Heima er bezt - 01.05.1964, Side 28
FYRSTI HLUTI
I.
Hreppstjórinn brýtur heilann —
Haustblærinn leikur hljótt um fölnaða jörð. Hver
söngrödd sumarsins er þögnuð, og húmskuggar sveipa
Jjósveldi hins víða geims.
Þorgrímur hreppstjóri á Fremra-Núpi gengur lotinn
í herðurn og þreytulegur upp í Núpinn fyrir ofan bæ
sinn í leit að kindum. Hann er maður tæplega sextugur
að aldri, stórskorinn í andliti, en ekki ófríður, fremur
þungbrýnn með hvöss og skarpleg stálgrá augu og mik-
ið efrivarar-skegg, rautt að lit.
Þorgrímur hreppstjóri er í þungu skapi og andvarp-
ar mæðulega. Hann hefur lítið haft af mótlæti að segja
í lífinu fram til þessa dags. En svo þurfti þetta leiða
óhapp endilega að koma fyrir núna, einmitt á meðan
haustannirnar voru sem mestar, og heimili hans mátti
sízt verða fyrir því. Það var Ijóta áfallið, að Steinvör
bústýra hans skyldi detta í dag og fótbrotna, og engin
önnur stúlka til þess að vinna heimastörfin á hrepp-
stjórasetrinu!
Þorgrímur röltir hægt upp Núpinn og lítur öðru
hverju heim að bænum, og hugur hans reikar um far-
inn veg. Á Fremra-Núpi er hann fæddur, og þar ólst
hann upp. Rúmlega tvítugur að aldri tók hann við bús-
forráðum af föður sínum og gerðist þegar gildur bóndi.
Skömmu síðar kvæntist hann efnilegri bóndadóttur úr
næstu sveit, sem mjög var eftirsótt af ungum mönnum
þar um slóðir, og fékk með henni ríflegan heimanmund,
•en það vissi hann fyrirfram, og svo settist hún í hús-
freyjusætið á Fremra-Núpi.
Það kom brátt í ljós, að þau áttu ekki skap saman,
Guðlaug og hann. Hún var glæsileg í sjón, ekki vant-
aði það, hæglát í framkomu og vel skynsöm, en engin
búkona, og skyggði það á alla aðra kosti hennar í hans
augum, því hann hugsaði um það eitt að auka bústofn
sinn og verða ríkur stórbóndi.
Þorgrímur gat víst aldrei talizt sérlega ástríkur eigin-
maður, enda var konan ekki að hans skapi, þegar út í
lífið kom, og það lét hann hana líka bæði sjá og finna
í daglegri umgengni sinni. Eftir þriggja ára hjónaband
fæddist þeim svo þessi eini sonur, og ekki urðu svo
börnin fleiri. Þorgrímur fagnaði sannarlega komu erf-
ingjans í heiminn, en ekki stóð fögnuður sá þó lengi.
Drengurinn líktist móður sinni í öllu. Hann var fríð-
ur sýnum, skýr og prúður í framkomu eins og hún, ekki
vantaði það. En hann virtist skorta alla þá eiginleika,
sem faðir hans taldi nauðsynlegasta til þess að komast
vel áfram í lífinu. Hann lét því son sinn að mestu af-
skiptalausan og sýndi honum fremur lítinn föðurkær-
leika í uppvextinum. Fannst Þorgrími að þeir myndu
aldrei eiga skap saman. En drengurinn var yndi og eft-
irlæti móður sinnar og hlýddi henni í öllu.
Þegar sonurinn var sextán ára að aldri, lézt móðir
hans. Eftir það festi hann ekki yndi heima á Fremra-
Núpi og fór brátt að heiman, eitthvað út í lönd, þótt
ungur væri. Hann skorti víst ekki ævintýraþrána, þrátt
fyrir hæglætið. Hann skrifaði heini einu sinni á ári og
lét vel af líðan sinni, en var mjög fáorður um sína hagi.
Faðir hans hefur þó hugboð um, að hann stundi eitt-
hvert nám þar ytra. En hann lætur sér fátt um finnast.
Sennilega verður þessi eini sonur hans aldrei bóndi á
Fremra-Núpi, og þá gengur jörðin úr ættinni að hon-
um látnum. Fallega höfuðbólið hans! Liggur við að
Þorgrímur klökkni við þá tilhugsun. Hann snýr sér við,
þar sem hann er nú staddur uppi í miðjum Núpnum,
og lítur á ný heim á óðal sitt.
Já, víst er fallegt á Fremra-Núpi. Túnið er rennislétt
og víðáttumikið, en það er að mestu leyti hans handa-
verk, slétturnar á þessu stóra túni. Straumlygn á og
breið rétt fyrir neðan túnið, og svo Núpurinn fyrir of-
an bæinn, að vísu ekki hár, en þó sviptign og fagur. En
bærinn á Fremra-Núpi er nú víst orðinn nokkuð langt
á eftir tímanum. Torfbær með þrjú stafnþil hvítmáluð
196 Heima er bezt