Vikan


Vikan - 18.05.1939, Blaðsíða 17

Vikan - 18.05.1939, Blaðsíða 17
Nr. 20, 1939 VIKAN 17 SIGURÐUR RÓBERTSSON: Á HEIÐI ... r þrjá daga hefir sólin skinið frá heið- um himni og í þessa þrjá daga hefir tæplega fundizt goluvottur. Okkur veitist því erfitt að moka mölinni á bílana. Við vinnum hálfnaktir og erum orðnir brúnir á hörund af sólbruna og ryki. Mölin er hörð og örðug að losa. Hakar og járnkarlar verða alltaf að vera á lofti, því að ekki dugar að láta bílana bíða. Eina bótin er sú, að vegurinn er langur, sem þeir verða að aka. Við erum staddir uppi á miðri heiði og er alllangt til bæja. Við erum sjö og bú- um allir í einu tjaldi, sem bæði er óhreint og rifið. Inni í því ægir öllu saman: tepp- um, ábreiðum, matarílátum og allskyns skrani, sem við höfum meðferðis. Þar inni eldum við mat og kaffi á gasvél, og þar hreiðrum við okkur á kvöldin. Ekki geng- ur það ætíð þegjandi og hljóðalaust, að komast í háttinn, því að olnbogarými er lítið. En allir eru glaðir og ánægðir, svo að þrátt fyrir þrengsli og ýms önnur óþægindi sofnast okkur vel. Vegurinn liggur hér með fram allstóru vatni. Allt í kringum vatnið eru lágir, lyng- grónir ásar með mýrarsundum á milh, en lengra í burtu — allt í kring — ber f jar- læg háf jöll yfir ásana, svo að útsýnið verð- ur stórbrotnara og svipmeira. Á kvöldin syndum við í vatninu og skol- um af okkur ryk og óhreinindi dagsins. Þá stundum við einnig veiðiskap, því að við höfum þarna bátræfil og fyrirdráttar- net, en veiðin er lítil. Glænýr silungurinn bragðast samt vel, þó að hann sé fremur smár og magur. — Einn daginn sá ég fjóra svani koma fljúgandi að norðan og sitjast á vatnið nyrzt og f jærst okkur. Þeir voru kyrrlátir og þögulir og höfðu lítið um sig. Sama kvöldið fara þokubakkar að gægj- ast inn yfir norðurfjöllin. Greinileg norð- anátt er í aðsigi. Þetta hafa svanirnir vit- að. Þeir eru að flýja kuldann og rigning- una, og verður þess varla langt að bíða, að þeir haldi áfram lengra suður á bóginn. Morguninn eftir er norðankaldi og þoku- loft. Vatnið er gárað og dökkt yfirlitum. Svanirnir fjórir halda dyggilega hópinn, en þeir hafa smám saman látið þokazt nær og nær suðurenda vatnsins, þar sem við vinnum. Við sjáum þá nú orðið svo greini- lega. Þeir lyftast hægt og hátignarlega á öldunum, og sveigja mjúklega langa, hvíta hálsana. En þeir eru alltaf jafn þögulir. Eitt og eitt lágróma kvak heyrist, en það er eins og það sé fullt af kvíða fyrir ein- hverju óþægilegu, sem enn er ókomið. Seint um kvöldið geng ég upp í ásinn sunnanvert við vatnið, leggst þar niður í lyngið og horfi á svanina fjóra, sem nú eru nær því komnir að landi, þar sem vatn- ið teygir sig lengst til suðurs. Þeir eru allt í einu orðnir órólegir og smá kvaka sín á milli, eins og þeir séu að tala saman. Allt í einu hefur fremsti svanurinn sig til flugs. Hvítir, þróttmiklir vængir löðrunga vatnsflötinn, með smellum og gusugangi. Hinir fylgja dæmi hans, og stefnan er tek- in suður yfir heiðar, þangað, sem þokan og kuldinn ná ekki. Ég fylgi þeim með augunum. Þeir fljúga lágt yfir lynggróna ásana fyrst í stað, en svo hækka þeir flug- ið. Stórir, hvítir, blaktandi vængir og teygðir hálsar bera um stund við blýgráan himininn, en fyrr en varir eru þeir horfnir, og ég sé ekkert nema órofna, gráhvíta þok- una, sem nú byrgir alla fjallasýn. Daginn eftir er norðan rigning öðru hvoru og kalt. Þokan grúfir yfir og gerir það litla, sem sést af umhverfinu, einkenni- lega drungalegt. Við erum blautir og okk- ur er kalt, þótt við keppumst við að moka upp í bílana. Við verðum að fljúgast á þess á milli, til þess að halda á okkur hita. Við verðum fegnir kvöldinu og hvíld- inni. Það er að vísu fremur óvistlegt inni í tjaldinu, en þar er okkur þó sæmilega hlýtt. Gasvélin er í ólagi og ósar stöðugt. Blautum fötum, mat og rúmfatnaði ægir saman í einn óaðskiljanlegan hrærigraut. Þó finnur hver sitt að lokum, og við hreiðr- um okkur eftir því, sem