Heima er bezt - 01.04.1965, Síða 36
— Já, ég veit það núna, en ég hugaði ekki um það í
nótt, sagði Hanna afsakandi.
— Hugsaðu fyrst og framkvæmdu svo, ætlarðu aldrei
að muna eftir því? sagði afi alvarlegur.
— Æi afi minn, ég verð aldrei fullorðin, sagði Hanna
og strauk á honum skeggið.
— Ójú, telpa mín, fullorðin verðurðu vonandi, og
notar þá vitið sem guð gaf þér vel.
— Heldurðu að ég hafi fengið mikið vit, kannski
tvö—þrjú kíló?
— Nei, ekki er nú vitið mælt í kílóum trúi ég, sagði
afi og hló.
— Hvernig þá?
— Ég veit það ekki.
— En ekki getur það verið mælt í metrum, nema
það sé þá hringað upp eins og kaðall. Ég vildi að ég
hefði fengið þúsund metra vit, en ég hugsa að það sé
nú ekki nema svona fimmtán metrar eða tíu, sagði
Hanna og andvarpaði. Neró hefur áreiðanléga stórt og
mikið vit, heldurðu það ekki, afi?
— Jú, þið hafið bæði mikið vit, hvort á sína vísu, og
þú ættir að geta orðið eins góð stúlka og hann er hund-
ur, svaraði afi. En nú verður þú að fara og segja bónd-
anum heima frá því, hvernig standi á eggjahvarfinu.
— Ó, nei, elsku afi minn, það get ég ekki, sagði
Hanna María og horfði með angistarsvip á afa sinn.
— Þú mátt til, vina mín, en ég skal þá fara með þér
og halda í höndina á þér, ef þér þætti það betra.
— Æ, elsku afi minn, ætlarðu að gera það? Alltaf
ertu allra beztur, hvíslaði hún, en viltu lofa mér því að
segja ekki ömmu frá þessu, henni mundi þykja það svo
voðalega leiðinlegt.
Heldurðu ekld að mér leiðist það Iíka? spurði afi.
— Jú, afi minn, en mér leiðist það samt áreiðanlega
lang-lang mest, en það er svo gott að þú skulir bera
leiðindin með mér, — eigum við ekki bara að bera þau
tvö ein, lofa ömmu alveg að sleppa í þetta sinn, sagði
Hanna og horfði á afa, þú veizt nú, hve miklar áhyggj-
ur hún hefur af mér.
— Það er þá bezt að sleppa ömmu í þetta sinn, en
nú er eftir að heimsækja Fellsbóndann og fá fyrirgefn-
ingu hans, sagði afi og stóð upp, tók í hönd Hönnu
og leiddi hana af stað.
XII.
F y rirgefningin.
Heima á hlaðinu á Fellsenda sat Áki og gældi við
Neró, sem komið hafði í morgunheimsókn til hans.
Áki var sá eini af fjölskyldunni, sem hann leyfði að
snerta á sér.
— Góðan daginn, heyrði Áki sagt að baki sér. Hann
sneri sér við og sá afa og Hönnu koma upp varpann.
Afi var eins og hann átti að sér að vera, en Hanna gekk
niðurlút og hélt fast um hönd afa síns með báðum sín-
um.
— Góðan dag, svaraði Áki og horfði forvitnislega á
Hönnu, sem sagði ekki neitt og leit ekki upp.
— Er Jón bóndi heima? spurði afi.
— Nei, þeir fóru allir fjórir inn að Eyri í morgun.
En get ég eitthvað ^gert fyrir ykkur, fyrst pabbi er
ekki heima? spurði Áki.
Afi kímdi ofurlítið og leit á Hönnu. Svo settist hann
á hestasteininn og tók upp tóbaksdósirnar sínar.
— Viltu í nefið, lagsi? sagði hann við Áka.
— Nei, þakka þér fyrir, ekki núna, svaraði Áki graf-
alvarlegur, — ég ætla að eiga það inni hjá þér, þar til
ég lendi í tóbakshraki sjálfur.
Hanna leit nú upp og starði á Áka, átti hún að trúa
því, að strákurinn tæki í nefið, var hann ekki bara að
gabba afa?
— Afi, ég held að hann sé bara að gabba þig, hvíslaði
hún að afa sínum.
— Nei, heldurðu það, getur það verið að strákurinn
sé svo ósvífinn? sagði afi og lézt vera alveg hissa.
— Ert þú þá ekki húsbóndanefnan í dag? spurði afi
Áka.
— Við getum sagt það, svaraði Áki.
— Nú ætlar hún Hanna María að skrifta ofurlítið
fyrir húsbóndanum, en þá má hann ekki láta það
fara lengra, hvort sem hann nú fyrirgefur henni eða
ekki.
— Ég get það ekki, stundi hún upp, það er svo voða-
lega stór kökkur í hálsinum á mér.
— Það var nú verra, sagði afi, reyndu að renna hon-
um niður.
— Það er ekki hægt, hann er fastur, sagði vesalings
Hanna María og var nú farin að vatna músum.
— Það er bezt að þú segir mér þetta leyndarmál, ef
þú veizt það og heldur að ég þurfi endilega að vita það
líka, lagði Áki til málanna.
Afi hóf nú að segja frá gerðum Hönnu, en á meðan
sat hún hjá Neró og faldi andlitið í feldinum hans.
— Hvernig vilt þú svo hegna henni? spurði afi.
— Áki horfði út yfir eyjarnar, svo sneri hann sér að
Hönnu og reyndi að vera alvarlegur, þegar hann sagðist
ætla að hegna henni með því að biðja hana að koma
með sér fram í eyjamar og reyna að bæta úr þessu
eftir beztu getu.
— Þetta þótti afa heillaráð, hann sagði að þau skyldu
fara strax, sjálfur ætlaði hann inn í bæ og vita, hvort
frúin ætti ekki eins og tíu dropa á könnunni.
Áki og Hanna gengu ofan túnið ásamt Neró og
Hörpu, sem vildi endilega fara að leika sér í stanginga-
leik. Það nennti enginn að stangast við hana, og Harpa
fór því aftur í mestu fýlu heim í Kot til ömmu.
Hanna leit útundan sér á Áka. Það var ekki hægt að
sjá að hann væri neitt reiður. Henni þótti samt vissara
að vita það fyrir víst.
— Ertu reiður? spurði hún lágt.
152 Heima er bezt