Heima er bezt - 01.05.1952, Blaðsíða 27

Heima er bezt - 01.05.1952, Blaðsíða 27
Nr. 5 Heima er bezt 155 af náð þinni leiðir oss farsæl- lega á djúpið, blessir oss að vor- nm veiðum og verndir oss, að vér aftur farsællega heim til vor ná- um með þá björg, sem þér þókn- ast að gefa oss.“ Meðan þessu fór fram hafði Sveinki gert nýja tilraun og reynt að koma bandinu fram af hökunni, en það mistókst, þrátt fyrir mikil átök, og var tvennt til, að bandið var ríghert og hak- an löng. í vertíðarbyrjun hafði Sveinki þjáðst mjög af sjósótt, einkum meðan verið var að draga, ef slæmt var í sjó. í fjórða róðrinum brast á veður og urðu sjómennirnir að róa líf- róður í land. Sveinki hallaði sér út fyrir borðstokkinn og spjó. Mjög var þá af honum dregið. Brandur formaður stóð þá upp og sló hann utan undir bylm- ingshögg með sjóvettling sínum, blautum og slorugum. Dauða sínum hafði Sveinki getað búizt við, en ekki þessu. Blóðið svall honum í æðum, hann þrútnaði af reiði og sjósóttin leið burtu eins og svipur. Hann langaði til að rota Brand með árarstokkn- um, en fann til skyldu sinnar og mikilvægi augnabliksins, spyrnti i fótastokkinn og tók af þeim jötunmóði í árina, að hún svignaði. Nokkrum dögum síðar sagði Brandur við Sveinka: „Hvernig gengur það með sjó- sóttina?“ „Ekki er ég verri,“ sagði Sveinki, en í hjarta sínu sagði hann: Hún er horfin og farin, sú skrattakolla, og hafðu bæði skömm og þökk fyrir.“ „Þeir hafa fleiri þurft skammt af þessu sjósóttarmeðali,“ sagði Brandur þá rólega. Þessum minningum sló eins og eldingu niður í hug Sveinka nú á þessu augnabliki. Og síðan sló elding- unum niður hverri af annarri: Mundi Brandur ekki fá tilefni til þess eftir bænagjörðina að gefa honum kinnhest öðru sinni með blautum sjóvettlingi? Mundi það ekki vera einhver óheillaboði, þetta, að hann einn gat ekki náð af sér hattinum? Mundi það ekki boða dauða hans, drukknun, vera feigðar- boði? Mundi hann nokkurn tíma framar hafa land undir fótum? Brandur las: „Blessa þú ástvini vora, og leyf oss aftur samfundum að fagna, svo vér fyrir Heilags anda náð samhuga flytjum þér lof og þakkargjörð." Sveinki vissi, að aðeins ein setning var eftir af bæninni. í herrans nafni varð hann að ná af sér hattinum, hvað sem það kostaði, áður en drottinleg bæn yrði lesin. í örvinglan manns. sem veit, að hann er að farast, greip hann til hins síðasta úr- ræðis. Hann sveiflaði báðum höndum aftur fyrir hnakka, þreif þar í hattbarðið og svipti hattinum fram af höfðinu með miklu braki. Um leið sagði Brandur amen. Jæja, aldrei fór það svo, að hann hefði ekki gamla, gula hattinn sinn milli handa sér áður en drottinleg bæn yrði lesin. En hvað var þetta, sem ennþá þrýsti að höfð- inu og kverkunum — og hvers vegna dokaði formaðurinn við að lesa faðirvorið? Hann kreisti hægri hönd utan um sjóhattinn, en þeirri vinstri fór hann með krampakenndum rykkjum um höfuðið. Jú, svo sannarlega sat hattfóðrið á hausnum bundið fyrir kverk. Það var ekki um að villast, að það hafði rifnað frá við átakið. Sveinki gapti og beindi starandi augnaráði inn í hattinn. En þar var ekkert sjá- anlegt nema fóðurlaust gaphús. Nú heyrði Sveinki fyrir aftan sig eins og hryglublandin sog og frá öðrum stöðum korr og and- köf, líkt og væri naut skorið á barkann. Óhljóðin mögnuðust með fallhraða og fengu á sig ýms blæbrigði eftir því, hvort þau komu úr koki eða nasagöng- um félaga hans. Loks brauzt út tryllingslegur hlátur, ofsafeng- inn, af því hann var í meinum, ámátlegur, vegna þess að hann var niðurbældur. Sveinki skotr- aði augunum til Gvendar. Hann grúfði andlitið ennþá í sjó- vettling hægri handar, en vinstri hendi hélt hann um magann og engdist sundur og saman í sætum kvölum. Sveinka fannst hann milli skers og báru. Annars vegar var hláturshol- skefla félaga hans, hins vegar sat kletturinn, Brandur, með faðirvorslausa bænina — og við skerið var hann skelkaðri. Hann gaut flóttalegum augum til Brands. Þarna sat hann hreyf- ingarlaus, en krepti fingurna ó- venju fast utan um stýrisvölinn og einblíndi á kvist í skorbitan- um. Drættir voru í andliti Brands, eins og hann ætti í bar- áttu við sjálfan sig, eins og hann þyrfti að beita lífs og sálar kröftum til að verjast einhverj- um innri óvini, er að honum sækti. — Líklega hlátrinum, hugsaði Sveinki. Og svo ein- blíndi Brandur á þennan skor- bitakvist, eins og hann vildi sækja þangað alla sína orku og hugarró. Stöðu sinnar vegna og heiðarleiks augnabliksins varð Brandur að gæta sinnar eigin alvöru. Loks létti skipverjum. Brand- ur hóf þá upp raust sína og las drottinlega bæn með þrótti og stillingu hins norræna sjó- manns og lagði mikinn þunga í orðin: Fyrirgef oss vorar skuld- ir. Eftir að hafa lesið blessun- arorðin sagði hann amen. At- höfninni var lokið og skipshöfn- in setti upp sjóhattana, einnig Sveinki, sem þrýsti hattkúfnum ofan í fóðrið. „Jæja, piltar,“ sagði Brandur, „nú takið þið í árarnar, þú líka, Sveinki minn. — Áralagið, pilt- ar. — Áralagið!"

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.