Morgunblaðið - 28.07.2008, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 28. JÚLÍ 2008 15
MENNING
NÆRRI 2000 árum eftir að brenn-
heit aska gróf borgina Pompei á
Ítalíu hafa stjórnvöld ákveðið að
næsta árið muni eins konar neyðar-
ástand ríkja í borginni. Ekki að
hægt verði að bjarga íbúunum héð-
an af, heldur skapar bágt ástand
svæðisins hættu fyrir ferðamenn,
og eru rústirnar að auki í verulegri
hættu vegna óhefts ágangs ferða-
mannanna.
Samkvæmt The New York Times
heimsækja um 2,6 milljónir gesta
Pompei árlega og kynna sér hvern-
ig lífið var á Ítalíu fyrir 2000 árum,
skoða steingerða íbúana, freskur á
veggjum og húsagerðalist. En
freskurnar eru að fölna í bjartri
sólinni, minjagripasafnarar stela
molum úr þeim, endalaust traðk
sandalanna um göturnar veldur
skemmdum og starfsmenn eru allt
of fáir til að hafa stjórn á fólksfjöld-
anum.
Menningarráðherrann hefur
skipað Renato Profili sem umsjón-
armann svæðisins og á hann að
gera áætlun um hvað þarf að gera
til að bjarga rústunum og jafnframt
gera gestum kleift að heimsækja
þær áfram. Pompei er einn vinsæl-
asti viðkomustaður ferðamanna en
jafnfram á Heimsminjaskrá SÞ,
sem leggur stjórnvöldum ákveðnar
skyldur á herðar.
Menningarráðherrann segir að
upplifun ferðamanna sem komi til
Pompei verði að vera jákvæð og að
Profili verði að takast að stöðva
„taumlausa misnotkun“ rústanna,
sem birtist til dæmis í formi óleyfi-
legra leiðsögumanna og minja-
gripasala, svo ekki sé minnst á lög
og reglur sem komi í raun í veg fyr-
ir nauðsynlegar viðgerðir.
Pompei
í hættu
Neyðarástand
í borginni
Reuters
Rústin Ferðalangur í Pompei.
UM þessar mundir stendur
yfir sýningin Aðlögun í Nátt-
úrufræðistofu Kópavogs. Þar
sýna saman listamennirnir
Anna Hallin og Olga Berg-
mann.
Lífræn, líffræðileg og vist-
fræðileg atriði hafa um langt
skeið verið innblástur fyrir
verk þeirra beggja. Olga hef-
ur unnið út frá tengslum
erfðavísinda og þróunar og Anna hefur í sínum
verkum m.a. sótt í heim örveira, lindýra og
baktería. Á sýningunni blanda þær saman verk-
um sínum og sýningagripum Náttúrufræðistofu
Kópavogs. Sýningunni lýkur á fimmtudag, 31.
júlí.
Myndlist
Aðlögun í Náttúru-
fræðistofunni
Olga Bergmann
ÞÝSKI myndlistarmaðurinn
Alexander Steig opnaði tvær
sýningar á Akureyri nú um
helgina. Hann sýnir þrjú
myndbandsverk í Gall-
eríBOXI, sem nú hefur verið
stækkað til muna og hefur
Myndlistarfélagið tekið við
rekstri þess. Þá opnaði Steig
einnig sýningu í Kunstraum
Wohnraum, og sýnir verk
byggt á gjörningi og mynd-
bandsinnsetningu. Sýningarýmið er til húsa á
heimili Hlyns Hallssonar í Ásabyggð 2. Opið er
eftir samkomulagi og hægt að hringja í síma 462
3744. Nánari upplýsingar um listamanninn eru á
vefnum: www.alexandersteig.de
Myndlist
Alexander Steig
sýnir á Akureyri
Úr verki eftir
Alexander Steig
Á HAUSTDÖGUM mun félag-
ið Matur-saga-menning efna til
sýningar um mat og mataræði
Reykvíkinga á 20. öld.
Vegna undirbúningsins er
leitað eftir upplýsingum hjá
fólki sem á í fórum sínum gögn
um mataræði Reykvíkinga
fyrrum. Einkum er leitað að
persónulegum heimildum,
myndum og matarupp-
skriftum. Þá segir í tilkynn-
ingu að forvitnilegt væri að fá afnot af myndum úr
veislum í heimahúsum þar sem maturinn er í for-
grunni, búreikningum, matseðlum veitingahúsa
og handskrifuðum uppskriftabókum. Upplýsingar
um sýninguna eru á: www.matarsetur.is
Matarmenning
Leita gagna
um mataræði
Veisluborð í
Reykjavík.
