Heima er bezt


Heima er bezt - 01.12.1972, Qupperneq 35

Heima er bezt - 01.12.1972, Qupperneq 35
lesandann. Og o£an á allt annað er bókin svo skemmtileg, að ég gat ekki sleppt henni fyrr en ég hafði lesið hana á enda, er slíkt fágætt um fræðibækur. Richard Falkirk: Vegið úr launsátri. Rvík 1972. Öm og Örlygur. Það er ekki algengt, að erlendir skáldsagnahöfundar velji sér ís- land að sögusviði, en svo er þó gert hér. Sagan er njósnasaga um þau átök og baráttu, er stórveldin heyja í leyni að tjaldabaki. E£ til vill kemst höf. nær sanni um þessar aðgerðir, en vér gerum oss í hugarlund, enda þótt sagan sé reyfarakennd og þar gerist atburðir, sem vér eigum ekki að venjast á landi voru. Inn í ref- skák njósnanna vefjast ástir og náttúruhamfarir, svo sem Heklu- gosið síðasta. Sagan er spennandi frá upphafi til enda, og höf. þekkir sýnilega furðuvel til íslenzkra staðhátta. Þýðandi er Bárður Halldórsson, menntaskólakennari. Sigfús M. Johnsen: Yfir fold og flæði. Rvík 1972. ísafoldarprentsmiðja hf. Sigfús M. Johnsen er löngu þjóðkunnur af ritstörfum sínum, bæði fræðiritum og sögulegum skáldsögum, og nú hátt á níræðisaldri sendir hann frá sér ævisögu sína, mikið rit og merkilegt um marga hluti. Sagan er með sömu einkennum og fyrri bækur höf- undar. Hún er einkennd af frásagnargleði, nákvæmni og hófsemi í efni og stíl, og þó e. t. v. öllu fremur á ást höf. á æskustöðvunum, Vestmannaeyjum, en þær eru alltaf uppistaða og baksvið frá- sagna hans, eftir því sem efni standa til hverju sinni. Sagt er hér frá af mikilli nákvæmni, oft um of, svo að sagan verður þreyt- andi og langdregin. Mikið er um ættfræði, og óteljandi merkar lýsingar af þjóðháttum, atburðum og mönnum, sem höfundur hefir kynnzt á langri ævi. Hann er mjög varkár og hófsamur í dómum sínum um menn og málefni, þótt auðfundið sé, hvar hugur hans er, og í allri frásögninni er óvanalega mikil hlýja. í stuttu máli sagt, sagan sýnir oss mynd af góðviljuðum, skyldu- ræknum manni, trúuðum á gamla vísu, og ættræknum í mesta lagi. Hann ann þjóð sinni og æskustöðvum um alla hluti fram. Þetta gefur bókinni hugþekkan blæ, sem ásamt hinum margvís- lega fróðleik veldur því, að lesandinn fyrirgefur höf., þótt hann stundum verði langorðari en þörf er á. Aldnir hafa orðið. Erlingur Davíðsson skráði. Akureyri 1972. Bókaútgáfan Skjaldborg. Hér birtast viðtalsþættir við sjö aldna Akureyringa, sem allir voru teknir að klifa upp á áttunda áratuginn, ég sagði Akureyr- inga, því að svo eru þeir allir eða öll í hugum okkar, en enginn er þó fæddur á Akureyri, og sýnir það, þó í litlu sé, þjóðflutning- ana á þessari öld. Eins og geta má nærri eru þættirnir misjafnir, enda er það kostur, sem gerir bókina fjölbreyttari og skemmtilegri. Viðhorf sögumanna eru býsna ólík, og þá ekki síður atvinna þeirra og umhverfi í æsku, en flestir þáttanna fjalla einmitt um bernsku og æsku þeirra, þótt einnig sé komið inn á önnur svið. Hafa allir þættirnir tekizt vel, og sögumenn vel valdir, þ. e. fólk, sem bæði hefir frá ýmsu að segja og kann með frásögn að fara. Athyglis- verðastur og efnismestur þykir mér þáttur Ólafs í Hamraborg, enda ræðir hann dýpstu rök mannlegs lífi af innsæi og skilningi, en skemmtilegastur er þáttur Sesselju Eldjárn. Þá eru reynsla og ummæli Sæmundar á Sjónarhæð um mátt bænarinnar næsta at- hyglisverð, og verður þeim vonandi gaumur gefinn. Nokkrar smá- villur hefi ég rekizt