Heima er bezt - 01.06.1984, Blaðsíða 43

Heima er bezt - 01.06.1984, Blaðsíða 43
staðnum nánar, og meðal annars gekk ég töluvert upp í fjallið, sem er ofan við hótelið og víða vaxið hávöxnum, gróskumiklum greniskógi. Var ég einn í þessari skógarferð, þar sem aðrir höfðu ekki hug á slíkri göngu, fóru heldur eitthvað annað, enda um margt að velja. Könnunarganga mín tók rúma klukkustund, og á því tímabili létti ofurlitið til öðru hverju, svo að hægt var að gera sér glögga grein fyrir öll- um mannvirkjum og nánasta um- hverfi. Er skemmst frá því að segja, að ferðamálaráð Rúmeníu, eða rú- menska ríkið, hefur komið hér upp alveg frábærri ferðamannaþjónustu, bæði að sumri og vetri, i unaðslega fögru og fjölbreytilegu umhverfi. Var okkur tjáð, að staðurinn nyti afar mikilla vinsælda og aðsóknar allan ársins hring, bæði innlendra og er- lendra ferðamanna. Manngrúinn, sem hér er nú, ber líka glöggan vott um það. Eitt af því, sem ekki síst vekur at- hygli ferðamannsins er það, hvílíkur stórhugur hefur verið hér að verki. Hótelin eru mörg, hvert öðru glæsi- legra, að því er virðist, og margs konar framkvæmdir í sambandi við þau. Þá er óhemju mikill kostnaður í tengslum við vetraríþróttirnar, — skíðalyftur margar og ein fjallalyfta í 700 metra hæð. Auk þess er hér stórt skautasvell, sem starfrækt er allt árið, þar sem all- ur aðbúnaður er ákjósanlegur. Var fjöldi fólks á öllum aldri að iðka hina fögru íþrótt, er ég fór þar um. Það er því harla ljóst, að hér hefur ekki verið horft í kostnað. Hér hefur aðeins verið haft í huga að þóknast ferðamönnum, svo sem best verður á kosið. Er ég hafði lokið könnunarferð minni, var ég heldur betur reynslunni ríkari um þennan fagra, fjölbreytilega og eftirsótta ferðamannastað. Lítið hafði orðið úr útivist margra félaga minna, vegna veðursins, sem nú fór sífellt versnandi, er leið á kvöldið. Og um 7-8 leytið var allt orðið hvítt, eins og um hávetur heima á íslandi, — kominn ökklasnjór! Óneitanlega varð okkur tíðrætt um þessi veðrabrigði, enda ætlunin, eins og fyrr segir, að njóta hér sólar í vikutíma, — að lengja stutt og oftast svalt íslenskt sumar. En nú var ekki um annað að ræða en að vera bjartsýnn og vona hið besta, — og það held ég að flestir hafi reynt. Um kvöldið fóru sumir á einhverja þjóðlega krá á einum veitingastaðn- um, en aðrir voru hinir rólegustu heima á hóteli okkar og spjölluðu saman, eða skráðu hjá sér sitt af hverju, og var ég einn af þeim. Morguninn eftir, mánudaginn 15. apríl, er menn fóru á fætur um sjö leytið, var ömurlegt út að líta. Þoka grúfði yfir öllu, jörð og tré alhvít og töluverð snjókoma. Þótti nú mörgum ástand illt, ef svo héldi fram sem horfði, en töluðu þó enn fátt. Frá þessum degi er raunar harla lítið að segja. Fyrri partinum vörðu flestir til þess að fara í borgina, athuga hana nánar og gera innkaup. Og vissulega fóru ýmsir upp eftir með marga og stóra böggla i þetta sinn, því að vöruframboð er hér furðu mikið og gott, og verðlag lágt, eins og fyrr greinir. Síðdegis, að loknum miðdegisverði, fóru sumir aftur í kaupstaðarferð í borgina, en aðrir undu heima á hóteli við samræður og gamanmál. Ég brá mér í alllanga gönguferð og naut hennar vel, eins og á útivistarferðum mínum heima, þó að snjókoma væri, víðast hvar ökkla-snjór og ekkert skyggni, vegna þoku og dimmviðris. Hafði því engin umtalsverð breyting orðið á veðurfarinu allan þennan dag. Um kvöldið voru allir heima á hót- eli, í hinum vistlegu herbergjum okk- ar og salarkynnum, og voru hinir kát- ustu, þrátt fyrir mikil vonbrigði með veðurfarið. Síðari hluti birtist i nœsta blaði. * * Athugasemd Með greininni um Verslun Augustu Svendsen í Heima er bezt 2/1984 birtust nokkrar myndir sem nauðsyn er að gera nánari grein fyrir. Á bls. 53. eru teikningar af refilsaumi og þess getið að þær séu úr „Saumakveri" Elsu E. Guðjónsson og teiknari sé G.S.E. Briem. Hins vegar láðist að geta þess að teikningarnar neðst í hægra horni blaðsíðunnar eru eftir sama teiknara og úr sama kveri. Hið sama gildir um reitamynd af Ijóni á bls. 46, og reitamyndina neðst á bls. 55, en þær teiknaði Elsa E. Guðjónsson. Eru hún og G.S.E. Briem beðin afsökunar á þessum glaþpaskotum, sem og því að ekki var fengið leyfi til birtingar þessara mynda sem nú var getið. Skylt er að taka fram að leyfi til þirtingar refilsaumsmyndanna á bls. 53 fékkst fúslega ásamt gagnlegum upplýsingum fyrir blaðið. Ó.H.T. Heima er bezl 223

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.