Fréttablaðið - 17.10.2009, Síða 12
12 17. október 2009 LAUGARDAGUR
Skuldakreppa verður ekki
leyst með krónuprentun
FRÉTTAVIÐTAL: Staða Viðskiptaráðs Íslands og fyrirliggjandi verkefni
Nýr formaður Viðskiptaráðs
Íslands segir eitt helsta
verkefnið nú að veita ríkis-
valdinu aðhald. Óráðlegt sé
að einkageirinn beri lung-
ann af byrðum við aðlögun
hagkerfisins á meðan of
stórum opinberum geira er
hlíft. Forsvarsmenn Við-
skiptaráðs segja umræðu
um störf ráðsins um margt
hafa verið ósanngjarna,
þótt kannski hefði mátt gera
meira úr varnaðarorðum
fyrir hrun.
Áður en Tómas Már Sigurðsson,
forstjóri Alcoa Fjarðaáls, sam-
þykkti um mánaðamótin að taka
við formennsku í Viðskiptaráði
Íslands af Erlendi Hjaltasyni, for-
stjóra Existu, vildi hann að rædd
yrðu opinskátt innan ráðsins álita-
mál sem kynnu að fylgja aðkomu
hans. Tómas Már og Finnur Odds-
son, framkvæmdastjóri Viðskipta-
ráðs, settust niður með blaðamanni
í tilefni formannsskiptanna.
„Ég starfa í fyrirtæki og kem úr
iðnaði sem ekki er óumdeildur og
hef í ofanálag augljósa tengingu
við einn stjórnmálaflokk,“ segir
Tómas, en kona hans er Ólöf Nor-
dal, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
„Ég þekki hins vegar ágætlega til
almenns reksturs og aðstæðna í
íslensku viðskiptalífi og treysti mér
til að vinna að heilindum að hags-
munum atvinnulífs í heild, enda
er það hlutverk Viðskiptaráðs. Að
auki er ég þeirrar skoðunar að Við-
skiptaráð eigi að vinna að framfara-
málum almennt, óháð flokkspólit-
ískum línum. Það varð því úr að ég
tæki verkið að mér og ég hlakka til
starfans.“ Sem dæmi um mögulega
skörun hagsmuna starfa fyrir ráðið
og áliðnaðinn bendir Tómas á mál á
borð við sextán milljarða orku- og
auðlindaskatt sem beint sé til stór-
iðjunnar. „En þegar það mál er lesið
lengra sjá menn að það bitnar mjög
illa á öllu atvinnulífinu,“ segir hann
og nefnir Sementsverksmiðjuna á
Akranesi, Steinullarverksmiðjuna,
járnblendið, hina nýgangsettu afl-
þynnuverksmiðju, og garðyrkju-
bændur sem dæmi, auk neikvæðra
áhrifa á almenna notendur. Í raun
segir Tómas að auðvelt sé að koma
í veg fyrir alla hagsmunaárekstra,
enda fjalli Viðskiptaráð um hina
stærri hagsmuni atvinnulífsins og
umgjörðina sem því sé búin. Við-
búið sé hins vegar að einhverjar
breytingar fylgi mannaskiptum
í ráðinu, enda sé það í grunninn
ekki annað en skoðanavettvang-
ur fulltrúa atvinnulífsins. „Því er
eðlilegt að áherslur fylgi í einhverj-
um mæli tíðaranda og samsetningu
viðskiptalífs hverju sinni.“
Brýnustu verkefnin
Finnur bendir á að þrátt fyrir
reglulegar mannabreytingar standi
Viðskiptaráð fyrir ákveðin grunn-
gildi sem staðið hafi óhögguð. „Lög
ráðsins kveða á um að vinna skuli
að framförum í atvinnulífinu og
frjálsum og heilbrigðum viðskipta-
háttum. Auk þess er Viðskiptaráð
málsvari félaga sinna í samskipt-
um við opinbera aðila á grundvelli
viðskiptafrelsis og jafnréttis milli
fyrirtækja og atvinnugreina,“ segir
hann.
Brýnustu verkefni ráðsins nú
segja þeir Tómas og Finnur að stór-
um hluta snúa að þeim miklu koll-
steypum sem standi yfir í skattkerfi
landsins. „Ljóst er að neikvæðar
afleiðingar þeirra verða afdrifarík-
ar,“ segir Tómas og kveður mikil-
vægt að greina í þaula afleiðingar
stefnubreytinga í þeim efnum. Þá
benda þeir á að fyrirtæki og heim-
ili séu enn í miklum skuldavanda
sem ekki sé búið að leysa að fullu,
bankakerfið eigi enn eftir að ná sér
á strik á nýjan leik, krónan sé rúin
trausti og ekki sé fyrirséð hvern-
ig stjórnvöld hyggist vinda ofan af
þeirri stöðu. Þá hafi orðstír lands-
ins beðið hnekki á erlendri grundu
og nauðsynlegt sé að efla upplýs-
ingaflæði til erlendra hagsmuna-
aðila.