á, t. d. er sagt, að sr. Þórarinn, afi Sesselju Eldjárn, hafi verið einn af fjórum bræðrum, sem allir urðu prestar, en það var faðir hans, sem svo var háttað um, og sátu þeir á þeim stöðum, sem til eru nefndir. Þá er og á bls. 156 nefnd Jóhanna Arnljótsdóttir á Bægisá, en mun þar átt við frú Jóhönnu Gunn- arsdóttur, sem bjó þá á Bægisá ásamt manni sínu, sr. Theodór Jónssyni. Þetta eru að vísu smámunir, sem létt hefði verið að kom- ast hjá. í stuttu máli sagt, er bókin skemmtileg og fróðleg um marga hluti. Er vonandi, að jafnvel takist um framhald slíkra þátta, sem útgáfan boðar að ráðgert sé. Guðmundur J. Einarsson frá Brjánslæk: Fokdreifar. Rvík 1972. Leiftur hf. Fyrir nokkrum árum gaf Guðmundur út ævisögu sína, Kalt er við kórbak, athyglisverða bók, sem bæði var vel skrifuð og efnið merki- leg baráttusaga vel gerðs manns, sem ekki lét mótlætið buga sig né smækka. Hér hefir hann safnað nokkrum minningaþáttum í nýja bók. Þeir eru mismunandi að efni, bernskuminningar, sjó- ferðasögur, mannlýsingar, byggðasaga o. fl. En eins og efnið er misjafnt, eru þættirnir líka misjafnir að gæðum, en öllum er sam- eiginlegt, að frásögn og mál er gott, enda er Guðmundur bæði orðhagur og orðfrjór ef svo mætti að orði kveða. Hann á nokkra kímnigáfu, en beitir henni minna en skyldi, þótt hún gægist fram, einkum i sjóferðasögunum. Bezt þykir mér honum takast þegar hann segir frá ýmsum olnbogabörnum og kalkvistum þjóðfélagsins, enda er samúð hans rík og réttlætiskennd sterk. í síðasta þætt- inum gerir hann nokkra grein lífsskoðana sinna og trú á framhalds- líf og sambandi við framliðna. Fokdreifar eru góð bók, sem geym- ir margt, sem skaði væri að ef glatast hefði, þótt smærra fljóti með. Einar Guðmundsson frá Hergilsey: Meðan jörðin grær. Rvík 1972. Öm og Örlygur. Hér leggur Einar, sonur Guðmundar á Brjánslæk, út með skáld- sögu, byrjandaverk en þó með furðulitlum viðvaningsbrag, sem sýnir að honum er frásagnargáfa í blóð borin. Sagan fjallar um ástir og erfiðleika, sem fylgja þeim umbrotum, þegar nýi tíminn er að færast yfir sveitirnar. Frásögnin er góð og lifandi, hvergi langdregin eða með útúrdúrum, og málið gott. Og margar persón- ur furðu skýrar. Þó að sagan fari hvergi inn á nýjar brautir, er yfir henni ferskur blær og holl lífsskoðun. Gæti ég trúað, að höf. ætti eftir að reynast vinsæll, ef hann heldur áfram, svo sem nú horfir. Guðrún frá Lundi: Utan frá sjó. Rvik 1972. Leiftur hf. Það er óþarft að kynna Guðrúnu frá Lundi fyrir lesendum. Hún hefir fyrir löngu haslað sér þann völl í hugum íslenzkra lesenda, sem ekki verður unninn. Þetta nýja bindi a£ skáldsögunni Utan frá sjó, sem sýnilega virðist ekki vera lokabindi, færir ekkert óvænt af hendi skáldkonunnar. Frásögnin er sem fyrr lygn og breið, og fólkinu fylgt í daglegri önn þess, stórviðburðir gerast ekki en fjöldi smáatvika, eins og verða vill, í daglegu lífi. En í þessu hygg ég vera fólgin skýringin á hinum geysilegu vinsældum Guðrúnar, sem hefir skákað flestum rithöfundum landsins. Hún lýsir a£ ná- kvæmni og raunsæi daglegu lífi alþýðu manna, og lesendurnir finna skyldleikann við sjálfan sig í frásögninni. Og víst er um það, að hún á eftir að verða langlíf í landinu, og oft mun í fram- tíðinni leitað til hennar sem heimildar um daglegt líf á íslandi á fyrri helmingi þessarar aldar. St. Std. Heima er bezt 435

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.