Heima er bezt


Heima er bezt - 01.03.1969, Qupperneq 39

Heima er bezt - 01.03.1969, Qupperneq 39
HEIMA------------ eL BÓKAHILLAN Guðrún frá Lundi: Gulnuð blöð. Reykjavik 1968. Leiftur hf. Þetta er 23. skáldsaga hinnar mikilvirku skáldkonu á um aldar- fjórðungi, og er hún nú 81 árs að aldri, og hefur því byrjað rit- höfundarferil sinn nær sextug. Telst mér til að alls séu bækur hennar nær 7000 blaðsíðum samanlagt. Þessari sögu fylgir Þor- steinn M. Jónsson fyrrv. skólastjóri úr hlaði með nokkrum for- málsorðum. Guðrún frá Lundi hefur ekki átt upp á pallborðið hjá gagn- rýnendum þeim og menningarvitum, sem kjörið hafa sjálfa sig til að leiðbeina fávísri þjóð í andlegum efnum og kjörið hafa silfur- hestaskáld, til að vera meistarar og leiðtogar þjóðarinnar. Enda verður því aldrei neitað, að Guðrún hefur verið furðulangt frá tízkuskáldsögum samtíðar sinnar. Hún er vafalaust vankunnandi á allar þær formúlur, sem listfræðingarnir segja nauðsynlegar til að semja skáldsögu, og hún kann ekki þau listabrögð að lita frá- sögn sína klámi og kringilyrðum, sem nú telst nauðsynlegt ein- kenni á góðum skáldskap. En líta má á fleira en þetta. Ég hygg það sé einsdæmi meðal vestrænna menningarþjóða að minnsta kosti, að öldruð kona, sem engrar menntunar hefur notið, en unnið hörðum höndum alla sína ævi, setjist niður til að skrifa skáldsögur, og sendi síðan frá sér á þriðja tug bóka á nær jafnmörgum árum. Og þrátt fyrir alla vankanta, eru bækurnar þess eðlis, að bókfús alþýða blátt áfram gleypir sögurnar í sig, svo að þær verða metsölubækur ár eftir ár, og eru árum saman einna mest lesnar allra íslenzkra skáldverka á almenningsbókasöfnum. Það er ekki hægt að af- greiða þessa staðreynd með því einu, að hér komi vanþroski og heimska lesendanna eitt til greina, eins og stundum hefur verið gefið í skyn. Mundi ekki hins vegar heiðarlegum bókmenntafræð- ingum þykja það verðugt rannsóknarefni, að kanna hvað það sé, sem hefur skapað Guðrúnu frá Lundi þær eindæma vinsældir, sem hún hefur notið, og sýna afrekum gömlu konunnar fulla virðingu, þótt flösur kunni að vera í verkum hennar frá listfræði- legu sjónarmiði. Um eitt verður þó ekki deilt, þegar rætt er um rit Guðrúnar. Hún er gædd óvanalegri frásagnargáfu og frásagnar- gleði, þeirri sömu sagnagáfu, sem hefur verið aðalsmerki íslenzkr- ar alþýðumenningar um aldir, og á sínum tíma varð upphafið að hinum frægu fornbókmenntum vorum. Hún á býsna drjúgan orðasjóð og tekur vel eftir fólkinu í kringum sig, orðum þess og athöfnum. Og hún kann að rekja lyndisfar þess og einkenni. Víst er um það, að í sögum hennar eru margar persónumar hver ann- arri líkar, og efni þeirra keimlikt. En slíkt er raunar engin furða. Guðrún sækir söguefni sín i hið daglega líf fólksins, og það mun vera svo meðal vor i fásinninu, að þar séu margir líkir og lífs- ferillinn áþekkur, en Guðrún gerir enga tilraun til að lýsa öðru þjóðlífi eða fólki en því sem hún gjörþekkir, og hún reynir ekki til að gefa því nokkurn annarlegan litblæ. Því er grunur minn sá, að í framtíðinni muni rit Guðrúnar þykja gullnáma þeim, sem kynnast vilja lífi íslenzkrar alþýðu í byrjun þessarar aldar, og að þá verði mörg þau rit gleymd, sem nú er hossað hvað hæst. Hvað sem því líður þá er Guðrún merkur fulltrúi menningar, sem nú er að hverfa. Og