Heima er bezt - 01.05.1965, Blaðsíða 31

Heima er bezt - 01.05.1965, Blaðsíða 31
Hönnu, sem nú var lögst á bakið og horfði upp í sól- ina gegnum litað gletbrot, sem hún hafði fundið. — Farðu úr fötunum, svo þú getir velt þér í sandin- um eins og ég, svaraði Hanna og hélt áfram að góna gegnum glerið. Sonja hugsaði sig um, svo fór hún úr peysunni og pilsinu, braut það vel saman og setti það upp á flatan stein. Sverrir sat og gróf holu í sandinn með lítilli spýtu og bullaði við sjálfan sig, systirin þurfti engar áhyggjur að hafa af honum í svipinn. — Viltu sjá það sem ég sé, kallaði Hanna. Sonja hljóp til hennar, forvitnin uppmáluð. — Hvað sérðu? — Ævintýraheiminn, svaraði Hanna, — þú verður að leggjast á bakið og horfa uppí sólina, ef þú vilt sjá hann. Sonja lagðist á bakið, og Hanna rétti henni glerið. — Guð, hvað þetta er sniðugt, sagði hún. — Eigum við að safna glerbrotum, þá getum við átt marga ævintýraheima, og farið þangað þegar okkur leið- ist? spurði Hanna. — Hvernig farið þangað? spurði Sonja skilningssljó. — Bara hugsað okkur að við förum þangað, — hugs- arðu aldrei neitt? — Jú, jú, — en ég hef aldrei hugsað í gegnum gler. Þær lágu þarna niðursokknar í sandinum og gleymdu öllu nema ævintýraheiminum sem Hanna María virtist vera svo kunnug. Sonja vildi fá að vita hvemig henni dytti í hug svona skemmtilegar sögur, en Hanna vildi ekki láta neitt uppi um það. — Þær bara koma á bak við augnalokin á mér, og ég flýti mér að lesa þær um leið og þær hlaupa framhjá, sagði hún, en það gat Sonja ekki skilið. Aldrei hafði hún séð sögur fæðast bak við augnalokin sín. Hanna hlaut því að vera eitthvað skrítin í höfðinu. Allt í einu kvað við hátt öskur, og þær hentust á fæt- ur. Það var Sverrir sem gaf þessi stórkostlegu hljóð frá sér, hann hafði verið að klifra uppá stein í flæðarmálinu, en runnið útaf honum og stungist beint á höfuðið í sjóinn. Þegar hann var staðinn upp, náði sjórinn honum nærri í mitti, og nú stóð hann þama og grenjaði eins hátt og hann gat. Hanna hljóp í hendingskasti niður sandinn. — Svona, hættu þessum öskram, sagði hún og hristi hann ofurlítið til, — þetta var nú ekki svo voðalegt, að hann þyrfti að öskra svo óskaplega að það heyrðist heim í bæ. Sonja stóð hágrátandi í fjömnni. Það fauk í Hönnu: — Ætlið þið að grenja svo hátt að allir heyri það heim í bæ, við skulum heldur klæða strákinn úr og þurrka fötin hans í sólinni. — Nei, við förum strax heim, hann getur fengið lungnabólgu og dáið, snökti Sonja. Það hnussaði fyrirlitlega í Hönnu: — Dáið af því að blotna dálítið í glaða sólskini og hvítalogni, flest gat krakkanum dottið í hug. Hún klæddi Sverri úr hverri spjör og nuddaði skrokkinn á honum með peysunni sinni. — Þetta kunni Sverrir að meta, hann ærslaðist alls- nakinn í sandinum, velti sér um hrygg og reyndi að steypa sér kollhnís: — Gaman, gaman, hló hann og skríkti, svo tók hann á sprett og hljóp beint út í sjóinn, svo skvetturnar gengu langt yfir höfuðið á honum. — Sonja hljóðaði, en Hanna hló. Strákurinn var reglulega skemmtilegur. Þegar í land kom aftur, sá Hanna að Sonja var kom- in af stað heim háskælandi, hún tók því strákinn, klæddi hann í buxumar af sjálfri sér og peysuna og lagði af stað upp túnið. Hafi hún átt von á skömmum, var það ekkert á móti því óveðri sem nú skall á: Guðný húsfreyja kom þjótandi á móti þeim og reif Sverri af henni og svo ýmist skammaði hún Hönnu og Sonju eða spurði Sverri, hvort hann væri ekki alveg að deyja úr kulda, elsku litli drengurinn, og hvar vom fötin hennar Sonju? Hvar var nýja pilsið? Sonja leit á Hönnu. — Hanna vildi koma í fótabað, vældi hún. Það var svo sem auðvitað að hún hefði fundið upp á þessu. Konan leit fyrirlitlega á Hönnu, sem stóð þarna í nærbuxunum einum fata. Villiköttur, það er það sem þú ert, hreytti hún útúr sér og flýtti sér inn með Sverri. Farðu og náðu í fötin mín, sagði Hanna við Sonju án þess að líta á hana. Sonja rölti inn og kom strax út aftur með fötin, sem móðir hennar hafði hent í hana með þeim ummælum, að Hanna skyldi hafa sig heim hið bráðasta, og ef Sonja svo mikið sem talaði við hana, skyldi hún fá flengingu. — Ég má aldrei tala við þig framar, tautaði hún. — Mér er sama, klöguskítur, hreytti Hanna útúr sér og reif af henni fötin. Ég skal heldur aldrei tala við þig, þú ert grenjuskjóða, huglaus og getur ekkert nema klagað. Eftir að hafa ratt þessu úr sér þaut hún af stað ofan túnið, það væri betra að Sonja sæi ekki tárin sem streymdu niður kinnar hennar, fyrst hún væri rétt búin að kalla hana grenjuskjóðu. Hanna linnti ekki sprettinum fyrr en niðri í „Tára- dalnum“ sínum. Þar henti hún sér á grúfu og lét eftir sér að gráta eins lengi og hana lysti. Neró kom og lagð- ist hjá henni, sleikti hana með mjúkri tungunni og ýlfr- aði nokkram sinnum ofurlágt eins og í hughreystingar- skyni. BRÉFASKIPTI Guðbjörg Sigurðardóttir, Engjaveg 7, Selfossi, Árnessýslu, óskar eftir bréfaskiptum við pilt á aldrinum 15—17 ára. Æski- legt að mynd fylgi fyrsta bréfi. Ólöf Matthiasdóttir, Melanesi, Rauðasandi, Vestur-Barða- strandasýslu, óskar eftir bréfaskiptum við stúlkur á aldrinum 10—12 ára. Guðbjörn Ósk Gunnarsdóttir, Haukadal, Dýrafirði, óskar eftir bréfaskiptum við pilt eða stúlku á aldrinum 10—12 ára. Æskilegt að mynd fylgi fyrsta bréfi. Heima er bezt 191

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.