Spegillinn - 01.12.1949, Qupperneq 27
SPEGILLINN
191
— „Landslag væri lítils virði, ef það héti ekki neitt“, segir
Tómas postuli okkur, sagði ég.
Ólafía lét sig ekki. — Fyrst er maður búinn að greiða sinn
inngangseyri, svo fær maður ekki að vita um nafn af helm-
ingnum á því, sem er til sýnis, eða eftir hvern hlutirnir eru.
Þetta var nú ýkt að sönnu hjá Ólafíu, en ég sá mér eigi
annað fært en taka þessu í alvöru.
— Sjáðu nú til. Allt er þetta með forsjá gert hjá háttvirtri
sýningarnefnd. Gestirnir eiga nefnilega, þegar þeir koma í
þessa deild, sem er auðvitað oftast á lokunartíma, að hlaupa
niður og ná í sýningarskrá, sem þeir hafa ætlað að spara sér
áður. Hún kostar aðeins 10 krónur. Annað mál er svo það,
hvort sölustúlkan verður þá farin. En öllu þessu stýrir æðri
forsjón og við eigum ekki að mögla. Manstu þetta ekki úr
kverinu þínu, Ólafía mín?
Til að bæta skap Ólafíu benti ég á höggmynd Sigurjóns
Ólafssonar, sem ég þekkti frá fyrri sýningu.
— Hvernig finnst þér ekkjan hans Sigurjóns?
— Ég sé nú bara ekkert manneskjulegt við hana, hvað þá
ekkjulegt. Hvernig á hún að snúa?
Nú komst ég sjálfur í bobba. — Ja, hvernig á hún að snúa?
Ja, hvernig snúa ekkjur yfirleitt?
— Nú, þær geta snúið allavegana, sagði Ólafía.
— Já, auðvitað. Ja, það veit ég ekki, ég get nú sjálfur satt
að segja hvorki séð haus né sporð á henni. En hringdu til
Sigurjóns á morgun. í öllu falli er þetta mikil list.
Ólafía var víst ekkert sérlega hrifin af hlóðaeldhúsinu
fræga, því að ég heyrði bara, að hún tautaði eitthvað um, að
hér ættu að vera fleiri eldhús einhversstaðar, og svo stakk
hún af. Þegar ég hafði sökkt mér nógu lengi niður í endur-
minningarnar, rakst ég á hana í nýja eldhúsinu.
— Sko, þetta kalla ég sögulegt eldhús, sagði Ólafía. — Já,
svona eldhús þyrftum við að fá okkur með þvottavél, kæli-
skáp, uppþvottavél og útvarpi undir borðinu. Heldurðu að
það sé nú einhver munur. Annars líkar mér ekki alls kostar
ganglínurnar í því. Þær gætu verið svolítið styttri.
— Já, víst er það sögulegt, sagði ég. — Og það vantar
meira að segja sýningu af sögu þess hérna, svo sem fyrir
hvaða gjaldeyri tækin eru flutt í landið, samninga, leyfi,
faktúrur og tollskoðun. Þar myndirðu geta séð merkileg
línurit.
— Já, það er kannske vont að t'á vélar, ef maður er ekki
í réttum ílokki með réttum samböndum. En það áttir þú að
vera fyrir löngu.
Ólafía var ákaílega hrifin af nýtízkubúðinni: — Mikið
væri gaman, ef allar þessar vörur væru til, sagði Ólafía.
— 0, þær eru til, sagði ég. — Sýningarnefndinni hefnr
bara gleymzt að sýna, hvernig þær berast og eftir hvaða leið-
um til kaupendanna. Það vantar nefnilega líkön af vöru-
geymslum eins og fínustu íbúðarhúsum, bílskúrum og skip-
um, sem liggja við landfestar. Eins vantar teikningu af vöru-
afgreiðslu í rökkrinu á kvöldin, að ógleymdum prívat sæl-
gætisverksmiðjum í vandlega lokuðum bílskúrum o. fl. o. fl.
til fróðleiksauka.
