Heima er bezt - 01.04.1953, Page 15
Nr. 4
Heima er bezt
111
DRAUMAR OG SÝNIR
Nikulásar Vigfússonar.
„Næstu nótt eftir að ég tók við
ábúðinni hér á Núpi, dreymir
mig, að ég er staddur inni í
Stekkjarbjarginu hérna út með
Núpnum. Er þar lítil baðstofa
undir skarsúð. Sitja þar á rúm-
um gamall maður og tvær aldr-
aðar konur og er þetta fólk allt
hvítt fyrir hærum. Þykist ég
vita, að gamli maðurinn muni
vera húsráðandi. Ávarpar hann
mig vingjarnlega og biður mig
að veiða ekki silung í Stekkjar-
tjörninni eða spilla fyrir sér
veiði þar á annan hátt, því að
þaðan hafi þau aðal lífsbjörg-
ina. En litlu kvaðst hann geta
launað mér, ef ég gerði þessa
bón sína, öðru en því, að hann
skyldi líta til með skepnum
mínum. Var svo ekki þessi
draumur lengri.
Nú liðu þrjú ár og voru
skepnuhöld hjá mér mjög góð.
Minnist ég þess ekki, að kind
færist af slysum og oftast koll-
heimti ég fé mitt af afrétt á
haustin. En aldrei dreymdi mig
huldufólkið þessi ár.
En svo eina nótt dreymir mig,
að ég sé aftur staddur í Stekkj-
arbjargi. Kannast ég vel við
húsaskipun og er þar inni sama
fólkið og ég sá í fyrri draumn-
um. Segist gamli maðurinn nú
vera að flytja í burtu úr bjarg-
inu. Þakkar hann mér innilega
fyrir góða sambúð og að ég hafi
látið hann einan njóta veiðinn-
ar í Stekkjartjörn, en sín vegna
sé mér nú heimil veiðin eftir
þetta.
Nokkrum dögum seinna dreym-
ir mig enn, að ég er staddur í
bjarginu. Eru þá húsakynni þar
gerbreytt og miklu stærri. Margt
ókunnugt fólk er þarna inn á
ýmsum aldri. Höfðinglegur mað-
ur í einkennisbúningi ávarpar
mig vingjarnlega, en þó valds-
mannslega. Segist hann vera
sýslumaður og vilji hann kunn-
gera mér strax, að hann einn
eigi veiðirétt í Stekkjartjörn og
öllum óviðkomandi væri óheim-
il veiði þar. Rann mér þá í skap
og svaraði fullum hálsi, að hann
hefði ekkert vald til þess að
banna mér veiðina; ég væri lög-
legur ábúandi á Núpi og sam-
kvæmt byggingarbréfi mínu
væru mér heimilaðar allar
landsnytjar, þar á meðal veiði-
rétturinn í Stekkjartjörn. Þá
þótti mér sýslumaðurinn reiðast
ákaflega og jós hann yfir mig
illyrðum og hótunum, ef ég ó-
hlýðnaðist skipun hans. Vaknaði
ég þá hastarlega af fasta svefni
og var þá draumurinn svo ljós-
lifandi í huga mínum, eins og
þetta allt hefði gerzt í vöku.
Stóð mér nokkur stuggur af
draumnum og vildi ekki eiga
neitt í hættu, ef ég óhlýðnaðist
og bryti bann yfirvaldsins í
Stekkjarbjargi.
Næstu ár var ég oft staddur í
bjarginu í draumi. Sá ég þar æf-
inlega sama fólkið. Var það vin-
gjarnlegt á svip, en ekki minnist
ég orðaskipta.
Nú liðu mörg ár og dreymdi
mig aldrei huldufólkið. En
tveimur árum áður en ég hætti
búskap, dreymir mig enn, að ég
er staddur í Stekkjarbjargi. Sé
ég þá aðeins eina gamla konu
þar inni. Segist hún vera dóttir
sýslumannsins, en hann sé nú
dáinn og hitt fólkið flutt í burtu,
sé hún ein eftir af fjölskyldunni.
