Heima er bezt


Heima er bezt - 01.12.1972, Qupperneq 16

Heima er bezt - 01.12.1972, Qupperneq 16
var hann laus við allt slíkt, og Anna einnig, og áður hef ég lýst afstöðu fóstru minnar til slíkra hluta, og þetta fór að breytast. Og nú var ég búinn að vera þarna í nokkur ár, þegar ég, þetta kvöld, silaðist upp Hofsheiðina á rauðskjóttri hryssu upp að Ásum til að hitta dýralækni sveitarinnar. Annars vil ég skjóta því hér inn í, að aðal dýralæknir- inn sat á Selfossi og hét Jón Pálsson, en hann var eltki sóttur nema í meiriháttar tilfellum. Leiðin var svo sannarlega draugaleg þetta kvöld, ekki sízt í svona veðurfari. Landið er þarna mjög mishæðótt og mikið af djúpum lautum og háum hólum og hraunborgir og drangar á víð og dreif, sem taka á sig alls konar kynjamyndir og ýmis kynjahljóð heyrðust, þegar vindurinn gnauðaði í hraunkötlunum. Svo þegar tunglið hafði tækifæri til að gægjast fram í milli skýjanna, birti yfir þessu undralandi og þá sá maður, að það sem sýndist vera einhver á ferð, var bara hraunstrýta eða eitthvað álíka. En sú skjótta skilaði mér framhjá öllum þessum hætt- um, og áður en langur tími leið, vorum við komin upp að Kálfárbrú, og þar með hálfnuð leiðin að Ásum. Nú vorum við komin á aðalveginn, en við höfðum stytt okkur leið með því að fara beint upp Hofsheiði, en aðalvegurinn liggur vestan Kálfár að brúnni. Á veginum skilaði okkur betur áfram. Og brátt tóku við Löngu- dælarholtin, en svo heitir slakkinn milli Skaftholtsfjalls og Hamraholts. Þar eru skuggalegir dalir og lautir að minnsta kosti í tunglsljósi, og þarna á að vera reimt. Þar hefir sézt ríðandi maður með hund, sem helzt var á ferð í dimmu. Ég bjóst alltaf við að mæta honum og reyndi að hlusta, en það var ekki svo gott því vindurinn þaut í fjallseggj- unum og sinustráunum og undirspilið kom frá ánni. Ég lagði mig svo fram við það að hlusta og reyna að skynja umhverfið, að ég var orðinn kófsveittur þegar ég komst upp að Rauðalæk, en hann rennur rétt fyrir neðan túnið í Ásum. Og síðasta spölinn þangað heim var ég byrjaður að jafna mig eftir alla spennuna á leið- inni. Nú gat ég þó andað rólega í bili. Ég náði fljótlega tali af Ágúst og bar honum erindi mitt. Hann var nýháttaður. Hann hafði síðastliðna nótt vakað yfir kú á Skriðufelli og var því hvíldarþurfi. — Hann sagði, að förin fram að Hofi yrði að dragast til morguns, enda væri öllu óhætt, sem sjálfsagt var rétt. Ég varð hins vegar fyrir miklum vonbrigðum; ég hafði vonast eftir að hafa Agúst með mér til baka, en um það var ekki að fást. Ég bjóst þá til heimferðar, en Kristín húsfreyja var á öðru máli. Hún sagði, að ég færi ekki fyrr en ég væri búinn að fá einhverja hressingu. Sjálfsagt hefir hún séð hvernig mér leið, þó hún hefði ekki orð á því. Ég fór með Kristínu fram í eldhús og þáði hjá henni ýmislegt góðgæti. Hún veitti mér rausnarlega eins og hennar var von og vísa, og spjallaði við mig um alla heima og geyma á meðan, en sjálfsagt hef ég verið þungur til svars eins og fyrri daginn. Kristín Stefánsdóttir í Ásum er ein af þeim konum, sem maður gleymir seint, því hún var höfðingi í fasi og höfðingi í lund, en lítið fyrir að trana sér fram. Það var oft gestkvæmt í Ásum, enda var þar pósthús og símstöð, og margur mun hafa kynnzt Kristínu í gegnum síma (því hún afgreiddi oft), en aldrei séð hana persónulega. Ég var mun hressari þegar ég hélt frá Ásum. Það var ekki sízt Kristínu að þakka. Það var furðu létt yfir okkur Skjónu báðum, þegar við héldum niður túnið. Skjóna hafði fengið góða hvíld við snúru- staurinn og ég andlega og líkamlega hressingu. En mér fannst máninn eitthvað svo glottaralegur, þar sem hann gægðist fram á milli skýjanna, það var eins og hann vildi segja: Það er ekki allt búið enn. Veðrið var það sama, sunnan strekkingur. Skýin komu þjótandi um himinhvolfið eins og skip fyrir fullum segl- um og hurfu bak við norðurfjöllin inn í ókunnan heim háloftanna. Sjálfsagt myndi einhver annar á einhverjum öðrum stað horfa á þessi sömu ský hverfa áfram norður eitthvað í buskann. En máninn var staðfastari, hann færðist hægt úr stað, hann var ennþá yfir Rangárþingi. Svo kom kafþykkur skýjabakki og huldi ásýnd hans. Áður en varði vorum við komin langleiðina fram yfir Löngudælarholt og ekkert bar til tíðinda. Skeljhóll var á vinstri hönd framan undir suðvesturhorninu á Skaft- holtsfjalh; hann átti sér víst einhverja kynjasögu, en ég þekkti þá sögu ekki, og þess vegna var ég ekki hræddur við hann. En hóllinn vekur á sér athygli, því hann sting- ur svo skemmtilega í stúf við landslagið. Annars er ég helzt á því, að ekki megi hreyfa við honum, þá eigi eitt- hvað að koma fyrir. Nú var aðeins snertispölur fram að Kálfárbrú, og við Skjóna höfðum komið okkur saman um að fara fram veginn vestan ár. En hálf var henni illa við brúna. Það söng eitthvað svo undarlega í þessum háu handriðum, 0g svo glumdi í brúargólfinu. En þegar yfir brúna kom, tók merin á sprett upp á hæðina fyrir vestan, en þá skipti hún snögglega niður og hreinlega snarstanzaði; það hafði eitthvað birt í bili og eitthvað hafði truflað hana; hún var allt í einu orðin svo treg og næstum spyrnti við fótum. Hún hlaut að heyra eða sjá eitthvað. Ég sá ekkert og heyrði ekkert, en ég svitnaði. Það var tóft þarna við veginn og ég áræddi að líta þangað, en sá ekki neitt. Nú fór að síga í mig. Ætlaði merin að fara að taka upp á því að vera stöð? Ég vissi, að það var til í kyninu. Mér hefði þótt það líklegra, að hún tæki upp á slík- um kúnstum, værum við að fara að heiman, en tæplega á heimleið, og enginn hestur nálægt, enda meiri hætta á slíkum ástríðum á vorin. Meðan ég var að bollaleggja þetta, seig merin af stað, og mér létti. Ekki höfðum við farið langan spöl, þegar Kára þóknaðist að lofa Mána gamla að sjá niður til okkar, og nú snarstanzaði merin aftur — og við sáum eitthvað á veginum undir Fagurhól, ca. 400—500 m frá 416 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.