Eftir Ásgeir H. Ingólfsson
asgeirhi@mbl.is
ÞEIR hafa ferðast til Reykjavíkur,
Kaupmannahafnar, Stokkhólms,
Oslóar, Berlínar, Washington, Par-
ísar, St. Etienne og Belgrad og eru á
leiðinni til Helsinki í Finnlandi og
Tallinn í Eistlandi. En nú eru þeir í
Leifsstöð og verða þar til sýnis
næstu vikurnar.
Umræddir ferðalangar eru fiskar
sem eru í aðalhlutverki listaverks
sem þær Dögg Guðmundsdóttir og
Fanney Antonsdóttir hafa sett upp í
Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
„Þetta eru 25 fiskar sem hanga
þarna, stórir þorskar sem er búið að
tæma allan fiskinn úr þannig að roð-
ið hangir niður eins og skreið, og svo
er ljós inni í þessu. Þannig að þetta
eru eins og fiskalampar eiginlega,“
segir Fanney mér um verk þeirra
Daggar. Þær kynntust í Denmark
Design School og voru með vinnu-
stofu saman í Danmörku í þrjú ár, en
áður hafði Dögg lært í Mílanó á Ítal-
íu og Fanney í Myndíða- og hand-
íðaskólanum. Og þær þurfa enn að
fara reglulega um fríhöfnina þar
sem Fanney býr í Noregi (og er ein-
mitt rétt ófarin í flug þegar viðtalið
er tekið) og Dögg í Danmörku.
Góður staður fyrir þrívídd
En hvernig enduðu fiskarnir í
Leifsstöð? „Ég hafði hreinlega sam-
band við Leifsstöð, viðraði hug-
myndina við þá og sendi þeim efni.
Við erum búin að sýna þetta víða úti
en þetta er svo íslenskt eitthvað að
okkur þótti Leifsstöð tilvalinn sýn-
ingarstaður, fannst spennandi að
hafa þetta þarna.“ En hefur Fanney
séð mikið af listasýningum í flug-
stöðvum heimsins? „Ekki neitt of-
boðslega mikið, en mér finnst flug-
stöð alveg tilvalinn staður til að hafa
svona þrívídd uppi. Við sáum það
bara þegar við vorum að hengja upp
að útlendingum finnst þetta mjög
spes og spennandi.“
En er hægt að koma verkunum
fyrir í handfarangri? „Þetta er dálít-
ið stórt og pínulítið erfitt í handfar-
angri,“ segir Fanney en tekur þó
fram að það sé alveg mögulegt að
koma fiskum þannig fyrir. „En þess-
ir fiskar eru til sölu í versluninni
Kraumi í Reykjavík og núna erum
við að setja upp síðu, þannig að fólk
sem kemst ekki í búðina getur haft
samband við okkur beint og pantað,“
segir Fanney en síðan verður á slóð-
inni uggi-lights.com og kemur upp á
næstu dögum, en þangað til er hægt
að senda póst á fanney@fanney.net.
„En þetta er náttúrlega það lítil
framleiðsla að þetta er enginn iðn-
aður. Við eigum bara þá sem hanga
núna. Við eigum nokkrar pantanir
inni sem verða afgreiddar þegar
sýningin verður tekin niður.“ Eins
og áður segir fara fiskarnir á sýn-
ingu í Helsinki og Tallinn í sept-
ember og október en það er nóg ann-
að að gera hjá sköpurum þeirra, en
næst á dagskrá hjá Fanneyju er að
hanna jólakort fyrir Rauða krossinn
í Danmörku.
Myndlist í landgangi
En verður framhald á svona sýn-
ingum í Leifsstöð? Elín Árnadóttir
hjá flugstöðinni segir ekkert ákveðið
í þeim efnum, þetta sé í raun ákveðin
tilraun og það verði ákveðið í fram-
haldinu af þessu hvort meira verði
gert af þessu. Hins vegar hafa
myndlistarmenn sýnt myndir inni í
landganginum undanfarin tvö ár á
vegum Listasafns Reykjanesbæjar.
Þar er venjulega skipt mánaðarlega
um listamann og eru þessar sýn-
ingar oft í tengslum við sýningarnar
í Listasafninu sjálfu.
