Heima er bezt - 01.10.1965, Blaðsíða 35
HEIMA_______________
BEZT BÓKAH I LLAN
Jakob V. Hafstein: Laxá í Aðaldal. Reykjavík 1965.
Menningarsjóður.
Laxá í Aðaldal hefur lengi notið þess hróðurs að vera talin í
senn ein fegursta og fiskiauðugasta á landsins og þótt víðar sé
leitað. Hefur lítt verið um þá hluti deilt, enda mun Laxá heilla
alla þá, sem henni kynnast, það fór því vel á því, að um hana er
rituð bók fyrsta allra íslenzkra vatnsfalla, og það bók, sem bæði
að efni og ytri gerð er samboðin hinni ágætu á. Höfundurinn
Jakob V. Hafstein er kunnugur Laxá frá barnæsku og hlefur frá
fyrstu kynnum verið heillaður af töfrum hennar. Hann er í senn
veiðimaður og náttúruunnandi af lífi og sál, en einnig gæddur
listamannsauga og skáldgáfu, og einmitt þess vegna hefur honum
tekizt að auðga íslenzkar bókmenntir að góðri bók og nýstárlegri
um margt. Auk sinna eigin kynna af ánni hefur hann aflað sér
fræðslu um ána hjá heimamönnum, svo að allt mætti verða sem
réttast. Bókin flytur lýsingar af Laxá sjálfri og veiðistöðum henn-
ar. Þá er greinargerð um veiðiaðferðir og veiðarfæri fyrr og síðar,
sagt er frá æðarvarpinu við Laxamýri og fuglalífi almennt og sel
í ósum og á. Og loks eru þar ljóð og lausavísur eins og vera ber
um þingeyska á. Lýsingar allar og frásagnir eru kryddaðar með
veiðisögum og mannlýsingum. Öll frásögnin er litrík og ljóðræn
og svo lifandi að lesandinn sér þar Laxá renna milli blómskrýddra
bakka og laxana hoppa. Þá er bókin prýdd fjölda mynda. Má þar
fyrst nefna teikningar danska listmálarans Sveins Havsteen-Mikkel-
sens en einnig teikningar höfundar sjálfs, en auk þess er fjöldi
ljósmynda, bæði litaðra og svarthvítra. Falla myndir og texti vel
í eina listræna heild.
Brian Moore: Kanada. Reykjavík 1965. Almenna bóka-
félagið.
Þetta er 12. bókin i flokknum Lönd og þjóðir, með sama sniði
og ágæta fráganginum og hinar fyrri. Kanada er vissulega eitt
þeirra landa, sem taugar vor íslendinga liggja mest til, sakir þess
fjölda landa vorra, sem þar hafa búið og borið bein og lagt sinn
skerf, til að nema hið gagnauðuga en harðbýla land. Hins vegar
hefur þekking vor á því verið í molum, ekki sízt félagslegum
vandamálum þess og þróunarsögu þjóðarinnar. En um þessi at-
riði gefur bókin greinagott yfirlit. Hins vegar er minna sagt um
náttúru landsins og almenna landslýsingu. Öll er bókin læsileg og
fróðleg urn mikið land og ötula þjóð, sem þrátt fyrir allt á við
ýmsa erfiðleika að stríða og stendur um margt á tímamótum í
þróun sinni. Þýðandi er E. J. Stardal.
Tarjei Vesaas: Klakahöllin. Reykjavík 1965. Almenna
bókafélagið.
Höfundur bókar þessarar hlaut Nobelsverðlaunin 1964 fyrir
hana að talið er. Birtist hún nú í íslenzkri þýðingu eftir Hannes
l'étursson. Höfundurinn er talinn fremsta sagnaskáld Norðmanna,
sem nú er uppi, en hefur til þessa verið lítt kunnur hér á landi, er
því mál til komið, að íslenzkir lesendur fái kynnzt honum. Klaka-
höllin er ljóðrænt ævintýri urn litlar stúlkur. Það er fullt af dulúð,
en jafnframt ritað af mikilli sálfræðilegri þekkingu og skilningi á
mannlegu eðli. Frásögnin er seiðmögnuð, svo að lesandinn sleppir
naumast bókinni fyrr en hún er lesin á enda, og les hana eða ein-
staka kafla hennar hvað eftir annað.
Svava Jakobsdóttir: 12 konur. Reykjavík 1965. Almenna
bókafélagið.
Þetta er fyrsta bók höfundar, 12 smásögur eða öllu heldur svip-
myndir af 12 konum á ýmsum aldri og við ólíkt umh)verfi og að-
stæður. Sögurnar eru um margt nýstárlegar, frásögnin er stuttorð
og lesandanum er gefin í skyn stærri saga en myndimar sýna. Og
vafalítið er að höf. skynjar sálarlíf og tilfinningar kynsystra sinna
af samúð og næmleika.
Bjami Benediktsson: Land og lýðveldi. Reykjavík 1965.
Almenna bókafélagið.
Þetta er fyrra bindi safnrits, er flytja skal sýnishorn og úrval af
ritgerðum, ræðum og blaðagreinum Bjarna Benediktssonar for-
sætisráðherra, frá því fyrst hann lætur til sín taka á vettvangi
fræðimennsku og stjórnmála til dagsins í dag. Fjallar þetta bindi
um sjálfstæðisbaráttuna, stjórnskipan og utanrikismál. Eru þar
bæði fræðilegar ritgerðir og innlegg í deilumál dagsins. Víða er
komið við, og þarna lýst mörgum þeim atburðum, sem hæst hafa
risið í samtíðarsögu vorri, og þeir skýrðir. Vafalaust verða menn
höfundi ósammála um margt eins og vænta má, því að um marga
þessa hluti hefur verið deilt og verður sjálfsagt enn um langa hríð
af þeim, sem fást við sögu samtíðar vorrar. En um það verður
ekki deilt, að höfundur er i senn margfróður, rökvís og skýrorður,
og ritar kjarnmikið íslenzkt mál, sem vera má hverjum til fyrir-
myndar. Eins og vænta má, eru greinar þessar ekki skemmtilestur
í orðsins venjulegu merkingu, en góður fengur öllum þeim, sem
fræðast vilja um samtíðarsögu landsins, því að safn þetta er mik-
ilsverð heimild um hvað jafnumsvifamikill stjórnmálamaður og
Bjarni Benediktsson hefur lagt til mála á opinberum vettvangi.
John le Carré: Njósnarinn, sem kom inn úr kuldanum.
Reykjavík 1965. Almenna bókafélagið.
Nærri daglega lesum vér í dagblöðunum um njósnir stórveld-
anna hvers í annars garð. Njósnirnar eru mikilvægur þáttur í hinu
kalda stríði um heimsyfirráðin. Skáldsaga þessi lýsir lífi njósnara
eins og starfi með öllum spenningi njósnanna, öryggisleysi, hætt-
um og illum örlögum þeirra, sem njósnanetið er spunnið um og
þeir sjálfir hafa spunnið sér með atferli sínu. Sagan er þannig í
senn spennandi og bregður upp mynd af merkilegu en miður
þugnanlegu fyrirbæri í sögu nútímans. Þýðandi er Páll skúlason.
St. Std.