Heima er bezt - 01.04.1965, Blaðsíða 22
undanförnum áratugum, og oft hef ég dvalizt lengi á
öræfum, en slíka sýn, slíka fegurð hef ég aldrei litið
fyrri. En myndirnar fölna smám saman, svefninn sígur
að, og óverðugur tek ég mér í munn orðin fornu:
„Drottinn láttu nú þjón þinn í friði fara.“ Eða fæ ég
nokkru sinni oftar að líta slíka öræfadýrð, eða verða
svo heillaður af töfrum þeirra? Eg held varla.
Næsta dag er unnið af kappi. Kortagerðarmennirnir
ganga langar leiðir með myndir sínar, skoða og teikna.
Benedikt fer að veiða silung í soðið, og ég labba mig
norðvestur um flóana, svo lengi sem dagur endist, tek
gróðursýnishorn, tel tegundir og klippi reiti eins og ég
eigi lífið að leysa, því að það er mér ljóst, að þetta
muni verða síðasta tækifærið, sem ég fæ til þess að
kanna gróður þessara heiðalnda, og safna honum í sjóð
þekkingar minnar á fjallagróðri íslands, því að enn er
þar nokkurs í vant, og vinnudagurinn styttist. Dagur
þessi reyndist okkur góður. Að vísu var hann ekki eins
hlýr og sá næsti á undan, og hollvættir heiðanna sýndu
okkur enga töfraheima, þegar kvelda tók, en í þess
stað sendu þeir okkur úrsvala íshafsþokuna undir sólar-
lagið, en þó ekki fyrri en dagsverki var lokið.
Daginn eftir héldum við heimleiðis eins og ráð hafði
verið fyrir gert, og lukum við verkefnið á heimleiðinni.
Enn lék veðrið við okkur. Klárarnir voru nú heimfúsir
og léttir í spori, enda létum við þá skokka óspart eftir
að komið var norður af Tungukolli niður á‘ grundirn-
ar í dalbotninum.
Morguninn eftir kvaddi ég félagana. Þeir fóru á ný
suður á heiðar, en nú lá leið þeirra um Víðidalstungu-
heiði, þar sem þeir gátu ekið nýrudda bílaslóð. En ég
hélt beina leið til Akureyrar.
HAUSTSNJÓAR í ÁGÚST
Sumri hallar. Síðasta ferðin, sem ég fer með þeim
kortagerðamönnum að þessu sinni er ráðin norður á
Reykjaheiði með bækistöð á Þeistareykjum. Áætlað er
að gera kort af Reykjaheiðinni og afrétti Keldhverfinga
eftir því sem tími vinnst til, jafnvel um allt svæðið suð-
ur að Mývatni, en byr hlýtur að ráða.
Við leggjum af stað sjö saman frá Akureyri mánu-
daginn 17. ágúst. Veður er þá hið bezta, svo að við
hyggjum gott til ferðarinnar. Við tefjum dálitla stund
í Garði í Aðaldal, hjá Skafta Benediktssyni ráðunaut,
njótum þar ágætra veitinga og fáum nauðsynlega
fræðslu um landsvæði það, sem kanna á næstu daga, en
enginn okkar hefur farið þar um áður, nema eftir þjóð-
veginum austur Reykjaheiði. Eftir stutta viðdvöl á
Húsavík höldum við upp á heiðina, í þremur bílum,
tveimur jeppum og trukk.
Eins og kunnugt er liggur bílleiðin til Þeistareykja
upp Reykjaheiðarveginn, fram með Boðsvatni, yfir
Grjótháls, með Höskuldsvatni, síðan austur um Hellur
að Sæluhúsmúla. Þaðan er rudd bílaslóð beint suður
heiðina á Þeistareyki. Þurrkar höfðu gengið undanfar-
ið, vegirnir voru því góðir, svo að nærri lét, að ég
sæi eftir því að hafa skilið Taunusinn minn eftir £
Garði, því að hverjum bíl sem var mátti aka tálmunar-
laust á Þeistareyki. Alls vorum við rúma klukkustund
þangað frá Húsavík.
Það var komið undir kvöld þegar við komum á
Þeistareyki. Tekið var að kólna í veðri, og hríðarél
tættust inn með Lambafjöllum. Skyldi nú góða veðrinu
vera lokið? Við notum birtuna, meðan hún endist til
að litast um Og gera áætlun um vinnuna næsta dag. Það
er okkur Ijóst, að megingróðurlendi heiðarinnar eru
lyngmóar, kortagerðin á því að vera auðunnin, ekki
sízt, þar sem búið er að ryðja bílaslóðir í ýmsar áttir,
svo að ekki verður nauðsynlegt að fara mjög langar
gönguferðir.
Lengi hafði mér leikið hugur á að koma á Þeista-
reyki, þetta afskekkta heiðarbýli lengst inni á heiðum,
þar sem sagnir herma, að árásir bjarndýra hafi valdið
því að bærinn fór í eyði að minnsta kosti einu sinni.
Sumarfrítt er á Þeistareykjum. Sunnan við bæinn rís
Bæjarfjallið með blómabrekkum og grösugum geirum
upp undir brúnir. Bærinn stóð á lækjarbakka, þar sem
allt gilið er sundursoðið af hveragufum, og leggur af
þeim ramman brennisteinsþef, og umhverfis bæjarstæð-
ið er grösug grund, gamalt túnstæði.
Víða um land hafa afdalakot og heiðabvli verið eins
afskekkt og jafnvel enn afskekktari en Þeistareykir.
Þótt langt sé til næstu bæja og vandratað í dimmu og
fannfergi, er ekki um verulegar torfærur að ræða. Sæmi-
legt hefur verið að afla heyja á grundunum suður með
Bæjarfjalli og um neðanverðar brekkur þess, og sjald-
an eða aldrei þraut beit í fjallinu. Höfuðgalli bæjarstæð-
isins er vatnsskorturinn. Þar er einungis um einn brunn
að ræða með volgu vatni og svo litlu, að það þrýtur oft
í þurrkum. Verður þá að sækja vatn í uppsprettu langt
norður með Ketilfjalli.
Á Þeistareykjum er nú ágætur skáli, svo að slíkur
húsakostur hefur áreiðanlega aldrei verið þar fyrr. Skál-
inn, sem reistur er handa leitarmönnum, er járnklædd-
ur timburskáli, með 16 rúmstæðum og rúmgóðu svefn-
lofti, sem þó aðeins þarf að nota þegar flest er um
manninn. Borð og bekkir eru eftir miðjum skála og
„kosangas“ suðutæki og lampar. Var ánægjulegt að
koma þar að slíkum húsakynnum, enda hefði okkur
orðið þar leið vistin í tjöldum eða torfkofa.
Sagt er að reimt sé á Þeistareykjum. Þeir eiga sinn
Móra, sem stundum kvað gera mönnum smáglennur, en
einskis urðum við þar varir, enda mun reimleikinn mest
hafa verið bundinn við gamla kofann, sem stendur í
hinum fornu bæjarrústum, sem eru allmiklu neðar á
túninu en nýi skálinn.
Fyrsta morguninn, sem við vöknuðum á Þeistareykj-
um var skipt um veður. Komin var norðanátt með súld
138 Heima er bezt