Hún segist vera mér þakklát fyr-
ir það, að ég hafi hlýtt banni
föður síns og ekki veitt í Stekkj-
artjörn öll þessi ár. Skuli hún nú
að launum leyfa mér að veiða í
tjörninni, því að sjálf þurfi hún
ekki mikils með eftir þetta. —
Var svo ekki þessi draumur
lengri.
Ekki notaði ég mér leyfi gömlu
konunnar fyrr en seinasta bú-
skaparár mitt. Við vorum þá að-
eins tvö við búhokrið, ég og
dóttir mín á tvítugsaldri. Þá um
vorið var ég oft lasinn og lítið á
ferli. Langaði mig þá í nýmeti
og bað ég dóttur mína að leggja
tvo netstúfa, sem ég átti, í
Stekkjartjörnina. Gekk veiðin
vel og höfðum við nógan silung
til matar.
Eitt sinn, er dóttir mín var á
tjarnarbakkanum hálfbogin við
að pota netunum fram í tjörn-
ina með langri stöng, er til þess
var notuð, leit hún upp snögg-
lega, er verkinu var lokið. Sér
hún þá, að gömul kona stendur
hinum megin við tjörnina und-
ir Stekkjarhamrinum. Er kona
þessi stór og fönguleg, í dökkum
fötum, pilsi og treyju, og með
bládröfnóttan skýluklút. Sá
dóttir mín gjörla andlitsfall
konunnar. Er hún nokkuð nef-
stór og hvasseygð, en þó ekki
ófríð og býður góðan þokka. Er
hún leit af konunni, hvarf þessi
sýn í sömu andránni.
Þegar dóttir mín kom heim,
sagði hún mér frá þessum kyn-
lega atburði, er fyrir hana hafði
komið. Kannaðist ég þá strax
við lýsingu hennar á draum-
konu minni.
Skömmu áður en ég afhenti
nýja ábúandanum jörðina,
dreymir mig enn, að ég sé
staddur í Stekkjarbjarginu. Er
gamla draumkonan mín þar fyr-
ir. Segir hún við mig, að þetta
muni verða okkar síðasti fundur,
enda hefur mig aldrei dreymt
hana síðan.
Draumum mínum var þó ekki
alveg lokið. Nokkrum dögum
eftir þetta dreymir mig eina
nótt, að til min kemur ókunnug
kona. Ávarpar hún mig að fyrra
bragði og segist vera nýflutt í
Stekkjarbjargið. Biður hún mig
að vara nýja ábúandann við því
að veiða í Stekkjartjörninni,
annars muni illt af hljótast. Hét
ég henni að verða við bón henn-
ar og það loforð hef ég efnt. Síð-
an hefur mig aldrei dreymt
huldufólk í Stekkjarbjargi. En
tvisvar hefur mig dreymt, að ég
væri staddur við grjóthól hér úti
í mýrinni, sem nefndur er Hlass-
ið. Hafa þá verið opnar dyr á
berginu. Geng ég þar inn í
draumnum og sé margt fólk
inni. Er þar vítt til veggja og
hvelfing yfir. Prestur hempu-
klæddur stendur fyrir altari og
hlýddi ég þarna á messu í bæði
skiptin. Fór messan fram að
lútherskum hætti og voru sálm-
ar sungnir og kannaðist ég vel
við bæði sálmana og lögin. En
nú er mér úr minni liðið ræðu-
efni prestsins. —
í þessu sambandi er vert að
geta þess, að mér hefur verið
sagt, að Margrét frá Öxnafelli,
sem margir kannast við vegna
dulrænna læknisaðgerða, hafi
eitt sinn átt leið þarna um. Hafi
hún bent á Hlassið, er hún fór
þar framhjá, og sagt við fylgd-
armann sinn: „Þarna er álfa-
kirkja.“ Þótti þetta koma ein-
Framh. á bls. 122.