Heima er bezt - 01.06.1964, Síða 18
HULDA A. STEFANSDOTTIR
skrifar fyrir húsmæhur
Sveitin kallar
yrr Á tímum var það algengt að bændanámskeið
voru haldin úti um byggðir landsins. Þangað
sóttu bændur úr byggðinni, og menn komu að
til að leiðbeina þeim og fræða um hitt og þetta,
er að búskap laut. — Man ég ekki betur, en samkomur
þessar væru í metum hafðar og bændum þætti fengur í
að fá þessa fræðslu, sem var á boðstólum. Það var líka
hressing að hitta menn að máli. Þá voru samgöngur
strjálar og hver bjó sem mest að sínu. — Blöðin flæddu
ekki eins yfir landið þá eins og nú, allar nýjungar voru
seinni á sér að berast út til fólksins. Þá var heldur ekki
útvarp.
Mér er enn í fersku minni frásögn frá einu slíku
bændanámskeiði, sem haldið var frammi í Eyjafirði,
þegar ég var unglingur. Talsvert margir sóttu námskeið-
ið, að sagt var, og þar var kominn ungur búfræðingur,
sem átti að tala við fólkið. Hann var fullur áhuga og
bjartsýni; hann sá í anda reisulega bæi, þar sem lágreistu
torfbæirnir stóðu, og falleg peningshús. Víðáttumikil
ræktarlönd og skógarteiga í hlíðunum fyrir ofan bæina.
Stórar hjarðir búpenings á beit í högunum og annað eft-
ir því, sem of langt yrði upp að telja. En umfram allt
yrðu bændur að vinna saman vitandi vits, að „bóndi er
bústólpi, bú er landstólpi“.
Yngri mennirnir hlustuðu á og hrifust af bjartsýni
búfræðingsins. Þeir trúðu á samtök bænda og framtíð
sveitanna. Aðrir fóru sér hægar, vissu sem var, að slíkt
gerðist ekki á svipstundu, en sagt var, að gamall bóndi,
sem hlustaði þó eftir hverju orði búfræðingsins bjart-
sýna en óreynda, hefði sagt að ræðu lokinni: „Ja, sá ætti
að vita hvað það er að búa og verða heylaus, taðlaus og
allslaus." Gamli maðurinn hafði reynt þetta allt og horft
upp á aðra, er höfðu fengið sömu útreið. Hann hafði
kynnzt hörmungum harðinda og fátæktar og vissi því,
hvað hann söng. Ræða unga mannsins fannst honum
fjarstæða, draumsýn, sem hefði ekki við neitt að styðj-
ast. Gamli bóndinn átti reynsluna að baki, hann horfði
aðallega aftur, en ekki fram, sem eðlilegt má telja.
Fyrir nokkrum dögum var ég á ferð um Eyjafjörð.
Kom þá upp í huga minn þessi gamla saga um unga bú-
fræðinginn og gamla bóndann. Hvert sem augað leit, sá
ég draum búfræðingsins, hvernig hann hafði orðið að
veruleika. Eldð var fram hjá hverju stórbýlinu af öðru.
Reisuleg íbúðar- og peningshús voru svo að segja á
hverjum bæ. Ræktun hafði auðsjáanlega margfaldazt,
og stórar hjarðir búpenings dreifðu sér um víða velli og
rifu í sig ilmandi töðugrasið.
Öll sveitin var orðin raflýst og ég sá ekki betur en
olíugeymir væri við hvern bæ, svo ekki þurfti lengur
að hafa áhyggjur af taðinu, eins og í gamla daga. Það
var heillandi sjón, sem blasti við augum, hvert sem htið
var um þessa yndislegu sveit. Og mér er sagt, að slíkt
hið sama hafi gerzt í öllum sveitum landsins, mikil bylt-
ing hafi orðið í búskap bænda og draumur búfræðings-
ins rætzt þar líkt og í Eyjafirði.
Hvergi mun hætta á allsleysi. Velmegun lýsir sér
hvarvetna. Þó er það eitt, sem á skortir og það er fólk-
ið í sveitina. Á hverju vori er talað um „Pétur og Pál“,
sem ætli að hætta búskap, yfirgefa býlin sín, jafnvel þótt
enginn komi í þeirra stað. Því er borið við, að gömlu
hjónin séu orðin þreytt og börnin vilji ekki vera heima.
Hvernig stendur á þessu, að gömul bændaþjóð skuli
haga sér þannig, að enginn vill orðið vera í sveit? Er
uppeldið orðið svona bágborið, höfum við látið þessa
verðlitlu peninga okkar glepja okkur sýn? Hefur vel-
megunin orkað þannig á þjóðina, að hún hefur ekki
lengur nautn af fegurð náttúrunnar og unaði ræktunar,
að láta tvö grös spretta, þar sem áður óx aðeins eitt.
Langar ungt fólk ekki lengur til að ganga þreytt til
hvílu á kvöldin eftir vel unnið dagsverk, án þess að
heimta daglaun að kvöldi? Þeir fara vissulega mikils á
mis, sem ekki þekkja vinnugleðina og þann ljúfa unað,
sem hvíldinni fylgir að loknu nytsömu starfi.
Ef dagblöðunum er flett sést greinilega, að bæirnir
eru í vandræðum með uppeldi fólksins. Það eru byggð
alls konar heimili fyrir börn og unglinga, sem kosta of-
fjár. Þó er uppeldið svo illa á vegi statt, að í hvert sinn
sem frídagar eru í bænum, fleiri en einn saman, þá þarf
að senda lögreglu út um allar sveitir til að skakka leik
unglinganna. Væri ekki hugsanlegt, að beina hugum
ungs fólks til sveitanna, að það settist þar að og neytti
orkunnar til ræktunar og vaxandi menningar. Er aldrei
222 Heima er bezt