Heima er bezt - 01.06.1984, Qupperneq 7
nýjan fisk. Ég hafði þann starfa í nokkur ár að sækja í soðið,
var send með rabarbaraknippi, skyrspón eða smjöranga út
á Grenivík og fékk fyrir það fisk í poka. Fyrstu minningar
mínar frá þeim dögum eru þegar karlarnir á Grenivík lyftu
mér svo upp á hestinn og létu mig sitja ofan á pokunum til
baka.
8 eða 9 ára gömul kom ég fyrst til Akureyrar og þá var
farið með vélbát frá Grenivík inn Eyjafjörð. Erindið var
hins vegar að fylgja afa mínum til að heimsækja systur
hans, Elínu Aradóttur á Jódísarstöðum i Eyjafirði. Og það
er nú dálítið einkennilegt „hvernig“ ég heiti í höfuðið á
henni. Það var vegna gamals samnings þeirra mágkvenna,
Snjólaugar og Elínar, að þær höfðu lofað að láta dætur
sinar heita í höfuðið hvor á annarri. Elín eignaðist svo
dóttur, sem hún lét heita Snjólaugu, en Snjólaug eignaðist
ekki neina Elínu. Þegar ég fæddist átti ég svo að heita
Snjólaug, en hún bað um að ég væri látin heita Elín. Þarna
á Jódísarstöðum var myndarheimili og dæturnar kunnu að
syngja og spila á píanó. Það fannst mér stórkostlegt.
Og ég man eftir öðru stórkostlegu atviki, og það var
þegar útvarpið kom, haustið 1930. Það jafnaðist á við þau
tímamót, þegar rafmagnið kom. Bjarni í Hólmi setti upp
vatnsaflsrafstöð heima og mér líður aldrei úr minni þegar
kviknaði á fyrstu perunni. Ekki man ég glöggt eftir komu
símans og tilkoma rennandi vatns var ekki eins mikið ný-
næmi hjá okkur og víða annars staðar. Það var nefnilega
svokallaður ranghali, gangur frá bæjarhúsunum, út í fjósið
og þvert undir hann rann bæjarlækurinn, þar var hlemmur
yfir en undir buna sem aldrei fraus. Þegar ég man fyrst eftir
mér var allt vatn sótt þangað í fötu. Þetta fyrirkomulag var
allviða. Og jafnframt var þetta vatn borið inn til kúnna í
ker, og látið volgna dálítið, eins og þá þótti sjálfsagt og
hefur borið á góma á nýjan leik fyrir skemmstu.
— Var á þessum árum kominn vísir að þátttöku þinni í
félagsmálum, varstu mannblendin?
— Ég var lítið í barnaskóla, okkur var mest kennt heima,
en samt var mér komið fyrir úti á Hlöðum á Grenivík
hálfan mánuð eða þrjár vikur í tvo vetur. Þar var mjög
gaman og mikið sönglíf. Út af fólkinu þar eru bæði Kristján
Jóhannsson og Magnús Jónsson, óperusöngvarar og
Hákon Oddgeirsson, sem er þekktur söngvari syðra.
Svo var nú ungmennafélag í sveitinni, og ég starfaði
mikið í þvi frá 12 ára aldri. Þar var visst jafnrétti kynjanna
og stúlkurnar voru í stjórn ekki síður en piltarnir.
Foreldrar mínir réðu nokkra vetur heimiliskennara, og
bræður mínir fóru seinna í menntaskóla, en ég naut góðs af
því að fylgjast með í námsgreinunum, sem lögð var áhersla
á að þeir undirbyggju sig vel í. Ég held að mér hafi aldrei
dottið það í hug, að ég ætti að fara sömu leið og þeir. Það
var þegjandi samkomulag um að við systurnar færum í
húsmæðraskóla sem og varð.
— Þarna í nœsta lífi, þegar þú œtlar að lœra á píanóið,
œtlarðu þá líka í menntaskóla?
— Ég ætla að minnsta kosti að læra tungumál. Og ég hef
reyndar oft sagt það, að gaman væri að hafa stúdents-
menntun, jafnvel þótt maður hygði ekki á langskólanám.
