Vikan


Vikan - 28.09.1939, Qupperneq 16

Vikan - 28.09.1939, Qupperneq 16
VIKAN Nr. 39, 1939 » 16 kjarklaus til þess að hrista það af í skyndi. — Ekki vera að hræða mig, Gústaf. Þér er ekki meiri vorkunn að lifa heldur en okkur hinum. — Vorkunn! Það er engum vokunn, hvort heldur hann lifir eða deyr. Við erum öll sköpuð til þess að líða undir lok, svar- aði ég. — Ekki segja svona, Gústaf, bað hún um leið og hún fór. Röddin var þreytt og hljómlaus. 10. febrúar. Eyja er farin úr vistinni, ég veit ekki vegna hvers. Nú vinnur hún á saumaverkstæði og leigir sér herbergi vestur í bæ. Ég hefi aldrei komið þar og sé hana sjaldan, en þó undarlegt megi virð- ast, get ég enn ekki hætt að hugsa um þessa stúlku, og mér hefir tekizt að afla mér nokkurra nýrra upplýsinga um hana: Fyrir þrem mánuðum síðan kom hún að vestan með skipi, og þeir segja, að skip- stjórinn hafi lánað henni kojuna sína alla leið. Þeir töluðu líka um wiskílykt og fleira, sem ég vildi ekki leggja eyrun að. Nú spyr ég sjálfan mig: — Hvar er hann Friðjón hennar? Hvers vegna yfirgaf hún Dalina hans ? Og hvað kom henni til að velkja sín- ar fínu hendur við vinnukonuverk ? Þessu hefir enginn svarað enn þá, og raunar læt ég mig það ekki neinu skipta. 20. febrúar. Ég mætti henni á götunni í dag. Kápan hennar var óhneppt, og hún var í svörtu pilsi og grænni peysu innan undir. Hún virtist vera kát. Brjóstin henn- ar bifuðust, ung og lifandi, þegar hún hló, og hún spurði mig, hvort ég vildi koma með sér á skemmtun í gamla skólanum okkar austur í sveit á morgun. — Ef þú finnur þér engan betri, svar- aði ég. — Kjáninn þinn, sagði hún hlæjandi og gaf mér vingjarnlega utanundir, svo var hún hlaupin af stað. — Það er klukkan sex, kallaði hún til baka. — Ég læt bílinn taka þig heima hjá þér. Eftir örfá augnablik var hún horfin fyrir næsta horn, og ég stóð einn eftir á götunni dálítið óviss og utan við mig. 21. febrúar... Ég hefi hugsað meira um Friðjón í dag heldur en hana, ég sá nefni- lega trúlofunina hans tilkynnta í blöðun- um í morgun. En nú flautar bíllinn við dyrnar, og ég er neyddur til að fara, úr því ég lofaði því í gær. 22. febrúar. Ég veit ekkert, hvert stefnir, — gef fjandann í allt, sem þar að lýtur, en ég hefi erft veðurvísi minna loðnu forfeðra, finn að eitthvað leggst illa í mig. — Ég sá Eyju sjaldan í dansinum, hún hélt sig að mestu annars staðar, en á heimleiðinni var einum farþega fleira í bílnum heldur en sæti hans rúmuðu, og ég sat undir henni. Það lék ofurlítið stríðnis bros um málaðar varir hennar, og ég var í efa um, hvort ég ætti að nálgast hana nokkuð. Að síðustu gerði ég tilraun og dró hanzkann af hönd hennar. Hún leyndi framkvæmd minni undir kápulafinu sínu, en höndin var líflaus. Hún var hvorki heit eða köld og svaraði ekki atlotum mínum nema að litlu leyti. Það var eins og hún hefði orðið fyrir lömun og skynjaði ekki snertinguna. — Fari hún í helvíti, hugsaði ég og hratt henni frá mér; við vorum líka komin heim að húsdyrum hjá henni. — Þú veizt, hvar ég bý, kallaði ég á eftir henni um leið og hún steig út úr bílnum. — Ég heimsæki þig annað kvöld, svar- aði hún rólega og hvarf inn í húsið. 24. febrúar. Klukkan er 8 að morgni, og ég er einn. Eyja er farin fyrir klukku- tíma. Ég var óþreyjufullur meðan ég beið hennar í gærkvöldi, og til þess að stytta mér stundir, tók ég það til bragðs að skrifa upp öll bæjarnöfnin, sem ég mundi, úr fæð- ingarsýslunni minni fyrir norðan. Allt í einu var hún komin. — Trufla ég þig? spurði hún um leið og hún smeygði sér úr kápunni sinni. — Já, svaxaði ég og fleygði blýantinum frá mér. Græna peysan hennar minnti mig á fullsprottna ekru í ágústmánuði, þegar golan bylgjar grasið. Hún hikaði augna- blik og horfði á mig í efa. — Það gerir ekkert til. Það er bara gott, sagði hún allt í einu og settist hjá mér. — Veiztu það, Gústaf, þú truflaðir mig líka. Ég var hálfnuð með að skrifa brenn- andi ástarbréf, þegar ég lagði af stað áðan, og ég varð að hætta við það. Ég var alltaf að hugsa um þig, og