Flugþorskar í Leifsstöð
Fanney Antonsdóttir og Dögg Guðmundsdóttir sýna ferðalöngum fiskalampa
Þær búa báðar erlendis en þótti verkin svo íslensk að Leifsstöð væri kjörin
Ljósmynd/Víkurfréttir
Fisklýsi „Mér finnst flugstöð alveg tilvalinn staður til að hafa svona þrívídd
uppi,“ segir Fanney Antonsdóttir, annar höfundur þorsklampanna.
Í fréttatilkynningu um sýninguna
Kennsl er vitnað í hugtakið kennsl í
skáldskaparfræði Aristótelesar. Á
Wikipedia-alfræðivefnum segir að í
þeim fræðum séu kennsl það þegar
„persóna harmleiks þekkist skyndi-
lega, oft með geigvænlegum afleið-
ingum.“
Í riti sínu Um skáldskaparlistina
skilgreini Aristóteles hugtakið svo:
„Kennsl eru, eins og nafnið ber
með sér, í því fólgin að vanþekking
víki fyrir þekkingu, og af því
spretti vinátta eða óvinátta hjá
fólki, sem á gæfu eða ógæfu í vænd-
um.
Aristóteles skipti kennslum í
nokkra flokka eftir því hvernig þau
koma til. Ólistrænust taldi hann
vera þau sem koma til af ytri
merkjum, til dæmis þannig að mað-
ur þekkist af spjóti sínu, hálsfesti
eða sári. Kennsl geta einnig komið
til af frásögn, minningu eða rök-
villu en best er þegar þau eru „af-
leiðing af sjálfri atburðarásinni“.“
Kennsl
Aristótelesar
Eftir Helga Snæ Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
„KVEIKJAN að sýningunni er göm-
ul ljósmynd sem ég fann og ég varð
eiginlega hálfdáleidd af tilteknum
hluta hennar,“ segir Björk Guðna-
dóttir, um sýningu sína Kennsl sem
hún opnaði í Suðsuðvestur í fyrra-
dag. Ljósmyndin er af henni sjálfri
sem ungbarni og móður hennar.
Barnið teygir litlafingur í átt að
móður sinni, líkt og Adam teygir sig
í átt að Guði í meistaraverki Miche-
langelos í Sixtínsku kapellunni, að
sögn Bjarkar.
Hreyfing barnsins, þ.e. hennar
sjálfrar, varð innblástur að innsetn-
ingunni sem nú má sjá í Suð-
suðvestur. „Mér fannst þetta vera
tákn um einhvern vilja, ungbarnið er
ekki meðvitað […] eins og vilja-
yfirlýsing um tengsl og samskipti,“
segir Björk. Hún hafi í kjölfarið far-
ið að leita að titli á verk og dottið
niður á orðið „kennsl“. Björk segir
svo margt fólgið í orðinu, það sé opið
og svo tengist það því að uppgötva
einhvern kjarna eða uppruna í sjálfu
sér.
„Þetta fjallar um vitundarvakn-
ingu og þetta eru einhver tengsl við
undirmeðvitundina. Maður er alltaf
að leita að einhverjum kjarna en það
er svo margt sem truflar, svo mikið
áreiti, maður getur týnt kjarn-
anum,“ segir Björk. Þar eigi hún við
kjarna tilverunnar almennt.
Endurtekið atriði
Björk segist alltaf vinna út frá
sjálfri sér og því verði verk hennar
iðulega dálítið sjálfhverf. „Ég gerði
tréristu af þessu atriði úr myndinni
og er með 30-40 myndir af því, set
þær allar upp, endurtekningin er til
að leggja áherslu á þetta atriði.“
Björk segir verkið sjálfsagt fjalla
um einhvern lífsneista og hugs-
anlega megi greina í því trúarlegan
undirtón. Listin tengist jú alltaf
sköpun á endanum.
Í Suðsuðvestur sýnir Björk inn-
setningu unna úr léreftsskúlptúr,
tréristum og kartonþrykki. Lérefts-
skúlptúrinn minni líklega á klæði úr
trúarlegum málverkum. Björk von-
ast til þess að verkið á sýningunni
veki með áhorfandanum tilfinningu
fyrir kunnugleika, að hann kannist
við eigin tilfinningar í verkinu. Beri
kennsl á þær, svo að segja.
Kveikjan var
gömul ljósmynd
Ljósmynd/Inga Þórey
Leitin „Maður er alltaf að leita að einhverjum kjarna,“ segir Björk.