Ég vildi geta skilið útlendinga, lesið erlendar tungur og
notað erlenda fjölmiðla.
— Hafðirðu verið að heiman áður en þú fórst að Laugum?
— Vorið áður en ég fór í Húsmæðraskólann, 19 ára að
aldri, var ég einn mánuð í garðyrkjustöðinni Flóru á Ak-
ureyri, annars hafði ég alltaf verið heima á Grýtubakka.
Þessa stöð rak Soffía Zóphoníasdóttir í Brekkugötu.
Faðir minn var mikill garðræktarmaður og náttúruunn-
andi og kunni meðal annars latinunöfn á flestum íslenskum
jurtum og fjölmörgum skrautjurtum sem hann átti í garði
sínum. Ég lærði því snemma að þekkja plöntur og hef haft
gaman af því.
Faðir minn ræktaði náttúrlega tún, fyrst og fremst, enda
búfræðingur frá Hólum, en gerði líka tilraunir, t.d. með
kornrækt og tré. Hann átti blómagarð og ræktaði margvís-
legt grænmeti, kartöflur náttúrlega, svo nóg var af þeim allt
árið, hann hafði alls konar kálmeti, grænkál, gulrófur,
salat, blómkál, hvítkál, jafnvel rauðrófur. Af kartöfluaf-
brigðum man ég eftir „Eyvindi“ og „Up-to-date“, — það
var kallað „Upp sama dag“, — rauðum íslenskum og
„Blámanninum", þær voru blárauðar, líka kallaðar „Blá-
landskeisari“.
Faðir minn var áreiðanlega brautryðjandi á þessu sviði
og pantaði á vegum ungmennafélagsins fræ frá „Olsens
Enke“ í stórum pokum og ég man eftir því þegar verið var
að deila því í smærri poka og merkja eigendunum í sveit-
inni. Hann var mikill vinur Ólafs Jónssonar i Gróðrar-
stöðinni á Akureyri og hafði samvinnu við hann.
— Ætlarðu nokkuð að víkja þér undan að segja mér ör-
lítið nánar af fyrstu kynnum ykkar Teits eftir að þú ert komin
á Laugaskóla haustið 1938?
— Nei, nei, en í því sambandi langar mig að hafa dálít-
inn formála sem lýsir því hvernig málin gátu nú gengið til á
þeim árum. Sumarið 1937 fór ég fyrsta sinn frá Akureyri
austur yfir Ljósavatnsskarð í mikilli bílferð með ung-
mennafélaginu. Þegar við komum að Laugum fór ég á fund
Kristjönu Pétursdóttur forstöðukonu vegna þess að búið
var að sækja um skólavist fyrir mig. Hún tekur mér vel, en
spyr svo, þegar ég vil komast í skólann um haustið:
„Ertu trúlofuð?“
Ég verð að neita því og Kristjana segir:
„Þá liggur þér ekkert á.“
Það sóttu svo margar um skólann, að hún vildi láta þær
ganga fyrir, sem voru í þann veginn að hefja búskap og
hefðu e.t.v. ekki tækifæri til að stunda slíkt nám síðar.
Haustið eftir kom ég svo til vetrardvalar í skólanum. Þá
er Teitur hér heima á Brún, búinn að vera á Laugum. Ég
býst við að það hafi bara verið eins og nú á dögum, fólk
verður stundum ástfangið!
Það voru oft böll á Breiðumýri, leiksýningar og fleira, og
piltar hér í Reykjadal voru ákaflega fúsir að bjóða Hús-
mæðraskólanum á allar samkomur, — það var nær árvisst
að eitthvað varð eftir í sveitinni af skólameyjum og um
helmingur af húsfreyjunum hérna í sveitinni eru komnar
hingað gegnum skólana á Laugum.
Eftir þennan vetur vorum við Teitur búin að ákveða að
eyða saman ævinni. Við opinberuðum um haustið. Ég fór
Heimaerbezt 187