Heima er bezt - 01.12.1972, Page 13
Snarrótarpuntur og húsakornpuntur fá hvor sína hyll-
ingu í heilum kvæðum. Mun því mörgum koma til hug-
ar að varla muni þetta gróðurskáld ganga þegjandi
fram hjá birki og eini, enda er hvorugu gleymt og í
hvorugu kvæðinu er tómahljóð eða falskar nótur. í upp-
vexti mínum hafði ég engin kynni af eininum, því hann
óx ekki í mínu umhverfi. En birkikjarrið var þar. Hefði
mér ekki lengi og allt frá bernsku þótt vænt um Bjarna
frá Vogi, mundi mér eigi að síður hafa hlýnað til hans,
er ég sá að hann gróðursetti birki í garði sínum, þegar
hann loks varð þess megnugur að koma sér upp húsi
til íbúðar. Kvæði Árna Eylands sýna, að svo mundi
honum einnig hafa farið.
Þegar Árni hyllir Jóhannes Kjarval hálfsjötugan með
snilldarkvæði, eru það enn töfrar íslands og huldir fjár-
sjóðir, sem leggja til óminn í hörpustrengina og sýna
skyldleika þess, er kvað, við hinn, sem kveðið er til.
„Landið, þjóðin, sagan.“ Mundi ekki hitt skagfirzka
skáldið hafa þótzt finna þetta þrennt samofið í kvæðum
Árna Eylands? Alveg efalaust. En þjóðina mynda ein-
staklingar, og nærri má geta hvort þeir, sem hæzt hafa
gnæft, muni ekki hafa dregið að sér athygli hans. Fleiri
eða færri hlutu þeir að verða honum að yrkisefni. Hann
yrkir um nokkur stórmenni fornaldar, karla og konur,
og sum verða þau kvæði að bálkum, sem skiptast í fleiri
eða færri kafla, eins og kvæðin um Þóru hlaðhönd og
Hildigunni lækni. Flokkur er líka kvæði það, er hann
nefnir Landnema, og þar sitt kvæðið helgað hverjum,
en kvæðið um Flóka Vilgerðarson er þó í tveim þáttum,
eins og tvær urðu ferðir hans til íslands. Eftir óheilla-
ríka fyrri för sína, mun hann þó naumast hafa hugsað
sér að koma þangað í annað sinn. Það er fornt spak-
mæli, að enginn ráði sínum næturstað, og hefur margur
mátt sanna, að rétt væri. Þegar Árni túlkar hug þessa
fólks, er hann yrkir um, sýnir hann hve mikið skáld
hann er. Kvæði hans út af fornsögunum eru ort mjög í
anda Gríms Thomsens og að hans hætti, langtum frem-
ur en Stcphans.
Jónas Hallgrímsson er nú svo mikið og svo skyn-
semdarlaust dýrkaður, að sá mun lýttur, sem ekki fylgir
landssiðnum og jarmar eins og sauðahjörðin. Fáum
mun koma það á óvart, að ég taki mig út úr hópnum og
fari mína eigin leið; fyrir það mun ég alkunnastur og
alræmdastur. En enginn getur sagt, að ég hafi ekki hyllt
Jónas, því það hefi ég svo þrásækilega gert, og ég
held kannske betur en ýmsir þeirra, sem jarma þarna
inni í kindahópnum. Hann var sá, er á sínum tíma
vakti þjóðina og leysti þjóðtungu okkar úr álögum.
„Málið þitt góða í faðminn þinn flýr með flekkina á
skrúðanum sínum.“ En tvennt er mér um megn: að
sjá allt í sama ljósi og hann og að skilja sumt það, er
hann sagði. Gunnarshólmi hans er snilldarfagurt mál-
verk, en kenning sú, er kvæðið flytur, hefur allt frá
æskudögum verið mér svo þvert um geð, að fyrir
hana hefi ég aldrei til fulls getað notið listarinnar. Að
ganga á gerðar sættir, vitandi vel, að þar með mundi
óumflýjanlega stofnað til mikilla vígaferla. Nei, ég átti
aldrei annars úrkosta en að fylgja Kolskegg. Og þannig
hefir Árni Eylands vahð sér veginn. Við skulum hlýða
á mál hans:
Er Gunnar stefndi götur upp til Hlíðar,
hann gekk með vild á bug við allar sættir;
hér gerast ennþá íslendinga-þættir
með áþekk vandamálin fyrr og síðar.
En Kolskeggur það kaus að fara víðar,
er kuldi dómsins lék um allar gættir,
hann kvaddi heimagarða, vini, vættir,
og vetur fór í hönd með storm og hríðar.
Hvort var þá stærra heima bein að bera
við brotin grið og allra vina sátt
og eignast sögu sagða lengi, víða, —
eða til firðar-daga dæmdur vera,
sem drengur eiga gleymdan æviþátt?
— Með Kolskeggi ég kaus í sand að ríða.
Þau eru bæði mörg og góð kvæðin, sem Árni yrkir
út af Njálssögu. Þó er það á einskis meðalmanns færi að
sækja sér yrkisefni þangað. Ekki var það heldur fyrir
amlóða að taka sér eldmessu sira Jóns Steingrímssonar
að yrkisefni og skila því mikla kvæði um hana, sem
mörgum er kunnugt síðan það birtist í Lesbók Morg-
unblaðsins.
Það er að vonum, að Noregur hafi öðlazt mikil ítök
í Árna Eylands, og engan traustari vin ætla ég að það
ættland forfeðra okkar eigi á íslandi. Er þó Noregur
mörgum íslendingum harla kær, eins og ljóslega sýndi
sig þegar Þjóðverjar tóku landið herskildi í öndverðri
síðari heimsstyrjöldinni og héldu því með miklum níð-
ingshætti í heljargreipum til stríðsloka. Ýms af skáldum
okkar hylltu þá Norðmenn í ljóði, karlar og konur, og
flest ætla ég að þau kvæði væru meira eða minna góð,
en vart mun nokkurt þeirra hafa borið af kvæði Árna.
Hann lýkur því þannig:
Víða Norðmenn vopnin brýna,
vita, að dagur hefnda er nær,
þegar gæfu-sókn mun sýna
svikurum, hver að lokum hlær.
Senn, í maí, moldir hlýna,
mjúkgræn akurlöndin skína. —
Lýðs af fórnum frelsið grær.
Rétt er að geta þess, að Árni Eylands hefir skrifað
mikið í norsk blöð og nokkuð í norsk tímarit, að lang-
mestu leyti um íslenzk éfni, ekki sízt bókmenntaleg,
eða þau efni, sem að einhverju leyti vörðuðu ísland. —
Stundum hafa þessar greinar hans verið langar ritgerðir,
sumar gagnmerkar, ávallt nokkurs virði og ávallt læsi-
legar, enda kann hann ekki að skrifa öðruvísi en læsi-
lega. Það er tjón, að þessum greinum hans skuh ekki
hafa verið safnað í bók, en sennilega mundu tormerki á
að fá slíka bók út gefna, því að bókmenntir í þeirri grein
Heima er bezt 413