Heima er bezt - 01.06.1984, Side 27
Við höfðum gamla góða pakkhúsið
hans Jóns Árnasonar fyrir verbúð. Þar
voru einar tvær skipshafnir og ráðs-
kona sem sá um allt, matseld og ann-
að, svo við höfðum það ágætt. Það
voru mikil viðbrigði frá þvi sem áður
var. Aflinn var saltaður í skúrum, sem
til þess voru ætlaðir, er var líkt og áður
hafði verið og fiskurinn saltaður sér af
hverju skipi.
2
Guðmundur Jónatan, eins og hann
var jafnan kallaður, var léttur og kátur
og mikið góður yfirmaður. Hann var
líka skínandi formaður, stjórnsamur
og allt í góðu lagi með úthaldið. Hann
hafði vel vit á sjó, enda búinn að róa
lengi. Ég minnist þess að eitt sinn fór-
um við með línu, og Guðmundur
segir svona við mig á leiðinni út:
„Við leggjum línuna og látum hana
liggja á meðan við förum í netin.“
Þetta gerðum við, seiluðum fiskinn úr
netunum og fórum með seilarnar upp
undir vörina og lögðum þeim við
stjóra; var lág fjara. Síðan var róið í
línuna og þegar við vorum langt
komnir að draga þá segir Guðmundur
Jónatan við okkur:
„Ætli það sé komið brim í Höfn-
inni?“
„Af hverju heldurðu það“ segi ég.
„Það eru andskoti miklir sjóir“
segir hann þá, en var alveg blanka
logn. Svo var ekkert meira með það,
við drögum línuna og höldum svo til
lands.
Þegar hann kemur inn undir Kúlu,
skeri austur af Horninu, kom helvítis
ólag. Þá stóð hópur af mönnum í vör-
inni og veifar honum frá. En
Guðmundur Jónatan keyrir bara á
blússi og upp í sand. Þegar eitthvað
var að sjó braut alltaf á þessu skeri, og
Guðmundur sagði, að um leið og
brotnaði á Kúlu væri óhætt að taka
lagið inn.
í lendingunni var hópur af mönn-
urn sem tóku á móti skipinu. Þegar við
vorum komnir upp reið sjór yfir skip-
ið, fyllti það alveg og sópaði fiskinum
af línunni út. Af honum sást ekkert,
það fór allt saman og seylarnar líka.
Við höfðum lítið upp úr þeirri ferð, þó
við ætluðum okkur mikið.
Þetta var alveg hárrétt hjá Guð-
mundi Jónatan að fylgja laginu inn, og
ólagið fengum við ekki fyrr en upp í
sandi. Skipið var ekki í hættu, þó
fiskurinn flyti út. Það var logn og hægt
að vera fyrir utan, en hefði hvesst var
það óráð. Annað var það svo, að vélin
var oft í ólagi og aldrei á hana að
treysta. Það urðu fleiri fyrir þvi en við
að tapa fiski í Þorlákshöfn. Það var
stundum svo mikil fiskigengd í Höfn-
inni að við sáum fiskinn vaðandi í
sjóskorpunni. Sjórinn var mórauður
af fiski.
3
Ég skildi svo við þessa kaupfélagsbáta
og var á togara í Reykjavík vertíðina
1936. Aftur var ég í Þorlákshöfn ver-
tíðina 1937 á báti sem Guðmundur
Jónsson í Nesi átti og Halldór á
Hrauni átti hlut í. Trilluskratti sem
ekkert fiskaðist á og hét „Bjarni Sí-
vertssen“.
Á kaupfélagsbáti er ég svo ekki
aftur fyrri en á vertíðinni 1940 og þá
með Sigurði Steindórssyni á Hjalia,
Steindórssonar hreppstjóra á Égils-
stöðum. Sigurður var með „M.b.
Magnús Torfason", átta til níu tonna
dekkbát. Sigurður var mikill formað-
ur og geysilegur aflamaður og við
fiskuðum ágætlega. Þetta var síðasta
vertíðin mín í Þorlákshöfn og sú átj-
ánda, þó ekki væri það samfellt.
4
I vertíðarlok var saltfiskurinn fluttur
austur á Eyrarbakka til verkunar;
vaskaður þar og þurrkaður. Var ís-
leifur Sigurðarson í þeim flutningum
á „M.b. Hermanni“, með uppskipun-
arbát frá Eyrarbakka í togi fullan af
fiski.
Það var 15. maí 1940, og við vorum
að skipa út fiski í uppskipunarbátinn,
sem tók óhemjumikið. Fiskinum var
raðað yfir allan bátinn, Hann var
fylltur af fiski og hvergi rúm til að
ausa og allt of hlaðinn, maður sá það
allt á eftir. Þegar við vorum að fara
upp bryggjuna að verki loknu, segir
Jón sonur Sigurðar á Hjalla:
„Er báturinn ekki of hlaðinn“? Því
ansar enginn og báturinn fór.
Þegar ísleifur var farinn kom
Guðmundur Jónatan austan af Eyr-
arbakka og segir:
„Það má mikið vera, ef ísleifur
kemst þetta klakklaust og fara svona
beint.“ Það var norðaustan strekking-
ur og töluverð bára. ísleifur tók beint
strik austur á Eyrarbakka en Guð-
mundur Jónatan fór með landi út eft-
ir. þar var ládautt.
Á leiðinni fyllti uppskipunarbátinn
hjá ísleifi og hann fór að sökkva. Var
okkur sagt, að þá hafi annar maður-
inn á bátnum farið að kalla og þeir á
„Hermanni“ ætlað að leysa dráttar-
taugina. Það var vírtóg og svo hert að
hnútnum að það reyndist ekki hægt.
Þá hafi ísleifur ætlað að snúa „Her-
manni“ og leggja að uppskipunar-
bátnum, en báturinn sokkið og
mennirnir sem á honum voru sogast
niður og drukknað. Af tilviljun fundu
þeir öxi á „Hermanni“, sem þeir gátu
höggvið í sundur dráttartaugina með,
annars hefðu þeir farið niður líka.
Þeir sem fórust voru Halldór
Magnússon frá Hrauni og Ingvar
Þórarinsson frá Stigprýði á Eyrar-
bakka.
Með hernámi Breta 10. maí 1940,
skapast þær aðstæður að útgerð í
Þorlákshöfn leggst niður 1941, að
öðru en því að Kristján Jónsson í
Saurbæ var þar eitthvað með bát og
Skúli Þorleifsson var líka einnig í út-
gerð. Fyrsta þætti viðreisnar Þorláks-
hafnar var lokið.
Þó maður hugsaði ekki út í það,
þegar maður var ungur, hefur það
verið mikið fjárhagslegt atriði að hafa
góða verstöð innan sveitarinnar. Úr
Ölfusi voru líka margir afbragðs for-
menn, og margir úr sveitinni sem
sóttu þangað björg og voru þar lengi í
skiprúmi og tel ég mig til þeirra. (Þeim
sem áhuga hefðu á að kynnast endur-
reisn Þorlákshafnar nánar, skal bent á
„Gengnar leiðir“ 1. bindi 1983).
Heimaerbezi 207