Heima er bezt - 01.02.1962, Blaðsíða 18
Vatnsdalsrétt. Horft suður Vatnsdal.
af réttri leið í dimmviðri. Ákvað Guðmundur því að
snúa til baka, norður Sauðadal og ætlaði að freista þess
að ná niður að Stóru-Giljá, enda þótt það væri miklu
lengri leið. Kvaðst hann mundu rata niður með Sauða-
dalsánni, en hún heitir Giljá þegar nær dregur byggð.
Enn er haldið áfram um stund. Veðrið helzt hið sama
og á skammri stund hefur kyngt niður svo miklum
snjó að kafófærð er komin. Tekur Guðmundur þá til
bragðs að skilja tryppin eftir, því þau voru latræk orð-
in í ófærðinni og veðurofsanum. Halda þeir tveir einir
úr því niður með ánni, annar einhesta, hinn með tvo til
reiðar.
Um það bil sem áin brýzt fram úr dalþrönginni fell-
ur hún í gljúfri nokkru og myndar gljúfrið þar hálf-
hring. Guðmundur var ekki nógu kunnugur til þess að
átta sig á þessum kenjum árinnar, en fann að um leið
og áin beygði, að veðurstaðan breyttist. Hélt Guð-
mundur þá að þeir væru villtir orðnir að nýju, fór af
hestbaki og ákvað að kanna hvernig áin rynni.
Guðmundur veikist.
Þegar Guðmundur kom úr þeim leiðangri ætlaði
hann að stíga á hestbak, en þá brá svo undarlega við
að hann hafði ekki mátt til þess. Ingvar reyndi þá að
koma honum til hjálpar, en það var sama hvernig hann
reyndi — allar tilraunir til þess að koma Guðmundi á
bak reyndust árangurslausar.
Þegar svo var komið og Guðmundur sýnilega fár-
sjúkur af heiftarlegri lungnabólgu, ákvað hann að láta
fyrirberast þar sem þeir voru komnir. Var þá dimmt
orðið af nótt.
í gilbrúninni hafði skeflt, þannig að þar var kominn
alldjúpur skafl og ákvað Guðmundur að í þennan skafl
skyldu þeir grafa sig.
Báðir voru þeir félagar þá holdvotir sem áður og
gátu ekki annars vænzt en kaldsamrar nætur í heimi
snævarins. — Guðmundur var þá helsjúkur orðinn en
bar sig karlmannlega sem hans var von, enda mun hann
ekki hafa viljað draga kjark úr ungmenni því sem hon-
um var léð til fylgdar og ásjár hans heitið.
Ingvar var örþreyttur orðinn og sofnaði fljótt en
vaknaði brátt aftur vegna kuldans í skaflinum og yrti
þá á Guðmund. Guðmundur var vakandi og svaraði
drengnum.
Svo leið fram eftir nóttu.
Þannig leið fram eftir nóttu. Ingvar sofnaði öðru
hvoru, en vaknaði þess á milli og talaði þá við Guð-
mund. Guðmundur svaraði lengi vel öllum fyrirspurn-
um Ingvars litla, en allt í einu fannst drengnum Guð-
mundur svara sér út í hött. Fór Guðmundur þá að tala
um heimili sitt, fannst sem hann væri kominn þangað
heim til konu og barna og var utan allrar vitundar um
dvöl sína í köldum snjóskafli í gljúfri Sauðadalsár.
54 Heima er bezt