Ólafíu þótti nýtízkuskrifstofan falleg. En þegar við kom-
um í gömlu skrifstofuna og ég fór að rýna þar í höfuðbókina
og athuga gömlu prísana, sagði Ólafía:
— Ég sá enga svona bókhaldsbók á nýju skrifstofunni.
— Nei, sýningarnefndin hefur alveg gleymt því eða kann-
ske ekki náð í það. Ég skal segja þér, að bókhald er orðið
svo flókið nú á dögum. Það er orðið margfalt á við gamla
bókhaldið, sem var þó alltaf tvöfalt. Og svo er kannske ekk-
ert af því heima við, því að eitt er kannske fyrir endurskoð-
endurna, annað fyrir fyrirtækið og svo það þriðja kannske
fyrir umboðsmanninn vestur í Ameríku, hvort sem það er pú
eigandinn sjálfur eða ekki. Svo að það er varla hægt að lá
sýningarnefndinni svoleiðis smáyfirsjónir.
— Þá dettur mér það í hug, sagði Ólafía, — að þeir voru
einhverntíma að tala um faktúrur í tunnu í blöðunum. Það
væri gaman að sjá hana.
— Uss, sagði ég nú, — láttu engan heyra til þín, Ólafía.
Þú hefur ekki hinn rétta skilning á sögu Reykjavíkur.
Þegar við Ólafía komum niður aftur, varð okkur litið inn
í deildina til vinstri. Þar stóð vel búin frú og talaði í stál-
þráðinn:
— Maðurinn minn flaug til Gander á fimmtudaginn og svo
áfram til New York. Hann skrifaði mér, að hann væri búinn
að kaupa bílinn, þvottavélina og kæliskápinn og væri búinn
að fá auga á ágætis uppþvottatæki, sem hann ætlaði að kaupa
á morgun. Hann bað að heilsa öllum heima.
— Nú, hún er þá búin að bæta við uppþvottavélinni síðan
síðast, sagði Ólafía.
— 0, hún er sjálfsagt bara að reyna stálþráðinn, sagði ég.
ÞJÓRSÁRBRÚIN
nýja hefur nú verið tekin í notkun og’ ku vera hið mesta mannvirki.
Var hún afhent sýslumönnum um miðjan nóvember, af Emil, sem lík-
lega cr þá talinn eiga mest í henni, en vegamálastjóri spanderaði mat,
upp á okkar allra kostnað, í Tryggvaskála á eftir. Hinsvegar var ekki
boðið út til almenns mannfagnaðar og formlegrar vígslu vegna árs-
tíðarinnar. Hefði þó verið sterkur leikur, því að enginn vafi er á, að
margur hefði þurft að taka úr sér hrollinn, ríkinu til ábata, svo að
sennilcga hefði matarveizlan borgað sig upp, og vel það.
ÚTVÖRPIN
á Norðurlöndum hafa nýlega boðið til leikritasamkeppni, fyrst og
fremst ir.nan hvers landsins, en síðan keppa fyrstu verðlaunamenn-
irnir innbyrðis um meistaratitilinn fyrir Norðurlönd, og fær sá meist-
ari of fjár. Útvarpið hér kveðst „fyrir sitt leyti“ (eins og við jarðar-
farirnar) ætla að taka þátt i þcssari samkeppni, þó með þeim slæma
fyrirvara, að það vilji ekki skuldbinda sig til að veita nein fyrstu verð-
laun. Með öðrum orðum fær bezti maðurinn hér engan sjans á Norður-
landaverðlaununum. Oss skal ekki furða, þótt stofnunin sé að itreka
auglýsinguna með nokkrum önugheitum, vegna þátttökuleysis. Væri
ekki sterkur leikur að nqta nokkra Daðadollara i fyrstu verðlaunin?