Heima er bezt - 01.06.1984, Síða 5
77/ vinstri:
Snjólaug Sifcfúsdóttir og Bjarni Arason á Grýtubakka,
föðurafi og amma Elínar.
Að ofan: Grýtubakki.
Til hœgri: Foreldrar Elínar, Ari Bjarnason og Sigríður Árnadóttir á Grvtubakka.
— Eg er fædd 3. nóv. 1918 að Grýtubakka í Höfða-
hverfi, S.-Þingeyjarsýslu.
Ég átti góða æsku, þarna var fjölmennt heimili, þrjár
kynslóðir samankomnar. Bjarni Arason og Snjólaug Sig-
fúsdóttur voru föðurafi minn og amma, og hann talinn
aðalbóndinn á Grýtubakka. Börn þeirra voru enn heima og
faðir minn, sem var þeirra elstur, kom inn á heimilið með
fjölskyldu okkar þegar hann giftist. Fljótlega held ég það
hafi verið talið svo, að foreldrar mínir byggju á þriðjungn-
um af jörðinni og við bjuggum þarna í baðstofuenda. Við
höfðum sér máltíðir, en fólkið gekk mikið saman að verk-
um og við börnin tilheyrðum eiginlega einni stórfjölskyldu.
Þegar ég var krakki leit ég mikið upp til afa míns, fannst
hann vita alla hluti. Hann var þá heilsulítill og þoldi ekki
lengur að vinna erfiðisvinnu, en var fróður maður og
greindur og hafði því ef til vill betra tækifæri til að segja
okkur margt fróðlegt og skemmtilegt. Oft leiddi hann litlu
börnin og talaði við þau. Seinna, þegar ég komst til meiri
þroska, fór ég að meta ömmu mína ekki síður, því hún var
mikil hæfileika- og dugnaðarkona.
Um 1930 hófust kreppuárin og þá þrengdist nú efna-
hagur fólks yfirleitt, og þótt heimili mitt væri sennilega
talið í röð betri bújarða og efnahagur þar í betra lagi, þá
varð fólk að vinna mikið og nýta alla hluti. Það var ótrúlega
mikið og vel ástundað þá, miðað við það sem tíðkast nú á
dögum.
Ég held að Grýtubakki sé talinn frekar góð jörð og jafn-
vel stórbýli á þeim árum. Það byggðist á flæðiengjum, sem
nú er hætt að nýta. Umhverfið var því hagstætt og við
höfðum allstórt bú, en þarna var margt fólk, sem þurfti að
lifa á því sem jörðin gaf. Við vorum samtíða 7 systkini, og
auk pabba og mömmu voru þarna líka föðurbræður mínir
Sigfús og Jón, sem nú er nefndur Jón Bjarnason í Garðsvík,
Margrét föðursystir min, kona sem hét Jóhanna og var í
húsmennsku með son sinn og alltaf eitthvað af kaupafólki á
sumrin, auk afa og ömmu.
Ég man eftir gömlum brag sem hét „Tólf manns voru í
heimili“, sem Sigfús orti, því hann var vel hagmæltur.
Hann bjó seinna á Breiðavaði í Húnavatnssýslu. Bragurinn
var oft fluttur og ég man úr honum nokkrar vísur, en þar
átti hver heimilismaður að þekkja sína vísu.
I vísunum um ömmu mína lýsir hann ýmsum sömu
vandamálunum og húsmæður eru kannski að stríða við í
dag, þótt önnur séu dottin úr sögunni. En vísurnar eru
þannig:
1 búri og eldhúsi er frostreykur grár,
par frýs sem á háfjallabrúnum
og daga og vikur og ár eftir ár
óðfluga minnkar í kúnum.
Svörðurinn frosinn og kaffið er kalt,
það kœm’út á einhverjum skrápnum.
Og þó finnst mér taka út yfir allt,
hve alltaf er stolið úr skápnum.
Vísur afa míns voru svona:
Klukkan er langt gengin yfir átta
og enginn er kominn á fœtur,
fólkið er ekki farið að hátta
fyrr en um miðjar nœtur.
I mínu ungdœmi annar var siður,
allir þá komust í bœlin niður
og skriðu svo árla um haga og hýsi
og hýddu þá lötu með eini og hrísi.
Heimaer bezt 185