Heima er bezt - 01.05.1977, Síða 20
JÓN KR. GUÐMUNDSSON, SKÁLDSSTÖÐUM:
JVlinningar frá bernsku minni
Pegar ég sting niður penna á laugardaginn síðastan
í vetri 1971, þá veit ég að vorið er í námd, þótt
úti sé norðan stórhríð og fuglarnir hljóðir er
sungu í gær. Vorið er í ætt við æskuna og hér
á eftir ætla ég að rifja upp nokkrar smásvipmyndir frá
löngu liðinni æsku minni, sem allar gerast á vordög-
um, ártöl verða engin nefnd. Enda skipta þau ekki
máli í þessum sundurlausu minningum mínum.
Það var einn fagran vordag fyrir mörgum árum. Sól-
in skein í heiði á döggvota jörðina, fuglarnir sungu
sína fegurstu söngva og allt iðaði í lífi. Ég sat á steini,
umhverfis mig á alla vegu er skógarkjarr, en lengra í
burtu eru mýrarflákar, þar dreifa sér kindurnar, sem
ég á að gæta að. Skógurinn er að verða allaufgaður,
jörðin öll er að verða græn á Ht, túnin dimmgræn. Þá
sást ekki kalið, sem nú er svo mikið til af. Hvort sem
það er að kenna kólnandi tíðarfari, eða erum við jarð-
arbúar komnir svo langt í menningu vorri að við kunn-
um ekki lengur að umgangast þig, móður vora, jörð.
Svo að grös þín hin grænu megi prýða svörðinn og
fæða búfénaðinn, sem vér mannanna börn lifum af.
Skógurinn er á vorin paradís smáfuglanna. Þar sem
ég sat á steininum var ég áheyrandi að mörgum fögrum
ástarsöngvum er þrastapabbi söng fyrir sína elskulegu
brúði er sat á hreiðri sínu, djúpt falin í limi trjánna, svo
ránfuglarnir sæju það síður, er þeir flugu yfir skóginn
í leit að æti. Ég horfði og hlustaði hugfanginn á söng-
inn og fegurðina.
Allt í einu þagnaði söngur þrastanna um stundarbil.
Þá kvað við lágt kvak, svo undurfagrir tónar, sem ég
minnist ekki að hafa heyrt fyrr. Ég leitaði með augun-
um undrandi um allan skóginn. Hvaða barki söng svona
fagurlega? Ég vildi ekki hreyfa mig úr stað því þá gat
ég orðið þess valdandi að söngurinn þagnaði og þá var
stundin liðin hjá, sem líklega kæmi aldrei til baka. Ég
skimaði vítt og breitt um skóginn en lengi án árangurs.
Þar kom þó að lokum, að ég veitti eftirtekt litlum mó-
leitum fugli, sem var á stærð við mús, með dökkt upp-
sperrt stél. Þetta var þá músarrindill, minnsti fugl Is-
lands. Ég horfði á þennan litla fugl langa stund, hvernig
hann hoppaði grein af grein söng og tísti. Ég gleymdi
stað og stund og er ég kom til sjálfs mín aftur þá voru
kindurnar allar horfnar og það tók mig þó nokkra stund
að ná þeim saman aftur.
Síðan þetta var hef ég nokkrum sinnum séð músar-
rindil, en aldrei að vori til, heldur um haust. Þá heldur
hann sig oft í lækjarskorningum. Hann er síkvikur,
hoppar þar til og frá, tínir fræ í litla nefið sitt, stoppar
svo um stund til að hyggja að hvort nokkur hætta sé á
ferðum, og ef svo er, þá er hann fljótur að finna sér
holu til að hverfa ofan í. Það er líkt og jörðin gleypi
hann. Hann hverfur sporlaust og hljóðlaust. Það eru
allir fuglar hljóðir á haustin. Hefði ég ekki setið á stein-
inum í skóginum hina dýrlegu vorstund, þá hefði ég
aldrei heyrt söng músarrindilsins. Það er svo margt,
sem skeður ekki nema einu sinni.
Það er svo gaman að ganga um skóginn á vorin.
Maður kynnist svo vel lifnaðarháttum fuglanna og
stundum sér maður ný afbrigði, sem forvitnilegt er að
kynnast nánar. Eitt sinn er ég var að ganga um skóginn
að vorlagi, þá sá ég gráan, lítinn fugl. Hann var með
rauðan blett ofan á kollinum. Fuglinn var mjög stygg-
ur, svo að ég gat ekki vel greint eðli og lögun rauða
blettsins. Mér sýndist helzt hann líkjast litlum kambi,
ekki ósvipuðum og er á karlfugli rjúpunnar, rjúpkarr-
anum, nema miklu minni. Það liðu mörg ár og ekki gat
ég fengið neina vitneskju um hvað þessi ókunni fugl
hét, ég sá honum aldrei bregða fyrir. Svo skeði það
fyrir 4 eða 5 árum, að fuglahópur kom svífandi og sett-
ist fyrir framan bæjardyrnar hjá mér. Þessir fuglar voru
mjög spakir og gat ég vel virt þá fyrir mér og sá ég
þá, að þarna voru komnir ættingjar fuglsins, sem ég sá
í skóginum forðum. Ég fletti upp í Dýrafræðinni og
fann mynd af þessum fuglum. Þetta voru þá auðnu-
tittlingar, en þeir voru algjörlega óþekktir hér um slóð-
ir þegar ég var að alast upp. En nú fljúga þeir oft hér
um í stórhópum einkum síðla vetrar og rakt er í lofti
eða minnka tekur um björg í skóginum.
Ekki má ég gleyma lóunni, fyrst ég fór að skrifa um
blessaða fuglana. Það var oft mikið hér af lóum, áður
en minkurinn hélt innreið sína, en hann virðist vera
á góðum vegi með að útrýma öllum mófuglum og
andategundum á landi hér. Lóan verpir í lyngmóum
og þegar hún situr á, er hún nær samlit umhverfinu.
Þegar ég var á 12. árinu fann ég lóuhreiður, nokkuð
snemma vors. Hreiðrið var með tveimur eggjum, þau
voru köld og enginn fugl sjáanlegur í námd. Ég setti vel
á mig staðinn, sem hreiðrið var á, til þess að ég gæti
fundið það aftur. Næsta dag voru komin þrjú egg í
hreiðrið og þriðja daginn voru eggin fjögur, en engan
fugl sá ég og alltaf voru eggin köld. Svo liðu tveir
dagar að ég gat ekki vitjað um hreiðrið. Næst þegar ég
164 Heima er bezt