Heima er bezt - 01.08.1977, Page 6
Hluti af garðintcm kringum húsið.
til að hún var 17 ára eða þar til að túnið var girt. Ein-
mitt í skóla unglingsáranna þegar óþrjótandi verkefni
voru fékk Pála sína góðu undirstöðu að húsmóðurstarf-
inu, en lífsstarfið var raunar að nokkru ráðið þegar
hún fór í kennaraskóla og tók þaðan próf 1933. Þá
sigldi hún til Danmerkur og Svíþjóðar til frekara náms.
Kennari var hún við barnaskólann í Súðavík og skóla-
stjóri þar um tíma, en frá 1939 hefir hún verið kennari
við barna- og unglingaskólann á Hofsósi, þar til á síð-
asta ári að hún lét af þeim störfum. Ekki er vafi á að
Pála var góður kennari og naut mikilla vinsælda bæði
nemenda og foreldra, enda kom þar fram eiginleiki
móður hennar, glaðsinna — ákveðni og dugnaður í því
er hún tekur að sér.
Pála var 11 ára er hún byrjaði að læra á orgel hjá
Guðrúnu Erlendsdóttur á Hofsósi, síðar lærði hún hjá
Sigfúsi Einarssyni sem lauk miklu lofsorði á hæfni
hennar og söngrödd. í því sambandi má nefna, að Sig-
urður Birkis söngmálastjóri sagði að Pála hefði getað
þjálfað sig í að verða óperusöngkona hún hafði líka
lært söng og beita rödd sinni hjá Else Bertholdy Mend-
elsohn í Danmörku, en líklega hefir kennaranámið, og
kannski einhver ungur maður heima orðið til þess að
ekki varð meira úr söngnámi. En ennþá syngur Pála í
kórnum og spilar í kirkjum sem hún hefir gert síðan
1933 og haldið því uppi kirkjusöng í mörgum kirkj-
um hér austan Skagafjarðar og einnig lagt gjörva hönd
að öðru sönglífi á þessu svæði.
Félagsmálastörf Pálu Pálsdóttur hafa reynst æði
drjúg. Formaður og ritari kvenfélagasambands Skaga-
fjaröar hefir hún verið, og formaður kvenfélagsins
Aldan á Hofsósi, fyrst í 14 ár og svo nú frá 1975. Þeg-
ar leikstarfsemi hefir farið fram á Hofsósi hefir hún
verið þar áhugasöm stoð, og á yngri árum einn aðal
leikari í leikfélagi þorpsins, en þá voru oft sýnd viða-
mikil leikrit.
Af þessari stuttu upptalningu starfa og eiginleika
þessarar forystukonu er augljóst að þar eigum við
óvenju góða manngerð, en þó tel ég að í raun og veru
sé hennar aðalstarf ótalið, að stjóma stóru heimili og
ala upp að allra dómi mjög mannvænleg börn. Ég sem
þetta skrifa get tekið undir orð Pálu er hún segir að
sitt lífslán hafi verið að hljóta að förunaut Þorstein
Hjálmarsson kennara, f. 14. febrúar 1913, frá Súðavík,
en þar mun vera ungi maðurinn sem gerði Pálu leitt
að dvelja lengur í útlöndum forðum og lái það enginn,
en þau giftu sig 31. maí 1940 og þó ég ætli ekki hér að
segja sögu Þorsteins þá er það almannarómur að maður
sá er vel gerður, enda hafa á hann hlaðist flest opinber
störf sem hægt er að klína á einn mann. Er því sann-
mæli að uppbygging góðs heimilis og uppeldi mann-
vænlegra barna hljóti að vera verk samhentra og vel
gerðra hjóna. Eins og fyrr segir hafa þau eignast 9 börn
en þau eru:
1. Páll Reynir, f. 25. febrúar 1943, hefir hann skip-
stjóramenntun. Hann er giftur Dröfn Péturs-
dóttur.
2. María Hjálmdís, f. 25. febrúar 1943. Ógift. Sjúkra-
þjálfari.
3. Þórey Jóhanna Dóra, f. 31. mars 1944, gift Sigur-
geir Angantýssyni bifvélavirkja.
4. Gestur, f. 6. september 1945, giftur Sóleyju Skarp-
héðinsdóttur. Bankafulltrúi.
5. Anna Pála, f. 19. mars 1947, gift Val Ingólfssyni
trésmíðameistara.
6. Þorsteinn, f. 27. mars 1948, rekstrarhagfræðingur.
Giftur Kristínu Sætran.
7. Broddi, f. 23. júní 1955, giftur Ingibjörgu Tómas-
dóttur.
8. Snorri, f. 23. ágúst 1956, ógiftur. Lærir mjólkur-
fræði.
9. Rósa, f. 12. ágúst 1958, gift Guðna Óskarssyni
kennara.
Ég spurði Pálu um minningar hennar frá yngri árum
og álit hennar til lífsins, nú þegar hún er að draga sig
út úr annríki og störfum utan heimilis hennar.
„Ofarlega í huga mínum,“ segir hún, „var söngur og
músik, t. d. man ég að ég réði ekki við löngun að
hlaupa heim af engjunum í matartíma til að æfa mig
á orgeli, og 12 ára mun ég hafa verið þegar ég byrjaði
að syngja í kirkjukór.“
„Nú er mér efst í huga,“ segir Pála, „innileg þakk-
lætiskennd til lífsins. Engin orð eða jafnvel hugsanir
geta túlkað hana, kannski hljómlist gæti gefið henni
form. Ég vildi þakka öllum þeim mörgu góðu konum
sem með mér hafa starfað. Öllum prestunum sem þjón-
að hafa við kirkjur sem ég hefi spilað í, þeir hafa allir
reynst mér sannir vinir. Eg vil þakka öllum sem með
mér hafa starfað að kennslu, og öllum nemendum
mínum, ég vildi alltaf gera þá að góðum og sönnum
mönnum þó eitthvert ártal gleymdist við það. Síðast
en ekki síst vil ég þakka guði fyir allt sem hann hefir
gefið mér, — góðan mann og góð og heilbrigð börn,
— heilsu til að vinna oft 16—18 tíma í sólarhring þegar
mest var umleikis — og þurfa aldrei að fara á sjúkra-
hús vegna veikinda. Þetta allt eru hinar sönnu gjafir
sem veita lífinu þá fyllingu að enginn getur haft áhrif
á lífsviðhorf mitt úr þessu.“
246 Heima er bezt