-
ínískar“ í daglegu tali og þær kenndar við
forræðishyggju þá falla þær einstaklega vel að
hugmyndafræði frjálshyggjunnar og fara ekki
gegn henni eins og oft er haldið fram.
Þá er áhugavert að sú söguskoðun sem sett
er fram af Björk og í skýrslu forsætisráðuneyt-
isins smellpassar við söguskoðun nýfrjálshyggj-
unnar. Þegar því er haldið fram að þjóðin hafi
tekið „stökk frá því að vera þróunarland til þess
að verða ein ríkasta þjóð í heimi á innan við öld“
eftir að „hún fékk frelsi og sjálfstæði“ er gefið í
skyn að með innleiðingu nýfrjálshyggjunnar í
íslensku samfélagi (frelsi) hafi þjóðin loksins
fengið að blómstra. Þá er saga Íslands lesin út
frá hagfræðikenningum sem fjalla um hvernig
fátækari lönd geti náð í skottið á ríkari löndum
ef aðferðir nýfrjálshyggjunnar eru notaðar.
Þróunin í heiminum hefur hins vegar sýnt fram
á það að þessi hugmynd virkar ekki – fátækari
lönd heims hafa ekki náð í skottið á þeim ríkari
þrátt fyrir að hafa tekið upp hagstjórn í anda
nýfrjálshyggju. Í íslensku samhengi má allt
eins, og ef til vill miklu frekar, leiða líkur að því
að almenn velsæld í samfélaginu sé afurð vel-
ferðarkerfisins; almennrar heilbrigðisþjónustu,
menntunar og félagslegs jafnaðar og að með
nýfrjálshyggjunni sé verið að afnema þetta
kerfi smám sama og afleiðingar þess séu enn
ekki ljósar þótt nýleg mótmæli vörubílstjóra
gefi vísbendingu um hvað koma skal.
Ný baráttuaðferð?
Það er áhugavert að meginröksemdafærsla
náttúruverndarsinna á Íslandi skuli snúast um
ímynd Íslands frekar en pólitískt og sögulegt
samhengi stóriðju. Þá er athyglisvert hversu
keimlíkur málflutningur náttúruverndarsinna
og forsætisráðuneytisins er, báðum er umhugað
um ímynd Íslands og telja að hana megi byggja
á tengingu við náttúruna, hreinleika, kraft og
frið. Eini sjáanlegi munurinn á orðræðu þess-
ara aðila er sá að umhverfisverndarsinnarnir
hafa áhyggjur af því að stóriðjan geti skaðað
þessa ímynd Ísland á meðan rétt er tæpt á slík-
um ótta í skýrslu ráðuneytisins, þ.e. Björk bein-
ir orðum sínum gegn ákveðnum fram-
kvæmdum, t.d. í Helguvík, á meðan vandlega er
sneitt hjá slíkri umræðu í skýrslunni. Enda
virðast raunverulegar aðgerðir ríkisstjórn-
arinnar og framkvæmdir vera aukaatriði, það
er ímyndin sem skiptir mestu máli.
Það hlýtur að vera umhugsunarefni umhverf-
isverndarsinna hversu auðveldlega ríkis-
stjórnin getur tekið upp málflutning þeirra án
þess að breyta stefnu sinni í stóriðju á nokkurn
hátt. Ef náttúrverndarsinnar einblína á ímynd
Íslands í baráttu sinni gegn stóriðju á Íslandi
frekar en hugmyndafræðilegt samhengi stefn-
unnar er hætta á að málflutningur þeirra fái að
heyrast óáreittur í samfélaginu næstu ár án
þess að stefna stjórnvalda breytist á nokkurn
hátt. Það er nefnilega of auðvelt að svara
áhyggjum umhverfisverndarsinna af ímynd Ís-
lands með orðum Ernu Indriðadóttur, fram-
kvæmdastjóra samfélags- og upplýsingamála
hjá Alcoa Fjarðaáli, og saka þá, frekar en ríkis-
stjórnina, um að eyðileggja orðspor og ímynd
Íslands með því að halda tónleika og útbúa
heimasíður um málið því samkvæmt Ernu gæti
fólk í útlöndum nefnilega farið að „trúa mál-
flutningi eins og þeim sem Björk Guðmunds-
dóttir heldur fram“ (Mbl. 21.06.08). Því ef
ímynd Íslands er það sem við höfum áhyggjur
af skiptir þá nokkru hvort framkvæmdir í
Helguvík séu hafnar, ef við pössum okkur á því
að þegja um þær?
Spurning mín til umhverfisverndarsinna á Ís-
landi í dag er því þessi: Hefur sú baráttuaðferð
sem snýr að ímynd Íslands, sú sem gengst inn á
forsendur nýfrjálshyggjunnar gagnrýnislaust,
ekki beðið skipbrot? Þurfum við ekki að móta
nýja stefnu til að bregðast við áframhaldandi
stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar?
Tilvísanir:
1 Ástráður Eysteinsson, „Hvað er póstmódernismi? ... “, bls.
369 - 401.
2 Sjá David Harvey, Spaces of Global Capitalism, bls. 10. Þá
hefur Naomi Klein bent á að aðgerðir Bandaríkjamanna í
Írak gangi þar að auki þvert á Genf og Haag sáttmálann þar
sem skýrt er kveðið á um að hernámslið megi ekki selja eigur
þess ríkis sem þeir hafa hernumið, heldur beri að varðveita
þær fyrir komandi stjórnvöld í landinu.
3 Magnús Þór Snæbjönrsson ræðir þá líkingu sem er á milli
hugmynda Anda Snæs og nýfrjálshyggjunnar í grein í Skírni.
Heimildir:
Ástráður Eysteinsson, „Hvað er póstmódernismi? Hvernig er
byggt á rústum?“, Umbrot (Háskólaútgáfan: Reykjavík,
1999), bls. 369-401.
Birgir Örn Steinarsson, „Móðir náttúra í Grasagarðinum“,
24 Stundir 06.06.08.
Erna Indriðadóttir, „Álið, Björk og Alcoa“, Morgunblaðið
21.06.08.
Harvey, David, Spaces of Global Capitalism. Towards a
Theory of Uneven Geographical Development, (Verso: London,
2006).
„Ímynd Íslands. Styrkur, staða og stefna“, forsætisráðuneytið,
mars 2008.
Jóhann Bjarni Kolbeinsson, „Björk og Sigur Rós með úti-
tónleika í Reykjavík“, Morgunblaðið 31.05.08.
Klein, Naomi, „Of course the White House fears free elections
in Iraq“, The Gurdian (24.01.04).
Magnús Þór Snæbjörnsson, „Er Draumalandið sjálfshjálp-
arbók handa hræddri þjóð?“ Skírnir (Haust 2007), bls. 464-
495.
„Með úrelta söguskoðun?“, Morgunblaðið 15.06.08.
„Náttúra – tónleikar 28. júní næstkomandi“, Smekkleysa.net
(06.06.08).
Páll Valsson, Íslensk bókmenntasaga III, ritstj. Halldór Guð-
mundsson (Mál og menning: Reykjavík, 1996).
Sveinn Birkir Björnsson, „The Machine is Deaf“, viðtal við
Björk Guðmundsdóttur og Andra Snæ Magnason, The Reykja-
vik Grapevine (8:2008).
Úlfhildur Dagsdóttir, „Myndanir og myndbreytingar: Um
myndbönd Bjarkar“, Skírnir (Haust 2001), bls. 391-419.
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. JÚNÍ 2008 13