Heima er bezt - 01.07.1959, Side 12
Dyrfjöll, séð að norðan.
hæstu fjöll á Austfjörðum, í mikilli tign og gnæfa við
himin.
Beggja megin við víkina, sem gengur inn í landið,
liggja brattar og miklar skriður, dimmar og drungaleg-
ar í sjó fram. Sums staðar ganga sjávarhamrar upp í
skriðurnar, og er þar ekki árennilegt um að litast. Þó
lá áður gata — og nú akfær bílvegur — um miðjar skrið-
urnar sunnan víkurinnar, og heita þær Njarðvíkursk-rið-
ur. Þær voru alræmdar fyrir slysahættu áður fyrr og þó
einkum í svellum og snjóalögum að vetri.
Þegar Páll sagnfræðingur Melsteð fór um Njarðvík-
urskriður á fvrri hluta 19. aldar, þótti honurn gatan ó-
hugnanlega tæp og kvaðst naumast skilja, að þar gætu
hestar mætzt öðruvísi en með bráðum lífsháska. Hálfri
öld seinna ferðast Þorvaldur Thoroddsen um skriðurn-
ar, en þá mun gatan um þær hafa verið lagfærð og
breikkuð, samt ekki meir en svo, að hann taldi óráðlegt
fyrir fólk, sem sundlhætt væri, að ríða skriðurnar.
Segir Þorvaldur um Njarðvíkurskriður, að þar séu þver-
hníptir blágrýtisklettar með sjónurn en brattar skriður
fyrir ofan, með tæpri götu, skáskorinni á ýmsan hátt.
Fyrir neðan götuna séu sums staðar þverhníptar gjár
inn í bergið, þar sem sjórinn sogist út og inn.
Fyrst þegar bílvegur var lagður um skriðurnar, var
þar um svo tæpan ruðning að ræða, að ytri hjól farar-
tækisins námu sums staðar við götubrún, og var það
hinn mesti glæfravegur, enda þótt ekki yrði að slysi.
Vegurinn var þá aðeins fær jeppum, en hefur nú verið
breikkaður og lagfærður og er fær hvaða bifreið sem er
að sumarlagi, enda liggur þegar allmikill ferðamanna-
straumur í hinar fögru byggðir Njarðvík og Borgar-
fjörð.
í Njarðvíkurskriðum hefur um margar aldir staðið
kross með svolátandi latneskri áletrun: Effigiem Christi,
qui prodis, pronus honora, sem myndi þýða eitthvað á
þá leið, að þar skyldu vegfarendur falla fram í bæn og
lesa Faðir vor.
Þótti það ósvinna og guðleysi að ganga framhjá kross-
inum án þess að biðjast fyrir, jafnvel löngu eftir að
kaþólsk trú var niður lögð á Islandi.
Njarðvíkurskriður voru óvenjulega hættulegar veg-
farendum eftir að frost kom í jörð og snjóar féllu. Gat-
an milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar lá þá neðarlega í
skriðunum, en þær voru snarbrattar og snjórinn lá laus
utan í brattanum. Mátti þá engu muna að um snjóinn
losnaði, hann fossaði með geypihraða niður ægibratta
hlíðina og tæki allt, sem fyrir varð, með og þeytti því
langt á sjó út.
Til er þjóðsaga, sem segir frá tildrögum þess, að kross-
inn var reistur í Njarðvíkurskriðum og var ekki kennt
um snjóflóðum né slysförum af orsökum náttúruham-
fara, heldur óvætti, sem er í mannslíki ofan miðju, en
skrímsli eða dýr að neðan, og hét óvætturin Naddi.
Hélt hún sig í gili því í sem næst miðjum Njarðvíkur-
skriðum, sem síðan hefur verið nefnt Naddagil. Var
hún grimm og vægði engum sem hún náði til, en helzt
var hún á ferli eftir að dimma tók af nótt, réðst vægðar-
laust á vegfarendur að drap þá.
Maður er nefndur Jón Bjarnarson. Hann átti leið um
Njarðvíkurskriður síðla kvölds að hausti, og þrátt fyrir
eindregin tilmæli að bíða morguns og birtu, skeytti hann
því engu, heldur hélt í skriðurnar.
Þegar Jón var kominn að Naddagili, kom ófreskjan
á móti honum og réðst á hann þegar. Tókust þar harðar
sviptingar og langar og barst leikurinn vítt um skrið-
urnar, unz kom á syllu þá eða stall, sem Krossjaðar er
nefndur. Þótti óvættinni þá örvænt um sigur yfir Jóni,
sleit sig lausa af honum og hélt til sjávar. Þar hvarf hún
honum sýnum, en Jón komst við illan leik til Njarðvík-
ur, marinn og þjakaður mjög, og lá lengi rúmfastur.
Var krossinn síðan reistur á Krossjaðri og hefur lítið
eða ekki borið á Nadda síðan, en snjóskriður hafa mörg-
Krossinn í Njarðvikurskriðum.
232 Heima er bezt