við bezt getum. Við liggjum hlið við hlið. Ég ligg út við tjaldskörina öðru megin. Mér er heitt á þeirri hliðinni, sem veit að félaga mínum, en kalt á hinni, sem veit út að blautri tjald- skörinni. Mér verður því ekki svefnsamt. Andrúmsloftið inni í tjaldinu er líka þungt og óviðfeldið. Félagar mínir eru samt furðu fljótir að festa svefninn. Þungur andardráttur þeirra er rofinn af smá-hrot- um. Regnið lemur á tjaldinu, og furðu há- værar öldur brotna í fjörunni fáeina faðma frá okkur. Ýms dularfull hljóð berast utan úr rökkri næturinnar, því að það er farið að halla sumri. Allt þetta verður til þess, að hugurinn gerir uppreisn gegn þreytunni og svefnþörfinni og flýgur víða. Klýfur loftið í kjölfar fjögurra svana frá því í gær, suður yfir heiðar, og nemur þar ný lönd undir heiðum, djúpbláum himni ís- lenzkrar miðsumarnætur.----------- Næstu dagar eru hver öðrum líkir. Sí- felld rigning, þoka og kuldastormur. Sólin er steinhætt að láta sjá sig. Það er eins og hún fyrirverði sig fyrir tilveru sína. Vera okkar hér er bráðum á enda. Okkur er heldur engin vanþörf á því að komast til bæja, því að bráðum eigum við ekki þurra flík til þess að fara í. Við getum ekki þurrkað af okkur nema helzt með því eiiia móti að sofa í allri dellunni, en slíkt er óþægilegt til lengdar.------ Síðasta kvöldið geng ég upp í ásinn til þess að kasta kveðju á umhverfið, sem nú er hlýlegra og bjartara en undanfarna daga. Þrátt fyrir vosbúð og önnur óþæg- indi hefir mér liðið hér undarlega vel. Við höfum lifað hér frjálsu og frumstæðu lífi og verið glaðir og ánægðir, þrátt fyrir allt. Ég veit, að ég mun alltaf minnast margs héðan, — og ekki sízt félaga minna, með hlýju og söknuði, löngu eftir að ég er far- inn héðan. — í vestrinu er heiðríkjurönd. Kvöldsólin gyllir austurfjöllin, sem þokan er nú að yfirgefa. Þau sýnast ljóma í öllum litum regnbogans. Ég stari á þau heillaður og reyni að móta mynd þeirra sem greinileg- ast í huga mínum. — Það er veðrabreyting í vændum — breyting til batnaðar. Á meðan flytjum við niður í byggð. ÁLFUK ELSKENDANNA. Frh. af bls. 8. að segja þér það, ég er hræddur um, að þú trúir mér ekki, eða verðir afbrýðisöm út af hamingju þeirra, eða neitir að end- urgjalda kossa mína. Elsku óþægðarang- inn minn, þú ert forvitin, er það ekki? Ég sé, að ég verð að svala forvitni þinni. Vita skaltu þá, að álfurinn flaug með þau fram og aftur, þangað til komið var náttfall, og þegar hann reyndi að aðskilja elskendurna, voru þeir svo tregir að skilja, að hann varð að tala lengi um fyrir þeim. Hann hefir víst sagt þeim (því að röddin var svo lág) eitthvað svo fallegt, að andht þeirra ljómuðu, og augun geisluðu af ham- ingju. Eftir að hann hafði lokið við að tala, og þau fallizt á uppástungu hans, snerti hann enni þeirra með töfraskikkju sinni. Skyndilega, ó, Nanon, en hvað augu þín eru stór! Og en hvað þú myndir stappa niður litla fætinum þínum, ef ég neitaði að segja þér áframhaldið! Skyndilega breyttist Lois og Odette í eyrarrósir, svo stórar og skrautlegar, að aðeins álfur hefði getað gert þær þannig. Þarna stóðu þær hlið við hlið, svo þétt, að blöðin vöfuðst saman. Það voru dásamleg blóm, sem stöð- ugt stóðu í blóma, og að eilífu blanda sam- an dögg sinni og angan. Hvað Enguerrand greifa viðvíkur, segja menn, að á hverri nóttu hafi hann huggað sig með því að segja söguna af Giranda, sem drap risann Buch með einu sverðs- höggi. Og nú, Nanon, þegar við förum upp í sveit, skulum við gá að þessum tveim töfrablómum og spyrja þau, í hvaða blóm- um við getum fundið álf elskendanna. Ef til vill hefir þetta æfintýri einhvern hul- inn lærdóm að geyma, elskan mín. En ég hefi aðeins sagt þér það, á meðan við sát- um hérna fyrir framan arininn, til þess að þú getir gleymt desember-rigningunni, sem lemur gluggana, og í von um, að það geti komið þér til þess að elska svolítið meira þann, sem sagði þér það.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.