Heima er bezt - 01.06.1965, Page 19
ur eru fluttar til nýrra heimkynna. Hefir stofnunin safn-
að upplýsingum um þessi efni frá fjölda landa um heim
allan og birt um það mikilvægar skýrslur og niðurstöður.
Hefir það ekki sízt verið mikilvægt í sambandi við rúg-
og byggyrkju. Rit þessarar stofnunar eru hinar ágætustu
handbækur fyrir aíla, sem fást við flutninga á plöntum
landa á milli.
Eitt höfuðverkefni vaxtarfræðinnar verður að finna,
hvort unnt sé að rækta tilteknar tegundir í tilteknum
héruðum, og hverjar tegundir hafi bezt skilyrði til
þroska, svo að þær megi gefa sem fyllstan arð.
Á síðari áratugum hefir mikil breyting orðið á lofts-
lagi í norðlægum löndum. Jöklar hafa eyðzt og hitastig
hækkað einkum vor og haust. Þetta hefir komið greini-
lega fram í viðbrögðum plantna og dýra, og um leið hafa
ræktunarmöguleikar breytzt. Þannig hafa hæðarmörk
komyrkju í Noregi færzt upp á við um 100 metra og
norðurmörkin um 200—300 kílómetra. Frostskemmdir
á kartöflum og korni eru sjaldnar en áður. Frost fer fyrr
úr jörð, villiplöntur, bæði tré og jurtir, bera þroskuð
fræ á hverju sumri, sem áður gerðu það einungis í beztu
árum, og skógurinn teygir sig hærra upp í hlíðarnar en
fyrr. Vafalaust hefir hið sama gerzt hér á landi, en oss
skortir vaxtarfræðilegar athuganir, til þess að segja um
það með vissu.
Vér vitum ekki, hve lengi góðæri þetta kann að vara,
og ef árferði spillist til muna getur það haft alvarlegar
afleiðingar. En vaxtarfræðilegar rannsóknir á góðu ár-
unum gætu gefið oss mikilvægar upplýsingar um hversu
bregða skyldi við, ef harðnar í ári. Vér vitum þá, hvern-
in villiplönturnar haga sér og þekkjum samræmið milli
viðbragða þeirra og yrkiplantnanna. En einmitt í öllum
köldum löndum, þar sem fjöldi tegunda, innfluttra og
innlendra, er vex við norðurmörk vaxtarsvæðis síns eru
öll þessi viðbrögð miklu skýrari en annars staðar. Smá-
breytingar í veðurfari geta valdið stórsveiflum í vexti
tegundanna. Þess vegna er harðla nauðsynlegt að fylgj-
ast með þeim breytingum, sem verða á plöntunum og
vaxtarviðbrögðum þeirra.
Það er margt fleira, sem vaxtarfræðin getur leiðbeint
oss um. Það er gamalla manna mál, að lækningaplöntum
beri að safna á tilteknum tímum því að þá sé kraftur
þeirra mestur. Þann tíma sýnir vaxtarfræðin oss. Mikil-
vægt er t. d. að fylgjast með þeim plöntum, sem valda
heymæði í mönnum með frjódusti sínu. Blómgunartími
þeirra er oft skammær, og með því að skipta um dvalar-
stað á þeim tíma, gætu menn oft komizt hjá miklum
óþægindum. Einnig leiðbeinir vaxtarfræðin um ýmis
landbúnaðarstörf, svo sem sáningartíma, áburðartíma,
hvenær árangursríkast sé að úða plöntur vegna sjúkdóma
og ótalmargt annað.
Vaxtarfræðin er enn tiltölulega ung vísindi. En hún er
í hraðri framför. Stöðugt korna fram ný úrlausnarefni,
sem krefjast svars, bæði í almennri jarðyrkju, garðrækt
og skógrækt, og taka verður ný viðfangsefni til rann-
sóknar. Því víðtækari sem vaxtarfræði rannsóknirnar
verða, því meiri líkur eru til, að hún gefi oss viðhlítandi
svör.
Hér hefir verið skýrt stuttlega frá, hvað vaxtarfræðin
er og hvers megi af henni vænta. Nokkuð hefir verið
skýrt frá norskri reynslu, en höfuð heimild að grein
þessari er ritgerð úr norska tímaritinu Blyttia.
En nú liggur næst fyrir að spyrja, hvað vér íslend-
ingar höfum gert í þessum efnum, og verður því miður
að játa það, að vaxtarfræðilegar rannsóknir hér á landi
eru bæði fáar og slitróttar. Það er í þessu efni eins og
mörgu öðru, sem við kemur náttúru lands vors, að vér
erum tómlátir um þau. Oss gleymist alltof oft, að plönt-
urnar eru lifandi verur, og þó enn meir, að þær eru und-
irstaða alls lífs á jörðunni. Vér sjáum að vísu að jörðin
grær og plönturnar blómgast á hverju vori og fölna á
haustin, en fæstum kemur til hugar, að skrá dagsetningar
hvenær þetta gerist. Kemur þar og til að þekking manna
á plöntum og heitum þeirra er mjög takmörkuð. En ekki
er unnt að gera slíkar athuganir án þess að þekkja nokkr-
ar tegundir.
Ekki er þó fyrirfram víst, að vaxtarfræði athuganir í
náttúrunni gæfu jafnskýr svör hér á landi og t. d. í
Noregi. Tegundir eru hér færri en þar, og gróðurfélög
naumlega eins skýrt mörkuð. Hitt dylst þó ekki, að
margt má ráða af vaxtarfræðilegum athugunum hér sem
annars staðar t. d. um lengd vaxtarskeiðs plantna á ýms-
um stöðum. Og umfram allt geta vaxtarfræði rannsóknir
gefið oss mikilvæg svör í sambandi við innflutning teg-
unda. Oss er því harðla mikilvægt að fylgjast vel með
vaxtarferli ræktaðra trjáa og runna, sem nú er þegar að
finna hvarvetna um land, blómgun þeirra, laufgun,
aldinþroskun, lauffalli o. fl., sem hver athugull maður
getur gert án mikillar fyrirhafnar. Ef þeim einungis er
bent á starfshætti og lagðar til leiðbeiningar.
Þótt ekkert sé samfellt skráð um slíkar rannsóknir hér
á landi eru samt til margar athuganir frá ýmsum tímum,
en mest skortir á að þær hafi verið gerðar samfellt um
lengra skeið. Á síðustu tugum aldarinnar sem leið gerði
Schierbeck landlæknir margvíslegar ræktunartilraunir,
og hefir hann gert nokkrar skýrslur um vaxtarfræði
þeirra tegunda, sem hann ræktaði og birti í tilraunayfir-
litum sínum. Stóð hann í sambandi við Schúbeler hinn
norska og gaf honum ýmsar upplýsingar um vaxtarfræði
plantna hér, og mun eitthvað af því tagi vera að finna
í ritum Schúbelers.
Þegar Stefán Stefánsson hóf gróðurrannsókir sínar á
Möðruvöllum í Hörgárdal, lagði hann mikla stund á
vaxtarfræði athuganir fyrstu árin, og raunar allt af fram
undir aldamót. Naut hann þar mikillar hvatningar og
leiðbeiningar Warmings prófessors í Kaupmannahöfn.
Ekkert hefir Stefán þó birt um þessar rannsóknir á
prenti, nema að getið er blómgunartíma flestra tegunda
í Flóru íslands. En slíkar upplýsingar eru of almenns
eðlis, og sumt vafalítið skráð eftir sögusögnum annarra.
Framhald á bls. 219.
Heima er bezt 215