„Mikilvægustu og skilvirkustu
aðgerðirnar sem hægt er að ráð-
ast í til að leysa skuldavanda fyr-
irtækjanna eru þær sem leiða til
sterkara gengis og lægri vaxta,“
segir Tómas. Til dæmis sé ljóst
að úrlausn Icesave-málsins sé for-
senda þess að hér fari endurreisn-
arstarf almennilega af stað. Undir
þetta tekur Finnur, sem segir allt
of mörgu haldið í lausu lofti meðan
deilt sé um Icesave. „Efnahags-
áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjald-
eyrissjóðsins [AGS] fær ekki end-
urskoðun, lán frá nágrannaþjóðum
berast ekki, pressa eykst á gjald-
miðilinn, vextir lækka ekki og van-
trú á framtíð hagkerfisins eykst.
Við verðum að ljúka málinu sem
allra fyrst og í sátt við nágranna-
þjóðir,“ segir hann. Þeir forsvars-
menn Viðskiptaráðs eru einhuga
um að á meðan aðrar raunhæfar
leiðir liggi ekki fyrir og öll aðstoð
sé afmörkuð við einu marktæku
áætlunina sem varði braut efna-
hagslegrar endurreisnar sé sam-
starf við AGS í senn óhjákvæmi-
legt og nauðsynlegt.
Krónan sami baggi og áður
Þá segja þeir Finnur og Tómas Már
enn standa óhaggað álit ráðsins
hvað varðar gjaldmiðilinn og Evr-
ópusambandsaðild frá því í desem-
ber í fyrra. „Viðskiptaráð hefur
undanfarin ár lagt mikla áherslu
á umræðu um gjaldmiðlamál enda
hefur krónan staðið íslenskum fyr-
irtækjum og heimilum fyrir þrif-
um um langt bil. Sveiflukennt raun-
gengi sem hefur verið úr takti við
þarfir hagkerfisins, háir vextir,
viðvarandi verðbólga, ófyrirsjáan-
legar og miklar gengissveiflur og
takmörkuð dýpt gjaldeyrismark-
aða eru allt atriði sem vert er að
nefna,“ segir Finnur og bætir við að
þótt krónan auðveldi að vissu leyti
aðlögun nú megi ekki gleyma því
að stóran hluta þess skaða sem hér
hafi átt sér stað megi rekja til henn-
ar. „Það væri að mörgu leyti þægi-
legra að þurfa eingöngu að taka á
afleiðingum fjármálakreppu, í stað
þess að glíma líka við gjaldeyris-
kreppu.“
Tómas segir jafnljóst að eini val-
kosturinn við krónuna sé upptaka
evru í tengslum við Evrópusam-
bandsaðild. Aðrir kostir, svo sem
einhliða upptaka myntar, séu ekki
raunhæfir. „Við eigum hér í skulda-
kreppu,“ segir Tómas og bendir á
að mælt í erlendri mynt hafi lands-
framleiðsla hér dregist saman um
ríflega fimmtíu prósent. „Við leys-
um ekki skuldakreppu í erlendri
mynt með því að prenta krónur.“
Eftir stendur svo spurningin um
hvort Viðskiptaráð, í ljósi hruns
fjármálakerfisins, njóti trausts
eða hljómgrunns. „Á því leikur
ekki nokkur vafi að ýmislegt hefur
misfarist samfélaginu á undanförn-
um árum, annars stæðum við varla
í þeim sporum sem við gerum í dag.
Hugmyndafræði ráðsins er ekki
hafin yfir gagnrýni og vafalaust
hefur verið gengið of hart fram í
ákveðnum málaflokkum,“ segir
Tómas. Hann áréttar þó að efnis-
leg vinna ráðsins hafi ávallt byggt á
málefnalegum rökum og að almenn
grundvallarviðmið þess hafi sjald-
an átt ríkara erindi til ráðamanna.
Ýmis gagnrýni ómakleg
Við þetta bætir Finnur að Viðskipta-
ráð hafi aftur á móti gert sig sekt
um ákveðið viðhorf sem einkennt
hafi bæði framvarðasveit íslensks
viðskiptalífs sem og stjórnmála-
menn. „Segja má að stór hluti þjóð-
arinnar hafi fylgt öldunni enda áttu
fjölmargir góðir hlutir sér stað síð-
asta áratuginn. Umræddu viðhorfi
verður best lýst með hugtökum á
borð við sjálfbirgingshátt og oflæti.
Íslendingar fóru fram úr sjálfum
sér og lögðu of mikið traust á hei-
lindi og hæfileika fárra manna.
Stærstu mistökin voru líklega fólg-
in í því að of fáar raddir fengu að
heyrast og því var umræðan ekki
eins upplýst og gagnrýnin og æski-
legt hefði verið.“ Þannig segir
Finnur að ef til vill hefði mátt gera
hærra undir höfði gagnrýni sem
fram kom í skýrslum ráðsins um
fjármálastöðugleika á Íslandi og
þróun íslensks fjármálamarkaðar.
