Heima er bezt - 01.05.1964, Síða 35
HEIMA_____________
BEZT BÓKAHILLAN
Harald Schjelderup: Furður sálarlífsins. Reykjavík 1963.
Almenna bókafélagið.
Þetta er nýstárleg bók og stórfróðleg. Lýst er þar rannsóknum á
dulvitund mannsins og þeim undirdjúpum sálarlífsins, sem vér
verðum lítt varir hversdagslega, en skjóta þó upp kollinum þegar
rninnst varir. Þá er rædd hin raunverulega dularsálfræði, fjarhrif,
spiritismi, sálarrannsóknir o. s. frv. Bókin er skrifuð af miklum
lærdómi og framsetning torvelds efnis með ágætum, og hafa þýð-
endurnir, Gylfi Ásmundsson og Þór Edward Jakobsson, sýnilega
leyst þar af hendi erfitt verk með hinni mestu prýði. Annað mál
er það, að skoðanir manna um ýmsar niðurstöður og viðhorf bók-
arinnar hljóta að verða skiptar. Höf. vill þannig ekki viðurkenna
framhaldslíf mannsins fyrr en í fulla hnefana, og leitað er fjöl-
margra skýringa á þeim fyrirbrigðum, sem talin eru benda í átt
til framhaldslífs, og virðast satt að segja margar þeirra miklu fjar-
stæðukenndari en kenning spiritistanna. En annað er það í af-
stöðu höf. í þessunt málum, sem vera má til fyrirmyndar hverj-
um þeim, sem tala vill um þau af viti, en hún er sú, að neita eng-
um þeim möguleika, sem ekki er ótvíræðlega afsannaður. Það er
aigengt, að vér heyrum þröngsýna menn og fávitandi um þessi
efni afgreiða þau með því einu, að öll hin svonefndu dulrænu
fyrirbrigði séu annaðhvort vitleysa eða sviksamlegar blekkingar.
Gagnvart slíkum fullyrðingum segir höf. afdráttarlaust, að þó
margt, sem um þetta hafi verið sagt sé á haldlausum rökum reist,
þá sé eftir svo fastur kjarni staðreynda, að hann krefjist fullra og
alvarlegra rannsókna. Og í því efni munu flestir hugsandi menn
geta orðið honum sammála. Ekkert er fjar sanni til að leiða sann-
leikann í Ijós en hrokafullar neitanir, þess sem menn skilja ekki,
eða eins og höfundur segir: „Vísindin eru auðmjúk frammi fyrir
staðreyndum. En vísindamennirnir eru það ekki ávallt, — ef stað-
reyndirnar fara í bága við rótgrónar hugsunarvenjur þeirra. Fram-
farabraut vísindanna hefur oft legið þvert á fordóma vísinda-
mannanna sjálfra." Það er þessi hreinskilna afstaða höfundar
gegn fordómum, sem gerir bók hans svo aðlaðandi, auk þess sem
hún fjallar um efni, sem alla snertir og alltaf hljóta að verða við-
fangsefni hugsandi manna.
Finnbogi J. Arndal: Síðustu sporin. Reykjavík 1963.
Lciftur.
Hér er endurprentuð gömul ferðasaga frá árinu 1928, þegar það
enn var nokkur viðburður að ferðast frá Reykjavík norður í land.
Höfundur er athugull og segir látlaust frá ósköp venjulegu ferða-
lagi, sem þó átti sína atburði og ævintýri, eins og ferðalög ætíð
eiga, ekki sízt þegar menn ferðast í góðkunningja hópi. Og gam-
an þykir oss nú að sjá, hvað helzt vakti eftirtekt ferðamanna og
þótti nýstárlegt á þeim árum. Aftan við ferðasöguna eru nokkur
kvæði, flest tækifæriskvæði. Höfundur er vel hagmæltur og hefur
ort, eins og margir af eldri kynslóðinni, sér til hugarhægðar og
vinum sínum til ánægju.
