Spegillinn - 01.01.1950, Blaðsíða 20

Spegillinn - 01.01.1950, Blaðsíða 20
16 SPEGILLINN I. Fimm árum eftir að ráðhúsið var byggt á Miklatorgi, en einu ári eftir að sendiherrahöll Móðurríkisins var byggð, varð stjórnarbylting á íslandi. Kallað var, að kosningar hefðu farið fram, og að kommúnistar hefðu fengið fjörutíu þingmenn kjörna. Alþingi kom saman í skyndi og var nú heldur hraðvirkara en verið hafði áður fyrr. Þingið kaus nýjan forseta. Fyrir valinu varð hinn háaldr- aði sómamaður Iakobomir Ionsonovits Síldarkoff, sem að vísu hafði dvalizt erlendis mestan síðari hluta ævinnar, en dvaldist í vinveittu ríki. Þá var hann og íslenzkur ríkisborg- ari og afar vinsæll í landinu. Stóðu vinsældir hans mjög á gömlum merg, einkum meðal sjómanna. Þá samþykkti þingið lög þess efnis, að Kommúnistaflokk- urinn skyldi hér eftir heita: Flokkur Frjálsrar Alþýðu eða Frelsisflokkurinn. Allir, sem væru á móti frelsi alþýðunnar, væru skiljanlega landráðamenn, en landráðamönnum ekki leyfð þingseta í nokkru vinveittu alþýðuríki, því skyldi það og í lög tekið, að einungis þingmenn Frelsisflokksins ættu sæti á Alþingi Islendinga framvegis, enda ekki annar flokk- ur leyfður í landinu. Að aflokinni þingsetningu, sem útvarpað var um öll Al- þýðuríkin, voru þingmenn annarra flokka, sem höfðu verið svo gálausir að mæta til þings, leiddir út á Austurvöll og grýttir til bana. Taldi Frelsisflokkurinn sig ekki hafa átt annars úrkosta, því að hann hefði átt hendur sínar að verja, þar sem fylgismenn þessara þjóðernissinna, Títóista og Kúl- akka, hefðu ætlað að ráðast inn í Alþingishúsið og myrða Frelsisflokkinn. Gerðist nú kurr meðal landsmanna og töldu ýmsir illt að búa við stjórnarfar, þar sem enginn væri óhultur um líf sitt. En foringjar Frelsisflokksins voru hinsvegar við öllu búnir, enda lærðir í útlandinu. Hófu þeir hreinsun mikla, innan flokks sem utan, með fjöldahandtökum, játningarlyfjaspraut- um og öllu tilheyrandi. — Nær þeir höfðu hengt stórt hundr- að manns í hverjum landsfjórðungi, þagnaði hver kjaftur, og ríkti nú friður góður í landinu. Allt atvinnulíf blómgaðist samkvæmt áætlun, voru og verkföll bönnuð, að viðlagðri hengingu. Var nú enginn óvinnandi, vel að merkja í hinum vinnandi stéttum, nema barn væri, og því vonarpeningur. Allar byltingar eiga sér nokkra forsögu og svo þessi. Einu sinni sem oftar unnu þeir í skorpu í útlandinu og stóðu sveitt- ir við að drepa hvern annan. Sóttist þeim verkið vel og drápu fjölda manns um heim allan. — Þá voru soldátar á Islandi. Skyldu þeir vera til taks og drepa aðra soldáta, ef þeir kynnu að álpast út þangað. En það álpaðist aldrei neinn réttdræpur soldáti til landsins, svo að viðlegu-soldátarnir höfðu ekkert að gera, nema eyða kaupinu sínu í einhverja bölvaða vit- leysu. Gerðist þá mikil gullöld í landinu. Hinir ríku urðu ennþá ríkari, og þótti engum mikið, en hitt var furðulegra, að jafn- vel fátæklingar áttu um skeið málungi matar. Svo einn góð- an veðurdag var stríðið búið. Soldátarnir fóru burt. Spilltist þá hagur almennings á næstu árum, svo og kynstofninn, því að soldátar eru nú einu sinni soldátar og kvenfólkið er kven- fólk. — Leið nú fram um stund og hallaði hratt undan fæti. Hinir ríku héldu auðvitað áfram að vera ríkir, en fátæklingar gerð- ust aftur fátækir, jafnvel fátækari en fyrr. Höfðu þeir hvorki málungi matar né þak yfir höfuðið, og voru því sem peð ein á hinu pólitíska skákborði grályndra misendismanna. Verkföll og krónuföll fylgdu hvert öðru svo fast, að fæstir sáu þar fallaskipti. Framhald. Ritstjóri: Páll Skúlason Teiknari: Halldór Pétursson Ritstjórn og afgreiðsla: Smáragötu 14 - Reykjavík Sími 2702 (kl. 12-13 dagl.) Árgangurinn er 12 blöð - um 240 bls. - Áskriftarverð: kr. 42 Einstök blöð kr. 5.oo - Áskriftir greiðist fyrirfram - Áritun: SPEGILLINN, Pósthólf 594 - Reykjavík - Blaðið er prentað í ísafoldarprentsmiðju h.i.

x

Spegillinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spegillinn
https://timarit.is/publication/349

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.