Heima er bezt - 01.10.1965, Qupperneq 11

Heima er bezt - 01.10.1965, Qupperneq 11
staða, sem er næsti bær að norðan. Neðan við Hóla er hið svonefnda Nes, svo að segja láréttur engjafláki, sums staðar mjög þýfður, en víða greiðslægur, talið fyrrum 100 hesta land, ákaflega vel fallið til ræktunar, enda jafnan talið þægilegasti og fallegasti hlutinn af engjum Atlastaða, en útheysfengur á Atlastöðum var talinn geta verið 350—400 hestar. V. Búfjárhagar Atlastaða eru aðallega á Skallárdal. Dal- urinn liggur suður og upp frá bænum. Fyrir botni hans er Unadalsjökull og við rætur hans hefur Skallá upptök sín. Vestan megin árinnar heitir Skallárdalur. Hann er alllangur, grösugur og sumarfríður. Hagbeit er þar hin bezta, vegna loðlendis og mikillar fjölbreytni í jurta- gróðri. Á Skallárdal er nægur sumarhagi fyrir marga tugi stórgripa og mörg hundruð sauðfjár. Þar var bú- smali geymdur til skamms tíma frá vori til hausts. Við mynni dalsins, skammt fyrir sunnan Atlastaði, er geysi- mikil hólaþyrping, aðeins nefnd Hólar, svo sem hinir fyrr nefndu. Er hér um að ræða ævafornt framhlaup úr fjallinu Skildi. Yzt og fremst í hólum þessum eru gaml- ar seltóftir, en engar sagnir þekki ég í sambandi við þann stað. Fyrir framan Hóla tekur við undirlendi, sem smámjókkar eftir því sem ofar dregur í dalinn. Fara má á hesti alveg heiman frá bæ og alla leið inn í botn Skall- árdals, eða að svo kölluðu Svartagili, sem er nærri botni dalsins. Framan við Svartagil er svo nefnd Svartagils- brún, og ofan við hana eru rætur Unadalsjökuls. Við verðum því að fara inn úr Skallárdal, ef við ætlum vest- ur yfir Unadalsjökul. VI. Afréttur Atlastaða, sá, sem nú verður minnzt á, heitir Hnjótar (sbr. Hnjótafjall hér að framan). Þeir takmark- ast af Skallá að vestan og norðan, en Svarfaðardalsá að austan. Eins og áður er sagt, er Hnjótafjall beint fram (= inn) af bænum á Atlastöðum á rnilli Heljardalsheið- ar og Unadalsjökuls. Út af Hnjótafjalli gengur alllang- ur háls, Hnjótaháls. Hefur Skallá fyrir ævalöngu gert sér farveg gegnum háls þennan utarlega og náð þannig að sameinast Svarfaðardalsá, sem kemur frá rótum Helj- ardalsheiðar. Þar sem Skallá hefur brotið sér leið gegn- um hálsinn, er gil hennar, Skallárgil, geysilega djúpt, mjög gróðurlítið og sums staðar klettótt. Hálsstúfur sá, er orðið hefur utan Skallár, er örstutt fyrir sunnan bæ- inn á Atlastöðum og heitir Skallárhóll. Vestan megin Hnjótafjalls og Hnjótahálsins, gegnt Skallárdal, er í dag- legu táli nefnt Hnjótarnir að vestan, en kjálkinn austan megin fjallsins, þ. e. a. s. Hnjótafjall og Hnjótaháls, heitir aftur á móti Hnjótarnir að austan. Skammt sunn- an við Skallá, bæði austan- og vestanvert við hálsinn, eru gamlar seltóftir. Ef farið er vestur yfir Heljardals- heiði, liggur leiðin fram Hnjóta, austan hálsins og sam- nefnda fjallsins. Sunnan við Skallána tekur þá fyrst við Réttarhóll. Þar skammt ofar eru Grafarhólar. Þá kemur Háagrund, þá Votahvammshryggur, þá Hvössuhnjótar, melhólaþyrping, síðan grundir og nokkuð grónar skrið- ur upp að Kambagilshry gg, en hann er eiginlega ræturn- ar að Heljardalsheiði. Þarna stanzar ferðamaðurinn, hvort sem hann er gangandi eða ríðandi. Þrýtur nú allt undirlendi. Flnjótafjall er á hægri hönd, snarbratt og himinhátt, en austan árinnar er Vífilsfjall í landareign Kots, sem er efsti bær í Svarfaðardal, austan ár, og beint í fangið er Heljardalsheiði, svo að segja gróðurlaus, brött og köld á svip. Við ráðumst til uppgöngu. Fyrst liggur leiðin upp Kambagil. Efst í því er Kamba- gilsbrekka og hún er örðug. Svitinn streymir af manni, eða hesti. Flestir munu hlífa reiðskjótanum við versta erfiðinu og ganga, þar sem brekkan er verst. Þegar upp á Kambagilsbrekku er komið, minnkar brattinn um stund, en vex fljótlega aftur. Þar heitir Möngubrekka. Er þá aðeins eftir Stóruvörðubrekka upp á heiðarbrún. Þessi brekka er alllöng og þá er komið að Stóruvörðu, sem stendur á takmörkum Svarfaðardals og Kolbeins- dalsafréttar. Þarna getum við verið, hálfir á Skagafirði og hálfir í Eyjafirði og hér eru vesturtakmörk Atla- staðalands. En áður en við höldum lengra vestur, skul- um við ganga dálítið austur frá vörðunni eftir heiðar- brúninni. Við komum þar að nærri því hrundu grjót- byrgi. Þarna er sagt, að einu sinni hafi verið sæluhús. Vill nú ekki einhver góður maður leita eftir heimildum fyrir því, hvenær þetta hús var byggt og hvenær það féll í rústir. Ég get, því miður, ekkert sagt um sögu þess. Við stöndum þögulir yfir rústum þessum og athugum mosavaxna steinana. Hver var frumkvöðull að þessari byggingu? Hverjir lögðu steinana í veggspottann, sen ennþá stendur? Hverjir nutu hér skjóls og áttu hér at- hvarf og hvíldu hér þreytta limi? Ég veit aðeins, að þeir voru þurftarbræður okkar í öllu því, sem íslendings- eðlið gerir kröfu til að njóta, töluðu sömu tungu, voru kostamenn og gallagripir eins og við, og um leið og við snúum frá þessum stað, biðjum við alföður að blessa duft hinna horfnu þjóðbræðra og veita sálum þeirra hvíld. Adastöðum, 3. apríl 1937. Björn R. Árnason. LEIÐRÉTTING I grein Einars Guttormssonar „Einstætt afrek“, sem birtist í síðasta tölublaði, hefur misprentast nafn eins mannsins á ljósmyndinni, sem fylgir greininni. Maður- inn, sem stendur lengst til hægri á myndinni er Sigurður Sigurðsson en ekki Sigurður Bjarnason, eins og mis- prentast hefur í blaðinu. Eru menn góðfúslega beðnir að leiðrétta þetta. Heima er bezt 359

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.