Jón Þórarinsson: Páll ísólfsson. Rvík 1963. Helgafell.
Þetta er myndabók, sem gefin var út á sjötugsafmæli hins vin-
sæla tónlistarfrömuðar og orgelsnillings. í stuttum inngangi er
sagt frá brautryðjendastarfi Páls í íslenzkum tónlistarmálum og
farið maklegum orðum um list hans. Greinin er vel rituð og hlý-
leg. Athvglisvert er þar sem segir frá því, að Páll hélt heim til ís-
lands til að lifa þar að mörgu leyti við mjög erfið kjör í fyrstu,
þegar honum stóðu opnar leiðir til fjár og frama úti í hinum stóru
löndum. Þetta segir meira um manninn sjálfan en löng grein. En
þetta er líka saga flestra íslendinga á þeim árum, að þótt þeim
slæðu opnar dyr til starfa erlendis, hvarflaði að fæstum þeirra
annað en hverfa heim í fásinnið. ísland var þeirra starfssvið, þótt
það hefði minna að bjóða en stóru löndin úti í heimi. Myndirnar
í bókinni eru úr ýmsum áttum, skemmtilegar og segja sína sögu.
Þótt bókin sé ekki stór, er hún skemmtilegt afmælisrit um vin-
sælan mann.
Hallgrímur Jónasson: Við fjöll og sæ. Reykjavík 1963.
Leiftur.
Hallgrímur Jónasson er löngu kunnur fyrir ferðaþætti sína bæði
úr útvarpi og ritum. í bók þessa hefur hann safnað nokkrum þátt-
um ásamt nokkrum minningaköflum, sem flestir eru frá bernsku-
árum hans, fjalla sumir þeirra um dulræn fyrirbrigði. Allir eru
þættir Hallgríms vel læsilegir, enda hefur höfundur mikið vald á
máli, er orð- og myndauðugur og frásagnargleðin í bezta lagi.
Kann hann að spinna langan þráð af litlu efni, stundum oflang-
an. Þess vegna verða þættir þessir stundum dálítið þreytandi, því
að efnið er of líkt og stíllinn sami. Minningaþættirnir snerta les-
andann mest.
Sigurður Breiðfjörð: Núma rímur. Reykjavík 1963. ísa-
foldaiyjrentsmiðja.
Þar eru Núma rímur komnar út í 4. útgáfu, myndum prýddri
af Jóhanni Briem listmálara. Er útgáfan á alla lund snoturlega úr
garði gerð. Sveinbjörn Beinteinsson hefur annazt útgáfuna og
skrifar hann inngang, þar sem hann gerir nokkra grein fyrir efni
rímnanna og skáldskap. Hefði hann mátt vera lengri og fyllri.
Einnig hefur Sveinbjöm samið orðskýringar. Núma rímur eru
fjórða bindið í heildarsafni af rímum Sigurðar Breiðfjörð, og er
frágangur þeirra allur hinn sami og var á 3. bindinu. Tistrans
rímum o. fl., sem út kom 1961. Það er þarft verk og gott, að gefa
rímur Breiðfjörðs út á jafnvandaðan hátt og hér er gert. Mynd-
irnar prýða bækurnar og orðskýringarnar eru nauðsynlegar, til
þess að hver og einn fái lesið þær sér til gagns. Og ef maður fer á
annað borð að lesa rímurnar, trúi ég ekki öðru en S. B. eigi eftir
að eignast marga vini nú eins og fyrri, og engar rímur hans eru
vænlegri til byrjunarlestrar en Núma rímur. Ég býst naumast við,
að upp rísi ný rímnaöld í líkingu við þá gömlu, en þess má vænta,
að þessar gömlu og þjóðlegu bókmenntir hljóti aftur maklegan
sess, og að því hlýtur þessi fallega útgáfa að stuðla.