svo gat ég ekki skrif- að meira og kom til þín. — Það er slæmt, anzaði ég kuldalega. — Það er að segja fyrir þann, sem bréfið er stílað til. Nú verður hann máske að bíða einn dag í viðbót. — Gústaf, sagði hún með breyttri röddu og leit biðjandi í augu mér. — Ástarbréfin mín eiga sér ekki lengur neina lesendur. Dapurleiki hennar vakti mér illkvittnislega ánægjukennd og ég sagði: — Höfundur þeirra hefir kannske verið orðinn of háfleigur ? Dalamenn kunna bet- ur að meta frjósemi holdsins en andans. — Lofaðu mér því að stríða mér ekki í kvöld, bað hún. — Það liggur illa á mér. Viltu lofa mér því? — Nei, svaraði ég. — Ég lærði það einu sinni af þér að fyrirlíta öll loforð. En ef ég hefði gaman af að svíkja, skyldi ég ekki láta standa á mér að verða við þess- ari ósk þinni. Hún horfði á mig með þján- ingarsvip, en sagði ekkert. — Trúir þú því, hélt ég áfram, — að þegar ég sé þig í þessari peysu, minnir þú mig á sáningu og uppskeru? Ég er bóndi í eðli mínu og æski eftir að fletta þig þess- um græna skrúða, til þess að sjá þig svo liggja bleika og bera fyrir fótum mér eins og sleginn akur á haustdegi. — Hefir þú oft glatt þig við þess háttar sjón, Gústaf? spurði hún þunglyndislega, án þess að hafa af mér augun. — Aldrei. Það verður í fyrsta sinni í kvöld, svaraði ég ruddalega og kveikti mér í sígarettu. Við þögðum um stund, og ég fann líkamshita hennar seitla gegnum föt- in mín, seitla inn í taugar mínar eins og lúmskt eitur. — Þú misskilur sjálfsagt komu mína hingað í kvöld, sagði hún loks hugsandi. — Gerðu þér engar áhyggjur út af því, svaraði ég. — En þú mátt ekki misskilja mig, kvart- aði hún aftur. — Hefi ég ekki leyfi til að draga mínar ályktanir, af hverju sem er? spurði ég. — Jú, en — en —. — Ekki hefir þú gefið mér neina skýr- ingu, greip ég fram í fyrir henni. Hún fálmaði eftir hattinum sínum í ráðaleysi og sleppti honum aftur. — Ó, þú ert kvikindi, Gústaf, þú kvelur mig, stundi hún. — Þeir, sem misst hafa hæfileikann til alls annars en að kveljast, þeir hljóta að kveljast, svaraði ég. — Þú ert miskunnarlaus! hrópaði hún. — Þú ert að hefna þín á mér! — Lífið er miskunnarlaust og það hefn- ist á okkur báðum, anzaði ég. Rauða ljós- ið skein í gegnum jarpar hárbylgjurnar hennar og tendraði í þeim gullinn eld. Ég strauk fingrunum gegnum þær, renndi lóf- anum niður eftir vanga hennar og öxl, nið- ur brjóst hennar og síðu, og skynjaði hið ávala form mjaðmarinnar. Ég hafði mikla löngun til að vera henni góður nú, kann- ske deyja fyrir hana, en ég vissi, að allt var þýðingarlaust úr þessu, — allt undir lok liðið, sem einu sinni var. Gamall harm- ur greip mig, svo að mér lá við gráti, harm- ur, án ljósrar orsakar. Ég barðist af al- efli við að halda tárunum innan sinna vé- banda, en þegar það tókst ekki, þá missti ég einnig vald á tungu minni, og ég hvæsti, stjórnlaus af 'blygðun og ónáttúrulegri reiði: — Þú skalt ekki halda, að ég sé að syrgja þig. Ég hefi aldrei séð eftir þér. Þú mættir fara alla leið til helvítis fyrir mér. Kannske sagði ég ekki nákvæmlega þetta, en ég sagði eitthvað ljótt og reyndi að skýla viðkvæmni minni og sorg bak við það. Af nærgætni við mig leit hún aldrei á mig meðan ég var að jafna mig. Loks hvíslaði hún, eins og upp úr órólegum svefni: — Vertu ekki vondur við mig, Gústaf. Ég kom til þín, af því að ég á engan að. Skugginn hennar á veggnum hallaðist áfram og líktist gamalli konu, sem rýnir blindum augum inn í eilífðina bak við dauðann. Úti var skollið á haglél, og gegnum dyn þess á glugganum heyrðist klukkan frammi í borðsalnum slá. — Hún sló tólf, sagði Eyja og reis á fætur. — Ertu að fara? spurði ég. — Ef þú vilt, svaraði hún. — Ég vil ekki, að þú farir, sagði ég og slökkti ljósið. Undir morguninn, þá lá hún enn ósnert við hlið mína og svaf. Tunglsbirtan, sem síaðist gegnum grisjulegt gluggatjaldið, varpaði gulum blæ á brjóst hennar og and- lit. Hún hvíldi hreyfingarlaus og minnti á Framh. á bls. 19.

x

Vikan

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.