þegar á allt er litið, hljóta sögur hennar að teljast til afreka, þótt markvíst hafi verið að því unnið að gera hlut hennar sem minnstan. Þessi síðasta saga hennar, Gulnuð blöð, sem gefið hefur tilefni til þessara almennu hugleiðinga, er gædd sömu kostum og göll- um og hinar fyrri sögur. Frásögnin er breið, persónurnar margar, og atburðirnir, sem fram koma margir smávægilegir. En sögufólk- ið er þannig úr garði gert, að lesandinn vill ekki sleppa af því hendinni fyrr en hann veit hvernig því muni farnast. En um margt þykir mér þó saga þessi skemmtilegri aflestrar en sumar hinna fyrri. Mér er tjáð, að farið sé nú heldur að draga úr sölu og lestri bóka Guðrúnar síðustu árin. Má þar sjá að níðið og lítilsvirðingin frá þeim hálærðu er tekið að hafa sín áhrif, en réttmæta kveðju sendi Indriði Þorsteinsson þeim í grein sinni Peningar Guðrúnar frá Lundi i Tímanum fyrir nokkru síðan. Hafís við ísland. Reykjavík 1968. Kvöldvökuútgáfan. Enda þótt hafísinn hafi verið landsins forni fjandi frá upphafi Islandsbyggðar, er furðulítið um hann skráð nema stuttar annáls- greinar. Það var því vel til fundið að safna til lýsingar á hátterni hans á árinu 1968, fyrsta verulega ísaárinu um hálfrar aldar skeið, þegar mikill hluti landsfólksins hafði næstum því gleymt því að sá vágestur væri til. Um útgáfuna hafa þeir annast Sveinn Vík- ingur, Kristján Jónsson og Guttormur Sigurbjörnsson, hafa þeir safnað efni og samið. Bókin hefst á alllangri fræðilegri ritgerð Guttorms um Hafis og hafstrauma. Er þar allrækileg greinargerð um uppruna, eðli og rek hafíssins í norðurhöfum og einkum þó við ísland. Er þar margvíslegan fróðleik að finna til skilningsauka á þessu náttúrufyrirbæri, þótt vitanlega sé það ekki tæmandi, enda margt enn ókannað í þeim efnum. Þá gerir Sveinn yfirlits- grein um hátterni íssins 1968, og fæst af því góð mynd, sem fengur er að á einum stað. Þessar greinar eru hin fræðilega þungamiðja bókarinnar. Síðan taka við greinar og viðtöl við ýmsa menn víðs- vegar af landinu um isinn bæði nú og fyrr og viðhorf þeirra til hans. Kemur þar margt skemmtilegt fram, en ekki verður því neitað, að sum viðtölin og greinarnar eru meira gerð til að skemmta lesandanum eða til að sýna stílfærni höfundanna en að fræða um hafísinn. Tvær frásagnirnar bera af, bæði um fróðleik og skemmtilegheit, en það eru frásögn Tryggva Blöndals um sigl- ingu gegnum ísinn, sem sýnir i fáum dráttum og umbúðalaust hver þrekraun það er, að fást við strandsiglingar i ísaárum, og spjallið við Guðjón á Eyri, þann gamla Strandamann, sem verið hefir í nábýli við ísinn frá barnæsku. Hefir Kristján Jónsson skrá- sett hvorttveggja. Við lestur þessarar bókar finnum vér sárlega til þess, hversu lítið vér eiginlega vitum um þenna bölvald, og skipti landsmanna við hann, og hvað vildum vér ekki gefa til að eiga nú jafn lifandi lýsingu og þessa af ísaárunum 1918 og 1882, svo að eitthvað sé nefnt. Aðstandendur þessarar bókar eiga því þakkir skildar fyrir framtak sitt, þótt sumt hefði mátt vera þar með öðr- um hætti. En vonandi verður bók þessi til þess, að einhver tekur sig til og skráir hafísssögu landsins, allt frá þvf Hrafna-Flóki leit fjörðinn fullan af is á fyrstu vetursetu sinni hér á landi. St. Std. Heima er bezt 107

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.