Þær hafi þó hlotið afar ómaklega
gagnrýni víða að. Að skýrslunum
stóðu þekktir erlendir fræðimenn
sem höfðu íslenska kollega til full-
tingis. „Frelsi þeirra til skrifa var
algjört og kom Viðskiptaráð fyrst
og fremst að skipulagningu útgáf-
unnar auk kynningar,“ segir Finn-
ur. „Að sama skapi verður að hafa í
huga, einkum þegar litið er til Mish-
kin-skýrslunnar svokölluðu, að þær
forsendur sem skýrslan var skrifuð
út frá voru allt aðrar en þær sem
fyrir hendi voru mánuðina fyrir
hrun. Í skýrslu Portes og Friðriks
Más er sérstaklega varað við þeim
hættum sem fylgja erlendri lántöku
innlendra fyrirtækja, auk þess sem
einn kafli skýrslunnar fjallar sér-
staklega um að líklega hafi fjár-
málakerfið verið orðið of stórt til
að stjórnvöld gætu staðið að baki
því án verulegra aðgerða.“
Tómas segir aðstandendur Við-
skiptaráðs fagna málefnalegri
gagnrýni á hugmyndir og útgáfu
ráðsins. „Með opinskárri og mark-
vissri rökræðu er mun líklegra en
ella að stjórnvöld geti tekið upp-
lýstar og skynsamlegar ákvarðan-
ir. Aftur á móti er ódýrt bragð að
afskrifa skoðun ráðsins með dylgj-
um og áróðri. Viðskiptaráð hefur
ávallt haft fagleg vinnubrögð að
leiðarljósi og gerir grein fyrir
skoðunum sínum með málefnaleg-
um hætti. Það mun ekki breytast í
bráð.“
Nóg komið af hnútukasti
Forsvarsmenn Viðskiptaráðs árétta
mikilvægi þess að horfa fyrst og
fremst í baksýnisspegilinn til að
læra af reynslunni. Viðskiptaráð,
líkt og fjöldi annarra, hafi þó einn-
ig komið með tillögur sem vafalít-
ið hefðu eflt viðnám hagkerfisins í
hamförum efnahagslífisins, hefðu
þær náð fram að ganga. Þar má
nefna viðvaranir vegna mikillar
útþenslu ríkisútgjalda og „algjörs
skorts á samhæfingu peninga- og
fjármálastjórnar“ undanfarin ár.
„Til að komast úr þeim hjólför-
um sem umræðan virðist ítrekað
falla í er hins vegar mun heppi-
legra að horfa fram á við með það
að markmiði að lágmarka skað-
ann. Að sjálfsögðu á umræða bæði
að vera gagnrýnin og hreinskilin,
en í þeim tilfellum sem gagnrýni
er lögð fram er mjög mikilvægt að
samhliða séu lagðar fram tillögur
til úrbóta,“ segir Tómas.
Finnur segir það skiljanlegt að
hluta að samfélagsumræðan hafi
einkennst af sundrung og hnútu-
kasti alveg frá hruni, enda séu
ólík sjónarmið uppi um ábyrgð og
orsakir yfirstandandi vandamála.
„Það gleymist þó að sameiginleg-
ir hagsmunir þjóðarinnar snúa að
framtíðinni. Að dæma viðskiptalíf-
ið sem heild út frá mistökum fárra
væri ekki eingöngu ósanngjarnt,
heldur beinlínis skaðlegt. Ekkert
hagkerfi þrífst án öflugs atvinnulífs
og öflugt velferðarkerfi verður ekki
fjármagnað með auknum umsvifum
ríkisins. Þvert á móti þarf að efla
fyrirtæki og almennan vinnumark-
að til að hægt sé að standa undir
þeirri opinberu þjónustu sem við
viljum að standi til boða.“
Viðskiptaráð Íslands hefur löngum
barist fyrir einföldun regluverks í
atvinnulífinu. Hrun fjármálakerfisins
hefur ekki orðið til þess að ráðið
hafi endurskoðað stefnumið sín í
þessum efnum. „Regluverkið má
ekki vera kæfa nýsköpun og fram-
taksemi,“ segir Tómas Már Sigurðs-
son, formaður ráðsins. Hann bendir
sem dæmi á að óþarflega flókið
sé að koma upp jafn einföldum
rekstri og kaffihúsi. Það fara 100
vinnustundir í undirbúning og öflun
margvíslegra leyfa, áður en fyrsti
viðskiptavinurinn fær að taka fyrsta
kaffisopann.
REGLUVERK MÁ EKKI KÆFA FRAMTAKIÐ
TÓMAS MÁR SIGURÐSSON OG FINNUR ODDSSON Í byrjun mánaðarins lét Erlendur Hjaltason, forstjóri Existu, af starfi formanns
Viðskiptaráðs Íslands. Þetta sagðist hann gera til að forðast að önnur störf hans trufluðu starfsemi Viðskiptaráðs. Við tók Tómas
Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, en með honum hér að ofan er Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri ráðsins.
FRÉTTABLAÐIÐ/ARNÞÓR
FRÉTTAVIÐTAL
ÓLI KR. ÁRMANNSSON
olikr@frettabladid.is