Samvinnan - 01.04.1981, Qupperneq 9
FORIfSTUGKtEII
Lausnin á lífi hins smáa
Það er sannarlega gleðilegt á nýbyrjuðu og lang-
þráðu vori, hve mikil og jákvæð athygli beinist að sam-
vinnuhreyfingunni um þessar mundir. Því veldur meðal
annars sú umræða um stefnuskrá, sem fram fer um
land allt; á deildafundum kaupfélaganna, í sérstökum
vinnuhópum innan starfsmannafélaganna — og víðar.
Það ervorhugur í íslenzkum samvinnumönnum, sem
mynda öflugustu fjöldahreyfingu þjóðarinnar.
Viðbrögðin við þessari umræðu hafa hvarvetna verið
góð. Jón Sigurðsson ritstjóri Tímans skrifar til dæmis
í þættinum Menn og málefni 29. marz síðastliðinn:
,,Með því að efnatil almennra umræðna um land allt
á félagsfundum um nýja almenna stefnuskrá fyrir heild-
arsamtök samvinnumanna, er í sjálfu sér brotið blað
í félagsmálum á íslandi. Þetta er vafalaust víðtækasta
tilraun í lýðræðislegum vinnubrögðum sem gerð hefur
verið á íslandi.
Og þessi víðtæka tilraun og frumkvæði er samvinnu-
mönnum til sæmdar. Með þessu varða þeir enn einu
sinni veginn í félagsmálum á íslandi."
Einnig hafa margir samvinnumenn stungið niður
penna og ritað greinar um stefnuskrána í blöð og tíma-
rit: Hjörtur E. Þórarinsson, Magnús Finnbogason, Jón
Kristjánsson, Eysteinn Sigurðsson, Reynir Ingibjarts-
son, Haukur Ingibergsson — svo að nokkur nöfn séu
nefnd.
Enginn má þó skilja þessa umræðu á þann hátt, að
samvinnustarfið hafi ekki beinzt að ákveðnu marki
fyrr en nú. Þvert á móti. Tilgangurinn hefur að sjálf-
sögðu alltaf verið augljós og fyrir löngu ákveðinn, þótt
hann hafi ekki verið festur á blað. Hins vegar hafa oft
heyrzt gagnrýnisraddir í þá veru, að almennir félags-
menn fái ekki nægileg tækifæri til að hafa bein áhrif
á gang mála.
Nú gefst slíkt tækifæri.
Nú munu fleiri menn móta sameiginlega stefnu en
áður hefur þekkzt hér á landi.
Einnig gefst tækifæri til að beina athygli að því í
hverju samvinnuhugsjónin er fólgin. Eldri kynslóðin
þekkir þessa fallegu hugsjón af eigin raun, en nýjar
kynslóðir vaxa úr grasi, og þær þarf að leiða í allan
sannleika:
Samvinnustefnan á rætur sínar að rekja til félags-
þróunar nítjándu aldar; til frelsishreyfinga í stjórnar-
fari og breyttrar hagfræði, þar sem meðal annars var
lögð áherzla á, að vinnan væri móðir auðæfanna.
Með samtakamætti tókst að auka vinnuafköst — og
þar með auðinn. „Margar hendur vinna létt verk,“ segir
máltækið — og það breyttist í lífsspeki, sem ekki varð
hrundið úr gildi.
Það voru 28 fátækir menn í verksmiðjubænum Roch-
dale í Englandi, sem hófu félagsverzlun hinn 21. des-
ember árið 1844. Þeir voru allir vefarar í verksmiðju og
ófu gull handa eigandanum. Nú vildu þeir komast að
raun um, hvort þeir gætu ekki ofið sjálfum sér gull
með því að hljóta sjálfir arðinn af viðskiptum sínum í
félagslífinu. Þeir fóru hægt og yfirlætislaust af stað.
Þeir höfðu sama verð á vörum í búð sinni og aðrir
kaupmenn, en arðinum skiptu þeir aftur á móti í réttu
hlutfalli við verzlun hvers og eins.
Þar með var ísinn brotinn fyrir samvinnuverzlun.
Benedikt Gíslason frá Hofteigi gaf út bók um Kaup-
félag Héraðsbúa og fimmtíu ára starfssögu þess árið
1959. Þar er sem vænta má vel að orði komist um
kjarna málsins; um undirstöðuna, sem allt okkar starf
byggist á:
„Það sýndi sig, að menn gátu með samtökum valdið
því, sem engum einum var fært að gera. Margir smáir
gátu orðið einn stór. Það var lífsspekileg uppgötvun;
ef til vill lausnin á lífi hins smáa. Svona var hann að
hitta í sinni stærð, engan veginn öðruvísi.
Heimurinn horfir síðan á þetta lífsspekilega dæmi, og
máttur hins smáa er hvarvetna tekinn í stærðir, sem
ekki stenzt fyrir og breytir öldum og örlögum manna
ogþjóða." G.Gr.
7